föstudagur, 9. október 2009

Umhverfisþing

Var á Umhverfisþing í dag einn af ræðumönnum. Hjálagt er innleggið :

Hvers vegna á verkalýðshreyfingin að láta sig loftslagsmál varða? Svarið liggur í augum uppi, þ.e.a.s. að hættan er svo alvarleg, að öllum virkum öflum í samfélaginu ber skylda til að láta að sér málið varða. Ef draga á úr losun gróðurhúsalofttegunda, fyrirbyggja loftslagsbreytingar og laga sig að þeirri stöðu, mun það valda gífurlegu álagi á fyrirtæki og þjóðfélagið í heild.

Verkalýðshreyfingin gæti dregið sig í hlé á þessum vettvangi og takmarkað hlutverk sitt við baráttuna fyrir sanngjörnum launum og fullnægjandi aðbúnaði á vinnustöðum. Það væri hins vegar óábyrg afstaða. Ef vinnustaðir okkar aðlaga sig ekki, munu íslensk fyrirtæki ekki hafa þann nýja tæknibúnað sem tryggir sjálfbærni til frambúðar og glata samkeppnishæfni.

Umhverfisstefna skiptir okkur mjög miklu, ekki bara til þess að tryggja lífsgildi okkar, heldur getur það haft gríðarleg áhrif á atvinnuþróun. En það eru einnig mikil tækifæri í þessari stöðu. Græn atvinnustarfsemi hefur aukist gríðarlega í Evrópu á seinustu árum. Þar eru nú þegar mörg störf og um há laun að ræða. Það er því áríðandi að koma umhverfisvænni hugsun inn í skólanna og móta strax allt starfsnám á þessum grunni.

Norræn og evrópsk verkalýðshreyfing hefur mikið látið til sín taka í loftslagsumræðunni á vegum Sameinuðu þjóðanna og mun á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn kynna áherslur sínar um samtvinnaða áætlun um sókn í atvinnumálum á grundvelli sjálfbærni og grænna starfa sem og verndun loftslagsins.

Loftslagsvandinn krefst víðtækra aðgerða í öllum löndum. En slíkum aðgerðum er aðeins hægt að ná fram með metnaðarfullri og víðtækri alþjóðlegri samstöðu. Magn gróðurhúsaloftegunda sem losað er um heim allan er það sem ræður úrslitum um hlýnun jarðar í framtíðinni. Norrænn vinnumarkaður hefur þá sérstöðu að vera ákaflega skipulagður með öflugum launþegasamtökum og samtökum fyrirtækja. Það hefur ásamt samstarfi við yfirvöldgert félagslega endurskipulagningu mögulega.

Mörg ný græn störf eiga eftir að verða til á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Verkalýðshreyfingin mun láta að sér kveða í þessum efnum . Á sama hátt er mikilvægt að leggja áherslu á að grundvallartilgangur orkustefnu er að tryggja öruggar og umhverfisvænar orkubirgðir á viðráðanlegu verði og tryggja samkeppni í atvinnulífinu. Þetta þýðir að orkugjafar framtíðarinnar þurfa að uppfylla skilyrði um hátt framleiðnistig og mikil afköst.

Við höfum gert sífellt meiri kröfur til hagkvæmni og meiri arðsemi. Undantekningalaust er gengið að lægsta tilboði. Þegar John Glenn geimfari var settur í eldflaug og skjóta átti honum í kringum jörðina. Þegar verið var að óla hann niður við eldflaugina töluðu tarfsmenn um að nú myndi öðrum jarðarbúum sýnt mesta tækniafrek til þessa. En það sem rann í gegnum huga Glenns var ” Ó góði Guð verndaðu mig. Hér sit ég á ólaður niður á haug af lægstu tilboðum.”

Blind hagkvæmni hefur ráðið ákvarðanatöku okkar og mun gera það áfram. En það eru viðmiðin sem þarfnast endurskoðunar. Röng viðmið hagkvæmni hafa leitt okkur í þá stöðu að hafa óviljandi eitrað eða ofhitað plánetu okkar og þar með okkur sjálf. Við höfum misnotað vatn, og jarðveg í miklum mæli og troðið um tær þúsundir dýra og plöntutegunda sem aldrei eiga afturkvæmt. Við höfum aðhafst ýmislegt sem aldrei verður hægt að færa í samt lag.

Grænn hugsunarháttur er ekki afturhvarf til fortíðar og atvinnuleysi eins margir halda fram í umræðu um þessi mál. Það eru nánast óendanlegir möguleikar á hinu svokallaða græna sviði sem á sér ört vaxandi stuðning í heiminum í dag. Það eru gríðarlegir möguleikar á sviði lífefnaiðnaðar og mikill áhugi að koma til Íslands. Það er þegar uppgangur á þessu sviði hér á landi en gæti verið töluvert meiri. Einnig liggur fyrir að það sé hagkvæmt að framleiða ákveðnar tegundir af grænmeti hér á landi með vistvænni raforku.

Ísland hefur allt til að bera að geta orðið grænt samfélag, ekki bara á nokkrum sviðum heldur allt samfélagið og við eigum að stíga það skref. Akkúrat núna við upphaf endurreisnar samfélagsins. Það mun laða hingað öfluga fjárfesta. Nokkrir af þeim sem eru fremstir í þessum flokki komu hingað síðasta haust á vegum Bjarkar og þeir lýstu því yfir að ef við myndum fara inn á þessa braut þá þyrftum við ekki að óttast skort á fjármagni. Fjárfestar á þessu sviði væru á meðal þeirra sterkustu í heiminum.

Sé litið til byggingariðnaðar þá gengur grænn byggingariðnaður mjög vel í Bandaríkjunum í dag. Þar er verið að endurbyggja hús þannig að þau verði að mestu sjálfbær. Einangra þau, setja á þau sólarsellur. Endurnýja allar raflagnir og loftræstingu. Þetta hefur leitt til þess að veikindi starfsmanna í þessum húsum snarminnka og framkvæmdagleði og afköst starfsmanna vaxa. Húsaleiga í grænum húsum er töluvert hærri en í húsum sem ekki eru með grænan stimpil. Þannig að það er hagkvæmt að leggja meir í þau. Enda eru grænir fjárfestar í góðum málum í Bandaríkjunum.

Við höfum gríðarleg tækifæri á að nýta samkeppnisforskot okkar í hreinum matvælaiðnaði með því að vera græn í fiskveiðum og fiskvinnslu og það sama á við um íslenskan landbúnað. Íslenska lambið, ostarnir og grænmetið er hrein náttúruafurð og alveg ljóst að við getum orðið mun öflugri matvælaframleiðendur sem byggjum á forsendum sjálfbærni og grænni framleiðslu. En til þess þurfum við að tryggja okkur aðgang að umheiminum, við verðum að opna landamærin fyrir útflutningi matvæla. Það gerum við best með fullri aðild að Evrópusamvinnunni fyrir sjávarútveg og landbúnað þar sem skilningur á sjálfbærni er til staðar og mikill áhugi fyrir okkar afurðum.

Íslensk orka er ekki ótakmörkuð eins og sumir stjórnmála- og embættismenn virðast halda. Við erum að framleiða ál hér á landi með hreinni og sjálfbærri orku sé litið til raforkuframleiðslu annarsstaðar. En við eigum líka að vera raunsæ og gæta okkur á því að álið verði ekki of stór þáttur í útflutningstekjum okkar, við höfum brennt okkur á því að vera með of fá egg í körfunni, eins og t.d. fiskurinn var á sínum tíma eða svo maður tali nú ekki um hið baneitraða og ofurstóra bankaegg.

Við getum snúið okkur að framleiðslu á sólarsellum. T.d. með uppbyggingu á kísilflöguverksmiðjum í Hvalfirði og í Þorlákshöfn. Sólarrafhlöður eru einn þeirra þátta sem munu leiða til minni losunnar gróðurhúsaloftegunda í andrúmsloftið.

Mörg fyrirtæki hafa sýnt áhuga á að koma hingað með framleiðslu á sólarrafhlöðum og aflþynnum eins og framleidd er á Akureyri. Koltrefjaverksmiðja er einn af þeim áhugaverðu kostum sem okkur stendur til boða.

Það er hröð þróun í rafgeymum og rafbílar munu taka við. Það er ekki ólíklegt að eftir 10 ár verði raforka a.m.k. helmingur þeirrar orku sem íslenskur bílafloti nýtir. Ekið verður inn á hleðslustöð og skipt um rafgeyma. Það kallar á orku úr raforkukerfinu sem samsvarar framleiðslu Kárahnjúkavirkjunar. Þá værum við í mun lakari stöðu ef við værum búinn að selja stóran hluta af hagkvæmustu orkuframleiðslumöguleikum okkar í framvirkum samningum til erlendra auðhringa til margra áratuga.

Miklir möguleikar eru fyrir minni orkuframleiðendur en Landsvirkjun eins og t.d. bændur sem eru að byrja að virkja minni ár í eigin landi. Við getum með þeim hætti framleitt mikla orku vítt og dreift um landið og með því reist vistvænar verksmiðjur af heppilegri stærð, með mannaflaþörf á bilinu 50 – 200 manns. Með góðri skipulagningu væri ekki um að ræða kollsteypuuppbyggingu eins og ríkisstjórnir okkar hafa tíðkað hingað til.

Hvað varðar umhverfismál á ferðamannastöðum þá er þörf á fjöldatakmörkunum ferðamanna á viðkvæmum landssvæðum. Ísland býr yfir einstökum tækifærum við að friðlýsa stór svæði. En það kallar á miklar fjárfestingar endurgerð stíga og uppbygging til þess að stemma stigu við eyðileggingu stjórnlausrar notkunar.

20. öldina hefði mátt kalla öld olíunnar og plastsins. Það er erfitt í dag að ímynda sér veröld okkar án plasts en sú verður engu að síður raunin þegar olíuna þrýtur. Í þessum efnum skiptir ekki máli hvort hún endist í 50-100 ár eða 150 ár í viðbót. Áhrifa af þverrandi olíuframboði mun gæta miklu fyrr. Sama gildir um önnur jarðefni sem nýtt eru til orkuframleiðslu.

Víða um heim eru í gangi víðtækar rannsóknir á sviði nýrrar efnistækni. Ýmislegt bendir til þess nú þegar að kostir okkar í þessum umbreytingum verði mjög spennandi. Hér kemur til spennandi samspil á nýtingu varma sem afgangsstærðar við raforkuframleiðslu með jarðhita og hagnýtingu á hverskonar lífmassa. Þessi varmi mun í framtíðinni leggja grundvöll að viðtækum lífrænum efnaiðnaði hér á landi.

Ef okkur á að takast að draga nægilega úr losuninni er brýnt að ná víðtæku samkomulagi um loftslagsmál sem nær til eins margra sviða og landa og mögulegt er. Iðnríkin hafa nú sem stendur hæsta hlutfall útblásturs á hvern íbúa. Losun á koldíoxíði vegna framleiðslu og orkuneyslu er um tveir þriðju af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum.

Orkusparnaður er mikilvægt tæki í baráttunni við loftslagsbreytingar. Auðveldast er að ná honum fram með nýjum fjárfestingum. Einnig getur verið áhrifaríkt að skipta um drifefni eða eldsneyti. Breytt neyslumynstur og breyttir framleiðsluhættir eru nauðsynleg til að sigrast á þeim áskorunum sem loftslagsvandinn leiðir af sér.

Þetta mun leiða til meiriháttar endurskipulagningar. Áhrifin á atvinnustig munu í heild velta á getu hagkerfa til að skapa ný störf. Í vel stýrðum ríkjum er hægt að koma á endurskipulagningu til lengri tíma án þess að tapa störfum. Miðað við hefðir eru íslendingar vel í stakk búnir til þess að takast á við þetta. Ísland hefur allt til að bera til þess að geta orðið fyrst til þess að allt samfélagið hér uppfylli þessi skilyrði.

Engin ummæli: