laugardagur, 19. mars 2011

Loksins umræða um lífeyrisréttindin

Ég vill byrja á því að þakka forsvarsmönnum stéttarfélaga tiltekins hóps opinberra starfsmanna, sem búa við ríkistryggð réttindi, að koma loksins umræðunni um þessi réttindi í fjölmiðla og viðurkenna forréttindi sín. Hingað til hefur það verið nánast ómögulegt og málinu undantekningalaust rutt út af borðinu þegar við forsvarsmenn stéttarfélaga launamanna á almennum markaði og hluta starfsmanna hins opinbera, höfum vakið máls þessu óréttlæti.

Þar höfum við nefnilega verið að ræða við opinbera embættismenn og stjórnmálamenn sem hafa búið sjálfum sem þessi góðu réttindi. Málið snýst um að á næstu árum verður að skerða lífskjör almennings umtalsvert til þess að standa undir þessum réttindum auk þess að hækka tekjuskatt um 3 – 4%

Á almennum vinnumarkaði eru iðgjöld launamanna og launagreiðenda til lífeyrissjóða samtals 12% af heildarlaunum, en 15,5% hjá ríkinu og 16,0% hjá sveitarfélögunum. Samkvæmt lögum er miðað við að sjóðir á almennum vinnumarkaði tryggi að lágmarki 56% meðalævitekna á mánuði í mánaðarlegan lífeyri en samsvarandi hlutfall er 76% hjá hinu opinbera. Lífeyrisaldur á almennum vinnumarkaði er nú 67 ár en 65 ár hjá opinberum starfsmönnum. Þennan mun vilja launamenn á almennum markaði jafna og búa við samskonar kjör og aðrir, það er hægt sé að sækja skerðingar í ríkissjóð.

Á almennum vinnumarkaði er kerfinu gert að vera sjálfbært og iðgjöld og ávöxtun þeirra standi undir lífeyrisréttindum, en aftur á móti er það ríki og sveitarfélög sem ábyrgjast tiltekin réttindi í sjóðum opinberra starfsmanna. Þar hefur safnast upp verulegur halli og voru lífeyrisloforð umfram eignir í B-deild LSR (og LH) í árslok 2009 um 392 milljarðar króna og í sjóðum sveitarfélaganna um 43 milljarðar.

Halli B-deildarinnar hefur vaxið hratt á liðnum árum einkum vegna hinnar s.k. eftirmannsreglur og viðmiðunar við dagvinnulaun opinberra starfsmanna í stað vísitölu neysluverðs. Skuldir deildarinnar halda áfram að vaxa og að lokum er reikningurinn sendur til á skattgreiðenda í framtíðinni. Almennu lífeyrissjóðirnir verða hins vegar að mæta þessu með skerðingu lífeyrisréttinda sjóðfélaga. Þetta birtist okkur vel við Hrunið þegar almennu lífeyrissjóðirnir þurftu lögum samkvæmt að skerða réttindi lífeyrisþega sinna umtalsvert til að rétta stöðu sjóðanna, en á sama tíma stóðu réttindi tiltekinna opinberra starfsmanna óbreytt og tryggð með skattpeningum almennings.

Hvað varðar eftirlaunasjóð Alþingis má samkvæmt útreikningum hagdeildar Samtaka atvinnulífsins leggja þau að jöfnu við 23 - 35% mánaðarlega launauppbót. Umframlífeyriskjör ráðherra sem gegndi embætti í þrjú kjörtímabil eru ígildi 85 -102 m.kr. starfslokagreiðslu og 66 - 79% mánaðarlegrar launauppbótar. Umframlífeyriskjör þingmanna að jöfnu við 23 - 35% mánaðarlega launauppbót.

Í dag ávinna launamenn í almennum lífeyrissjóðum sér árlega lífeyrisrétt sem nemur frá 1.2% til 1,47%. Fyrir sama iðgjald ávinna útvaldir ríkisstarfsmenn sér lífeyrisrétt sem nemur um 1,9%, að allt að 50% hærri réttindi en sjóðsfélagar í almennu lífeyrissjóðanna hafa. Réttindastuðull þingmanna er í dag 2,4% af launum. Þingmenn eru 29 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt. Almennir launamenn eru 41 ár að ávinna sér 56%, eða 25% mismunun.

Réttindastuðull ráðherra þegar búið er að lækka ávinnslustuðul úr 6% í 4,8% af launum. Ráðherrar eru þar með 14,5 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt og þurfa eftir það ekki að greiða af launum sínum í lífeyrissjóð svo fremi þeir greiði í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Til samanburðar má geta þess að þá hafa sjóðfélagar almennu sjóðanna unnið sér inn að meðaltali um 16% lífeyrisrétt eftir 14,5 ára greiðslu í sjóðinn.

Meginmarkmiðið sem unnið er eftir við endurnýjun kjarasamninga þessa dagana er að allir lífeyrissjóðir starfi á sjálfbærum grunni líkt og sjóðir á almennum vinnumarkaði. Þess verði freistað að standa vörð um þegar áunninn réttindi en stöðva verði áframhaldandi skuldaaukningu lífeyrissjóða opinberra starfsmanna þannig að reikningurinn á skattborgara framtíðarinnar hætti að vaxa. Réttur opinberra starfsmanna til lífeyris í A-deild miðist líkt og á almenna vinnumarkaðnum við 67 ár í stað 65 til að jafna halla sjóðsins. Ríkisárbyrgð á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna verði afnumin.

Krafan er skýr um jöfnun réttinda í náinni framtíð, ríkisstjórnin verður bæta upp það Hrun sem varð í almennu sjóðunum en ekki í hinum opinberu. Miðað við uppgjör sjóðanna í árslok 2009 samsvarar þetta um 23% aukningu áunninna réttinda.

17 ummæli:

Hrafn Arnarson sagði...

Þetta finnst mér ekki mjög gæfuleg byrjun.Einn hópur launamanna setur fram þá hugmynd að skerða eigi kjör annars hóps. Hugmyndin er sú að allir lífeyrissjóðir eigi að ávaxta sig sjálfir en eigi ekki að vera háðir ríkisframlögum. Skynsamlegt virðist að skoða kjörin í heild sinni en ekki einn afmarkaðan þátt.Almennt sé eru laun opinberra starfsmanna lægri en þeirra sem eru á almennum vinnumarkaði.Rétt er því að skoða meðalævitekjur mismunandi starfshópa. Hugmyndunum um lífeyrissjóðina er væntanlega ætlað að jafna kjör manna en þessi hugmynd á þá við alla aðra þætti sem mynda heildarkjör launamanna. Það er augljóst að sjómannaafslátturinn svokallaði kemur við skattgreiðendur. Annað hvort verður að afnema afsláttinn eða gera hann almennan. Ég geng út frá því að þessi tillaga muni koma fram ef menn vilja vera sjálfum sér samkvæmir. Af eðlilegum ástæðum er ekki mikið um skattsvik í opinberageiranum en umtalsverð í einkageiranum. Tapaðar tekjur ríkiskjóðs eru skaði fyrir hann og þá sem borga af öllum launum.Augljóslega þarf einnig hér að samræma hlutina til þess að réttlætis sé gætt. Við væntum þess einngi að tillögur komi fram til að samræmi sé einnig á þessu sviði. Sem sagt: ef við viljum jafna stöðu fólks og rétt verðum við að skoða ævitekjur, heildarkjör og skattbyrði.

Viðar Ingvason sagði...

Almennt launafólk er skipulega rænt úr öllum áttum. Opinbera lífeyriskerfið framkallar eignaupptökur hjá almenningi. Forréttindahóparnir eru margir og ólíkir en eiga það allir sameiginlegt að forréttindi þeirra eru tryggð með eignaupptöku og þrælahaldi á almennu launafólki.
Vilhjálmur Egilsson hótar nú atvinnulífinu í landinu hryðjuverkum fái auðlindaræningjarnir í LÍÚ ekki að halda ránsfengnum óskertum. Þeir fara einnig fram á að almennir skattgreiðendur greiði hluta af launum sjómanna fyrir þá, í formi skattaafsláttar.
Hér þarf eitthvað róttækara en búsáhaldamótmæli því í meginatriðum er kerfið óbreitt frá því fyrir hrun.

Nafnlaus sagði...

Góður pistill, aldrei of oft harmað á þessari sjálftöku úr ríkissjóð. Á sama tíma og verið er skerða réttindi í almenna lífeyriskerfinu eru þau hækkuð í opinberu lífeyrissjóðunum og skattar almennigns hækkaðir til þess að borga þann brúsa.

Þetta er ástæðan að búið er að taka beinan samningsrétt af embættismönnum í öllum löndum og opinberum stafsmönnum gert að vera með sömu kjör.

Enn alvarlega er að embættismenn eru þessa dagana að auki að krefjast þess að fá sparifé almennra launamanna á neikvæðum vöxtum til þess að spandera í gæluverkefni kjördæmapotara.

Nafnlaus sagði...

Það vantar í upphafs innleggið af hverju þessi munur er tilkominn. Þegar hann liggur fyrir er hægt að fara að skiptast á skoðunum.

Blogghöfundur þarf því að koma fram með:

1) Hvers vegna er þessi munur á 12%, 15,5% og 16% greiðslum í lífeyrissjóð

2) Hvers vegna er munur á lífeyrissaldri á almennum markaði og hjá hinu opinbera

Það er gott að hafa í huga að 95 ára regluna er búið að afnema en getur að hluta til skýrt þennan aldurs mun á 67 árum og 65 árum. Þessi munur ætti því að jafnast út smám saman.

Kveðja,
Björn Kristinsson

Nafnlaus sagði...

Ég spyr mig, hvernig getum við þvingað fram breytingar. Við þetta verður ekki unað.Auðvitað vilja þeir sem eru í þessu kerfi halda áfram að búa í þessu bómullarkerfi á kostnað okkar hinna, við hinir höfum bara ekki efni á að niðurgreiða þetta fyrir þá, sorry.
Georg

Nafnlaus sagði...

Þessi Björn er greinilega í einhverri afneitun og vill ekki skilja um hvapð málið snýst. Það liggur fyrir að það vantar amk 400 milljarða til þess að kerfið sé sjálfbært og ef ekkert verður aðgert mun sú upphæð hækka verulega mikið á komandi árum þar sem gráhærði hópurinn mun fyrst fara að stækka í alvöru þegar stóru árgangarnir skella á lífeyriskerfinu eftir 2015 til 2024 og ellilífeyrisþegar meir en tvöfaldast og skattgreiðndurm fækkar hlutfallslega.

Nafnlaus sagði...

Það er ekkert vitlaus hugmynd að leiðrétta þetta misrétti sem er á milli líferyisréttinda ríkisstarfsmanna og almennra launamanna.

En vangaveltur þínar um að kerfið á almennum markaðu sé "sjálfbært" og sé ekki á ábyrgð ríkis og sveitarfélaga er órökréttar og standast ekki skoðun.

Veit ekki betur en að lífeyrissjóðir séu að leita á náðir ríkissins með að fjármagna framkvæmdir með vaxtakostnaði sem er miklu hærri en eðlilegt getur talist á lánsfjármarkaði. Ég sem skattborgari stend undir þessu kerfi og þessum háa vaxtakostnaði. Seðlabankinn hefur líka verið að prenta vexti á innistæður lífeyrrissjóðanna í bönkunum.

Guðmundur sagði...

Þetta er einfaldlega ekki rétt hjá síðasta ræðumanni.

Lífeyrissjóðirnir eru ekki að leitast eftir því að fjármagna verkefni. Það er ríkið og orkufyrirtækin sem eru að leitast eftir því að lífeyrisjóðirnir komi að fjármögnum.

Lífeyrissjóðirnir eru mjög óhressir með að geta ekki fjárfest erlendis og dreift áhættunni og fengið meiri arðsemi. Gjaldeyrishöftin hamla því. Hér spilar krónan inn með óheppilegum hætti eins og svo víða í islensku hagkerfi.

Það er einnig rangt að lífeyrissjóðirinir vilji fá óraunsæa ávöxtun, hún er í samræmi við það sem hún þarf að vera svo ávöxtun sjóðanna standist svo þeir séu sjálfbærir.

Hér spilar krónan inn í dæmið með óheppilegum hætti eions og svo víða í íslensku hagkerfi. Hún er orðin að myllustein um háls íslensks samfélags.

Ef þessi fjármögnum yrði gerð á þeim kjörum sem ríkið vill þá þyrfti að skerða enn meir, og útgjöld almenna tryggingarkerfisins myndu vaxa jafnmikið. Þetta ættu allir að vita sem þekkja hvernig lífeyriskerfið og almenna tryggingarkerfið virka.

Sem dæmi má einnig nefna að opinberu lífeyrissjóðirnir vilja ekki koma að þessum lánveitingum. Sem hlýtur að vera mörgum umhugsunarefni

Gísli Baldvinsson sagði...

Smá upprifjun Guðmundur. Þegar opinberir starfsmenn fengu hvorki samningsrétt hvað þá verkfallsrétt 1962 þá varð til vísir að lífeyrissjóðsréttindum opinberra starfsmanna. Síðar á sjöunda áratugnum var ASÍ boðið svipað kerfi en því var hafnað af forystu ASÍ. Á áttunda tug síðustu aldar var það þumalfingursregla að opinberir starfsmenn ættu að fá um það bil 5% lægri hækkun vegna betri lífeyrissjóðskjara. Það er ekki fyrr en á áttunda tug síðustu aldar að launþegar innan ASÍ fara að safna í sjóði. Þó KOS hafi verið lagt niður m.a. að tilhlutan ASÍ þá má sjá með samanburði að launaskrið innan ASÍ s.l. tvö ár er um 12% að jafnaði. Innan opinberra starfsmanna er það 1,7%. Ekki þættu það góðar tvíbökur ef kennarar krefðust meðaltals daglauna rafiðnaðarmanna. Munurinn þar er í dag 35% kennurum í óhag. Væri ekki ráð nú þegar ASÍ er 95 ára að efla samstöðu launþega?

Guðmundur sagði...

Sæll Gísli
Ég starfaði lengi sem kennari og þekki vel hvaða laun þeir hafa. Það starfa hjá Rafiðnaðarsambandinu kennarar og við erum í miklu sambandi við verkmenntaskólana. Þannig að eg veit að það sem þú ert að segja er innistæðulaus markleysa.
Ég þekki vel samanburð á launum fólk og kjörum og veit að þessar fullyrðingar þínar standast engan veginn.
Ég tek undir með þér um samstöðuna og veit að rafiðnaðarmenn og launamenn á almennum vinnumarkaði bera með sér miklar væntingar um samstöðu og stuðning allara launamanna um bætt lífeyrisréttindi launamanna á almennum vinnumarkaði. Þau hafa verið skert mikið á undanförnum árum á meðan aðrir hafa ekki þurft að upplifa það.

Nafnlaus sagði...

Já Guðmundur
Þetta með samanburðinn á launum. Það er svo þekkt vinnubrögð og óvönduð þegar menn gera svona samanburði að taka strípuð daglaun lægsta taxta og bera svo saman við regluleg meðal heildarlaun einhverrar annarrar starfstéttar og barma sér svo.

Hvernig væri nú að gera þetta alminnilega og bera sman vinnutíma, starfsöryggi áhættu, ferðatíma, starfsaðstöðu og vinnustaði.

Þau eru einkennileg viðbrögð opinberu stéttanna þegar við förum fram á að okkar lífeyrisréttindi verði bætt.

Nafnlaus sagði...

Tek undir með ykkur það eru mikil vonbrigði hvernig opinberir taka á kröfum okkar hinna um bætt lífeyrisréttindi

Nafnlaus sagði...

Lífeyriskerfi opinberra starfsmanna er að stórum hluta til gegnumstreymiskerfi. Þá er átt við B-hluta (og hjúkrunarfræðinga, sem eru þar inni enn) lífeyrskerfis þeirra. Eðli málsins samkvæmt kemur það kerfi til með að renna sitt skeið, en það tekur talsverðan tíma, a.m.k. þrjátíu ár telja þeir sem þekkja þær tryggingafræðilegu stærðir, sem að baki liggja. Þetta þýðir hærri skatta meðan á þessu stendur, enginn vafi þar á, en þeir lenda jafnt á opinberum starfsmönnum sem öðrum launþegum. Óþarfi er að blanda saman kjörum ráðherra og þingmanna við kjör annarra, opinberra starfsmanna, því þau eru eiginlega kapítuli út af fyrir sig og þar liggur hneykslið. Mismunur á kjörum opinberra starfsmanna og þeirra sem starfa á hinum svokallaða almenna markaði er minni, en sumir vilja meina.

Nafnlaus sagði...

Í öllum löndum er verið að koma til móts við hækkandi meðalaldur með því að hækka upphaf töku lífeyris við 67 ára aldur.

Þetta er gert af þeirri einföldu ástæðu að kostnaður vegna lífeyris fer hratt vaxandi vegna lengri tíma sem fólk er á lífeyri og ekki síður að fjöldi þeirra sem eru að fara á lífeyri fer hratt vaxandi sem hluta fall af þeim sem eru að greiða skatta og iðgjöld í lífeyrissjóði.

Þar sem þessar staðreyndir öllum ljósar er harla einkennilegt að horfa upp á viðbrögð íslenskra stjórnmálamanna og forsvarsmanna opinberu stéttarfélaganna við ábendingum almennra skattgreiðenda.
Skúli

Nafnlaus sagði...

Dáist af hugrekki þínu Guðmundur að opna umræðu um þá nauðsyn að skera þetta kerfi upp og samræma réttindi.
Jafna réttindi upp á við, en það verður líka að taka á forréttindunum

Nafnlaus sagði...

Aths. frá Nafnlaus 19. mars 2011 16:06

Guðmundur,

OK, það er kannski ekki rétt að segja að lífeyrissjóðir séu að leita á náðir ríkissins með að "fá að fjármagna", heldur er frekar að leita á náðir ríkissins "um hærri ávöxtun" en eðlilegt getur talist og þar með eru þessir almennu lífeyrissjóðir á ábyrgð skattborgaranna. Gott og vel, en þetta er aukaatriði.

En ég hef algjörlega rétt fyrir mér að almennir lífeyrissjóðir eru EKKI SJÁLFBÆRIR. Þeir eru að leita til ríkissins um óeðlilega háa ávöxtun, sem í rauninni lendir á skattborgurunum. Þar fór nú öll sjálfbærnin. Allir þessir sjóðir eru á framfæri skattborgaranna.

Þú tekur undir þetta þegar þú segir:
"Það er einnig rangt að lífeyrissjóðirinir vilji fá óraunsæa ávöxtun, hún er í samræmi við það sem hún þarf að vera svo ávöxtun sjóðanna standist svo þeir séu sjálfbærir."

Ergó. Þeir eru ekki sjálfbærir!
Þetta er egocentric hugsun sem gengur ekki upp á lánsfjármarkaði. Kjörin sem lífeyrissjóðirnir eru að biðja um eru ekki í samræmi við það sem lántakandinn telur eðlilegt. Hugmyndir og ávöxtunarmarkmið lánveitenda (lífeyrissjóða) kemur lántakandum ekkert við. Ef hann er ekki tilbúinn í að fá lánað á þeim kjörum sem hann telur ásættanlegt þá gerir hann það einfaldlega ekki. Annar hvor aðilinn er með "óraunsæjar" væntingar.

Annað: Krónan og gjaldeyrishöft eru ekki það sama. Það ætti vitaskuld að vinna að því að afnema gjaldeyrishöftin.

Vandamálið er að þá munu lífeyrissjóðirnir líklega fara aftur í stöðutöku gegn krónunni. Það voru þeir sem tóku lang stærstu stöðuna gegn krónunni fyrir hrun og í rauninni gerðu jöklabréfin að risastóru vandamáli.

Guðmundur sagði...

Ítreka bara enn einu sinni og nenni svo ekki að standa í einhverri útúrsnúningakeppni hérna.

Almennum lífeyrissjóðum er gert að vera sjálfbærir það birtist íþví að þeir verða einfaldlega að skerða réttindi eigi þeir ekki innistæður sem duga fyrir þeimm þetta eiga nú allir að vita ef þeir eru að fjalla um lífeyrissjóði. Þetta á ekki við um ákveðna sjóði, þeir greiða út þó svo þeir eigi ekki fyrir því og það er einfaldlega sótt í ríkissjóð.

Lífeyrissjóðir hefa ekki verið að leita til ríkissins eftir aukinni ávöxtun. Það eru aftur á móti ráðherrar, nefndarformenn Alþingis og orkufyrirtæki hafa leitað til lífeyrissjóða, þetta vita allir sem fylgjast með fréttum því þetta kemur daglega fram í þeim.