mánudagur, 28. desember 2009

Ónýtur gjaldmiðill

Á undanförnum misserum hafa íslenskt fyrirtæki, þá sérstaklega forsvarsmenn sprotafyrirtækjanna, bent á að það sé nánast útilokað að byggja upp fyrirtæki á Íslandi í umhverfi krónunnar. Hinar gríðarlegu sveiflur og óstöðugleiki geri alla áætlanagerð óframkvæmanlega. Umsókn að Evrópusambandinu er stórt skref í á að tryggja íslensku hagkerfi stöðugleika.

Uppbygging sprotafyrirtæka af heppilegri stærð er það sem við eigum að skoða. Við höfum sýnt mikla færni á því sviði, öflugt og sveigjanlegt vinnuafl og eigum verðmæt sprotafyrirtæki, sem geta gert stóra hluti sé þeim búið eðlilegt umhverfi. Það hefur komið fram hjá forsvarsmönnum þessara fyrirtækja að þeir sjá ekki sína framtíð hér í óbreyttu efnahagsumhverfi og með óbreyttum gjaldmiði. Þeir hafa bent á að þau gætu flutt heim nokkur hundruð atvinnutækifæri sem starfa hjá þessum fyrirtækjum erlendis.

Algengt viðkvæði íslenskra stjórnmálamanna sem verja krónuna er að benda á lönd innan ESB. Þar sé við mikil efnahagsvandamál að etja, en staðreyndin er sú að ekkert þessara landa hefur upplifað fullkomið hrun eins og við. Kaupmáttur þar er ekki í falli vegna gengisfalls gjaldmiðilsins.

Á þessum forsendum skilur maður ekki hvers vegna umræða um þessi mál fer ætíð út um víðan völl í upphrópunum með endurteknum marklausum klisjum. Sumir nýta það sem rök að með krónunni sé hægt að stýra afkomu útflutningsgreina með gengisfellingu. Íslenskir stjórnmálamenn hafa nýtt sér örgjaldmiðilinn krónuna til þess að rétta af slaka efnahagsstjórn og hafa með því gefið kjarasamningum launamanna langt nef.

Verðbólga í nágrannalöndum okkar er og hefur verið umtalsvert lægri en hér og sveiflur eru margfalt minni. Það hefur leitt til þess að vextir þar eru margfalt lægri og ekki þörf á verðtryggingu eða greiðsludreifingu á vaxtagreiðslum. Verðlag þar er lægra og stöðugra. Vextir á húsnæðislánum og langtímalánum á bilinu frá 2,4% - 5%. Þar er fólk ekki að tapa eignum sínum vegna ónýts gjaldmiðils, ofurvaxta og verðtryggingar. Þar getur fólk selt eignir sínar og flutt þær, t.d. til annarra landa. Hér í krónuumhverfinu er hvorugt hægt. Hér verða ellilífeyrisþegar að éta það sem úti frýs undir lakri stjórn stjórnmálamanna.

Vextir hér á landi verða alltaf a.m.k. 5% hærri á Íslandi en innan Evrusvæðisins vegna krónunnar. Ef fjölskylda kaupir sér hús á Íslandi og önnur kaupir sér hús t.d. í Danmörku. Þá er staðan sú eftir 20 ár að þá hefur íslenska fjölskyldan greitt sem svarar andvirðis tveggja húsa, séu greiðslur bornar saman við endurgjald dönsku fjölskyldunnar.

Ekkert land í Evrópu hefur orðið fyrir jafnmiklu kerfistjóni og Ísland, það er vegna hruns krónunnar. Ekkert Evruríki hefur orðið fyrir jafnmiklu tekjutapi og hér, það er vegna hruns krónunnar. Tekjustofnar ríkissjóðs hafi hrunið um tugi prósenta. Ísland er fullkomlega rúið efnahagslegu trausti, það er vegna krónunnar. Hér má vísa til ummæla forsvarsmanna atvinnulífsins. Rekstur reistur á traustum grunngildum í stöðugu umhverfi verður stöðugur og leiðir jafns vaxtar og skapar störf. Það rekur engin fyrirtæki til langframa með bókhaldsblekkingum. Hér hafa fjárglæpamenn hagnað af því að taka stöðu gegn krónunni og það lendir svo á skuldsettum fjölskyldum að verða enn skuldsettari og búa við mun lakari kaupmátt.

Íslenskt atvinnulíf getur ekki endurfjármagnað sig, það er vegna krónunnar Lönd sem eru með Evru eru ekki í sömu vandræðum. Vextir hér eru hærri vegna krónunnar. Vextir leiða til hærra verðlags. Óstöðugur gjaldmiðill gefur af sér enn hærra verðlag og knýr fram verðtryggingu. Það eru aðstæður og skilyrði sem ákvarða hvort fyrirtæki vaxa og dafna.

25% af launum íslendinga fara í aukakostnað vegna krónunnar. Til þess að hafa svipuð laun og annarsstaðar á norðurlöndunum þurfum við að skila 25% lengri vinnuviku. Hvergi hefur eignatap einstaklinga orðið eins mikið og hér, það er vegna hruns krónunnar. Stór hluti af verðfalli eigna lífeyrissjóða og sjóða þar sem fólk geymir sparifé sitt er vegna þessa kerfisfalls krónunnar og þessi hluti stefnir í að verða langstærsti þátturinn í verðfallinu.

Krónan heldur íslendingum í efnahagslegum þrælabúðum.

18 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"Sammála þér Guðmundur. Það verður að fara að taka á þessu."
Hervar

Nafnlaus sagði...

Hjartanlega sammála þér Guðmundur. Það verður að fara að vekja aftur umræðu um okkar handónýta og þjóðhættulega gjaldmiðil

Nafnlaus sagði...

Gjaldmiðil sem formaður VG telur einmitt vera svo frábæran kost fyrir landi og þjóð að það sé nægilega rík ástæða til að halda Íslandi utan ESB.

Á meðan fjármálaráðherra landsins skilur ekki (eða þykist ekki skilja) að krónan er fyrst og fremst sveifluvaldur ekki sveiflujafnari, eins og ýmsir andstæðingar ESB hafa reynt að halda fram, þá mun ekkert gerast að viti í gjaldmiðlamálum íslendinga.

Nafnlaus sagði...

Allt rétt.

Getur einhver sagt Steingrími J. þetta?

Hann virðist ætla aðstoða Sjálfstæðisflokkinn og kvótagreifana að halda almenning föstum í snöru Krónunnar.

Þetta er merkilegur andskoti og maður skilur ekki hvað Steingrímur er að fara með svona bull málflutning um að halda í krónuna.

Það er alveg sama hvert menn horfa það er ENGIN von á meðan Vinstri menn halda í þjóðernisrómantíkina og selja sér áfram sérstöðu Íslands.

Sérstaða Íslands kallaði yfir okkur Davíðshrunið.

Hafa menn ekkert lært?

Nafnlaus sagði...

Góður pistill hjá þér Guðmundur
Ingi

Thrandur sagði...

Já, þetta er skelfileg staða, Guðmundur.

Finnst líka skrítið hvað forystumenn verkalýðssamtaka benda lítið á kaupmáttarhrunið sem launmenn taka á sig. Auðvelt að bera það saman við Norðurlöndin.

Þrándur

Guðmundur sagði...

Skil það nú ekki, því verkalýðshreyfingin, það er að segja þau sem eru innan ASÍ hafa varla látið neitt frá sér fara þetta árið án þess að benda á þverrandi kaupmátt.

Ég veit ekki um önnur samtök

Nafnlaus sagði...

Hagfræðingar dönsku launþegasamtakanna eru ekki alveg sammála þér Guðmundur. (Ugebrevet A 4) Sælan er blendin innan Evrunnar svo ekki sé meira sagt.

Nafnlaus sagði...

Þú ert að hengja bakara fyrir smið Gummi.

Vandamálið er íslensk hagstjórn á undanförnum árum, ekki krónan. Kárahnjúkavirkjun setti í gang verðbólgu með fyrirsjáanlegum hætti, húsnæðisbólu sem leiddi til hærri vaxta sem síðan sogaði til okkar jöklabréfin. Og Davíð Oddson stöðvaði ekki inflæðið enda hafði hann enga faglega þekkingu í málaflokknum.

Þessi jöklabréf og myntkörfulánin eru svo ástæða þess að við höfum nú gjaldeyrishöft.

Krónan er góð fyrir útflutningssprotafyrirtæki nú um stundir (þmt ferðaþjónustu) og þeir sem hafa áhyggjur af genginu geta keypt gengisvarnir (s.s. valréttarsamninga).

Guðmundur sagði...

Þrát fyrir að að á borðinu liggi afdráttarlausar sannanr fyrir hversu mikill skaðvaldur íslenska krónan er, sérstaklega fyrir launafólk, standa varðhundar íslensku valdaklíkunnar vörð um að missa ekkert úr sínum aski og skrifa fjarstæðukenndar aths.

Nafnlaus sagði...

Það verður að hefja tiltekt strax í dag. Greinilegt er að ýmsir "félagshyggju og vinstrimenn" er farnir að gera því skóna að geta notað handónýtann gjaldmiðil til að deila og drottna einsog hægri menn hafa gert á sínum valdatíma.

Eitt gengisfall krónunnar er óumflýjanlegt, þ.e. þegar tilkynnt verður aflögn hennar. Það er í höndum stjórnmálamanna þessa lands hversu mörgu sinnum hún tekur stórar dýfur þar fyrir utan.
HG

Nafnlaus sagði...

Fróðlegt verður að fylgjast með þróun krónunnar á komandi misserum. Því miður er fátt sem bendir til styrkingar á henni, og við megum búast við töluvert meiri skerðingu vegna hennar á næsta ári.
SA

Nafnlaus sagði...

Rétt! Ef við ætlum að byggja á fjölbreyttu atvinnulífi en ekki "stóru" patent-lausninni á nokkurra ára fresti þá verðum við að fá nýjan gjaldmiðil.
DE

Nafnlaus sagði...

Ég myndi segja að það sé fjarstæðukennt ofsóknaræði að ,,varðhundar valdaklíkunnar'' standi vörð um sinn ask með því að skrifa aths á blogg þitt. Svona órökstuddar upphrópanir hjálpa umræðunni ekkert.

Hver hefur hagsmuni af því að halda krónunni? Þeir sem vilja ekki ganga inní ESB. Enginn annar hópur sem mér dettur í hug hefur afdráttarlausa hagsmuni af því að halda krónunni, þmt útflytjendur. Eru andstæðingar ESB = valdaklíkan?

Mér finnst skína í gegn að þú vilt ganga í ESB og því ertu að gagnrýna krónuna. Evran er engin allsherjarlausn, þá yrðu vextir vissulega lægri en atvinnuleysi hærra og svigrúm í ríkisfjármálum minna sbr þjóðhagfræði 101. Sem sagt, það er engin auðveld lausn, á endanum þarf hagstjórn að batna með eða án evru til að bæta hag almennings og fyrirtækja.

Guðmundur sagði...

Það er ekkert leyndarmál að ég er eindregið þeirrar skoðunnar að það sé einungs ein leið fyrir Ísland sé litið til framtíðar, það er að ganga í ESB

Þetta hefur margítrekað komið fram hér á síðunni og færð fyrir því margskonar rök
Ég geng ekki með veggjum og skrifa ekki undir nafni

Það þarf ekki annað en að líta til þess hvernig komið er og hvert sú einangrunarstefna sem rekinn hefur verið hér hefur leitt þessa þjóð

Stöðugleiki mun vaxa, vextir lækka, verlag lækka, kaupmáttur vaxa og svipað ástand verða hér á og á hinum norðurlandanna

En einangrunnarsinnar eru hræddir við að missa sín völd og halda áfram að reka sinn hræðsluároður, nafnlausir.

Guðbjörn Guðbjörnsson sagði...

Frábær pistill og mjög í takt við það sem ég hef bloggað undanfarin ár.

Það er með ólíkindum að t.d. Sjálfstæðislflokkurinn - minn flokkur - skuli ekki kaupa þessa augljósu rök.

Það er sorglegt - eiginlega réttara sagt grátlegt - að sérhagsmundir LÍÚ og fjármagnseigenda skuli vega þyngra en hagsmunir almennings og allra annarra fyrirtækja í landinu.

Nafnlaus sagði...

Já Guðmundur er búinn að benda á þetta í allmörgum pistlum undanfarin tvö ár og margir nýtt það frábæra efni sem Guðmundur hefur verið með.
Það er ótrúlegt hvernig Sjálfstæðisflokkurinn lætur einangraða sérhagsmuna valdaklíku ráða öllu og stingur málum undir stól eins og td. hinni góðu ESB skýrslu sem var unnin fyrir síðasta landsfund flokksins
Einn úr flokknum

Vilhjalmur Jesus Arnason sagði...

Það er algengur misskilnngu að segja að verðtrygging og háir vextir séu vegna krónunnar og að krónan sé orsök hrunsinns.

Þetta er ekki rökrétt og ekki satt.

Ég hef engra hagsmuna að gæta og á ekki kvóta eða skip.

Það sem hagkerfi okkar mátti þola vegna innflutts fé og fjármálagjörninga sem voru handsalaðir í fjármálakerfinu. vegna ofurskuldsetingar. Og annara þátta sem hafa ekkert beint samhengi við krónuna. Féll krónan.

Það er eins og þú sért að segja að spillingin í fjármálakerfinu og útlánin til valinna aðila hafi ekkert haft að segja. Þjófnaðurinn og allt það ógeðfelda var krónunni að kenna.