þriðjudagur, 27. nóvember 2007

Offita - útivera




Sífellt fleiri sækja þau fáu svæði þar sem hægt er ráfa um ósnortna náttúru í hvíld frá hraða og firringu borgarsamfélagsins, þar sem hver spilda hefur verið skipulögð, umsnúin og byggð mannvirkjum. Ferðafélagið á nú stórafmæli og full ástæða til þess að fagna því og nýta tækifærið og kynna vel þá samleið sem við eigum með landinu okkar.

Það skiptir miklu að venja börn við útiveru. Það eru of margir sem einhverra hluta geta ekki hugsað sér frí hér heima, eina leiðin sé að fara erlendis og liggja á sólarstörnd. Ekkert er jafn afstressandi og gönguferð eða útilega með börnum og góðum vinum. Ekkert hefur jafngóð áhrif á heilsuna og lengir getuna til þess að lifa lífinu lifandi. Börn sem alast upp við útivist halda því undantekningalítið áfram og kynna sínum börnum þau ævintýr sem þau kynntust í sínum uppvexti. Skiptir þá einu hvort rölt sé um skipulögð göngustígakerfi innan bæjarsamfélaganna eða gengið á fjöll. Það er engin ástæða til þess í dag að láta sér líða illa, því það er til svo mikið úrval af góðum útbúnaði fyrir hvers konar veður, nema kannski rok.

Um leið og komið er út fyrir bæjarmörkin er auðvelt að finna leiðir um götur sem markast hafa á þúsund ára veru forferðra okkar. Hvort sem við höldum okkur við grunnar víkur og götur milli þeirra um fjöruna, sjávarbakka eða upp í grasivaxnar hlíður yfir fjallaskörð, sem eru oftast um 200 - 400 metra há. Í umhverfinu má lesa við hvaða aðstæður fólk lifði, og þær hafa víða verið nánast óbreyttar frá því land byggðist. Það var svo í byrjun þessarar aldar að falla fór undan byggðinni í kjölfar breyttra þjóðfélagshátta, vélskipaútgerð og iðnvæðingar.

Hornstrandir, Fjörðu, Borgarfjörður Eystri, Lónsöræfin og Fjallabak hafa öðlast sérstakan sess í hugum útvistarfólks. Friðlýsing svæði leiða til þeirrar eftirsóttu sérstöðu að fólki stendur einungis til boða gönguferðir, sem oft hefjast eða lýkur með stuttri siglingu. Margir firðir eru tiltölulega lygnir og hafa náð nokkrum vinsældum meðal kajakmanna. Svæðið er því að vissu marki sjálfstæð veröld með skýrum skilum frá okkar daglegu veröld. Ferð um þessi svæði er auk þess hvíld frá hraða borgarlífsins áskorun, prófsteinn sem hver setur sjálfum þér.

Engin ummæli: