sunnudagur, 18. október 2009

Smjörklípur og klisjur

Ég var á norrænu þingi í síðustu viku. Undir lok þingsins vék einn af íslensku fulltrúunum sér að mér og sagði; „Tekur þú eftir því Guðmundur hversu mikil munur er á umræðunni hérna og heima. Hér er umræðan markviss og fer hávaðalaust og málefnalega fram, engar rakalausar upphrópanir, klisjur eða smjörklípur.“

Umræðan hér á Íslandi er föst á ákveðnu plani og ákveðnir aðilar virðast ekki vilja sleppa henni þaðan. Í gær skrifaði ég ég pistil þar sem bent var á nokkur atriði sem mæltu gegn því að farið yrði að tillögum Sjálfstæðismanna. Í athugasemdum voru áberandi þekktar klisjur sem ákveðnir klifa á en hafa aldrei fært nein rök fyrir. „Verkalýðshreyfingin er ekkert að gera, ég hef ekki séð neinar tillögur frá henni.“ Bíddu aðeins; Hvað stóð í pistlinum? Voru þar ekki tillögur og færð rök fyrir þeim. Það er einnig alþekkt að verkalýðshreyfingin lagði mjög mikla vinnu í gerð þeirra tillagna og áætlana sem Stöðugleikasáttmálinn er reistur á. Braut sem menn vildu fylgja til þess að komast upp úr þessum táradal á um 3 - 4 árum.

Einnig stóð í athugasemdadálkunum önnur klisja sem aldrei hefur verið rökstudd; „Verkalýðsrekendur eru búin að valda lífeyrissjóðunum svo miklum skaða.“ Nú liggur það fyrir að íslensku lífeyrissjóðirnir, þá er ég að tala um almennu sjóðina, komu mun betur úr hruninu en sambærilegir erlendir sjóðir.

Einnig má spyrja hvaða fjárfestingarkostir voru hér? Tilteknir aðilar voru búnir að taka lán hjá bönkunum og þurrka upp ríkistryggð skuldabréf . Einnig ættu menn að vita að hér eru lög sem takmarka hversu mikið af fjármagni lífeyrissjóðanna má fara erlendis.

Daglega kemur fram í fréttum að hið gríðarlega fjármagn sem er í lífeyrissjóðunum sé eini bjarghringur íslendinga, samt gala sumir að þeir séu galtómir. Það eru ekki nema 10 ár síðan að Sjálfstæðismenn gerðu atlögu að lífeyrissjóðakerfinu og vildu fara sömu leið með þá og þeir gerðu við sparisjóðina og bankana. (Hét það ekki; "Fé án hirðis" hjá helsta fjármálaspeking þeirra og taldi sig sjálfkjörinn í það verkefni) Hvar værum við í ef verkalýðshreyfingin hefði með aðstoð fyrirtækjanna ekki hrundið þeirri árás?

Hörður Torfa byrjaði hvern einasta fund á Austurvelli með þeim orðum að þetta væru fundir fólksins og hann vildi ekki hleypa að neinum hagsmunasamtökum. Það myndi eyðileggja trúverðugleika fundanna. Í viðtölum sagði Hörður að þetta viðhorf sitt hefði bjargað fundunum og gert þá trúverðuga. Hann hefði ítrekað orðið fyrir háværum kröfum frá ýmsum hagsmunaðilum sem vildu komast að stjórnun fundanna.

Ef hann hefði farið að kröfum þeirra, þá hefðu fundirnir samstundis breyst og legið undir höggi um að vera málpípur tiltekinna hagsmuna, eins og t.d. verkalýðshreyfingunni eða einhverjum stjórnmálaflokk. Ég er hjartanlega sammála Herði. Það var rætt í miðstjórn Rafiðnaðarsambandsins hvort við ættum að koma með einhverjum hætti að fundum Harðar. Menn voru sammála um að virða óskir Harðar. Margir af forystumönnum rafiðnaðarmanna voru fastir gestir á fundum Harðar og vildu vera þar sem einstaklingar. Þrátt fyrir þetta varð til föst klisja um að verkalýðshreyfingin hafi ekki viljað koma að fundunum.

Ég á einhvern veginn von á að það sama muni gerast með væntanlegan Þjóðfund. Þar er tekið fram að þar eigi hagsmunahópar ekki að marka umræðuna, heldur hinn almenni borgari. Það er fínt og vona að það takist. Það hefur alla vega ekki verið leitað til verkalýðshreyfingarinnar í vinnu við undirbúning fundanna.

Ef litið er yfir shina sviðnu jörð í dag þá eru það sjóðir launamanna og það öryggisnet sem þeir hafa barist fyrir og náð fram í harðvítugri baráttu sem eru bjarghringir þessa samfélags í dag. Á hverjum degi koma fleiri tugir einstaklinga á skrifstofur stéttarfélaganna og sækja þangað aðstoð og þjónustu. T.d. hafa útgjöld sjúkrasjóðs Rafiðnaðarsambandsins aukist um 147%. Útgjöld og styrkir vegna sóknar félagsmanna á fagnámskeið hafa rúmlega tvöfaldast og þannig mætti lengi telja.

Og svo standa gaspurhænurnar og garga í síbylju; „Verkalýðshreyfingin er ekkert að gera.“ Þar er m.a. um að kenna fréttamati fjölmiðlanna, ef verkalýðshreyfingin sendir frá álit eða umsögn eða reynir að vekja máls á einhverju kemst það ekki í fréttir og spjallþáttastjórnendur velja frekar lýðskrumara sem tala nóga illa um annað fólk í þætti sína. Pottþétt leið er níða niður starfsfólk stéttarfélaganna eða lífeyrissjóðanna.

Það þykir fréttnæmt að einhver framsóknarmaður fer á bar í Osló og rekst þar á þekktan kverólant, sem segist vilja lána Íslandi 2.000 milljarða. Þetta bull varð undirstöðufrétt í heila viku og aðalumræðuefni á Alþingi. Aldrei höfðu fréttamenn fyrir því að kanna með einu símtali til Noregs hvaða maður þetta væri eiginlega.

Síðar kom fram að þessi maður hefði undirritað yfirlýsingu um að það kæmi aldrei til greina að lána íslendingum eina krónu fyrr en þeir væru búnir að hreinsa til hjá sér og uppfylltu alþjóðlegar reglur á fjármálamarkaði. Það var rosalegt grín sem norðmennirnir, sem voru á ráðstefnunni sem ég minntist á í upphafi, gerðu af okkur íslendingum vegna þessa máls, Svo mikið að maður baðst vægðar.

Íslendingar hafa látið stjórnmálamenn sína komast upp með margskonar spillingu sem ekki er liðin í öðrum löndum. Margoft hafa komið upp stöður hjá íslenskum ráðherrum sem í öðrum löndum væru ekki liðnar, jafnvel kostað afsagnir. Steinar Sigurjónsson sagði í bókinni Blandað í svartan dauðann: “Íslendingar eru hænsn!”
Eru íslendingar hænsnalýðveldi? Varphænur heimskunnar?!

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir góðan pistil Guðmundur. Ég bjó lengi í Svíþjóð og þar er umræðan á mun hærra plani alemnnt. Líklega erum við enn föst í klisjum þar við höfum ekki komist enn úr fyrirgreiðslu- og ættarsamfélaginu þar sem flokkafyrirgreiðslur þrífast vel. Það er mjög grátlegt að sjá að íslenskir fjölmiðlar hafa vart lifað af hrunið. Umræðan var slöpp fyrir hrun, en er afleit núna. Verkalýðshreyfingin hefur gert margt gott í gegnum tímana, en auðvitað er hún hluti af kerfinu og fær á sig vantraust eftir hrunið. Þá þarf að taka markvisst á því. Kveðja, Ingi Rúnar

Nafnlaus sagði...

Fínn pistill
kv Úlfur

Nafnlaus sagði...

Mjög góður og skýr - að venju
KÞG