fimmtudagur, 24. mars 2011

Þingmenn vilja hækka laun verkalýðsforingja

Var að sjá í fjölmiðlum að þingmenn Hreyfingarinnar hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um þak á laun forsvarsmanns stéttarfélags eða hagsmunasamtaka launafólks og þau eigi að takmarkast við þreföld lágmarkskjör í kjarasamningum viðkomandi stéttarfélags.

Þingmennirnir telja að baki þessarar tillögu séu rík sanngirnissjónarmið enda eru þessi laun greidd úr sameiginlegum sjóðum verkalýðsins. Með þessu telja þau tryggt að hámarkið sé ákvarðað þannig að launin séu samkeppnishæf svo að hæft fólk fáist til starfans. Ég er viss um að margir stjórnarmenn stéttarfélaga komi til með að eiga erfitt með að sætta við svona aðdróttanir um að þeir séu að fara illa með félagssjóð.

Flutningsmenn telja jafnframt rétt að vekja athygli á því að setning hámarks sem er á þennan hátt bundið lágmarkskjörum getur verið forsvarsmönnum mikilvægur hvati til að berjast fyrir bættum rétti félagsmanna þar sem hækkun lágmarkslauna getur leitt til beinnar hækkunar launa þeirra segir í greinargerð með frumvarpinu.

Mér lýst ákaflega vel á þessa tillögu hvað það varðar að þá gæti ég farið fram á allt að þrefalt hærri laun en ég er með í dag, eða um 800 þús kr. daglaun og síðan yfirvinnuálag og stjórnunarálag ofan á þá upphæð. Ég er með, eins og allt starfsfólk Rafiðnaðarsambandsins, laun samkvæmt einum af kjarasamningum sambandsins, sem reyndar hefur komið alloft fram hér á þessari síðu. Ég er með nákvæmlega sömu laun og aðrir starfsmenn hjá sambandinu utan þess að ég er með verkstjóraálag, eins og kveðið er á um í kjarasamningum.

En mér finnst tillaga þeirra aftur á móti ákaflega einkennileg og reyndar í henni ósmekklegar aðdróttanir gagnvart stjórnarmönnum stéttarfélaga. Ég er næsta viss um að hin 18 manna miðstjórn sambandsins, sem ákvarðar laun okkar starfsfólksins sé ekki eins hrifinn. Stjórnin ákvarðar þessi laun og þau eru vitanlega í reikningum sambandsins og borinn upp þar á ársfundum. Um helmingur félagsmanna Rafiðnaðarsambandsins eru með hærri regluleg laun en ég, sem mönnum finnst í lagi og ég hef ekki gert athugasemdir við.

Miðstjórn RSÍ myndi örugglega aldrei samþykkja að ég fengi þrefalt hærri laun en kjarasamningar sambandsins kveða á um og ef henni dytti það í hug þá væri það snarfellt á næsta ársfundi. Ég er líka næsta viss um að stjórnin myndi aldrei samþykkja að breyta núverandi fyrirkomulagi um að við starfsmennirnir séum með laun samkvæmt gildandi kjarasamningum.

En mig grunar aftur á móti að þingmennirnir átti sig ekki á því hvað þeir eru að tala um, það kemur reyndar æði oft fyrir stjórnmálamenn þegar þeir fjalla um kaup og kjör á vinnumarkaði að þeir opinbera fyrir okkur fullkomið skilningsleysi á því hvernig þessu er háttað. þeir séu að bera saman strípuð grunndaglaun lágmarkstaxta við heildarlaun með þeim kjörum sem kjarasamningar og reglur á vinnumarkaði kveða á um. Sá samanburður er oft notaður þegar fólk er að bera saman launakjör og í sumum tilfellum.

En ég væri til í að samþykkja um 34% launalækkun ef ég fengi samskonar lífeyrisréttindi og skattafríðindi og þingmenn hafa. Og ég væri til í að hafa samskonar vinnuskyldu og þeir með sömu sumar- og vetrarfrí.

Starf mitt er reyndar í mörgu mjög svipað og þingmanna, lestur laga- og reglugerða, samningar, samkipti við fólk um allt land og margir fundir og mikil ferðalög. Vinnutímu er langur og óreglulegur. "Þú ert alltaf í vinnunni" segir konan oft, "sama hvar við erum. Síminn í gangi eða þú ert að tala við menn um allskonar vandamál."

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Enn afhverju þarf að hugsa um hámrkslaun verklýðsforingja. Væri ekki hægt að hafa sama um SA forystuna og önnur samtök atvinnu rekanda. Enn svo er það annað mál að Jóhanna og hennar flokks menn hafa að ég tel hjálpað SA alveg ótrúlega við að ná niður launum í landinu og er það umhugsunarefni hvort launþegar ættu ekki hugsa sig vel um hvað þeir muni kjósa næst. Allavega mun ég ekki styðja þá flokka sem hafa gengið hart fram í að lækka laun í landinu, enn það hafa þessir ríkistjórnarflokkar staðið sig vel í og þá sérstaklega að koma fólki á strípaða taxta. Kv Simmi