laugardagur, 17. nóvember 2007

Blekkingar við undirbúning kjarasamninga



Stjórnvöld og atvinnurekendur búa sig undir kjarasamninga og hafa í því tilefni boðað til ráðstefnu þar sem sjálfur "Houdini hagfræðinnar" Arthur Laffer mætir. Hann er heimsþekktur fyrir "Voodoo Economics", sem fjalla um hvernig við græðum öll á því að skattar á fyrirtæki og fjárfesta verði lækkaðir. Laffer heldur því fram að ef skattprósenta á tekjur einstaklinga væri 0% fengi ríkissjóður engar tekjur. Ef skattprósentan væri 100% af tekjum, þ.e. ef launþeginn fengi ekkert fyrir vinnu sína, hverfa tekjur ríkissjóðs.

Það veit enginn hvar við erum stödd á Laffer-kúrfunni. Hvað gerist þegar skattprósentan er hækkuð og fer yfir það gildi sem gefur ríkissjóði hæstar tekjur þannig að tekjur lækka við frekari hækkun prósentunnar? Viss störf munu leggjast af, sum flytjast til annarra landa og önnur hverfa undir yfirborðið og fólk fer að koma sér hjá því að greiða skatta. Ekki er hægt að meta hvar hámarkið er á kúrfunni og það er háð efnahagsástandi og skattlagningu í öðrum löndum.

Þessari stefnu var beitt í Bandaríkjunum eftir 1980 og leiddi til þess að allur afrakstur hagvaxtarins rann til tekjuhæsta hópsins og fjárfesta. Verkafólk sat uppi með kauplækkun og lengdi vinnutíma sinn í kjölfarið til að vinna gegn kjaraskerðingunni. Nýlega var sýnd kraftmikil kvikmynd um hvernig kerfið virkar í draumalandinu, varla vilja íslendingar komast þangað með sitt heilbrigðiskerfi.

En frjálshyggjan er klók og fljót að sjá út leiðir til þess að nappa góðum bitum og sérréttindum og leggur töluvert á sig að verja sína stöðu. Á undanförnum áratug höfum við íslendingar nálgast þá stöðu sem tókst að skapa í Bandaríkjunum með Houdini hagfræðinni. Fámennur hópur hefur undanfarin ár hrifsað til sín stærri hluta af þjóðarkökunni á meðan fátækum hér á landi fjölgar. Þetta er falið í meðaltölum stjórnvaldsins. Skattalækkanir hafa ekki náð til þeirra sem fátækastir eru en skilað sér ríkulega til þeirra sem mest hafa.

Engin ummæli: