sunnudagur, 4. október 2009

Tillögur Félags stórkaupmanna

"Félag íslenskra stórkaupmanna vill að framlögum atvinnurekenda í sjóði launþega verði tímabundið ráðstafað beint til launþeganna sjálfra. Þetta er ein hugmynda samtakanna til að fá hjól efnahagslífsins til að snúast á nýjan leik."

Hér er í besta falli um að ræða misskilning FÍS að ræða eða kannski þekkingarskort.

Umrædd framlög eru ekki framlag fyrirtækja, þetta er hluti launa. Sama gildir um veikindadaga, orlofsdaga og lögbundna frídaga, það er hluti launa sem vinnuveitandi leggur til hliðar og greiðir síðar út. Það er gert ráð fyrir þessu öllu í rekstrarkostnaði og kemur m.a. glögglega fram í mismun á útseldri vinnu og því sem starfsmaður fær í sitt launaumslag. Þessar stærðir eru allar vel þekktar og oft nýttar í gerð kjarasamninga þegar verið er að ræða heildarlaunakostnað fyrirtækja.

Það eru allmargir sem hafa kosið að fara þessa leið sem FÍS leggur til núna á undanförnum árum og gerast verktakar/undirverktakar, gerviverktakar eða hvað menn nú vilja kalla það og fá þá til sín frá vinnuveitanda launatengd gjöld og standa síðan sjálfir skil á þeim og standa sjálfir undir greiðslum til sín á frídögum og í veikindum. Sumir hverjir hafa þá kosið að standa utan stéttarfélaga og reyndar hafa sumir einnig kosið kosið að skerða að auki það sem þeir greiða til samfélagsins.

Enginn hefur staðið í vegi fyrir þessu fyrirkomulagi, utan þess að skattrannsóknastjóri hefur stundum eitthvað verið að vesenast. En nú standa margir þessara einstaklinga við dyr stéttarfélaganna og vilja komast í skjól samtryggingarsjóðanna, auk þess að gera kröfur um greiðslur frá atvinnuleysistryggingakerfinu.

En samtryggingakerfi eru eins og önnur tryggingarkerfi, ef þú greiðir ekki iðgjald þá ertu einfaldlega ekki með réttindi. Þú tryggir ekki eftir á. Ekki er hægt að gera kröfur til þess að njóta þeirra sjóða sem aðrir eru að greiða í en viðkomandi gerir ekki.

Svo er það spurning hvort hér sé um að ræða blekkingarleik Félags stórkaupmanna við að koma sér hjá því að greiða launatengd gjöld og koma þeim kostnaði yfir á launþegana.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er þetta ekki hluti af því liði sem kom okkur á þann stað sem við erum núna ?

Hvernig væri að þetta lið hugsaði um sínar skildur áður en þeir fara setja okkur fyrir einhverjar reglur ?

Nafnlaus sagði...

Ef við gefum eftir nú, náum við því aldrei tilbaka.
Ólafur

Nafnlaus sagði...

Þarna er ekki verið að tala um grunnframlög í sjóðina , heldur bara aukabitlingana.
Hvaða vit er í því að félagi í VR er skyldaður til að safna í einka-sjúkrasjóð og hann þarf síðan að sækja um að fá peningana SÍNA þegar hann vantar gleraugu eða gervifrjóvgun?? Er þetta ekki forsjárhyggja af verstu sort?
Mikill meirihluti verkafólks er illa meðvitaður um réttindi sín svo ég er viss um að margir deyja frá ónotuðum réttindum. Hvert fara þá þessir peningar, getur einhver svarað því?
Hvernig væri að fólk fengi bara þessa peninga strax og þeir sem vilja geta lagt inn á sína einka-sjúkrabók, aðrir eytt þeim í annað.

Guðmundur sagði...

Ég ætla ekki að svara fyrir hvernig VR hefur sett upp sitt kerfi og verð að viðurkenna að ég skil það ekki.

Þeir sjóðir sem greitt er af og eru í vörslu þess sambans sem ég stjórna og flestra annarra stéttarfélaga eru samtryggingarsjóðir. Sumir einstaklingar lenda í skakkaföllum og þurfa að fá styrki eða sjúkradagpeninga, þeir geta fengið margfallt það sem þeir hafa greitt til sjóðanna, á meðan aðrir eru heppnir og þurfa ekki á þessum styrkjum að halda. sama gildir um orlofskerfið og starfsmenntakerfið