laugardagur, 31. október 2009

Brennuvargarnir

Biedermann og brennuvargarnir eftir Max Frisch er magnað verk. Sýning Þjóðleikhússins á því metnaðarfull. Hún fellur vel inn í þann veruleika sem við erum að upplifa hér á landi. og þarf ekki mikið ímyndunarafl til þess að sjá þar ráðamenn Íslands í aðdraganda Hrunsins.

Leikmyndin er einföld en góð, lýsing virkilega góð og öll umgjörð vel af hendi leyst. Notkun gólflyftanna gefur sviðinu meiri dýpt, sérstaklega í lokaatriðinu, sem var hin áhrifamesta í allri sýningunni.

Biedermann er efnaður borgari og brennuvargarnir, sem setjast að upp á háalofti á heimili Biedermannshjónanna og fylla það af eldsneyti, Biedermann neitar alfarið að horfast í augu við hættuna og leggur á flótta undan henni. Flóttinn verður sífellt tragikómískari og um leið örvæntingarfyllri. Sannleikurinn um okkur sjálf veður nánast sársaukafull.

Auðvelt að sjá í samsömun við Ísland í aðdraganda hrunsins. Endurteknar yfirlýsingar ráðamanna um öryggi bankanna og svo ekki síður athafnir fjárglæpamanna. Og svo endar hin örugga veröld, sem ráðherrarnir vildu trúa, með því að allt verður eldinum bráð.

Eggert Þorleifsson leikur Biedermann og gerir það vel, smellpassar í hlutverkið. Ég sat fyrir aftan miðjan sal. Eggert hefur ekki nægilega sterka rödd til þess að fylla rýmið.

Ólafía Hrönn Jónsdóttir leikur frú Biedermann. Þáttur hennar vex í gegnum sýninguna og í lokaatriðinu sýnir Ólafía okkur hversu sterkur leikari hún er.

Brennuvargarnir tveir voru sæmilegir, ekki nógu kraftmiklir. Björn Thors leikur Schmitz glímukappa. Magnús Jónsson leikur Eisenring þjón. Edda Arnljótsdóttir leikur vinnukonuna á heimilinu og fer prýðilega með það. Verð að játa ég kveikti ekki alveg á kórnum.

Mæli hiklaust með sýningunni.

Engin ummæli: