föstudagur, 6. febrúar 2009

Stjórnlagaþing

Í þeirri orðræðu sem hefur staðið yfir undanfarna daga þar sem embættismenn og ráðherrar kallast á við almenning og kalla það valdagræðgi annarra að þeir séu að hrökklast frá völdum, þá rifjast upp allur flumbrugangur ráðamanna og álitsgjafa þeirra í fjölmiðlamálinu, þar sem þeir settu forseti Íslands í þá stöðu að hann gat ekki annað gert, en að nýta sér það vald sem hann hefur skv. 26. grein stjórnarskrárinnar og skjóta málinu til þjóðarinnar. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við synjun forsetans var ámælisverð. Örvæntingarfull leit hennar í ofsóknarkennd og ótta, til að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, varð til þess að valin var sú undarlega útfærsla að draga frumvarpið tilbaka og leggja fram annað sem var nánast eins.

Þessi leið var augljóslega fyrirfram dauðadæmd. Ríkisstjórnin varð loks að viðurkenna hversu afkáralega hún hafði haldið á málinu og draga frumvarpið tilbaka. Með því vék hún sér undan því að þjóðaratkvæðagreiðslan færi fram. Þeirri athöfn var ákaft mótmælt af mörgum, þar á meðal áberandi lögfróðum og nafnþekktum mönnum, sem sögðu að með því hefði ríkisstjórnin brotið ákvæði stjórnarskrárinnar. Ríkisstjórninni hefði undanbragðalaust borið að láta atkvæðagreiðsluna fara fram. Þessu svaraði forsætisráðherra með því segja í fjölmiðlum og á Alþingi þessir lögmenn væru asnar!!

Málfrelsi er ófrávíkjanlegt "skilyrði andlegrar velferðar mannkynsins, en á andlegri velferð þess byggist öll önnur velferð". Þessi orð birtust árið 1859 í riti enska heimspekingsins John Stuart Mill, Frelsið, sem lagði grunninn að þeim frelsishugmyndum sem við tökum sem sjálfsagaðan hlut í dag. Hann sagði einnig : “Hin versta misgjörð sem menn gera sig seka um í deilum, er að brennimerkja andstæðinga sína sem vonda menn og siðspillta”. Barátta um frelsið hefur oft verið helsta umræðuefni forystumanna núverandi stjórnarflokka. Baráttu sem snýst um að verja frelsið gagnvart okkur sjálfum. Orð John Stuart Mill eru mikilvæg áminning til þeirra sem styðja fullyrðingar forsvarsmanna stjórnarflokkanna um grófa misnotkun á fjölmiðlum.

Það er auðvitað sorgleg staðreynd að æðstu ráðamenn þjóðarinnar skuli kjósa að brennimerkja andstæðinga sína með þessum hætti. Það er mikilvægt að verja frelsið, sú vörn hefst og endar í því að æðstu ráðamenn tileinki sér röklega og siðlega umræðu. En ef tilfinningar þeirra eiga að stjórna stjórnmálaumræðunni og ákvarðanatöku, þá er frelsinu sannarlega mikil hætta búin. Ef handhafar valdsins eru komnir á það stig að vilja koma böndum á fjölmiðla, sem birta önnur sjónarmið en þeim eru þóknanleg, þá er frelsinu hætt.

Þegar forsvarsmenn stjórnarflokkanna biðja menn að vera frjálsa af sjálfum sér, hljóta þeir að gera sömu kröfur til sjálfra sín. Menn sem láta tilfinningahagsmuni ráða för sinni munu aldrei verja frelsið og eru ófærir um að bera virðingu fyrir röklegri umræðu. Í rökfræðinni telst það rökvilla ef ráðist er að persónum frekar en málefnum. Persónuárásir hafa ekkert rökfræðilegt gildi og uppnefningar sanna ekki neitt. Það er stór munur er á því að færa rök fyrir sínu máli og að uppnefna menn sem götustráka, lygara, afturhaldstitti eða fleiri ónefnum. Slíkar fullyrðingar færa engin sannindi fram dagsljósið, sama hve margir kjósa að trúa og taka undir fullyrðingarnar.

Í hita umræðunnar um fjölmiðlafrumvarpið hélt fyrrv. forsætisætisráðherra því ítrekað fram þeim rökum, að engin þörf væri á að nefna dæmi um misnotkun á fjölmiðlum, það blasi við fólki. Það séu álíka sannindi og að jörðin væri ekki flöt heldur kringlótt. Allir vita að jörðin er kringlótt og því þarf ekki að benda á nein rök. Hér er vísað til fjöldans. Samkvæmt þessum málflutningi fyrrv. forsætisráðherra eiga allir vita að fjölmiðlar Baugsveldisins séu misnotaðir og því þurfi ekki að benda á nein rök því til staðfestingar.

Allur þessi málatilbúnaður beindi athygli almennings að því hversu óhræddir ráðherrar, sem setið hafa í langan tíma, verða við að túlka hugtök úr stjórnarskránni mismunandi frá degi til dags, og opinbera með því skilningsleysi sitt, og jafnvel vanþekkingu á grundvallarhug-tökum stjórnarskrárinnar. Jafnvel frekar orðið að stórhættulegum vana ráðherra að túlka lög og stjórnarskránna með þeim hætti sem þeim hentaði hverju sinni. Þar má m.a. benda á ítrekuð orð forsvarsmanna stjórnarflokkanna, að ef það sem þeir vildu að næði fram að ganga tækist ekki vegna ákvæða stjórnarskrárinnar, ætti bara að breyta henni. Í þessu sambandi má vitna til frægra orða fyrrv. forsætisráðherra; “Ég er núna ekki eins hræddur um að það sem ég er að gera stangist á við Stjórnarskránna”

Mörgum þótti sem forsvarsmenn stjórnarflokkanna segðu þjóðinni vísvitandi rangt frá um tilurð málskotsréttar forseta. Það mál var á sínum tíma rætt ítarlega, eins og um er getið hér framar. Ekki er vafi á hvað vakti fyrir þeim framsýnu mönnum sem sömdu þetta ákvæði árið 1943. Forsætisráðherra hélt því ítrekað fram að þetta hafi verið árás forseta Íslands á hæstvirt Alþingi. Því fór fjarri, aukin heldur var það þveröfugt. Hér var lýðræðisleg vörn almennings gegn ráðherragerræði. Við höfum undanfarnar vikur orðið vitni að því hvernig málflutningur valdhafa með að baki langa valdasetu getur orðið.

Stjórnmálamenn óttast ekkert meir en að þjóðin fái að segja hug sinn um verk þeirra. Óttinn við þjóðaratkvæðagreiðslu varð að lokum til þess að ríkisstjórnin fór öfug út úr fjölmiðlamálinu. Öll vopn snérust í höndum ráðamanna vegna ofsóknarkenndar hræðslu þeirra við þjóðaratkvæði. Niðurstaða fjölmiðlamálsins og eins mótmæli almenning undanfarnar segir okkur að þjóðin vill eiga lokaorðið um helstu álitamál samfélagsins.
Stjórnlagaþing síðar á þessu ári er mikilvægt og kallar á vandaða meðhöndlum og þar mega hagsmunatengd sjónarmið stjórnmálamanna ekki vera ráðandi.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Guðmundur! Hvað gera heimili við þær vaxtabætur sem hafa hrunið á lánin þeirra síðan í júlí ...? Er rétt að láta fólkið taka á sig þessar miklu skuldir sem hljótast af verðbótunum?
Hvernig sérð þú lausnirnar? Ekki tala um að lengja lánin það er bókstaflega glæpsamlegt!
Kveðja,
Beta

krilli sagði...

“Hin versta misgjörð sem menn gera sig seka um í deilum, er að brennimerkja andstæðinga sína sem vonda menn og siðspillta”

Takk fyrir að minna mig á þetta.

Guðmundur sagði...

Sæl Beta
Ég er nú búinn að fjalla um þetta í nokkrum pistlum. Ein að aðferðum ríkisstjórnar Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna var að láta ekki eignastuðul fylgja verðlagi, það þýddi að vaxtabætur nánast hurfu hjá fólki á suðvestur horninu. Verkalýðshreyfingin setti fram kröfur um að þetta yrði lagað við endurskoðun kjarasamninga 2006. Ríkisstjórnin féllst á að laga þetta. Hækka varð eignastuðulinn um 82% en ríkisstjórnin hækkaði hann einungis um 25% og sagðist hafa staðið við sitt. En hún miðaði við hækkun eigna Vestmannaeyjum ekki á suðvestur horninu. Með þessu hafði ríkisstjórnin um 2 - 3 milljarða af fólki sem var að kaupa nýjar eignir.

Ef þúi ert að tala um verðbætur þá er það allt annað mál, en um það hefur verið fjallað mjög ítarlega hér á þessari síðu

Nafnlaus sagði...

Ég skal vera skýr! Mig langar að vita hvort þér finnist að verðbæturnar sem hafa hlaðist á lánin hjá fólki í landinu frá t.d. hruninu séu réttlætanlegar? Frá oktober voru t.d. neyðarlög í landinu! Á 20 milljón króna láni hafa bæst við svona 4 milljónir frá í júlí!
Sé það öruggt að hér verði verðhjöðnun lækka verðbæturnar eitthvað en verðhjöðnunin þarf að vara lengi og og vera þokkalega há t.d. 12% í ár! Það er óraunhæft að gera ráð fyrir þessu. Það er raunhæft að gera ráð fyrir því að mikið af fólki gefist upp á að borga lánin sín. Því væri óskandi að verkalýðsbaráttan færi aftur í þann farveg að slá skjaldborg um fólkið i landinu. Það tapa allir ef mikið af fólki gefst upp! Annað sem mig langar að benda á er að hagsmunir lífeyrissjóða við verðtryggðar skuldir heimila eru of mikilir! Lífeyrissjóðirnir fara því óbeint að vinna gegn hagsmunum félagsmanna sinna! Þessu þarf að breyta og lífeyrissjóðirnir þurfa að finna aðrar leiðir til að ávaxta sig!
Kveðja,
Beta

Guðmundur sagði...

Sæl Beta
Hér er t.d. farið ágætlega í gegnum þetta.

http://gudmundur.eyjan.is/2009/01/vertryggingarfti.html

Nafnlaus sagði...

Ég fæ ekki séð að þessi færsla sem þú vísar á svari neinu af því sem ég spyr þig um! Ég spurði þig skýrt og þú gætir svarað já eða nei.
Kveðja,
Beta

Guðmundur sagði...

Sæl Beta
Nei er svarið og hefur margoft komið fram.

Ég er á móti hárri verðbólgu, sem kallar háa vexti sem kalla svo á verðtryggingarkefi til þess að greiðsludreifa háu vöxtunum.

Í þessum pistli sem ég benti á er útskýrt hvernig kerfið sem Ólafur Jóhannesson þáv. forsætisráðherra setti á sínum tíma. Um þetta hefir verið skirfað æði oft hér á síðunni og eins þesari spurningu svarað æði oft með ítarlegum útskýringum

Það er efnahags- og sú peningastefna sem hefur verið fylgt hér á landi sem er orsakavaldurinn. Ef þú strikar út verðtrygginguna þá verður þú að greiða fulla vexti, en það er engin sem ræður við það, þess vegna er tekið upp greiðsludreifingarkerfi

Ef fella út háa vexti eða verðtryggingu þá verðum við að komast út úr örkerfi íslenskrar krónu með mikilli verðbólgu og sveiflum yfir í annað efnahagskerfi með lágri verðbólgu og þá er hægt að fella út verðtrygginguna.