þriðjudagur, 27. nóvember 2007

Framtíð orkuvæðingar


Vinnubúðir starfsmanna við Kárahnjúka

Í Eyjabakkafárinu stöðvaði almenningur stjórnvöld sakir þess að þau höfðu ekki sótt um lögformlegar heimildir. 80% þjóðarinnar sagðist ekki sætta sig við að stjórnvöld teldu sig hafin yfir gildandi lög, með því væri verið að gefa stjórnvöldum ískyggilegt fordæmi. Sagan endurtók sig í fjölmiðlamálinu. Stjórnvöld pössuðu sig betur við Kárahnjúka. Þó svo gagnrýna megi sumt í ferlinu. Álverið fyrir austan er staðreynd og því verður ekkert breytt og það hefur haft mikil áhrif á mannlíf fyrir austan.

En það er framhaldið. Við breytum ekki fortíðinni en það er nútíðin sem við getum stjórnað og með því haft áhrif á framtíðina. Hvort og hvar eigi að fara fram með nýjar virkjanir. Staðan er sú að áframhaldandi lífskjarabæting og fjölgun mannkyns kallar á hratt vaxandi orkunotkun og það mun leiða til þess að verð raforkunnar mun hækka verulega á tiltölulega fáum árum. Allt í einu standa álfyrirtækin hér í röðum.

Það eru ekki mörg ár síðan að við stóðum með sultardropann í nefinu og biðum eftir því að eitthvert þeirra vildi koma hingað, sum komu en fóru svo án þess að kveðja. Finnur iðnaðarráðherra sendi þá út um veröldina litprentaða bæklinga þar sem hann lofaði raðfullnægingu álfursta á lægstu launum og orkuverði 1/15 úr centi. Allt í einu er slegist um orkuna hér.

Á meðan samdi Finnur um sölu á Búnaðarbankanum og fræðingar og spekingar drógu augað í pung í spjallþáttum, alltof seinir í greiningu á því sem var að gerast. Á meðan skruppu ráðherrar til Japan og opnuðu nýtt sendiráð sem kostaði jafnmikið og þeim hafði tekist að spara með lokun deilda á Landspítalanum.

Sumir skyldu ekki að fólk gat verið á móti hinum öfgakenndu áætlunum stjórnvalda þrátt fyrir að vera starfsmenn núverandi álvera og orkuvera. Allir hafa heimild til þess að gera tilraun að greina á milli með skynsemi og rökum. Í hinu nýja álveri á Reyðarfirði fá fyrirvinnur um 800 fjölskyldna störf og þau verða um 1300 á næsta ári. Fyrir utan þá sem starfa hjá fyrirtækjum sem þjónusta álverin.

Málið snýst um hvað viljum við láta virkja frá deginum í dag. Viljum við virkja allt sem hönd á festir? Í hvað viljum við nota orkuna? Þó svo við byggjum ekki fleiri álver, verðum við að virkja áfram, eða á kannski að skipa þeim sem stofna fjölskyldur frá deginum í dag að þeir verði að lifa með öðrum hætti en við hin sem eldri erum?

Reyndar er þetta ekki áhyggjuefni dagsins, það er hvort verðbólgan rjúki upp í 15 - 18% og vextir fylgi á eftir og eftir 1 - 2 ár verði ástand hér eins og það var 1990 - 1995. Þá mun fólk hrópa biðjandi í átt til álrisanna. Það yrði sannarlega niðurlægjandi eftir það sem á undan er gengið og endurspeglar í margræðni sinni þann tvískinnung sem við stöndum frammi fyrir. Of stór skammtur af raunveruleikafirringu, efnishyggju og gróðafíkn.

Surprising twistið er forræðishyggja manna sem með hlerunum og eftirliti með pólitískum andstæðingum sínum reynt að stjórna umræðunni. Ef einhver er ekki sammála þeim hlaut að liggja að baki því annarlegar hvatir eða óheiðarleg hagsmunavarsla.

Í síðustu kosningum áttu aldraðir allt í einu einhver réttindi og Hólmsteinar þessa lands boðuðu á götuhornum ókeypis máltíðir í skólum og niðurgreidda barnapössun og skömmuðust út í að ekki var fyrir löngu búið byggja séríbúðir með fullri þjónustu fyrir hina 800 hundruð öldruðu Reykvíkinga sem eru búnir að vera á biðlista hjá fjármálaráðherrum allmörg síðustu kjörtímabil. Skyndilega kostar Lunshin ekkert.

Engin ummæli: