fimmtudagur, 29. nóvember 2007

Lífeyrissjóðir eru sparifé sjóðsfélaga


Umræðan um lífeyrissjóðina hefur oft verið einkennileg, einkennist af þekkingarskorti og skilningsleysi. Um sé að ræða fjármagn sem sé til ráðstöfunar af hálfu stjórnarmanna og starfsmanna sjóðanna. Í því sambandi má benda á tillögur um taka úr lífeyrissjóðunum fjármuni til þess að byggja upp og reka hjúkrunarheimili aldraðra.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram af hálfu stjórnarmanns lífeyrssjóðsins Gildis að 100 millj. kr. nægi ekki til þess að brúa kostnað lífeyrissjóðanna við að færa frá ellilífeyrisþegum yfir til öryrkja, það séu 500 millj. kr. eins og kemur fram í færslu minni “Félagsmálaráðherra leiðréttir kúrsinn“. Formaður Öryrkjabandalagsins segir að það taki lífeyrissjóðina ekki nema 2 -3 daga að vinna upp mismuninn!! Formaðurinn virðist ekki skilja hvað lífeyrissjóður er og um hvað málið snúist. Örorkubyrði sjóðanna hefur vaxið óskaplega á undanförnum árum og hefur orðið til þess að það er búið að skerða ellilífeyris nokkurra sjóða um 20% og stefnir í að það verði að skerða ellilífeyrinn enn frekar vegna þessa.

Lífeyrissjóður er uppsöfnun sparifjár þeirra sjóðsfélaga sem greitt hafa í viðkomandi sjóð og er eign sjóðsfélaga við komandi sjóðs. Lífeyrissjóður á í sjálfu sér engar eignir utan skrifstofuáhalda og þess húsnæðis sem starfsemi hans fer fram í. Lífeyrissjóðir starfa undir mjög ströngum lögum og eftirliti opinberra stofnana. Landslög veita lífeyrissjóðum einungis heimild til þess að ráðstafa eignum sjóðsfélaga í formi þess að greiða þeim þá innistæðu sem þeir eiga, þegar þeir fara á ellilífeyri eða verða fyrir því óláni að fara á örorku. Hlutverk starfsfólks lífeyrissjóðs er að taka á móti innlögnum sjóðsfélaga í sjóðinn og ávaxta þær með besta hætti sem til boða stendur hverju sinni.

Allir eru sammála um að bæta verði hörmulegan aðbúnað aldraðra hér á landi og stöðu öryrkja. Ástand þessarar málaflokka er svartasti blettur á stjórnmálamönnum þá sérstaklega Sjálfstæðisflokknum sem hefur farið með stjórn ríkisfjármála í allmörg undanfarin ár. Stéttarfélögin hafa bent á að fjármagna mætti öfluga uppbyggingu á þessum vettvangi með hagkvæmum langtímalánu hjá lífeyrissjóðum. En það vantar ákvarðanir frá stjórnmálamönnum hvernig þeir ætli að reka megi þessi heimili. Það hefur ítrekað komið fram ma hjá forsvarsmönnum Hrafnistu og Eir, að þeir séu búnir að vera með á borðum ráðuneyta tillögur um mun meiri uppbyggingu og hefðu til þess fjármagn. Vandamálið sé að fá heimild til að taka upp það rekstrarform sem best hefur gefist á norðurlöndum.

Oft kemur fram í umræðu um lífeyrissjóði að einstaklingar fái svo lítinn lífeyri úr lífeyrissjóðum. Það sem sjóðsfélagi fær greitt úr lífeyrissjóð er í beinu sambandi við það sem hann borgaði þar inn á starfsævi sinni. Ef hann á að fá meira, þá er verið að greiða til hans sparifé annarra sjóðsfélaga. Ef það á að ráðstafa eignum sjóðsfélaga lífeyrissjóða í að reka hjúkrunarheimili, þá er það augljóslega ekki hægt nema að skerða eignir sjóðsfélaga viðkomandi lífeyrissjóðs. Ætti því ekki að vera augljóst hvað gerist ef hluti inneigna væri settur í rekstur hjúkrunarheimila.

Í lífeyriskerfinu eru að safnast upp fjármunir sem væntanlegir lífeyrisþegar munu taka út þegar þeir ná lífeyrisaldri. Samsetning þjóðfélagsins er sú að nú eru að alast upp aldursprengjuárgangarnir sem munu komast á lífeyrisaldur upp úr árinu 2015, auk þess er lífeyrisaldurinn er sífellt að lengjast. Á árunum 2015 – 2025 mun fjöldi lífeyrisþega margfaldast og útgjöld lífeyrissjóðanna aukast umtalsvert. Útgjöld þeirra verða þá hærri en innkoma.

Tillögur um að ráðstafa eigi fjármunum í rekstur hjúkrunarheimila eða til þess að standa undir vaxandi örorkubyrði jafnast á við að það setja fram tillögu um að þar sem það sé svo mikið sparifé í Landsbankanum, megi taka eitthvað af því til þess að létta byrði almenna tryggingarkerfisins, leggja Sundabraut eða byggja elliheimili. Þessi verkefni verða stjórnmálamenn að leysa en það gera þeir ekki með því að taka sparifé sjóðsfélaga almennu lífeyrissjóðanna.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Tek undir hvert orð þitt í þessum pistli, Guðmundur. Eins og þú hefur raunar fyrr gert í þessu samhengi er þetta kjarni málsins sem þú kemur með þarna.

Unknown sagði...

Það er gott að einhver sér hlutina eins og þeir eru!