þriðjudagur, 3. febrúar 2009

Kastljósið í kvöld

Þeir sem fylgjast með umræðunni muna örugglega lofræður frjálshyggjumanna í síðustu kosningabaráttu um íslenska efnahagsundrið, sem þeir eignuðu sér. Þeir hrósuðu sér að hafa skapað eitthvað sérstakt. Rituðu raðgreinar um það í blöðum og snéru útúr athugasemdum hagfræðinga atvinnulífsins og prófessora Háskólans. Nú sverja þeir þetta allt af sér.

Þeir framkvæmdu skattalækkanir hjá hinum eignameiri í skjóli gríðarlegs innflutnings á fjármagni vegna framkvæmda og sölu á eigum ríkisins og Jöklabréfum. Margir urðu til þess að benda á að þegar um hægðist kæmi í ljós að tekjur ríkissins myndu ekki duga fyrir rekstri hins íslenska þjóðfélags með þeim hætti sem við vildum hafa það. Þetta gæti ekki annað en leitt til óvinsælla skattahækkana þegar góðærið væri liðið. Efnahagspekingar frjálshyggjunnar væru komnir með íslenska efnahagskerfið á nákvæmlega sama stað og repúblikanar hafa skapað í BNA.

Við vorum nokkrir pistlahöfundar sem héldum því fram að þegar íslenska frjálshyggjan (repúblikanarnir) myndu hrökklast yrði íslenska samfélagið komið alllangt frá hinu norræna samfélagi. Við tækju vinstri menn (demókratarnir) og myndu hefja uppbyggingu. Á meðan myndu hægri menn agnúast út í skatta og eyðslu hins opinbera og draga til sín kjósendur.

Á grunni þess kæmust repúblikanarnir svo aftur til valda og tækju við góðu búi. Seldu allt sem hönd á festi og lækkuðu skatta. Það bitnaði á þeim sem minna mættu sín, en styrkti ennfrekar eignastöðu þeirra sem best hafa það. Þetta er svo vel þekkt vinnuaðferð repúblikana í BNA.

Hinir íslensku repúblikanar eru að taka upp nákvæmlega sömu vinnuaðferðir. Þetta sjáum við svo vel í ummælum þeirra í fréttum undanfarna daga og í Kastljósinu í kvöld.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Maður er orðin hundleiður á þessu nöldri handónýtra stjórnmálamanna !
Hvers vegna gera fjölmiðlar okkur ekki greiða og koma með eitthvað uppbyggilegra en þessa ónytu pólitíkusa, sem eru komnir allir á síðasta söludag ?

Guðmundur.

Það var góð ráðstefna á laugardaginn sem hét : ,,Björt framtíð í málm- og véltækniiðnaði ef..."
Þar var verið að segja frá fyrirtækjum og störfum sem gætu hjálpað til við að byggja upp framtíð hér á landi.
Það mætti engin ,,kjördæmapotari" eða alþingismaður á þessa ráðstefnu !
Það hafði engin alþingismaður áhuga á að vita neitt hvað fyrirtækin og fólkið í landinu geta gert til að vinna okkur út því ástandi sem við erum í núna !
Það kom heldur engin fjölmiðill til að geta sagt okkur frá hvað hægt væri að gera !

Nafnlaus sagði...

Nú er hafin kosningabarátta. Þá byrjar leikurinn: fjölmiðlafólk fær símhringingar frá tengiliðum sínum í stjórnmálalífinu. Nú er kominn tíminn þar sem að borga á fyrir greiðann. Fjölmiðlafólk er með símatengsl inní kerfið og nú þarf kerfið að koma sér á framfæri. Seimó, seimó.

Nafnlaus sagði...

"Enginn þingmaður mætti," segir síðasti ræðum.
Örugglega vegna þess að enginn þeirra ætlar í framboð framar - enda væri það óforskammað.

Nafnlaus sagði...

Núna eru Sjálfstæðismenn að leggja fram frumvarp um skuldaaðlögun, og hreykja sér af því að vera að hjálpa almenningi í landinu. Svona lög eru búin að vera til í 100 ár í bandaríkjunum, Chapter 13, eru þau kölluð.

Sjálfstæðismenn eru búnir að hafa 17 ár til að leggja þetta fram, en þar sem þessi lög gera ráð fyrir að samið sé um borgun hluta skuldanna og lánadrottinn tapar, hefur þeim ekki dottið í hug að hleypa þessu að, fyrr en nú.

http://en.wikipedia.org/wiki/Chapter_13,_Title_11,_United_States_Code

Nafnlaus sagði...

Og auðvitað greiða alþjóðlegir skemmtikraftar eins og Björk, frænka mín, fulla skatta á Íslandi?
HHG

Guðmundur sagði...

Sæll Hannes
Það eru nú allmargir íslendingar og vestur íslendingar sem getað kallað okkur Björk frænda og frænku út frá sama grundvelli og þú gerir. Líklega um helmingur þjóðarinnar.

Ef við förum einn lið aftar þá getum við rakið ættir okkar til allra íslendinga. Svona er nú fámennið, en það hafið þið vafalaust skoðað í Háskólanum.

Hvað varðar skattgreiðslur Bjarkar þá er þetta innlegg þitt aldeilis dæmigert fyrir málflutning Sjálfstæðisflokksins. En þú veist vafalaust hvar þér er gert að greiða skatta af þínum alþjóðlegu tekjum af fyrirlestrum og greinarskrifum.

En ég get hughreyst Sjálfstæðisflokkinn við í minni fjölskyldu höfum greitt okkat skatta og skyldur eins og okkur ber og ekkert okkar er á launum hjá hinu opinbera en í vinnu annarsstaðar.

Nafnlaus sagði...

Hannes: Hversu lágt getur þú, starfandi á okkar framfæri, lagst?
Þú ert í þeirri stöðu að ef það væri ærleg taug í þér þá myndir þú hafa vit á að draga þig í langt-langt hlé.
Þú ert rúinn allri virðingu, hjá sjálfstæðismönnum sem öðrum. Svona skot á ærlegt fólk dæma sig sjálf. Þú getur engan meitt, það tekur enginn mark á þér lengur. Far vel í nýrri vinnu HHG. Guðmundur getur sagt þér hvar menn kaupa vinnuvettlinga og stígvél og þess háttar sem þú þarf í nýju starfi.

Nafnlaus sagði...

Góður pistill Guðmundur.

Á meðan þessir íslensku repúblikanar vilja skera sem mest niður í ríkisrekstri þá eru þeir sjálfir á ríkisspenanum og margir hverjir búnir að gefa skít í það traust sem þeim hefur verið sýnt í gegnum tíðina.

Maðurinn sem vildi "gefa bara í" þegar menn sáu að útrásarævintýrið var að hrynja er í bankaráði seðlabankans (á vonandi stutt eftir þó). Sami maður er prófessor við HÍ þrátt fyrir að hafa verið staðinn að ritstuldi og að mínu viti er það dæmalaus óvirðing við þá stofnun og myndi örugglega ekki viðgangast að slíkur maður héldi starfinu í öðru landi en hér. Það er þjófur á Alþingi sem eru búinn að væla sig alhvítan í skjóli flokksins. Svona mætti áfram tína dæmin til.

Og svo koma þessir kumpánar í sjónvarpið, gera sig breiða eftir að hafa valdið algjöru hruni efnahagslífsins með eftirlitsleysi (viðskiptafrelsi kalla þeir það), einkavinavild og hugmyndafræði sem er fallin um sjálfa sig, og fara að tala um "fólkið í landinu".

Hvaða "fólk í landinu" var Sigurður Kári að tala um?

Nafnlaus sagði...

Björk "meikaði" það á eigin spýtur.
Sem er meir en hægt er að segja um börn stjórnmálamanna í þessu landi.
Fyrst við erum sokkin svo lágt að ráðast á börn manna...