Það er ekki af tilviljun að fjármálamenn vilja komast inn í íslenska orkuframleiðslu og ekki heldur tilviljun að erlendir stórnotendur vilji koma hingað og tryggja sér sæti við orkuborðið á meðan eitthvert rúm er þar. Í áætlunum er gert ráð fyrir að orkunotkun í Evrópu hafi minnkað um allt að 20% á næstu 4 árum. Á sama tíma á að minnka raforkuframleiðslu með jarðefnum umtalsvert jafnframt því að auka framleiðslu með endurnýjanlegri orku.
Þetta mun ekki leiða til neins annars en að orku mun snarhækka á komandi árum, jafnvel nefndar tölur sem nema allt að tvöföldun á orkuverð. Hvers vegna? Vegna þess að það eru takmarkaðir möguleikar á því að framleiða orku með endurnýjanlegum aðferðum, nema þá á mun dýrari hátt en gert er í dag. Vindmyllur eru sífellt að verða stærri en orkan frá þeim er töluvert dýrari en t.d frá þeim vatnsaflsvirkjunum sem Íslendingar hafa verið að reisa. Sama á við sjávarölduvirkjanir og sólarorku. Þessar aðferðir leysa þarfir minni notenda, en aldrei stórnotenda.
Sé litið til norðurlandanna þá er búið fyrir allmörgum árum að loka á frekari stórvirkjanir út frá náttúruverndarsjónarmiðum. Það sem eftir er að virkja t.d. í Noregi eru minni virkjanir þar sem bændur eru virkja árnar í löndum sínum. Hér á Íslandi nálgumst við sömu stöðu. Það eru ekki margir möguleikar á stórvirkjunum eftir, nema þá að fara á staði sem hætt er við að vekja heiftarleg viðbrögð almennings. En það er hægt að reisa fjölmargar smærri virkjanir víða um land, enda eru nokkrir íslenskir bændur þegar farnir að virkja heimaár sínar og margir eru komnir á undurbúningsstig.
Þetta kemur óneitanlega upp í hugann þegar stjórnmálamenn tala um stækkun og fjölgun álvera, sem kallar á nálægt tvöföldun orkuframleiðslu. Auk þess að byggja nokkrar aðrar verksmiðjur og gagnaver. Á sama tíma er rætt um að innan nokkurra ára verði búið að rafvæða drjúgan hluta bílaflotans og spara með því gríðarlega fjárhæðir í erlendum gjaldeyri. Og svo eru að birtast greinar um að leggja sæstreng til Evrópu og selja orku þangað.
Vilji menn kynna sér flutning orku um sæstreng þá er vert að hafa í huga örfá grundvallaratriði. Það verður gríðarlegt tap á orku á leið hennar um strengi, sérstaklega háspennu. Strengir eru gríðarlega dýrir. Það leiðir til þess að ef menn ætli sér að fara í þessi viðskipti þarf gríðarlegt magn af orku til þess að þetta borgi sig. Við erum nefnilega svo langt frá Evrópumarkaðnum.
Djúpholur með nánast óendanlegri orku eins og stjórnmálamen lýstu svo fjálglega t.d. í síðustu kosningum eru líklega fjarlægur draumur, kannski algjörlega óraunsær. Gufuaflsvirkjanir eru heldur ekki óendanlegar og valda jafnvel enn meiri umhverfismengun en vatnsaflið.
Þessi umræða einkennist af rakalausum upphrópunum stjórnmálamanna sem virðast í engu telja sig þurfa að standa við orð sín og er nákvæmlega sama hvort vaktar séu óraunsæjar væntingar hjá almenning. Það er svo sem ekki nema von sé litið til þess hvernig íslendingar beita atkvæði sínu endurtekið á sama stað, sama á hverju gengur.
En svo er annað í lokinn. Það eru umtalsverðar líkur á því eftir ekki svo mörg ár að orkan verði orðin svo eftirsótt og svo dýr að íslendingar standist ekki þá freistingu að virkja hér á landi allt sem hönd á festir, kannski líka Gullfoss. En svo er hinn hliðin, kannski verðum við búinn að selja frá okkur öll yfirráð á orkunni og hún verði í höndum örfárra auðjöfra sem búa í skattaparadísum.
1 ummæli:
Sæll Guðmundur og takk fyrir. Tvennt finnst mér ástæða til að hafa áhyggjur af í sambandi við þá stefnu, sem rekin hefur verið hér á sviði orkunýtingar. Í fyrsta lagi að stefnt er að því að öll virkjanlega hagkvæm orka verði notuð í einn iðnað, áliðnað. Þetta var einu sinni kallað að hafa öll eggin í sömu kröfunni. Í öðru lagi, þá er ljóst, að miðað við þær áætlanir, sem nú eru uppi, eigum við eftir fjögur, fimm ár engan hagkvæman virkjunarkost ónýttan til að knýja samgöngutæki okkar og fiskiskip. Olían gengur til þurrðar, undraskjótt. Svo mál lengi velta fyrir sér hvern hag við höfum af viðskiptum við álfabrikkur stærstu auðhringa jarðar, sem ráða öllum þáttum framleiðsluferlanna.
Skrifa ummæli