miðvikudagur, 16. mars 2011

Takmörkuð sæla í Karphúsinu

Það fer ekki mikið fyrir sælunni sem samninganefndarmenn í Karphúsinu mæta þessa dagana. Að undangengnum Stöðugleikasáttmála þarf trúverðugleiki hugsanlegs 3ja ára nýs kjarasamnings að vera reistur á þokkalega góðum grunni. Sé litið til ummæla ráðherra undanfarna daga getur maður ekki annað en velt fyrir sér hvert þessi mál stefni.

Fjármálaráðherra hefur sagt að hann stefni á krónuna til framtíðar, þrátt fyrir að við launamönnum blasi reglubundið kaupmáttarhrap, stökkbreytingar skulda, ofurvextir og verðtrygging sem rekja má til krónunnar og þess efnahagsumhverfis sem hún skapar.

Forsvarsmenn allra helstu fyrirtækja landsins hafa sagt að það verði ekki byggt upp alvöruatvinnulíf hér á landi með krónu, sem muni valda því að Ísland verði láglaunasvæði.

Þeim sem vinna við gerð kjarasamninga er vel ljóst eigi þau markmið að nást sem menn hafa sett sér um kaupmáttaraukningu á samningstímanum, verði fjárfestingar hér að vera yfir 300 MIA ári. Fjárfestingar hafa verið undir þeim mörkum og hagkerfið er að dragast saman og hér ríkir vaxandi doði.

Þessu tengjast margar fjárfestingar sem eru fastar í stjórnkerfinu. Þá helst í skipulagsnefndum. Í þessu sambandi má benda á byggingar við námsmannaíbúðir við Háskólann, Landspítalann, fangelsi á Hólmsheiði, orkuver og línubyggingar á Suðurnesjum, virkjanir við Þjórsá og þannig mætti áfram telja.

Forsvarsmenn atvinnulífisins segja að það sé sjálfhætt með væntingar um langtímasamning rætist verði Icesave-samningurinn ekki samþykktur. Það muni leiða til þess að ekki verði af nauðsynlegu innstreymi af erlendu fjármagni í íslenskt atvinnulíf og það muni leiða til þess að ríkissjóður kalli á enn meiri skattahækkanir á næsta ári.

2 ummæli:

Hallur Heimisson sagði...

Sæll Guðmundur.
Fínn pistill.
Já það er ekki gott að átta sig á því hvert þetta samfélag stefnir, ef það stefnir þá einhvert.
Það hlýtur að fara að koma að því að ríkistjórnin fari að móta stefnu fyrir þetta samfélag til framtíðar.
Eina sem mótað hefur verið er umsókn að ESB sem annar stjórnarflokkurinn reynir sífelt að eyðileggja.
Það er sorglegt hvað margir sjá ekki samhengi hlutana.
Tilrauna aðild okkar að ESB með raungengi krónunnar í takti við Evru og Dollar mistókt hrapalega.
Hvenær ætlum við að læra að það módel sem við höfum fylgt fram til þessa, leiðir yfir okkur vinnuþrælkun og kaumáttar hrap ár eftir ár.
Komin tími á nútíma vestrænt samfélag hér.

Nafnlaus sagði...

Góð samantekt,

Verði Icesafe ekki samþykkt, eru ekki bara erfiðleikar framundan, heldur eru vaxandi líkur á greiðslufallil fyrirtækja og ríkis. Það myndi auka líkur á öðru bankahruni.

Hvað framtíðna varðar, þó að Icesave verði samþykkt, verður sennilega áframhaldandi og dýpri kreppa af mannavöldum, með vaxandi gjaldþrotum og auknu atvinnuleysi, verði ekki tekinn upp annar gjaldmiðill, þar sem krónan er rúin öllu trausti erlendis og er allt of smá og hættuleg.

Ástæðan fyrir því er einföld.

Auðlyndir og tækifæri Íslands verða að engu og hafa ekkert að segja ef ekki er hægt að nýta þessar auðlyndir og tækifæri.

Það verðu ekki hægt nema Ísland hafi traust á erlendum mörkuðum og hafi aðgang að erlendu lánsfé á sömu vöxtum og erlendir samkeppnisaðilar.

Það verður ekki hægt nema að taka upp nýjan gjaldmiðil - evru á grunni saminga við ESB.

Ísland er því pikkfast í vaxandi hörmungum af mannavöldum, sem ekki sér fyrir endann á.

Þetta þarf að fara að upplýsa almenning um.

Kannski hörmungarnar þurfi að verða miklu meiri til að menn opni augun fyrir ísköldum staðreyndum.

Eða hvað?