sunnudagur, 6. mars 2011

Skortur á heildarsýn og rökrænni umræðu

Þegar við talsmenn almenna vinnumarkarins hlustum á ræður stjórnmálamanna áttar maður sig fljótt á því að þar á ferð eru nær eingöngu einstaklingar sem hafa verið opinberir starfsmenn, fólk sem þekkir ekki almenna vinnumarkaðinn og hvernig kaupin ganga fyrir sig á eyrinni.

T.d. má velta því fyrir sér hvar stjórnendur efnahagskerfis 300 þús. manna þjóðar séu staddir í veruleikanum þegar þeir ætluðu sér samtímis að byggja upp eitt stærsta tónleikahús í Evrópu, viðskiptamiðstöð og nýja miðborgarkjarna, nýjan landspítala, færa miðstöð innanlandsflugs og byggja nýjan flugvöll, leggja 10 Mia jarðgöng til þess að tengja saman borgarhluta í Reykjavík, byggja 2 ný álver og stækka eitt um helming, reisa kísilverksmiðjur og gagnaver, samfara því að byggja um leið raforkuvirkjanir, sem voru samtals allt að tvöfalt stærri að orkugetu en Kárahnjúkar til þess að sjá um orkuþörf álveranna og einkavæða þekkingu í jarðvarma og selja hana til landa þar sem enn öflugri jarðvarmaþekking var til staðar.

Hvaðan áttu að koma fjármunir til þessara framkvæmda? Vissu þessir ráðamenn ekki hver árleg þjóðarframleiðsla var og er og hversu miklum hluta er hægt að verja til framkvæmda.

Pólitísk skilgreining hefur riðlast, nú hafa þeir sem eru lengst til beggja kanta í pólitíkinni vinstri og hægri sameinast undir merki Nei-sinna í Heimsýn, ekki bara gegn ESB, þessi hópur virðist eiga margt fleira sameiginlegt. Þetta staðfestir þær ábendingar að kenningar nýfrjálshyggju hafi verið reistar á hugmyndafræðilegum arftaka marxisma. Marxistar byggðu á allsherjarlausnum, sem hrundu til grunna sakir þess að það skorti heildræna yfirsýn, nákvæmlega sama og gerðist hjá þeim sem leiddu Ísland fram af bjargbrúninni án bremsufara undir fagnaðarhrópum þeirra klappstýra sem fóru um heimsbyggðina og lofuðu hið íslenska efnahagsundur.

Gamla demókratíska miðjuhægrið og hið norræna kratíska hægravinstri er aftur á móti að sameinast undir merkjum Já-sinna í varfærinni og yfirvegaðri nálgun við þann veruleika sem íslenskt samfélag býr við í dag með mikilli viðskiptalegri tengingu íslensks vinnumarkaðar og menntakerfis við ESB-svæðið. Á það er bent að hvergi í uppsveiflunni hafi verið gert ráð fyrir því að aukin verðmæti í samfélaginu ættu að bæta hag launamanna eða færa þeim varanleg verðmæti.

Í umræðu stjórnmálamanna er málum oftast skipt niður í box, umræða grundvölluð á heildarsýn fer sjaldan fram. Rætt er um að byggja margskonar orkufrek fyrirtæki, leggja sæstreng yfir til Evrópu og að flytja út orku. Þannig muni skapast umtalsverðar skatttekjur sem muni hjálpa fámennri þjóð til þess að standa undir dýru velferðarsamfélagi, hugmyndir sem praktískt séð standast skoðun.

Stjórnmálamenn eru síðan spurðir hvar eigi að framleiða alla þessa orku þá er svarið að það verði rætt í orkuboxinu. Þegar við mætum í þá umræðu þá eru í veginum margskonar fyrirvarar, skipulagslög, umhverfisvernd, samskiptavandamál við margskonar nefndir og fleira. Eða á mannamáli, það stendur ekki til að framleiða alla þá orku sem til þarf svo hægt sé að standa við þau fyrirheit sem gefin eru í framkvæmdaboxinu.

Semsagt það umræðan í framkvæmdaboxinu stenst ekki, það er ekki hægt að skaffa orku til Helguvíkurálversins öðruvísi en að virkja í neðri hluta Þjórsár. Það verður heldur ekki til það umframmagn af orku, sem þarf til þess að útflutningur orku borgi sig. Til þess þarf að virkja umtalsvert meir en þegar hefur gert. Endurbyggja þarf rafflutningskerfið og tengja Kárahnjúka saman við Þjórsársvæðið með línu yfir Sprengisand og virkja þá staði sem menn vilja ekki gera þegar í orkuboxið er komið.

Ég hef oft bent á umræðuhefð hér á landi einkennist af kappræðu, eða ofbeldi eins og háskólaprófessorarnir Páll Skúlason heimspekingur og Sigurður Líndal lögspekingur hafa ítrekað bent á. Hún einkennist á upphrópunum og órökstuddum klisjum sem menn hendi sín á milli. Kappræða sem hefur það markmið eitt að snúa út úr því sem síðasti ræðumaður sagði.

Í stað þess að fjalla um málefnið í góðri heildarsýn, er andstæðingum gerðar upp skoðanir og andsvör byggð á þeim grunni og ekkert miðar við að ná vitrænum niðurstöðum. Þegar ég hef bent á einfaldar staðreyndir eru viðbrögðin oft þannig að halda því fram að ég sé með gífuryrði. Hér á ég við ábendingar mínar um að vextir séu háir hér á landi vegna hins sveiflukennda örgjaldmiðils sem við höfum, það sé gjaldmiðillinn sem valdi því að kaupmáttur falli ekki slakir kjarasamningar, eða þegar ég bendi á götin í umræðu um framkvæmdir og orkuöflun.

Svo maður tali nú ekki um viðbrögðin þegar bent er á að launamenn á almennum vinnumarkaði gera samþykktir sem lýsa þeiri skoðun að þeir ætli ekki að sætta sig við að búa við versnandi lífeyrisréttindi samfara því að vera gert að búa við hækkandi skatta til þess að tiltekinn hópur opinberra starfsmann geti viðhaldið sínum lífeyrisrétti óbeyttum. Lífeyrisrétti sem eru ekki sjálfbær, styrkt úr ríkissjóð og langt umfram það sem almennu launafólki stendur til boða. Það koma engin gagnrök einungis persónulegar ásakanir og dylgjur. Þetta er í sjálfu sér nákvæmlega sama staða þegar skattgreiðendur í Þýskalandi neita að greiða niður lífeyrisskuldbindingar í spilltra stjórnvalda í Grikklandi.

Undanfarin misseri hafa forsvarsmenn tæknifyrirtækja sagt að gjaldmiðill okkar valdi því að fyrirtæki þeirra geti ekki vaxið hér á landi og verði að flytja héðan, þetta hefur verið endurtekið undanfarna daga. Forsvarsmenn litlu sprotafyrirtækjanna segja að þeir geti ekki byggt upp fyrirtæki hér á landi vegna þess að hér sé engin grundvöllur fyrir hlutabréfamarkað á meðan við höfum krónuna.

Í umboði hverra er forseti lýðveldisins með yfirlýsingar í erlendum heimsmiðlum um að hér eigi ekki að skipta um gjaldmiðil? Það sé svo gott að hafa gjaldmiðil sem hægt sé að aðlaga að efnahagserfiðleikum og það standi ekki til að opna íslenskt hagkerfi fyrir erlendu lánsfjármagni. Eða með öðrum orðum forseti lýðveldisins er að boða áframhaldandi stöðnum og að Ísland verði láglaunasvæði til framtíðar.

Sé litið til umræðunnar þá hefur það opinberast berlega fyrir okkur hversu löskuð umræðan er hér landi. Ekki bara hjá stjórnmálamönnum heldur hafa þar verið áberandi einstaklingar sem hafa verið ósparir á yfirlýsingar og sleggjudóma. Karl Sigurbjörnsson biskup sagði einu sinni;

“Níð og mannorðsmorð eru söluvara og ósjaldan stundað af þeim sem hæst hrópa og ákafast veifa fánum siðavendninnar. Áður hefðu Íslendingar verið þekktir fyrir orðheldni og heiðarleika. Menn stóðu við orð sín, handsöluðu skuldbindingar og stóðu við þær. Nú er sem mörgum finnist munnlegir samningar og fyrirheit lítils virði, flestallt sé afstætt. Stjórnmálin hafa lengi snúist um ímyndir og slagorð, sýndarmennsku og gylliboð.”

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Í fantagóðu formi og beittur að venju Takk

Nafnlaus sagði...

Sunnudagspælingar þínar alltaf í sérflokki
Kv. Þorri

Nafnlaus sagði...

Kjarni málsins,

Sama á við um leiðir út úr kreppunni.

Ef þessi hefð heldur áfram, þá er allar líkur að því að hin heimatilbúan kreppa á Íslandi, verði mörg ár í viðbót, þar sem engin vitræn niðurstaða er m.a. í umfjöllun um stærsta vanda þjóðarinnar, allt of lítinn og hættulegan gjaldmiðil.

Hvað gerist m.a. í kjarasamningum um gjaldmiðilinnn, kann að hafa áhrif,,,,

Nafnlaus sagði...

Virkilega vel skrifað og tekur vel á málinu

Morten Lange (Reykjavík) sagði...

Fín hugleiðing, nema að hún er kannski aðeins of mikið í anda kappræðna hvað varðar ESB-málinu.

Orðin sem þú hefur eftr fyrrverandi biskupi eru ágætt, en kannski tekin úr samhengi. Lausnir sem biskupar yfirleitt bjóða hafa oft lítið með rök og samvinnu að gera. Þú kallar höfundur orðanna í lokin
"Karl Sigurbjörnsson fyrrv. biskup", en hann er enn biskup, ekki satt ?
Kannski áttirðu við föður hans, sem fólk hafa sagt mér að hafi verið skynsamari maður, og ekki eins árásargjarn í garð öðruvísi hugsandi /trúandi /trúlausra manna ?