sunnudagur, 25. nóvember 2007

Blessaður stöðugleikinn


Nú nálgast óðum sá tími og gera þurfi kjarasamninga. Þá rifja menn gjarnan upp nokkur atriði sem rætt í tengslum við laun og kjör. T.d minnumst við þess þegar ríkistjórnin endurskipaði liðið í stjórn Seðlabankans. Halldór Blöndal var settur þar inn eftir að hann hætti á þingi. Ég minnist þess ekki að Halldór hafi tekið þátt í umræðu um efnahagsmál, en hann er aftur á móti þokkalegur hagyrðingur og flutti oft þungar ræður á þingi með stuttum kviðlingum til stuðnings valdhöfunum. Seðlabankaráð hækkaði í þessu sambandi laun seðlabankastjóra um 200 þús. kr. á mán. eða upp í 1.8 millj kr. á mán.

En er einn þeirra ekki líka á fullum eftirlaunum á grundvelli þeirra laga sem hann setti sjálfur skömmu áður hann hætti sem forsætisráðherra? Þeir hagfræðingar sem ég þekki eru sammála um að stjórn Seðlabankans hafi í sjálfu sér ekki mikið með efnahagsstjórnina að gera. Flest önnur lönd sem við viljum miða okkur við eru fyrir margt löngu búnar að afleggja flokkspólitíska stjórn Seðlabankanna. Þar er einn seðlabankastjóri og þeir eru með um milljón á mán. í laun.

Almennum launamönnum var í kjölfar þessarar 200 þús. kr. hækkunar mán. launa seðlabankastjóranna send þau skilaboð frá stjórnvöldum að stemma þyrfti stigu við launahækkunum almennings í komandi kjarasamningum svo blessaður stöðugleikinn færi ekki fjandans til og rekstrargrundvallarræfillinn með. Guttarnir í Seðlabankastjórninni fá tvöföld lágmarkslaun almennings á mán. fyrir að sitja 2 fundi á mán. Almúginn þarf reyndar að skila 174 vinnutímum til þess að ná upp fyrir 100 þús. kallinn og fær aukinn heldur ekki ókeypis GSM síma og fría áskrift að Mogganum. En þessu má alls ekki breyta því þá missa þeir félagar tök á efnahagsmálunum.

Seðlabankinn er orðið eitt af síðustu vígjum pólitíkusanna, reyndar má minna á að Davíð skipaði 9 af sínum bestu vinum sem sendiherra áður en hann hætti, Þeir hafa allir um 9 föld lágmarkslaun almúgans og öðlast sérstök réttindi samkvæmt sértækum eftirlætiseftirlaunalögum Davíðs.

Það eru launamenn sem sitja eftir í íslenska skattkerfinu á meðan peningamenn flytja sína peninga til annarra landa og greiða einungis fjármagnstekjuskatt af þeim litla hluta sem er á ferðinni hér. Þeir eru ekki þátttakendur í rekstri þjóðfélagsins, einungis neytendur. Almúginn greiðir þar af leiðandi fyrir þá skólaþjónustu, heilbrigðiskerfi og vegakerfi. Þeir þurfa heldur ekki að standa undir rekstri hinna mýmörgu sendiherra og stjórn Seðlabankans. Það gerir almúginn, en sá hópur er nú aldeilis upptekinn því hann verður líka að bera ábyrgð á stöðugleikanum og má ekki hafa há laun og helst ekki eftirlaun.

En þeir sem hreyfa einhverjum mótmælum við þessu ástandi eru taldir æsingamenn og koma úr vinstra liðinu, Thalibanar. Þetta eru fullgild rök í hugum þeirra sem hafa völdin og þessar fullyrðingar þarfnast engra skýringa. Fulltrúar þessara manna skrifa einnig söguna eins og þeir vilja hafa hana, t.d. var birt grein eftir einn af stjórnarmönnum Seðlabankans, þar sem hann segir að Þjóðarsáttin hafi engin áhrif haft, hún hafi bara verið verðstöðvun í nokkra mánuði og hugarórar einhverra verkalýðsforkólfa.

Það hafi tekið Davíð og hans lið og þeir bjargað málunum í harðri baráttu við aðila vinnumarkaðsins. Þessi hin sami skrifaði hverja greinina á fætur annarri í vor þar sem hann sýndi okkur snilli sína í efnahagsstjórn með því að snúa á haus öllum rannsóknum sem sýndu að aðgerðir stjórnvalda hefðu leitt til aukins ójafnræðis hér á landi. Hann hafnaði alfarið öllum rökum sem sett höfðu verið fram m.a. að persónuafsláttur hefði ekki hækkað í samræmi við verðbólgu, vaxtabætur minnkað, barnabætur lækkað, skerðingarmörk öryrkja og aldraðra aukist.

Umræddur Seðlabankastjórnarmaður er þekktur fyrir að skrifa og semja sagnfræðina, og Sjónvarp allra landsmanna keypti myndaseríurnar sem hann samdi um sögu síðustu aldar og sýndi á besta útsendingartíma. Sama gilti um alla grunnskóla landsins menntamálaráðuneytið sendi þeim alla seríuna. Í þessum söguskýringum eru það útvaldir hægri stjórnmálamenn sem gerðu allt sem gott var á síðustu öld.

Í vegi þeirra stóðu æsingamenn úr röðum verkalýðshreyfingar og aukins kvennfrelsis. Það voru útvaldir hægri menn sem komu á reglulegum vinnutíma, lífeyrissjóðum, sjúkrasjóðum og bættum aðbúnaði verkafólks. Við búum í dag við það ástand að sagnfræðingum stendur ekki til boða fjármagn og vinnufrelsi nema frá sjóðum sem er stýrt af stjórnmálamönnum sem eru hlyntir ráðandi stjórnvöldum. Þetta leiðir sagnfræðingana bjarglausa að fótskör þeirra sem telja sig vera mikilmenni þessa lands. Gagnrýnishlutverk fræða og vísinda er múlbundið hagsmunabandalagi valdhafanna. Aðrir eru úr vinstra liðinu og eru æsingafólk.

En jólafastan rennur einnig í garð með hefðbundum skilaboðum til almúgans um hvað hann megi gera og hvaða skoðanir séu réttar. Sumir vilja banna MC Donalds á svona dögum og selja einungis hangikjöt og kjamma. Allir eiga að sitja og hlusta á boðskapinn og ungir karlar taka eina bröðgótta, meðan karlakórar syngja sléttubönd og konur prjóna axlabönd. En unga fólkinu finnst þetta svo leiðinlegt að það leitar sér skemmtunar við að setja allt á annan endan, hella úr ruslafötum, grýta bjórflöskum um allt, ráðast að fólk og sparka það niður. Ungir menn aka um á tæpum 200 km. hraða og við hin búum við öryggi sem samsvarar því að ökuníðingar gangi um með hlaðnar byssu og hleypi af öðru hvoru blindandi út í loftið. Svo kemur að því að einhver verður svo ósvífinn að ganga í veg fyrir kúluna, það er honum að kenna.

En hvernig eigum við að komast í gegnum kjarasamningana án þess að hækka laun láglaunastéttanna verulega og þá um leið að jafna launamun kvenna? En þá koma í hug manns orð sem höfð um baráttuna gegn þeim óþarfa að gefa konum aukið frelsi. „Góðir íslendingar ég higg að það sé þarft verk að halda konum frá því að taka þátt í pólitísku skítkasti. Þeirra hlutverk er að vera móðir og á að halda sér við heimilistörfin.“

Engin ummæli: