Í Morgunblaðinu í dag (18.11.) er athyglisverð grein um hvernig heilbrigðiskostnaði er miskipt milli þjóðfélagshópa. Rúnar Vilhjálmsson prófessor í heilsufélagsfræði hefur staðið að tveimur heilbrigðisrannsóknum. Í þeim kemur fram veruleg útgjaldaaukning einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustunnar. Þessi útgjöld námu 1% af vergri landsframleiðslu árið 1987 en höfðu aukist verulega og voru 1.7% árið 2004.
Þó við séum með félagslegt heilbrigðiskerfi til að jafna út kostnaðinn hefur ekki tekist að jafna kostnaðarbyrðar milli þjóðfélagshópa. Það hallar á hópa sem síst skyldi eins og öryrkja og aldraða og þá sem lægstar tekjur hafa. Hér er um að ræða þá sem ekki hafa vinnu og lágtekjufólk sem hefur misst maka.
Til þess að styrkja félagslega heilbrigðiskerfið þarf að efla almannatryggingarkerfið með það fyrir augum að lækka lyfjakostnað og komugjöld sjúklinga. Einnig þarf að styrkja heimilislæknakerfið og heilsugæslustöðvarnar. Efla nýtingu afsláttarkorta og lyfjaskýrteina og auka nálægð þjónustunnar.
Við undirbúning kjarasamninga undanfarið hefur borið á þeirri umræðu að stjórnvöld hafi ekki staðið að uppbyggingu hjúkrunarheimila í samræmi við fjölgun aldraðra, deildum hafi verið lokað á spítölum vegna hagræðingar og þannig mætti lengi telja. Umönnun sjúkra og aldraðra minnkar ekki þó stjórnvöld standi fyrir umfangsmikilli hagræðingu til þess að spara útgjöld ríkisins. Þau hafa í reynd staðið fyrir stórfelldum flutning á þessum kostnaði yfir á heimilin. Fólk þarf að taka sér frí frá vinnu eða jafnvel hætta þátttöku í atvinnulífinu til þess að hlúa að sjúkum og/eða öldruðum ættingjum.
Heimilin eiga rétt á hlut af þessari hagræðingu, það væri ekki réttlátt að hún renni óskipt í ríkissjóð. Heimilin eigi rétt á að sækja launatap vegna umönnunar í ríkissjóð og auka þurfi verulega heimilisþjónustu.Við erum með félagslegt heilbrigðiskerfi en þessi þróun samræmist ekki réttlætiskennd okkar og stangast reyndar einnig á við lög um heilbrigðisþjónustu, sem segja að óheimilt sé að mismuna sjúklingum. Í þessu sambandi má benda á þau markmið sem stjórnmálamenn hafa sett í heilbrigðisáætlun til 2010 að aðgengi að heilbrigðisþjónustunni sé auðvelt og sem jafnast fyrir alla landsmenn
Engin ummæli:
Skrifa ummæli