föstudagur, 11. mars 2011

Kjarasamningar á hnífsegginni

Það sem varð til þess að verkalýðsforystan kaus að fara öll upp í sama Strætó og láta virkilega reyna á hvort hægt væri að ná þríhliða langtímasamning, eru sannfæring að það sé eina leiðin eigi að takist að rjúfa kyrrstöðuna, það geti leitt til kaupmáttaraukningar reistri á aukinni atvinnu og a.m.k. 15% styrkingar krónunnar. Þetta skiptir öllu um hvort það takist að lagfæra kaupmátt og skuldastöðu heimilanna.

Við erum öll mikið brennd og samningamönnum er ljóst að það verða ekki slegnar neinar keilur í þessum málum, staða íslensks þjóðfélags er þannig. Útspil bankanna undanfarna daga er blaut tuska framan í þá sem hafa unnið að gerð kjarasamninga undanfarnar vikur, en styrkir þá stöðu að það verður ekki gengið lengra á braut niðurskurðar og kyrrstöðu í kjaramálum.

Viðræður um launaliði kjarasamninga eru í sjálfheldu, ef gera á kjarasamninga til 3ja ára verður að liggja fyrir vissa um ákveðin atriði. Launakröfur tengjast þeim, sama á við um þær tryggingar sem setja verði inn í samninga.

Atvinnulífið er í efnahagslegu stofufangelsi vegna krónunnar og gjaldeyrishaftanna. Hvernig á að taka á þeim málum og hver verður efnahags- og gjaldmiðilsstefna næstu árin?

Á meðan Icesave-deilan er óleyst er fullkominn mikil óvissa um hvernig mál muni þróast. Nýjustu tölur sýna alvarlegar afleiðingar þess hvernig haldið hefur verið á þessum málum. Útflutningur hefur minnkað um 2% og ekkert bendir til annars en að hann muni dragast enn meir saman.

Tæknifyrirtækin eru að flytja úr landi og með þeim starfsfólk með verðmæta þekkingu og möguleikar til viðsnúnings, fjölgunar starfa og aukningu í útflutning minnka með hverjum deginum. Eins og margoft hefur komið fram í fréttum og viðtölum þá segja forsvarsmenn fyrirtækja sem eiga í alþjóðlegum viðskiptum að ef Icesave-samningurinn verði felldur verði um leið slökkt á öllum væntingum í um viðreisn í atvinnulífinu í 2 -3 ár. Drátturinn á afgreiðslu hans sé þegar búinn að valda atvinnulífinu gríðarlegu tjóni. Kjarasamningamenn fyrir almenna vinnumarkaðinn eru sammála um að verði Icesave-samningurinn felldur verði sjálfhætt við gerð langtímasamnings.

Stefnuleysi stjórnvalda í orkumálum hefur valdið miklum skaða, sú viðspyrna sem þau boðuðu með átaki í atvinnumálum gengur ekki upp á meðan ekki eru teknar ákvarðanir í virkjananálum. Það er ekki nóg að boða stækkun, álvera, kísilverksmiðjur, gagnaver auk margra annarra verkefna ef ekki er hægt að koma saman heildstæðri áætlun um hvað eigi að virkja.

Það þarf ekki mikla þekkingu til þess að sjá að staðan í gufuaflsvirkjunum á Reykjanesi hafa sett málin í þá stöðu að ekki verður farin þessi leið sem ríkisstjórnin hefur boðað nema að virka neðri hluta Þjórsár sem næsta verkefni, á meðan beðið er eftir niðurstöðum í rannsóknum og öðrum atriðum hvað varðar næstu gufuaflsvirkjanir.

Nú hafa svör stjórnvalda snúist yfir í að það sé frekja af aðilum atvinnulífs að ætlast til að þau standi við þær yfirlýsingar sem ríkisstjórn gaf ítrekað út við gerð Stöðugleikasáttmála. Dæmigerð viðbrögð íslenskra stjórnmálamanna.

Það er skýr krafa iðnaðarmannahópanna að samið verði þannig að launahækkanir skili sér til allra eigi þeir að vera áfram í sama strætó og hinir. Allar samþykktir félagsfunda í iðnaðarmannaumhverfinu eru á þá leið. Millitekjuhóparnir hafi fengið lítið í síðustu kjarasamningum auk þess að þeir hafi orðið fyrir mesta kaupmáttarhruninu auk þess að skattahækkanir lendi á þeim.

En um leið hefur komið fram að ekki verði tekið á kaupmætti þeirra sem eru lægstu laununum öðru vísi en með krónutöluhækkunum, samfara því að taka á tekjutengingum í bóta-og skattakerfinu þar verða stjórnvöld að verða þátttakandi. Um þetta er tekist í bakherbergjum samninganna, ekki bara milli stéttarfélaganna, heldur er þetta brotpunktur í viðræðunum við samtök fyrirtækjanna.

Allt þetta segir til um að staða kjarasamninga í dag er á hnífsegginni, einn hnerri ráðherra getur ráðið til um hvorum megin þeir falla.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk, Guðmundur.

Ekki efast ég um að Icesave hefur sín áhrif.

En mér finnst að jafnframt megi taka fram stærsta áhrifaþáttinn sem er ríkisstjórnin.

Það kom fram í gær að útlendingar treysta ekki lagaumhverfinu á Íslandi. Þá er auðvitað átt við ríkisstjórnina sem hótar þjóðnýtingu eigna, endalausum skattahækkunum og jafnvel afturvirkum skattahækkunum.

Hvernig heldur þú að það leggist í erlenda fjárfesta þegar fjármálaráðherrann gortar sig af miklum skattahækkunum og segir svo "You ain't seen nothing yet"?

Heldur þú að þetta hafi engin áhrif?

Er ekki ríkisstjórnin sjálf helsti dragbíturinn á endurreisn þessa samfélags?

Mér finnst mjög einkennadi í máltflutningi ASÍ og SA asð þar forðast mernn að gagnrýna ríkisstjórnina.

Eðilega því þeir eru á báti með henni og treysta á aðkomu hennar að kjaraviðræðunum.

Þetta er mjög óheilbrigt samkrull og kemur berlega í ljós þegar ASÍ og SA forðast að gagnrýna ofurskatta og hafstastefnu "norrænu velferðarstjórnarinnar".

Varðandi kjarasamninga. Um daginn kom fram í skoðanakönnun að mikill meirihluti launamanna vill frekar að gjöld og álögur þ.m.t. skattar verði lækkuð en að samið verði um beinar krónutöluhækkanir.

Ætlar verkalýðsforustan ekki að bregðast við þessu?

Ekki efast ég um að þið viljið vel.

En mér finnst málflutningur ykkar ekki sannfærandi, sérstaklega hvernig þið hlífið ríkisstjórninni sem hér heldur öllu í frosti.

Þakkir og kveðja
KK

Guðmundur sagði...

Hún er einkennileg þessi aths. Ríkisstjórnin hafi ekki verið gagnrýnd. Það hefur nánast á hverjum degi komið fram haraklega gagnrýni á aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar hvað varðar aðgerðir í atvinnulífinu. Það var ástæða þess að menn stóðu upp frá Stöðugleikasáttmálanum.

Í nánast hverjum einasta pistli sem hér hefur verið skrifaður um stöðu kjarasamninga hefur aðkoma ríkisstjórnarinnar verið gagnrýnd.

Hvers lags málflutningur er þetta?

Nafnlaus sagði...

Ágæti Guðmundur.

Ég veit vel að þú og félagar þínir hafið gagnrýnt AÐGERÐARLEYSI ríkisstjórnarinnar í ýmsum málum.

Ég var að tala um skattastefnu hennar.

Ég hef tekið eftir heldur máttlausri gagnrýni SA en ég hef ekki tekið eftir gagnrýni ykkar verkalýðsforingjanna.

Hún hefur þá farið framhjá mér.

Hafið þið gagnrýnt skattahækkanastefnu ríkisstjórnarinnar?

Svo spyr ég aftur:

Telur þú að orð fjármálaráðherra þegar hann hreykti sér af skattahækkunum og hótaði enn meiri álögum hafi engin áhrif hér og erlendis?

Telur þú að hótanir um þjóðnýtingu (Magma) og afturvirka löggjöf hafi engin áhrif á erlenda fjárfesta?

Þú talar um Icesave. Ég er sammála þér þar.

En hver er skaðinn af þeirri ríkisstjórn sem hér situr að völdum?

Þakka aftur athyglisverð og upplýsandi skrif.
Kveðja
KK

Nafnlaus sagði...

Kjarni málsins, í þessum orðum þínum m.a.,,,

"Atvinnulífið er í efnahagslegu stofufangelsi vegna krónunnar og gjaldeyrishaftanna..... Hvernig á að taka á þeim málum og hver verður efnahags- og gjaldmiðilsstefna næstu árin?

Á meðan Icesave-deilan er óleyst er fullkominn mikil óvissa um hvernig mál muni þróast.....

Tæknifyrirtækin eru að flytja úr landi og með þeim starfsfólk.....

....forsvarsmenn fyrirtækja sem eiga í alþjóðlegum viðskiptum að ef Icesave-samningurinn verði felldur verði um leið slökkt á öllum væntingum í um viðreisn í atvinnulífinu í 2 -3 ár."

Þetta er mikið rétt, en ekki allt.

Líklegt að tímabil stöðnunar og hnignunar, verði ekki bara 2- 3 ár - heldur mörg ár, þar sem Ísland verður einangrað á alþjóðlegum fjármálamörkuðum ef það lendir í flóknum málaferlum fyrir innlendum og alþjóðlegum dómstólum í mörg ár, verði Icesave ekki leyst.

Geti Ísland ekki sótt erlent fjármagn, til að endurfjármagna skuldir ríkis eða stórra fyrirtækja, eykst áhætaa á greiðslufall í framhaldinu. Sú hætta er raunveruleg innan 3ja ára.

Önnur lönd hafa lent í svipuðum tilfellum, í þanngi stöðu,,,

Fréttir berast af því úr ýmsum áttum, að Argentína, hafi lent í miklum alþjóðlegum málaferlum við erlenda lánadrottna, þar sem það land neitaði að borga erlendar skuldir við hrunið 2001. Þau málaferli hefa nú tekið 10 ár, án niðurstöðu,,,

Allan þann tíma hefur það land - ekki getað sótt fjármagn á alþjóðlega fjármálamarkaði, nema fyrir himinháa vexti. Það hefur skaðað það land gríðarlega.

Til að taka á stórum málum þarf framsýnt fólk með kjark á öllum stöðum.

Nú er einstakt tækifæri, að leysa Icesave og stefna á nýjan gjaldmiðil og hækkun gengis og tryggja þannig kaupmátt, afnema gjaldeyrishöft og fá aðgengi að erlendum lánum.

Með lausn Icesave og aðild að nýjum gjaldmiðli eftir 2 ár, ef samningar við ESB verða samþykktir, mætti þvi leysa mörg vandamál í einum pakka.

Það er líklega á við 20 - 40% kaupmáttaraukningu á næstu fáum árum.

Slíkum tækifærum er líka hægt að klúðra. En þá ættu aðilar að upplýsa fólk um mögulegar afleiðingarnar.

Guðmundur sagði...

Það eru mismunandi skoðanir á sköttum innan verkalýðshreyfingarinnar. Himinn á og haf á milli stéttarfélaga þar opinberir starfsmenn eru og þeirra sem eru á almennum markaði og svo er mikill munur á skoðunum þeirra sem stjórna stéttarfélögum þar sem eru lágtekjustéttir og svo þeirra sem eru með millitekjur eins og t.d. iðnaðarmannahópurinn.
Ég hef ásamt mínu fólk gagnrýnt háa skatta á þeim grundvelli að það muni draga hagkerfið saman að óþörfu, það hefur margoft komið fram.
En ég held að það muni aldrei heyrast ein rödd frá stéttarfélögunum hvað varðar skattastefnu

Nafnlaus sagði...

Þakka svarið.

Skattar skipta augljóslega miklu um afkomu heimilanna.

Óhófleg skattheimta eins og nú er á Íslandi dregur úr mætti hagkerfisins eins og alkunna er.

Þessa sést þegar staður hér á landi.

Mismunandi afstaða innan verkalýðshreyfingarinnar til ofsköttunar "norrænu velferðarstjórnarinnar" er til marks um mismunandi hagsmunamat þeirra hópa sem mynda verkalýðshreyfinguna.

Mismunandi hagsmunamat hefur augljóslega áhrif á málflutning verkalýðshreyfingarinnar.

Því kýs hún að leiða hjá sér skattpíninguna sem á sér stað hér á landi.

Þú fyrirgefur mér vonandi en mér finnst þetta ekki sannfærandi.

Guðmundur sagði...

Það er einfaldlega innistæðulaus fullyrðing og ómerkilegur spuni að stéttarfélögin leiði hjá sér skattakerfið, en skoðanir eru mismunandi.

T.d standa yfir miklar viðræður um að leiðrétta það skattaofríki sem Sjálfstæðisflokkurinn innleiddi þegar hann réðist á vaxta og barnabótakerfið og eyðilagði það, sem þýddi að jaðarskattar á ungfólk sérstaklega barnafólk hækkuðu um 3 milljarða, sama má segja um þær tekjutengingar sem Sjálfstæðisflokkurinn innleiddi í tekjutengingum í lífeyriskerfinu sem veldur 100% jaðarskatti. Þetta er verkalýðshreyfingin berjast við að leiðrétta.