mánudagur, 5. október 2009

Ná út úr kerfinu

Það hefur þótt sjálfsagt að gera tilraun til þess að hafa fé af opinberum sjóðum. Skjóta undan skatti, ná bótum úr kerfinu, ná út tryggingabótum og núna upp á síðkastið hefur verið áberandi að verið sé að reyna við atvinnuleysistryggingasjóð. Þekkt er úr atvinnulífinu að reyna að koma launum með kennitöluskiptum yfir á ábyrgðarsjóð launa og þá um leið losa sig undan því að skila inn launatengdum gjöldum til stéttarfélaga og lífeyrissjóða.

Nýverið kom fram að veitingastaður sem skuldaði húsaleigu gerði sér lítið fyrir og tók á leigu annað húsnæði og tók með sér öll tæki sem fyrri leigusali átti. Það er alþekkt í rekstri fyrirtækja að skipt sé um kennitölu og þar með komið sér undan að skila lögbundnum launatengdum gjöldum sem fyrirtækið hefur dregið af starfsmönnum og leið eru skuldir skildar eftir á gömlu kennitölunni.

Þetta hefur viðgengist árum saman að menn hafi átölulaust komist upp með kennitöluskipti. Á nánast hverjum degi eru lesnar fréttir þar sem menn hafa skipt um kennitölu og skilið eftir miklar skuldir og hirt öll verðmæti úr fyrirtækinu. Þetta endurspeglast að nokkru í þeim viðhorfum að þær þjóðir sem krefjast þess að íslensk þjóð standi við skuldbindingar sínar séu íslendingum óvinveittar.

Hér þarf að vinna að siðbót og uppræta þetta þjóðarböl, sem sennilega hefur fylgt þjóðinni frá upphafi landnáms, ef marka má þá sögu að hingað hafi flúið landnámsmenn sem ekki sættu sig við að standa skil á sínu. Fyrirbyggja verður að hægt sé að koma eignum undan á meðan mál eru í rannsókn. Ný kennitala fyrirtækis á að taka við öllu sem hvíldi á þeirri fyrri; skuldum og skuldbindingum, ekki bara birgðum, viðskiptavild og þjálfuðu starfsfólki.

5 ummæli:

Héðinn Björnsson sagði...

Þannig að þú telur sem sagt að það eigi að leggja niður öll fyrirtæki sem eru ofurskuldsett en skila nokkuð góðri afkomu fyrir fjármagnsliði? Væri ekki betra að leyfa núverandi starfsfólki að reka fyrirtækið áfram annað hvort í eigu kröfuhafa eða þeim sem er tilbúinn að kaupa upp kröfur kröfuhafa? Þannig sitja allir kröfuhafar við sama borð og geta sjálfir ákveðið hvort þeir vilja selja sinn hlut í fyrirtækinnu til nýrra eigenda eður ei?

Annars er tengingin við Icesavemálið léleg og ekki til þess fallin að hefja umræðuna um það mál á hærra plan. Íslenska þjóðin sem slík er ekki ábyrg fyrir þessum skuldbindingum náhirðarinnar og banka hennar. Kröfuhafar áttu bara að taka yfir bankann og reka hann áfram eða leggja niður og hluta í sundur.

Telji fólk sig eiga miskabætur á hendur ríkinu vegna misráðinna aðferða ríkisstjoŕnar og alþingis við standa að gjaldþroti bankanna hefur það fullan rétt á að gera slíkt. Fari slíkt mál í gegn fær almenningur í það minsta að sjá í hverju skaðinn er fólginn sem um er að ræða og fastlagt hvernig eigi að dreyfa ábyrgðinni. Alþingi hefur boðið eins rausnarlegar bætur gegnum samninga og það telur ríkið standa undir að veita og við verðum nú að sjá hvort því verður tekið.

Nafnlaus sagði...

Afar góð grein - þarf að koma henni út um allt.
Alma Jenný Guðmundsdóttir

Nafnlaus sagði...

Ég skil ekki hvernig Héðinn les þetta úr greininni.

Þetta er fín grein og afskaplega, skilmerkilega sett fram að það gangi ekki að óprútnir menn taki sig upp einn dag og skipti um kennitölu og skilji eftir skuldirnar sem svo lenda á skattgreiðendum þessa lands því það er á þeim skuldirnar lenda á endanum.
Úlfur

Nafnlaus sagði...

Er ekki hægt að komast hjá þessu að miklu leyti með því að ógilda allar sölur á eignum til fyrirtækja í eigu sömu aðila og annarra "tengdra aðila" sem gerast 2 árum fyrir gjaldþrot?

Lögin eru til...

Nafnlaus sagði...

Setja sömu lög og eru í t.d Noregi og Þýskalandi, þar getur sami aðili aðeins átt og stjórnað fyrirtæki þrisvar, eftir það er það full reynt að hann getur ekki stjórnað fyrirtæki : Kv Simmi