þriðjudagur, 8. desember 2009

Allt í rúst

Það er skelfilegt að heyra málflutning nokkurra af fulltrúum austur Evrópuríkjanna hér á Evrópuþinginu. T.d. flutti kona frá Serbíu þrumuræðu hér áðan og alla setti hljóða. Staðan þar er sú að launamenn eru þvingaðir til þess að ganga úr stéttarfélögum og markvisst komið er í veg fyrir að þeir geti staðið saman í hagsmunabaráttu. Ef einhver vogar sér að gera einhverjar kröfur þá er þeim hinum sama hent út á götu í atvinnuleysið.

Kjarasamningar hafa verið afnumdir og ríkisstjórnin vinnur einhliða með fyrirtækjum í að ákvarða kjör fólks. Félagsleg réttindi eru fótum troðin. Fátækt er gríðarlega mikil og margt fólk sem ekki getur skaffað mat á borð fjölskyldu sinnar.

Spilling stjórnmálamanna og samherja þeirra í viðskiptalífinu er mikil og landið í höndum fjármálaspekúlanta. Fyrirtæki sem áður voru í eigu almennings eru gefin til samherja. Lán ríkisins vaxa sífellt meir og illa nýtt.

Fjármunir fluttir úr landi fyrirtækin standa eftir sem tóm skel og fólk fær ekki borguð laun. Almenngisflutningakerfið og vegakerfið er í rúst, heilbrigðisgæslan versnar fyrir fólk sem ekkert á. Skólakerfið stenst þetta ekki. Allt þjóðfélag okkar er í rúst eftir að frjálshyggjan mætti hér, þrumaði kona yfir okkur.

Þið verðið að sýna þolinmæði gagnvart okkur, þó einhver vandræði séu hjá ykkur. Þið í norður Evrópu hafið það best og verðið að átta ykkur á því að ef þið slakið á þá föllum við bara neðar. Viðmiðin eru sett við stöðu ykkar.

Nú mæta þeir launamenn okkar, sem hafa farið vestur á bóginn til þess að reyna að afla tekna svo þeir geti séð fjölskyldi sinni farborða, harðræði á vestræna vinnumarkaðinum og eru hraktir úr störfum og verða að fara í neðanjarðarhagkerfið til þess að reyna að bjarga sér.

Einangrunarstefna leiðir einungis til meira vandamála. Þið verðið að huga að því að 50% evrópubúa eru með undir 35.000 kr. í laun á mánuði. Hjá okkur eru konur þrælar með engin réttindi.

Það er okkur úr norðrinu nauðsynlegt að vera minnt á það öðru hvoru að það er til fólk sem er í verri stöðu en við, jafnvel fólk sem býr í sömu álfu og við og er rétt hjá okkur.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er einmitt þetta sem gerir mann svo reiðan þegar núverandi stjórnarandstaða er að tala um að Ísland sé orðið að þriðja heims ríki með Icesave samkomulaginu.

Þeir ættu að máta skó þessa fólks!

kv.
Haukur

Nafnlaus sagði...

Stattu þig í varnarbaráttunni
kv SI

Nafnlaus sagði...

Og svo erum við að væla, okkar vandamál er eitt vanhæfir stjórnmálamenn
Þröstur

Nafnlaus sagði...

Það er okkur nauðsynlegt að fá svona gusu, til að vekja okkur í hinni geggjuðu umræðu sem fer fram heima
kv frá Köben Steini

Nafnlaus sagði...

Og þetta fólk hélt að það væri verið að bjarga því frá kommúnistum. Hinn grímulausi kapítalismi blasir nú við
Sigurður

Nafnlaus sagði...

Skýr skilaboð
Takk Gunnar Örn