miðvikudagur, 2. febrúar 2011

Formsatriðin og Hæstiréttur

Formsatriðin réðu úrskurði Hæstaréttar, en höfðu engin áhrif á niðurstöðu kosningarinnar, það er mesti kosningaglæpur sem framinn hefur verið í vestrænu lýðræðisríki, fyrr og síðar, segir Þórhildur Þorleifsdóttir um úrskurð Hæstaréttar. Undanfarna daga hefur hver lögfræðingurinn á fætur öðrum lýst efasemdum um þær forsendur sem hæstaréttardómarar reisa álit sitt á. Ég tek undir með stöllu minni „fyrrverandi væntanlegum stjórnlagaþingmanni.“

Það er sjaldgæft að hæstaréttardómarar mæti í drottningarviðtöl og stilli þar upp með aðstoð spjallþáttarstjórnanda hvítþvotti. Traustið á Hæstarétti Íslands féll mikið eftir viðtal við Jón Steinar hæstaréttardómara í Návígi. Þórhallur og hann byrjuðu þáttinn á því að reyna að byggja upp traust á því sem eftir átti að koma með því að marglýsa því yfir hversu hlutlaus Jón Steinar væri. Síðan kom lýsing á því að það ætti að rannsaka sérstaklega hvort dómarar yrðu fyrir áhrifum af þrýstingi og hávaða í samfélaginu.

Sérstaklega hefur Jón Steinar áhyggjur af sönnunarfærslu í kynferðisbrotamálum, að hún hafi farið minnkandi, sjálfsagt vegna utanaðkomandi þrýstings. álagið óheyrilegt. Óhuggulegt var að heyra hæstaréttardómara fjalla í spjallþætti brosandi um eitt tiltekið kynferðisbrotamál. Hvernig skyldi þolanda líða að þurfa að hlusta á þetta, ræddum við hjónin gáttuð.

Þegar talið barst hinsvegar að Stjórnlagaþingi og þeim formgöllum sem Jón Steinar sagðist hafa fundið, voru upp á borðum allt önnur viðhorf. Þar varð hann ekki fyrir utanaðkomandi þrýsting, og svo kom langur kafli með hverri fullyrðingunni á fætur annarri og hver þeirra í hrópandi mótsögn það sem áður hafði verið sagt. Hvernig vinnur þessi maður, veltum við hjónin fyrir okkur. Það er greinilegt að hann getur ekki náð heildstæðri niðurstöðu, hann tekur afstöðu eftir því sem honum hentar hverju sinni.

Við vitum að í öllum kosningum er fræðilega hægt að framkvæma allskonar svik. Ef margir vinna saman með einlægan brotavilja, bæði leikmenn og þeir sem vinna að framkvæmd viðkomandi kosningar. En staðreyndin er sú að við búum í lýðræðislegu þjóðfélagi, og það er hefð fyrir því að virða lýðræðislegar reglur, þess vegna reynir ekki á það að menn séu að reyna að svindla.

Það hefur reyndar verið dáldið erfitt að fá Sjálfstæðisflokkinn til þess að leggja af þann sið að stunda reglubundnar og skipulagðar njósnir um hverjir kjósi og hvernig þeir kjósi. Einnig að fá Flokkinn til þess að leggja niður skipulagt trúnaðarmannakerfi á vinnustöðum. Nú svo maður tali nú ekki um skipulagðar kosningavélar kostaðar af þeim sem vilja halda þessu samfélagi óbreyttu, svo þeir geti viðhaldið sínum sérréttindum.

Dómararnir úrskurðuðu réttilega um hnökra á kosningunni, en af hverju voru þá ekki allar kosningar á Íslandi hingað til ógiltar, það má gera með nákvæmlega sömu rökum og Hæstiréttur notar. Hæstiréttur ógilti núna lýðræðislega kosningu 83 þús. íslendinga. Hann hendir út um gluggann 250 millj. kr. kostnaði. Kosningin var vel heppnuð þrátt fyrir að tiltekinn Flokkur gerði allt sem í hans valdi var til þess að ófrægja, eyðileggja og fæla fólk frá þátttöku.

Viðurkennt er að kosningabaráttan var heiðarleg, engin bellibrögð, engar smurðar kosningavélar og niðurstaðan var að venjulegt fólk náði kjöri sem engin hefur gert athugasemdir við. Fólk sem hefur lagt fram heiðarleg og viðurkennd sjónarmið um það samfélag sem við búum í og vilja til þess að taka þátt í drengilegri umræðu um hvernig sé hægt að lagfæra það sem gagnrýnt hefur verið.

Engin önnur kosning í vestrænu ríki hefur verið dæmd ógild vegna slíkra mála. Kosningaglæpurinn sem framinn hefur verið er gagnvart þeim 83 þúsundum íslendinga sem mætti á kjörstað og valdi úr 522 manna hópi. Fólk sem greiddi atkvæði gerði ekkert rangt, en er nú sýnt rauða spjaldið af Jóni Steinari og félögum.

Það er verið að fótum troða lýðræðið. Þessi ákvörðun Hæstaréttar er rammpólitísk, hún hindrar lýðræðislegan framgang málsins, án þess að það hafi verið sýnt fram á að lýðræðinu hafi stafað nein hætta af þeim hnökrum sem Hæstiréttur bendir á. Við höfum beðið þolinmóð lengi eftir því að tekið verði á sérhagsmunagæslu, en nú seilast 6 hæstaréttardómar um hurð til lokunnar og nýta til þess ósannaðan orðróm.

Það má ætla að ef það verður kosið aftur mun Flokkurinn ræsa sínar kosningavélar og beita öllu afli sínu í pólitískum skotgröfum og leðjuslag. Þrælpólitískar kosningar með öllum þeim öflum sem þá fara í gang, fjármagni, áróðri auglýsingum og mannorðsmeiðingum. Þá munu margir sitja heima, eins og komið hefur fram er fólkið í landinu búið að fá nóg af flokkspólitísku ofbeldi. Venjulegt fólk tekur ekki þátt endalausum kosningar sem síðan Hæstiréttur lítilsvirðir þar sem úrslitin voru honum ekki þóknanleg.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

...dómari sem skilar séráliti þegar að hans áliti sannanir eru ófullnægjandi s.s. í kynferðisbrotamálum, en hvar voru rannsókninar og sönnunargögnin í þessu máli ??
Sjöfn

Nafnlaus sagði...

Get ekki verið meira sammála. Allir lögmenn sem ég umgegnst eru sammála um að Hæstiréttur er algjörum villigötum þarna
Þorri