föstudagur, 30. nóvember 2007

Aftur til kreppuáranna


Stundum er maður fullkomlega orðlaus fyrir framan sjónvarpið. Er maðurinn svona illa aðsér eða er þetta aðferð til þess að ná til tryggra fylgismanna í prófkjörum? Yfirlýsingar Péturs Blöndal í Kastljósinu í gær eru í samræmi við yfirlýsingar tiltekins hóps innan Sjálfstæðisflokksins. Ég á erfitt með að trúa því að Pétur sé svona illa að sér í hagstjórn, hann er greinilega að höfða til frjálshyggjuarmsins sem hefur stutt hann án tillits til afleiðinganna, óábyrgur stjórnmálamaður.

Pétur sagði að verkalýðshreyfingin hafi samið um alltof lág laun og eigi gera mikið hærri kröfur. En hún á ekki að skipta sér af því þegar Sjálfstæðisflokkurinn lækkar skatta á hæstu launum og minnkar bætur til þeirra sem minnst mega sín. Við þingmenn, segir Pétur, erum kjörnir til þess að stjórna og kjósendur (launamenn) eiga ekki að vera að trufla okkur á kjörtímabilinu.

Alla síðustu öld til ársins 1990 lamdi verkalýðshreyfingin í gegn launahækkanir sem skiptu nokkrum tugum prósenta í hvert sinn og oft með verkföllum. Þá voru alvörumenn við stjórn verkalýðshreyfingarinnar, má skilja á Pétri. Foringjar sem stóðu á bryggjusporðum og migu standandi í sjóinn. Hver var árangurinn? Menn náðu ekki heim til sín eftir undirritun kjarasamninga í Karphúsinu, þó þeir væru á kraftmiklum bílum, áður en búið var að fella gengið um sömu tölu og kauphækkunin var.

Samið var um 3000 prósenta launahækkun á þessum tíma, verðbólgan var ætíð í grend við umsamdar launahækkanir og kaupmáttaraukning varð sáralítill. Atvinnulífið var komið að fótum fram árið 1989 og við blasti algjört hrun. Þá tóku aðilar vinnumarkaðsins efnahagstjórnina í sínar hendur og þvinguðu stjórnmálamenn til þess að taka þátt í Þjóðarsátt og hafa þeir reglulega síðan þá orðið að grípa fram fyrir hendurnar á stjórnmálamönnum til þess að koma þeim inn á rétt spor í efnahagstjórninni.

Síðan 1990 er búið að auka kaupmátt meir en alla síðustu öld. Menn höfnuðu algjörlega þeirri leið sem Pétur boðar. Það þarf ekki mikla þekkingu í hagfræði og efnahagsstjórn til þess að sjá að gífurleg hækkun lægstu launa skilar sér í hækkun verðlags á vörum. Atvinnulífið hefur valið þá leið að semja um launahækkanir af þeirri stærðargráðu að fyrirtækin geti staðið undir þeim með aukinni framleiðni og það fari ekki út verðlagið. Það skilar sér í auknum kaupmætti. Það er hægt að ná meiri árangri fyrir þá lægst launuðu með því að semja á þeim nótum sem nú er rætt um. Nýta þá svigrúm sem er til launakostnaðaraukningar til að hækka lægstu launin, og setja launatryggingu. Þeir sem hafa fengið meira en tryggingarmarkið er í launaskriði hafi náð sínu.

Það þarf heldur ekki mikla stærðfræðiþekkingu til þess að sjá að lækkun skatta á tekjum undir 200 þús. niður í 15% skapar mögleika til þess að auka kaupmátt launalægsta fólkisins enn meir. Ríkisstjórnin hefur boðað flatar skattalækkanir, sem skila sér augljóslega mest til þeirra sem hafa hæstu launin. Hagfræðingar hafa gagnrýnt það og bent á að það auki þennslu ennfrekar.

Pétur heldur því fram að niðurstaðan verði sú sama hvort skattar eru lækkaðir á lægstu laun eða hækka þau. Hvað þyrfti að hækka lægstu laun mikið umfram þær 20 þús. kr. á mán. sem um er rætt, til þess að ná sömu niðurstöðu og lækkun skatta undir 200 þús. í 15%? Það þyrfti að liðlega tvölfalda þá hækkun. Hvaða afleiðingar myndi það hafa í hækkun verðlags? Ofboðslega erum við heppin að Pétur skuli ekki starfa innan verkalýðshreyfingarinnar, við erum að ná auknum kaupmætti. Ef hann stjórnaði væri verðbólga 40% - 60% og minnkandi kaupmáttur hinna lægst launuðu.Pétur passar sína, þeir eru ekki meðal hinna lægst launuðu.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sammála þér, Guðmundur (eins og alltaf!) Það eru ansi margir íslendingar á vinnumarkaði, sem eru með 140 - 170 þús. á mánuði. Hvað myndi t.d. 5% lækkun á heildar skattprósentu þýða fyrir það fólk pr. mánuð? Og til samanburðar, hvað myndi þessi sama lækkun þýða fyrir Pétur Blöndal, sem er með líklega nær milljón á mánuði bara fyrir þingfararkaup og nefndarstörf - fyrir nú utan allt annað! Nú og ef Útópía hálaunafólksins næði fram að ganga, að 15% skattur yrði lagður á allt, án alls frádráttar og persónuafsláttar?

Nafnlaus sagði...

Myndi þetta ekki koma í sama stað niður ef skattleysismörkin yrði hækkuð í 150.000 krónur?

Myndu þá ekki verða eftir svona 180.000 krónur í launaumslagi þeirra sem eru með 200.000 á mánuði, ef síðustu 50.000 yrðu bar a skattlögð?

Ég veit að hækkun skattleysismarka myndi líka koma sér vel fyrir þá sem eru með milljón á mánuði en einhvernveginn finnst mér eins og það væri einfaldara að hækka skattleysismörkin en hafa tvö skattþrep á almenn laun.

Hvað sem verða kann, þá styð ég verkalýðshreyfinguna og sakna þess að engan raunverulegan fulltrúa hennar sé að finna á þingi.

Nafnlaus sagði...

Sælir
Mig langar að leggja orð í belg í þessari umræðu.
Í fyrsta lagi er það rétt sem Pétur Blöndal sagði, það skiptir ekki máli hvort launþegi fær 10.000kr kjarbót í formi launahækkunar eða skattalækkunar. Hann er sem áður með 10þ kall sem hann notar í neyslu. Hvort tveggja getur haft þau áhrif að verðbólga hækkar.
Það að ætla að koma upp tvöföldu skattkerfi er mjög vafasöm hugmynd t.d með því að hafa lægri skattprósentu á laun undir 200þ. Af hverju á að refsa fólki sem þarf að vinna mikið. Á maður sem vinnur sér inn 250þ. kall að fá jafn mikið útborgað og sá sem þénar 200. Þetta gengur ekki upp,það segir sig sjálft.

Nafnlaus sagði...

Hvað með fjármagnstekjuskattinn? Var ekki verið að flæja málin með honum?

Nafnlaus sagði...

Spurt er; AF hverju hefur það minni áhrif á verðbólgu ef laun þeirra hálaunuðu hækka um 5% heldur en ef hækkun verður á tekjum láglaunafólks?

Nafnlaus sagði...

Það liggur í eðli hugtaksins prósentu að þeir sem tekjhærri eru borga meira.
Ef t.d. Jói á horninu er með milljón kall á mánuði og ég með hundraðþúsundkall, og við báðir myndum borga t.d. 50% skatt, þá borgar Jói hálfa milljón á meðan ég borga fimmtíuþúsundkall !!
Við þurfum að passa okkur að falla ekki í sömu vitleysu og t.d. Danir, þar sem skattakerfið er beinlínis letjandi, og flestir sem eru aðlaðandi fyrir skattakerfið flýja land. Það er t.d. ástæðan fyrir að margir Danir vinna í Noregi, Þýskalandi og Bretlandi.

Svo má líka benda á að þegar skattkerfið er of flókið, þá er meira um svindl á því, t.d. svört vinna, o.s.frv.

Hækkun skattleysismarka held ég að sé eina leiðin fram, eða breyting á þeirri kyrkingaról sem húsnæðislánakerfið er, sem og hin ótrúlega opinbera nauðgun sem verðlag er á íslandi. Það er það sem verkalýðsfélögin og hið opinbera eiga að fókusera á! Það rétta er nefnilega tekið fram í greininni, að það skiptir engu hvað við fáum mikla hækkun, lifikostnaður á Íslandi mun hækka um leið og Baugur fær sér eina enn snekkju eða einkaþotu fyrir ágóðann af verslunum sínum.

Aukning flækju í skattkerfinu mun bara koma okkur í meiri ógöngur en við erum komin í !
15% hugmyndin mun ekkert leysa.