föstudagur, 23. október 2009

Ofbeldi fremur en umræðulist

Ræður stjórnmálamanna einkennast fremur af ofbeldi en samræðulist, sagði Páll Skúlason fyrrv. háskólarektor í góðu erindi á ársfundi ASÍ.

Þetta er rétt mat hjá Páli. Páll tók einnig fram að almenningur væri á vissan hátt sekur um svipað hátterni ásamt fjölmiðlum. Umfjöllun fjölmiðla einkenndist af neikvæðni og niðurrifi í umfjöllun. Leitað væri til einstaklinga sem væru þekktir fyrir þessi viðhorf og beittu gjarnan fyrir sig útúrsnúningum og að draga allt í efa.

Við stjórn heimila væri oft beitt fýluköstum, og oft með ágætum árangri. Þessari aðferð væri beitt víðar í samfélaginu og væri í samræmi við það sem lýst er hér að ofan. Mönnum væru jafnvel gerðar upp skoðanir og síðan beitt framantöldum aðferðum til þess að drepa málum á dreif. Ekkert eða lítið miði á uppbyggilegri umræðu til framfara og leiða um aðgerðir til lausnar á þeim vanda sem við værum búinn að koma okkur í.

Það er ríkið sem hefur brugðist. Það er Ríkið sem á að setja leikreglur sem tryggja stöðu almennings. Ríkið hefur brugðist, þar á bæ hefur ekki verið tekið tillit til ábendinga um hvert stefni og því er Ísland í þessari stöðu.

Það eru stjórnvöld sem setja lögin og þau hafa lagt til hliðar samkennd og jöfnuð, en látið markaðshyggjuna ráða för. Með því hafa þau ákveðið að viðhalda því ástandi sem tryggir áframhald óstöðugleikans. Sú stefna sem fylgt hefur verið við mótun þjóðfélagsins undanfarið hefur leitt til þess að rökvísi efnahagslífsins hefur yfirtekið stjórnmálalífið.

Engin ummæli: