miðvikudagur, 4. febrúar 2009

Valdagræðgi - Hverra?

Manni verður orðvant að hlusta á fyrrv. forsætisráðherra, Halldórs Blöndal og reyndar fleiri af forsvarsmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þar sem þeir eru að saka að aðra um valdagræðgi, einelti, hatur í garð tiltekinna einstaklinga og fleira í þeim dúr.

Var Geir ekki fyrir nokkrum dögum að skammast út í Samfylkinguna fyrir að hafa ekki samþykkt sameiningu Seðlabanka og Fjármálaeftirlits í nóvember síðastliðnum, sem hefði að hans mati þýtt sjálfvirkan brottrekstur Davíðs og hans fylgifiska.

Hvers vegna var lögum breytt þannig að í brott voru tekin ákvæði um brottrekstur Seðlabankastjóra? Svona til upplýsingar þá gilda þær reglur á almennum vinnumarkaði, að ef ekki eru sérstaklega kveðið á um uppsögn í ráðningarsamning, þá gilda almennar reglur kjarasamninga. Það þýddi að Davíð og félagar hefðu 6 mán. uppsagnarfrest, af því að þeir eru eldri en 60 ára, annars væri það styttra.

Er ástæða að rifja upp allt sem sagt hefur verið um stjórn Seðlabankans og efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins?

Er ástæða til þess að rifja upp allt sem hefur verið sagt um trúverðugleika þeirra sem hafa staðið í forsvari fyrir íslenskra efnahagstjórn?

Er ástæða að rifja upp hvað hefur verið sagt um hvað við þyrftum að gera til þess að öðlast traust og fá hjálp til þess að komast út úr vandanum, ekki síst af erlendum aðilum?

Þessi málflutningur er þeim til minnkunar og staðfestir hvers vegna ríkisstjórnin sprakk. Nú ætlar þeir að bjarga málunum með því að losa sig við aðstoðarmenn þingmanna. Hverjir hafa staðið í vegi fyrir endurskoðun eftirlaunafrumvarpsins og aðstoðarmanna. Sigurður Kári sagði í viðtali fyrir u.þ.b. ári síðan og reyndar fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að aðstoðarmennirnir kostuðu svo lítið að það tæki því ekki að ræða um það mál.

Reyndar eru forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins að upplýsa okkur um hversu veruleikafirrtir þeir eru, og fjarri því að átta sig á umfangi þess vanda sem þeir eru búnir að koma íslensku samfélagi í.

En þessi orðræða sem stjórnmálamenn eru að bjóða okkur upp á, staðfestir enn einu sinni hversu mikil þörf er á að losna við þetta lið. Þeir eru komnir í kosningagallann og þá virðist ekki skipta neinu hver vandamál samfélagsins eru, það eru bara stólarnir sem skipta máli.

Ef einhvern tíma hefur verið þörf á að stjórnmálamenn taki sig saman í andlitinu og fari að sinna samstíga þeim störfum sem þeir eru kjörnir, þá er það nú. Sjálfstæðismenn verða einfaldlega að átta sig á valdakerfi þeirra er hrunið og málið snýst ekki um að tryggja áframhald þess. Vandamálin eru margfalt stærri og þeir verða að sýna þann manndóm að líta í eigin barm og horfast í augu hvert stjórnarhættir þeirra hafa leitt þessa þjóð.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Búinn að segja það þó nokkrum sinnum eftir Hrunið.

Sjálfstæðismönnum er ekki viðbjargandi. Þeir eru einfaldlega bara steinblindir. Þeir sjá flísina í augum allra annarra en sjá ekki bjálkann í eigin augum. Þeim er ekki viðbjargandi.

Jón H. Eiríkss.

Nafnlaus sagði...

Rétt Guðmundur!

Þetta sjá allir nema þeir Sjálfstæðismenn sjálfir sem eru í afneitun og vilja miklu frekar reyna verja eigin stöðu innan stjórnkerfisins heldur en hjálpa til við vanda þjóðarinnar.

Þetta er þekkt stærð en á það þarf að minna aftur og aftur á því lýðskrumararnir þar eru duglegir að drepa umræðunni á dreif og reyna spinna henni í aðrar áttir.

Takk