laugardagur, 3. október 2009

Óvissa í atvinnulífinu

Á fundi um framgang stöðugleikasáttmálans í gær voru samankomnir helstu forsvarsmenn samtaka í atvinnulífinu, ásamt forsvarmönnum orkufyrirtækjanna, ráðuneyta og þeirra fyrirtækja sem hafa verið að undirbúa fjárfestingar hér á landi. Í undirbúningi er áframhald byggingu álvers í Helguvík, stækkun álversins í Straumsvík og tvöföldun aflþynnuverksmiðjunar á Akureyri. Auk byggingar gagnavera í Keflavík og á Blönduósi.

Þessi verkefni eru öll langt kominn í undirbúningi og bygging álversins í Helguvík er að nokkra hafinn. Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja eru með í undirbúningi virkjanir og standa í samningaviðræðum við framleiðendur gufu- og vatnshverfla.

Auk þess eru komin af stað verkefni við byggingu nýrra verkefna á borð við kísilmálmverksmiðju í Hvalfirði, koltrefjaverksmiðju á Sauðárkrók. Í gegnum þessi verkefni eru upptaldir þeir farvegir sem erlendir fjárfestar hafa hingað þessa dagana. Það svigrúm sem íslenskum stjórnvöldum var gefinn til þess að undirbúa efnahagslegar aðgerðir er að renna út. Ef stjórnvöld standa sig ekki í þeim efnum er nánast víst að sú efnahagslega aðstoð sem okkur standi til boða verði lítil og eins að þau lán sem við hugsanlega gætum fengið væru á afarkjörum vegna þess álits sem Ísland hefur þessa dagana.

Í ummælum forsvarsmanna fyrirtækjanna og orkufyrirtækjanna kom fram að viðhorf erlendra banka gagnvart Íslandi sé ákaflega neikvætt. Erlendu viðskiptabankarnir töpuðu gríðarlegum upphæðum á viðskiptum sínum við íslensku bankana. Þetta endurspeglast í ákaflega takmörkuðum áhuga þessa fyrrum helstu viðskiptabanka Íslands að eiga frekari viðskipti hingað.

Það hefur ítrekað komið fram í ummælum forsvarsmanna þeirra fyrirtækja sem vilja fjárfesta hér, að það sé ákaflega erfitt að búa við þá óvissu sem íslensk stjórnvöld bjóði upp á. Menn viti oft ekki hvaðan á sig standi veðrið. Skyndilegar stefnubreytingar sem valdi ófyrirséðum töfum eins og breytingar á kröfum um umhverfismat og svo nú síðast óútskýrðar áætlanir um skattlagningu á raforku.

Ekki bætir úr skák að stjórnmálamenn hafa ekki er kynnt trúverðuga stefnu í peningamálum með íslenskri krónu. Hver stefna í ríkisfjármálum og orkunýtingarframkvæmdum? Það er útilokað að átta sig á hvað standi til að gera. Í stað þess er tímanum varið í skotgrafarhernað og pólitískan leðjuslag. Atburðir liðinnar viku kalla á ábyrgari stefnu. Það má með allnokkrum rökum ætla að það sé umtalsverður meirihluti fyrir því hvert eigi að stefna sé litið til miðju stjórnmálamanna.

Almenningur er orðin langþreyttur og fyrirtækin að gefast upp. Það er einfaldlega orðin lífsnauðsyn, ef ekki eigi að fara enn verr, að ábyrgir aðilar í íslenskum stjórnmálum og úr atvinnulífi taki höndum saman til að tryggja samstöðu og stjórnfestu við endurreisnina.

Engin ummæli: