fimmtudagur, 31. desember 2009

Stóra smjörklípan

Farsinn sem stjórnarandstaðan bauð upp á í gærkvöldi var fjarstæðukenndur. Þar blasti við hin yfirgengilega afneitun og lýðskrum. Á tímum sem þessum er það fantaskapur að vekja væntingar hjá almenning sem ekki er innistæða fyrir. Það að stilla Icesave málinu þannig upp að málið snúist um hvort við veljum að borga eða borga ekki, er eitthvert mesta og ómerkilegasta lýðskrum sem boðið hefur verið upp á hér landi fyrr og síðar. Smjörklípa til þess að draga athyglina frá hinum raunverulega vanda.

Það er ekki boðlegt að þingmenn bjóði þjóðinni upp á götustráksleg frammíköll, ásakanir um landráð og óvinveittar þjóðir sem sameinist um að leggja Ísland að velli. Það er en skelfilegra að lesa ummæli eftir þingmenn sem hrósa sjálfum sér fyrir að hafa staðið sig vel, eins og maður les á facebókarfærslum í nótt og í morgun. Álit þingsins hefur fallið meira en krónan.

Hvar í veruleikanum er þetta fólk statt? Hvernig í ósköpunum komst svona fólk inn á þing? Umræðulist þessa fólks virðist ráðast af því einu að koma sér upp að minnsta kosti einum ógöngum, sem síðan bornar eru á andstæðinginn í endurteknu rakalausu stagli. Ætíð lendir umræða íslenskra stjórnmála í sama farveg. Tvö lið sem rífast um smjörklípur sem hent er reglulega inn í umræðuna. Ekkert miðar og engin ásættanleg niðurstaða næst.

Hvað ætla menn að gera ef ekki er gengið til samninga um Icesave? Hvað ætla menn að gera ef lánshæfismat Íslands fellur um tvo eða þrjá flokka? Hvernig ætla menn að byggja upp atvinnulíf ef fyrirtækin hafa einungis aðgang að fjármagni, sem er á þeim kjörum að framleiðsla þeirra verður ekki samkeppnishæf?

Hvað ætla menn að gera ef hátæknifyrirtækin verði að flytja höfuðstöðvar sínar til Evrópu? Landsvirkjun og Orkuveitan geta ekki endurfjármagnað sig? Nema á vaxtakjörum sem gera það að verkum að tvöfalda þurfi orkuverð hjá almenning, vegna þess að fyrirliggja langtímasamningar um fast verð hjá stórkaupendum og ekki fáist fjárfestar til þess að koma hingað vegna þess að orkuverðið er orðið of hátt.

En þessi málflutningur hefur haft þau áhrif, þegar hlustað er á umræður í heitu pottum sundlauganna, að þjóðin ræðir Icesave málið á kolvitlausum forsendum byggðum á óraunsærri óskhyggju og kemst þar af leiðandi að niðurstöðum, sem eru dæmdar til þess að valda svo miklum vonbrigðum þegar staðreyndir liggja fyrir og stóru dómarnir eru felldir af dómstólum götunnar og þá á að höggva á mann og annan. Þá er farið að og leitað að sökudólgum og þá njóta smjörklípumennirnir sín í skítkastinu. (InDefence)

Ísland getur ekki hafnað því að standa við alþjóðlegar skuldbindingar, sem voru staðfestar á þingi fyrir rúmu ári undir framsögu núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og þáverandi fjármálaráðherra. Síðan þá hefur legið fyrir að Ísland yrði að borga. Málið snérist einungis val um hvernig það yrði gert.

Ég hef áður vitnað nokkrum sinnum til ummæla hinna norrænu vina okkar, um að endaleysan á Íslandi gangi ekki lengur og íslendingar verði að fara að taka til hjá sér í efnahagsstjórninni. Í erlendum fjölmiðlum, þar sem rætt er við efnahagssérfræðinga um Icesave málið og niðurstöðu Alþingis, hefur komið fram að íslenskir stjórnmálamenn hafi fullkomlega misst sig í umræðum um málið og sú dramatík sem þeir hefðu dregið upp væri eitthvað svo íslensk og út í hött. Þessi vinnubrögð íslenskra stjórnmálamanna sem hafa dregið orðspor Íslands langt niður hjá vinaþjóðum okkar og ekki síður í sjálfsímynd íslendinga.

Þetta hefur tafið uppbygginguna um eitt ár og atvinnuleysi mun líklega tvöfaldast á næstu mánuðum.

Og Jóhanna Guðrún söng svo vel "Is it true, is it over" í Júróvisjón og náði 2. sæti. = Er það satt, að þetta sé búið?

Já ruglið er búið sem fyrrv. ríkisstjórnir settu upp og þrættu við erlenda eftirlitsaðila og norrænu, bresku og hollensku seðlabankastjóranna um að þetta gæti ekki staðist og Ísland yrði að grípa til aðgerða. Á meðan Seðlabankastjórnarmenn ásamt Fjármálaeftirlitsmönnum fóru um heimsbyggðina með aðalklappstýrunni, Forseta Íslands, og reyndu að telja fólki í trú um Íslenska efnahagsundrið.

22 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heyr heyr Guðmundur! Samþykkt Icesave í nótt er sigur almennrar skynsemi.

Maður var farinn að óttast að heimóttalegheitin, lýðskrumið og ginkeypt aulamennska myndi ráða ferðinni.

Freyr

Nafnlaus sagði...

Gæti ekki orðað þetta betur!

Umræðan er á villigötum og eitthvað svo týpískt fyrir íslendinginn... þetta reddast hugarfar.

Hlutirnir reddast þar til þeir hætta að reddast. En ekki einu sinni eitt stykki Efnahagslegt Hrun hefur kennt þessari blessaðri þjóð lexíuna. Enn er stór hluti þjóðarinnar í djúpri afneitun. Sorglegur andskoti.

Jón H. Eiríksson

eidur sagði...

Sammála hverju orði !

Hordur Torfa sagði...

Takk fyrir góða grein minn kæri. Loks virðist Íslenska þjóðin að vera að komast áfram að réttu marki. En mikið er eftir og þá verðum við að bretta upp ermarnar og takast á við vandann. Þetta gerist ekki fyrirhafnarlaust.

Vil nota tækifærið til að senda þér héðan frá Ítalíu, allar mínar bestu óskir um ómælda farsæld á komandi ári og þakkir fyrir öll þau liðnu.

Hörður Torfason

Nafnlaus sagði...

Jónas Kristjáns hittir líka naglann á höfuðið:

"Fimmtíuþúsund afneitarar

Hellingur af fólki lét hafa sig út í að heimta af forseta Íslands, að hann hafnaði IceSave. Í hópi afneitara eru auðvitað margir hrunverjar, kjósendur flokkanna, sem komu Íslandi í klípuna. Vilja þar á ofan gera hana verri með því að skrúfa fyrir fjárhagslegar fyrirgreiðslur að utan. Undirskriftirnar fimmtíuþúsund eru afneiturunum til ævarandi skammar. Létu hrunverja etja sér út í hættulega þjóðrembu, sem vonandi verður ekki bænheyrð. Nóg er búið að spilla fyrir okkur með töfum á góðu sambandi við útlönd, þótt forsetinn auki ekki vandann. Nú getum við loksins sett utanríkismálin í eðlilegan farveg. "

Nafnlaus sagði...

Beittur og nákvæmur að venju. Beint í mark
Úlfur

Nafnlaus sagði...

Besta greiningin í dag
Kristinn Þór

Nafnlaus sagði...

Nafni minn hittir naglann á höfuðið eins og svo oft áður

Nafnlaus sagði...

Eins og svo oft á þessu ári hittir Guðmundur naglann þráðbeint á höfuðið
GP

Nafnlaus sagði...

Svo satt æææææææææi þetta er svo mikið satt.
Áramótakveðjur Erna

Nafnlaus sagði...

Klappastýran mun framlengja. Því miður
Björgvin

Nafnlaus sagði...

Það var svo áberandi hvernig þingmenn Flokksins sem er með stærsta hóp Evrópusinna, hömruðu á því að þetta væri undanfari kröfu um inngöngu í ESB. Getur þetta fólk aldrei rætt málin af einverju viti? Verður maður virkilega að hætta fyrir fullt og allt að kjósa þennan flokk?
Elísa Ósk

Nafnlaus sagði...

úff, var farinn að halda að ég væri einn með þessa skoðun. Sammála þessum orðum þínum.

Jói

Nafnlaus sagði...

Mjög góður pistill Guðmundur. Því miður finnst mér að enn eini sinni hafi Alþingi glatað virðingu sinni.
Ingi

Nafnlaus sagði...

Snilldarlega orðað
Haddý

Nafnlaus sagði...

Tek heilshugar undir það sem áður er komið fram - snilldarlega skrifaður pistill

Ekki sá fyrsti - skyldulesning

Áramótakveðjur - vonandi gengur okkur betur á árinu sem er að bresta á

Runki

Nafnlaus sagði...

Hefur þú spáð í að gefa út "best off" pistla? Ættir að gera það í kjölfar niðurstöðu nefndarinnar
Góðar kv. Anna Sigga

Nafnlaus sagði...

Smjörklípan er að virka, sjálfstæðisflokkur hækkar í könnunum og 45 þús manns skrifa sig á lista InDefense. Ótrúlegt.
En Guðmundur greinir þetta vel eins og hans er von og vísa.

Nafnlaus sagði...

smjörklípan er að virka og Sjálfstæðisflokkurinn hækkar í könnunum. 45 þús. manns skrifa sig á lista InDefence. Ótrúlegt.
En Guðmundur greinir þetta vel eins og hans er von og vísa.

Nafnlaus sagði...

Hverjum finnst sinn fugl fagur

Nafnlaus sagði...

Sæll
Það er ljótt að skrökva að fólki - sérstaklega yfir hátíðarnar. Þú veist vel að þetta snýst ekki um að borga eða ekki. Stjórnarandsstaðan hefur samþykkt ríkisábyrgð, síðan í sumar.
Þetta snýst um eðlileg kjör og ekki að leggja það á þjóðina sem hún ekki ber.
Legg til að þú og þinn málflutningur, segji sig frá verkalýðsbaráttu.
Þú, eins og Gylfi, eruð í pólitík og ekki að verja umbjóðendur ykkar.
Kv.
Sveinbjörn

Nafnlaus sagði...

Jæja Guðmundur Nú er náhirðin mætt og nú á að ausa smá smjörklípum yfir verkaklýðshreyfinguna. Einhver rök, nei þau koma aldrei. Þannig gengur þetta alltaf. Öll vitum hverjir skrifa (semja) þessar aths.
Félagsmaður