laugardagur, 24. nóvember 2007

Hæstiréttur í lið með starfsmannaleigunum


Á fimmtudaginn féll dómur í máli lífeyrissjóðssins Gildis gegn Íslenskri erfðagreiningu. Þar er ekki fallist á kröfu lífeyrissjóðsins að fyrirtækið greiði þá hækkun sem samið var um í síðustu kjarasamningum um að mótframlag vinnuveitanda hækkaði úr 6% í 8%.

Hæstaréttardómarar féllst á sjónarmið fyrirtækisins að það greiði hærri laun en þau lágmarkslaun sem kveðið er um í kjarasamning. Það sé yfirborgun og með því sé fyrirtækið í búið að greiða þetta til starfsmannsins. Þetta tekur reyndar til stutts tíma því þetta ákvæði var síðar sett í lög og frá þeim tíma verður fyrirtækið að greiða 8% mótframlag.
En það er ekki þetta sem ég ætla að fjalla um heldur þann þekkingarskort sem markar niðurstöðu hæstaréttardómaranna.

Það eru til tvenns konar kjarasamningar hér á landi, svokallaðir launakerfissamningar og markaðslaunasamningar. Í launakerfissamningum er röð ákveðinna launaflokka þar sem starfsheitum er raðið inn og síðan eru þrep með föstum starfsaldurshækkunum. Þetta er síðan túlkað á þann veg af stofnunum og fyrirtækjum, sem nota svona launakerfi, að það sé búið að ákveða fyrir fullt og fast að hvað viðkomandi starfsmaður eigi að hafa í laun.
Stofnanir segja síðan gjarnan; „Við vildum svo gjarnan greiða hærri laun, en því miður bannar verkalýðsfélagið okkur það!!“, eins og t.d. útvarpsstjóri sagði nýverið þegar hann hækkaði eigin laun réttilega til samræmis við það sem gengur og gerist á almennum vinnumarkaði, en neitaði síðan að lagfæra laun almennra starfsmanna þar sem hann væri bundin kjarasamning. Vitanlega er það nú svo að í öllum kjarasamningum er samið um lágmörk og ekkert sem bannar fyrirtækjum eða stofnunum að greiða hærri laun.

Á almennum markaði gilda aftur á móti markaðslaunasamningar, þar er einungis samið um lægstu gólf, sem gilda fyrir reynslulausa unglingar sem eru að koma út á vinnumarkað, en fyrirtækin semja síðan við starfsmenn sína um raunlaun í samræmi við hæfni og getu viðkomandi. Þetta hefur verið lofað af mörgum og kallað m.a. grunnur sveigjanleika á vinnumarkaði.
En það er hér sem hæstaréttardómarar falla á prófinu, þeir kalla allt sem er umfram lágmarkið yfirborgun í stað þess að líta til starfssviðs og menntunar viðkomandi og svo til gildandi raunlauna þess starfs, eins t.d. útvarpsstjóri gerði með réttu þegar hann fann út hver eigin laun ættu að vera, í samræmi við það sem gengur og gerist á vinnumarkaði.

Þetta er reyndar vandamál víðar, fyrirtæki sem flytja inn starfsmenn setja þá ætíð á lágmarkstaxta opinna markaðslaunasamninga, sem er hvað íslendinga varðar er byrjunataxti reynslulausra unglinga. Hæstiréttur ásamt starfsmannaleigunum er í raun að krefjast þess opnum markaðslaunasamningum verði hent og í stað þess tekin upp niðurnegldir launakerfis samningar.

Engin ummæli: