miðvikudagur, 23. mars 2011

Samræming lífeyrisréttinda

Samræming lífeyrisréttinda hafa verið áberandi í umræðu á þeim fjölmörgu félagsfunda sem ég hef sótt undanfarin misseri. Óþol hefur farið vaxandi vegna þess óréttlætis sem ríkir milli annars vegar þeirra launamanna sem eru í samtökum opinberra starfsmanna og hins vegar þeirra launamanna sem starfa hjá hinu opinbera en eru félagsmenn í aðildarfélögum ASÍ, ásamt þeim mikla fjölda launamanna sem starfa á almennum vinnumarkaði.

Lífeyriskerfi opinberra starfsmanna er ekki sjálfbært og hefur safnast þar upp um 500 milljarða króna halli sem ríki og sveitarfélög eru í ábyrgð fyrir, með örðumorðum iðgjöld duga ekki fyrir þeim skuldbindingum sem sjóðirnir lofa, þessi vandi heldur áfram að vaxa og er nú að verða óviðráðanlegur. Þessi staða er ekki tilkominn sakir þess að sveitarfélögin og hið opinbera hefi ekki skilað iðgjöldum. Það þarf annað hvort að hækka iðgjöld eða skerða réttindi.

Af hálfu opinberra starfsmanna hefur jafnan verið lögð áhersla á að verja áunnin réttindi opinberra starfsmanna, og að réttindi á almennum vinnumarkaði verði hækkuð til jafns við opinbera vinnumarkaðinn. Samstaða hefur verið að mér hefur skilist meðala allra stéttarfélaga um að allt lífeyriskerfið verði sjálfbært, þannig að hver kynslóð standi undir sínum réttindum, en hvíli ekki á bakábyrgð launagreiðanda.

Félagsmenn aðildarfélaga ASÍ hafa fallist á þessa kröfu, en þeir hafa einnig vakin athygli á því að aðilar verði að gera sér grein fyrir því að það muni leggja gríðarlegar byrðar á ríki og sveitarfélög sem fyrirfram er vitað að muni leiða til niðurskurðar á þjónustu og uppsagna opinberra starfsmanna. Launamenn á almennum vinnumarkaði telja sig hafa skoðun á því í hvað fjármunum ríkis og sveitarfélaga verði varið í framtíðinni.

Launamenn í aðildarfélögum innan ASÍ hafa við samningsgerð í vetur sett fram kröfur um jöfnun lífeyrisréttinda, ekki að réttindi annarra launamanna verði færð niður. SA eftir framkomnar kröfur farið fram á að fá upplýsingar um áform stjórnvalda varðandi lífeyriskerfi opinberra starfsmanna.

Ef ætlunin er að jafna lífeyrisréttindi almenns launafólks að réttindum opinberra starfsmanna, sé mikilvægt að fá upplýsingar um áform hins stjórnvalda og sveitarfélaga í lífeyrisréttindum sinna starfsmanna. Þetta hefur komið fram í viðræðum við stjórnvöld.

Í þeim viðræðum hefur komið fram að öll stéttarfélögin séu sammála um að lífeyriskerfin séu sjálfbær og ekki verði um frekari skuldaaukningu, umfram þá 500 milljarða sem nú þegar hafa safnast upp og lenda munu á skattgreiðendum næstu árin. Sé litið til þessa er útilokað að skilja ummæla sem hafa verið viðhöfð um þessi réttindamál almennra launamanna þar á meðal eins ráðherra og nokkurra þingmanna.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er ástæða til að íhuga vel þessa grein eins virtasta forystumanns launþega. Sá gríðarlegi kerfislegi munur, sem er á lífeyriskerfi almennings og lífeyriskerfis ríkisstarfsmanna hlýtur að verða því stærra vandamál sem úrlausnin dregst lengur. Lífeyriskerfi ríkisstarfsmanna er í raun gegnumstreymiskerfi og að því leyti til sambærilegt við þau kerfi, sem eru að leiða til gjaldþrots þeirra Evrópuríkja, sem búa við slíkt kerfi. Þrjóska forystumanna opinberra starfsmanna við að horfast í augu við vandann er vandskilin. Auðvitað vill engin manneskja láta skerða réttindi sín, en það verður líka að viðurkenna, að þetta fyrirkomulag réttindaávinnslu hlýtur að leiða til ófarnaðar. Þegar sprengjan springur, þá springur hún ekkert síður framan í opinbera starfsmenn en almenning, eins og Guðmundur bendir réttilega á. Eitt, sem sumum veitist erfitt með að skilja eru þau samanburðarfræði, sem fullyrða að laun á almennum markaði séu svo og svo mikið hærri en laun opinberra starfsmanna. Maður veltir því fyrir sér hvað sé verið að bera saman. Ekki þekkir almenningur til þeirra launataxta, sem mismuna t.d. ófaglærðu fólki miðað við hvort launagreiðandinn sé ríki/sveitarfélög eða "venjulegt" fyrirtæki. Sum störf opinberra starfsmanna eru hreinlega ósambærileg við nokkur önnur störf á almennum markaði vegna eðlis þeirra og verða því ekki borin saman við neitt annað. Þetta kann að einhverju leyti að eiga við í efstu lögum launaskalanna en hjá öllum fjöldanum er þetta hreinlega rangt.

Nafnlaus sagði...

Er ekki stór hlutir af þessum 500 milljarða króna halla að ekki voru greidd iðngjöld fyrir B deildarfólk ekki einu sinni í góðærinu ? Er ekki algjört lykilatriði fyrir sjálbærni lífeyrissjóða að greidd séu iðngjöld?

Af hverju kemst ríkið upp með þetta?

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur,

Ég varpaði fram þeirri spurningu í fyrri færslu minni hjá þér hvernig stæði á þessum mun sem væri á lífeyrisgreiðslum hjá hinu opinbera (um 15%) og á almennum markaði (12%).

Mig langaði einnig að vita hvernig stæði á því að hið opinbera hafi ekki lagt til hliðar fyrir væntum lífeyrisgreiðslum. Ef staðan er svo slæm sem um er talað þá verðum við að horfast í augu við að:

1) Það hafi verið meiri undirliggjandi halli á rekstri ríkissjóðs undafarinn ár en tölur hafa gefið til kynna

2) Fjárfestingarstefna lífeyrissjóðs opinbera starfsmanna hefur verið misheppnuð

Þetta breytir ekki stöðunni sem er núna. Hún hefur verið þekkt lengi. Lausnin getur hins vegar torleyst.

Kveðja,
Björn Kristinsson

Nafnlaus sagði...

Guðmundur segir "Þessi staða er ekki tilkominn sakir þess að sveitarfélögin og hið opinbera hefi ekki skilað iðgjöldum."

Ég verð bara að spyrja; er þetta misritun? Mér hefur nefnilega sýnst að ríkið og sveitafélög hafa ekki borgað sinn part af iðgjöldum. Geturðu staðfest að þau hafi í raun og veru borgað þetta?

kv,
Gunnar G

Guðmundur sagði...

Gunnar
Svarið er að finna í textanum. Umsaminn iðgjöld eru ekki nægilega há til þess að sjóðirnir séu sjálfbærir, þannig að þetta er það sem upp á vantar og þar sem sjóðirnir eru í ríkisábyrgð þarf ekki að skerða réttindi eins og í almennu sjóðunum.

Þetta er það sem hefur valdið óánægjunni meðal sjóðsfélaga almennu sjóðanna, þeir hafa orðið að upplifa 25% skerðingar upp á síðkastið á meðan aðrir njóta ríkisábyrgðar og þar vilja menn fá jöfnun réttinda.

Enda telja þeir sig eiga návæmlega jafnmikinn rétt á kröfum í ríkissjóð og aðrir launamenn.

Þetta er því miður síðan rangtúlkað á þann veg að verið sé að krefjast skerðinga á réttindum annarra og forsvarsmenn opinberu stéttarfélaganna beita ákaflega ódrengilegum vinnubrögðum í fjölmiðlum og afvegaleiða félagsmenn sína vísvitandi í umræðunni.

Líklega vegna þess að þessar staðreyndir þola ekki dagsbirtuna, það er bara verið að krefjast jöfnun réttinda.

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þetta ekki boðlegur málflutningur að hálfu forystumanna verkalýðshreyfingarinnar á almennum vinnumarkaði. Er það nú orðið opinber stefna þessarar hreyfingar að reyna að skerða kjör annarra launþega í þessu landi?

Ég hef starfað nokkuð lengi sem kennari við framhaldsskóla og man tímana tvenna í baráttu okkar fyrir því að fá laun sem væru sambærileg við það sem gerðist á almennum vinnumarkaði. Ég man verkföll og fjöldauppsagnir en lítið gekk, ekki síst fyrir öfluga andstöðu ASÍ!! Ég man eftir fundi í MH í einu slíku verkfalli þar sem þáverandi aðalhagfræðingur ASÍ, Ásmundur Stefánsson, mætti til að gera grein fyrir fjandskap ASÍ (Hann var þá ekki enn orðinn forseti samtakanna). Á fundinum kom fram að hann var með þrisvar sinnum hærri laun sem hagfræðingur ASÍ en Framhaldsskólakennari með sambærilega menntun og starfsreynslu. Og hvað tíndi hann til sem rök fyrir því. Jú, opinberir starfsmenn voru með svo góð lífeyrisréttindi!!
Skömmu síðar náðist sátt um skipun nefndar til að gera samanburð á launakjörum Framhaldsskólakennara og annarra launþega sem svo staðfesti þann launamun sem kennarar héldu fram að væri til staðar. Það er svo önnur saga að sú örlitla leiðrétting sem fékkst í kjölfarið var ógilt með lögum af Ólafi Ragnari Grímssyni!

Þú segir í grein þinni: "Af hálfu opinberra starfsmanna hefur jafnan verið lögð áhersla á að verja áunnin réttindi opinberra starfsmanna". Er það ekki eðlilegt að hálfu launþegasamtaka?
Þetta með sjálfbærni sjóðanna er bara rugl. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir því í samningum að báðir aðilar standi við sínar skuldbindingar hvað iðgjöld snerti. Opinberir starfsmenn hafa ekki orðið varir við annað en af þeim hafi samviskusamlega verið tekið lífeyrissjóðsgjald. Ef hinn samningsaðilinn hefur svikist um að greiða sinn hluta er það vart launþegum að kenna. Þeir setja ekki fjárlög!

Það er sorglegt að horfa uppá það að nú skuli það vera orðið helsta baráttumál launþegasamtaka á almennum vinnumarkaði að reyna að skerða kjör þeirra sem hafa um langan aldur starfað fyrir hið opinbera á miklu lægri launum en var á hinum almenna vinnumarkaði!

Kristján E.Guðmundsson,

Guðmundur sagði...

Sæll Kristján

Tek undir að það er ekki boðlegt að bjóða upp á málflutning um að það standi til að skerða réttindi launamanna, eins og málflutningur stéttarfélaga opinberra starfsmanna er, en ekki aðildarfélaga ASÍ.

Eins og mjög glögglega hefur komið fram hér á þessari síðu og víðar þá vilja launamenn á almennum markaði fá bætt lífeyrisskjör og fá samskonar réttindi og sumir opinberir starfsmenn hafa.

Flóknara er það nú ekki. En leiðinlegt hvernig sumir snúa þessu á haus og gera sig óhæfa í raunsærri umræðu um þessi mál. Það er ekki boðlegt.