fimmtudagur, 26. febrúar 2009

Vanhæfni Davíðs

Barst þetta bréf :

Í Kastljósviðtali varpaði formaður stjórnar Seðlabanka Íslands fram efnislega röngum staðhæfingum um bindiskyldu lánastofnana og áhrif þeirra. Hvort sem skýringin er vísvitandi afflutningur staðreynda eða vanþekking á stjórntækjum Seðlabankans hljóta að vakna alvarlegar spurningar um faglegt hæfi viðkomandi til að stýra lykilstofnun í viðhaldi fjármálastöðugleika:

Í fyrsta lagi hélt seðlabankastjóri því fram að helmingslækkun bindisskyldu lánastofnana í áföngum árið 2003 hafi verið vegna Evrópureglna og ýjaði að því að vegna þess hafi stjórn Seðlabankans ekki átt þess kost að beita þessu lykilstjórntæki við að hemja ofvöxt banka.

Þetta er rangt eins og sjá má í 11. gr. laga um Seðlabanka Íslands þar sem heimildir hans eru útlistaðar og óskertar. Enda segir orðrétt í tilkynningu Seðlabankans um lækkun bindisskyldunnar 28. febrúar 2003: "Seðlabanki Íslands hefur á undanförnum árum stefnt að því að búa, eftir því sem aðstæður leyfa, íslenskum lánastofnunum starfsumhverfi sem er sambærilegt því sem tíðkast í flestum Evrópuríkjum."

Lykilatriðin eru að þetta er stefna Seðlabankans sjálfs og að samræmingin verði "eftir því sem aðstæður leyfa". Þegar frá leið blasti við að hér voru að skapast allt aðrar og alvarlegri aðstæður en í nágrannalöndunum með vaxtarhraða bankakerfisins langt umfram það sem eðlilegt var og verðbólgu umfram vikmörk.

Í öðru lagi hélt seðlabankastjóri því fram að beiting bindisskyldu hefði fyrst og fremst bitnað á sparisjóðunum og smærri fjármálastofnunum á meðan stóru bankarnir hefðu vaxið eftir sem áður enda nægt framboð á ódýru fjármagni. Þessi ranga fullyrðing gæti stafað af því að seðlabankastjóri þekkir ekki til þeirra breytinga á ákvæðum um bindisskyldu sem gerðar voru gagngert til að mæta aukinni lánsfjármögnun banka og birtast í 11. gr laga um Seðlabankanna.

Í stað þess að taka nær aðeins til innlána er ekki aðeins hægt að láta hana ná til ráðstöfunarfjár sem aflað er með öðrum hætti heldur er beinlínis mögulegt að hafa reglurnar mismunandi eftir eðli lánastofnana og flokkum skuldbindinga. Seðlabankinn hefðu sumsé getað aukið sérstaklega bindiskyldu vegna fjármögnunar í erlendri mynt, hvort sem er vegna erlendrar lánsfjármögnunar eða söfnunar innlána hefði hann haft raunverulegar áhyggjur af útþenslu bankakerfisins. Fullyrðingin um áhrifaleysi bindiskyldunnar er best hrakin með vísun í gögn Seðlabankans sjálfs um afleiðingar lækkunarinnar 2003 en þegar í október 2004 taldi bankinn að hún hefði aukið laust fé fjármálastofnana um 84 milljarða. Lækkunin hafði margfeldisáhrif, jók útlánamöguleika sem blés upp eignaverðsbólu sem aftur jók verðmæti mögulegra veða sem enn ýtti undir eftirspurn eftir lánsfjármagni. Mjög hraður vöxtur peningamagns er almennt talin ein helsta vísbending um yfirvofandi bankakreppu og fjármálaóróa og það átti svo sannarlega við hér á landi þótt ekki væri gripið inn í af hálfu Seðlabankans.

Í ræðu á morgunfundi Viðskiptaráðs Íslands 18. nóvember 2008 gerði seðlabankastjóri lítið úr stjórntækjum bankans og sagði þau litlu máli hafa skipt í því sem gerst hefði. Þar afgreiddi hann m.a. lausafjárreglur með þeim orðum að bankinn ynni lausafjárskýrslur. Þetta er mjög alvarlegt vanmat á mikilvægi þeirra heimilda sem bankinn hefur á grundvelli 12. gr. laga um Seðlabankann til að setja reglur um lágmark eða meðaltal lauss fjár lánastofnana og geta verið mismunandi milli flokka lánastofnana. Markviss beiting slíkra reglna hefði hamið vöxt bankanna erlendis og jafnframt þvingað þá til að efla sitt erlenda lausafé þegar vöxtur þeirra var sem hraðastur.

Þegar litið er til þess að stjórn bankans beitti ekki þessum stjórntækjum en hélt því fram í opinberum skýrslum, ræðu og riti, að íslenska bankakerfið stæði styrkum fótum, er erfitt að leggja mat á fullyrðingar formanns stjórnar Seðlabankans þess efnis að hann hafi persónulega varað, einkum fyrrverandi forsætisráðherra en einnig aðra ráðherra og embættismenn, mjög sterklega við að bankakerfið væri á leið í þrot. Engin gögn eru til um þá fundi og sjálfur hefur fyrrverandi forsætisráðherra sagt að sig reki ekki minni til slíkra viðvarana en útilokar ekki að þær gætu hafa komið fram í einkasamtölum.

Mikilvægara en öll aðvörunarorð eru þó aðgerðir eða tillögur um aðgerðir. Fyrir liggur að sjálfur beitti bankinn ekki þeim stjórntækjum sem honum voru tiltæk skv. lögum og formaður stjórnar bankaráðs hefur ekki nefnt neina efnislega tillögu um aðgerðir sem hann kom á framfæri við ráðherra og ríkisstjórnin ekki framfylgt.

Í ljósi þess sem gerst hefur er mjög alvarlegt ef formaður stjórnar Seðlabanka Íslands hefur ekki haft fullan skilning á eðli eða gildi þeirra stjórntækja sem bankinn hafði yfir að ráða né getað veitt forsætisráðherra ráðgjöf um viðeigandi ráðstafanir.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur.

Sama bréf er birt á bloggsíðu Gunnars Axels á Mbl.

Ég setti við athugasemd hvar ég fór yfir þá aðferð, að sgeja einhvern hafa sagt annað en viðkomandi sagði, segja eitthvað sem GÆTI rímað við ummælin, í þessu tilfelli, Davíð talaði um bindiskyldu og afnám hennar íáfögum, því var auðvelt, að taka boltann og túlka það sem hann sagði.

ÉG bið forláts á, að líma fyrra svar mitt viðþetta en það eykur mér eltina við pikkið.


Þessi pennavinur þinn beitir hér alþekktu lymskubragði í rökræðum.

1. Hann segir viðfangið hafa sagt nokkuð sem hann EKKI sagði og það má sannreyna með því að hlusta á viðtalið.

2. Röksnillingurinn leggur síðan út af því sem viðfangið ,,sagði" að fyrstu gefnu atriðinu.

Sjá viðtalið við Davíð.

Hann sagði HVERGI að bindiskyldan væri afnumin vegna þrýstings frá EES, heldur gaf í skyn, að menn hafi fengið þrýsting frá bönkumun sjálfum. (trúlegt miðað við kærumál þeirra á stjórnvöld sinnar þjóðar)

Davíð sagði að menn hefðu gert þetta til að bankar nytu sömu ytri aðstæðna og Evrópskir.

Bréfritari gerir mikið með, að stjórn SÍ hafi talið banka okkar standa vel. Nefnið EINN erlendan Seðlabanka sem ekki stendur með sínum bönkum á tímum vályndra veðra.

SÍ hafði VISSULEGA OG MEÐ SKJÖLUÐUM HÆTTI bent viðskiptabönkunum á veilur í starfsemi þeirra og dökkum framtíðarhorfum færu þeir áfram fram með uppteknum hætti.

Yfir þetta er skautað og mjög svo skiljanlegt en þessi viðvörunarorð eru SKJÖLUÐ og því tiltæk í skoðun, þa´efitr er leitað.

Hér er vissulega mikið undir en menn láta eftir sér, að detta í pólitískar pælingar um GLÆPI.

Það er ekki nein pólitíkk í bréfi Seðplabankastjóra, sem hann kaus að birta í fjölmiðlum til Jóhönnu, aþar tiltekur hann fyrr sent erindi og svo setur hann fram AÐ ,,TIL VIÐBÓTAR þVÍ SEM ÉG NEFNDI Í FYRRA MINNISBLAÐI ER NÚ SÉRSTÖK ÁSTÆÐA TIL AÐ GAUMGÆFA STÖÐU SMÆRRI FJÁRMÁLAFYRIRTÆKJA"

Í ljósi umræunnar um BYR og sameiningu SPRON BYRS OG SPKef, er þetta athyglivert MJÖG.

Takk fyrir annars gagnlegar pælingar um eðlilegan rétt brauðstritara.

Það er ekki nógsamlega áréttað, að mjög skortir á, að þeir eigi sér formælendur.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 26.2.2009 kl. 09:53

Nafnlaus sagði...

http://www.sedlabanki.is/?PageID=13&NewsID=1071

Jón Sigurðsson, sá mæti maður virðist ekki heldur hafa hugmynd hvað hann er að tala skv. þessari skýrslu.

Ef maður á að vera sammála þér, sem maður er ekki endilega.

Seðlabankinn vann í samræmi við reglur Seðlabanka Evrópu, það er meginmálið. Lækkun bindiskyldunnar virðist hafa verið enn ein tískubylgjan sem tekin var upp, með óskemmtilegum afleiðingum kannski.

Spurning líka hvort bankarnir hafi beitt SÍ þrýstingi.

Þetta verður vonandi skýrt betur af öðrum en Yngva. Vonandi.