laugardagur, 12. mars 2011

Sjálfbær orkustefna

Ég er þessa dagana staddur í Osló á þingi norska rafiðnaðarsambandsins. Hér áberandi umræða um orkusparnað og betri nýtingu endurnýjanlegrar orku. Í þessari umræðu eru loftslagsbreytingar áberandi og hvað sé hægt að gera til þess að minnka óheppilega losun í lofthjúp jarðarinnar.

Lönd velmegunar eru að nýta of mikið af því sem jörðin getur gefið, umgengni okkar kynslóða hefur haft mikil áhrif á lofthjúp jarðar og er að valda margskonar breytingum á umhverfinu eins og t.d. veðurfarinu. Það stefnir í að auðlindir munu sumar hverjar tæmast innan ekki margra ára og verð á orku mun tvöfaldast á næstu árum. Það mun hafa mikil áhrif á kaupmátt og ráðstöfunartekjur okkar og um leið verða til þess að við verðum að breyta mörgu í lífsháttum okkar.

Núverandi kynslóðir verða að taka höndum saman og vinna á mun ákveðnari hátt á móti frekari hlýnun jarðar og halda henni innan við +2 gráður. Þetta kallar á að minnka verður losun kolefna í andrúmsloftið um 30% fyrir árið 2020. Þau lönd sem búa yfir endurnýjanlegum orkugjöfum verða að nýta þá og vera virkir þátttakendur svo það sé hægt að ná þessum markmiðum.

Hlýnun jarðar mun ekki einungis leiða til þess að yfirborð hafsins hækki, endurspeglun í hinum miklu ísbreiðum mun hverfa og í stað þess koma jafnstór svæði sem draga til sín sólahitann. Milljarðar tonna af frosnu metan mun losna út í andrúmsloftið það mun valda enn meiri hlýnun jarðar og það kallar á enn fleiri skógarelda, þessa hringrás verður að stöðva.

Nýta verður alla möguleika á vatnsaflsvirkjunum, fjölga vindorkuverum, auka nýtingu sólarkorku og orkuframleiðslu í straumum hafsins. Þetta kallar á endurskoðun fyrri ákvarðana hvað varðar vatnsorkuna og dreifikerfin. Ekki verður komist hjá því að leggja nýjar háspennulínur og fram eru komnar kröfur um fleiri virkjanir. Fyrir liggur að á næstu 3 árum á að minnka orkunotkun í Evrópu á óendurnýjanlegum orkugjöfum um 20%. Til að ná þessu markmiði verður að auka notkun rafbíla, styrkja almenna flutningakerfið, auk margra annarra þátta sem leiða til minni orkunotkunar.

Gríðarleg verðmæti eru fólgin í endurnýjanlegum orkugjöfum og núverandi kynslóð hefur ekki heimild til þess að taka þann arð frá komandi kynslóðum og selja hann í dag á hrakvirði til einkaaðila. Markmið með sjálfbærri þróun er að hver kynslóð skili orkulindum náttúrunnar jafnsterkum til næstu kynslóðar.

Vatn er verðmætasta auðlindin og hér eru uppi kröfur um að settar verði mun hertari reglur um uppistöðulón sem geyma ferskt vatn og stækka þau. Sala á orku til annarra þjóða auk vaxandi orkuþarfar innanlands hefur leitt til þess að á mestu orkunýtingartímabilum vetrarins er verið að nýta of mikið af uppistöðulónunum á þeim tíma, sem veldur því að þau standa nú orðið stundum í hættulega lágri stöðu þegar líður á sumarið, eftir þurrkatímabil. Veðráttan hefur verið að breytast og við þessu verður að bregðast. Þetta hefur einnig mikil áhrif á náttúruna og aðrar vatnsmiðlanir á leið affallsvatns orkuveranna til sjávar.

Einkavæðing orkufyrirtækja og dreifikerfa hefur leitt til þess að rekstraröryggi hefur minnkað mikið. Þetta er afleiðing arðsemiskrafna fjárfesta sem hafa leitt til þess að dregið hefur úr endurnýjun og uppbyggingu dreifikerfa. Viðhaldsflokkum hefur verið fækkað og nú eru orkunotendur í dreifðum byggðum Noregs í vaxandi mæli að upplifa það að dreifikerfin falli út, og oft á tíðum í langan tíma.

Sjálfbært samfélag kallar á fleiri störf, orkusparnaður kallar á styttingu á framleiðslutíma sem mun aukinni framleiðni og styttingu vinnutímans.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þannig að ef stjórnvöld tækju markvissa stefnu í þá átt að gera Ísland að sjálfbæru landi þá yrði sú aðgerð ein og sér besta leiðin til nýsköpunar - augljóst er það ekki Guðmundur ?

Sjálfbærnin getur reyndar aldrei orðið algild - 100% því við þurfum alltaf einhvern innflutning á aðföngum.

Hins vegar myndi þessi opinbera stefna ein og sér hafa mun meiri áhrif en menn gera sér grein fyrir, bæði hérlendis sem og erlendis.

Uppbygging stóriðju eins og verið hefur hér á landi síðustu 40 ár getur því aldrei orðið hluti af þeirri sýn !

Kveðja,
Björn Kristinsson