þriðjudagur, 15. mars 2011

Sjálfbær orkustefna og álver

Grundvallarmarkmið orkustefnu er að sjá til þess að orkuþörf samfélagsins sé mætt með öruggum og skilvirkum hætti. Þar er átt við að næg orka, á viðeigandi og fjölbreyttu formi, sé jafnan fyrir hendi til að mæta þörfum heimila, grunnþjónustu og almenns atvinnulífs, hvort sem er í eðlilegu árferði eða við óvenjulegar aðstæður sem skapast kunna af völdum manna eða náttúru.

Markmið með sjálfbærri þróun er að hver kynslóð skili orkulindum náttúrunnar jafnsterkum til næstu kynslóðar. Þegar rætt hefur verið um endurnýjanlegar auðlindir (sjálfbærar) hér á landi er oft talað um gufuaflið, eða varmaflæði frá iðrum jarðar til yfirborðs. Gufuhitasvæði á Íslandi eru talin geta gefið um 3.600 – 4.200 MW af rafafli í 50 ár, ef þau væru í fullri nýtingu. Ferlið er í grófum dráttum þannig að með borholu er gufu og heitu vatni, sem hefur myndast á heitu bergi í iðrum jarðar hleypt upp á yfirborð og í stað þess kemur kalt vatn og kælir bergið niður.

Rannsóknir sýna að það taki nokkrar aldir að ná sama hita í bergið aftur. Þetta hefur verið þekkt um alllangt skeið t.d. í jarðvarmavirkjunum í USA og víðar og hefur komið fram hér á landi. Einhverra hluta vegna hefur þessi umræða náð að takmörkuðu leiti til stjórnmálamanna, þegar þeir hafa farið um héruð landsins og lofað stóriðju í hverjum firði, alla vega í hverjum landsfjórðungi, orka landsins væri óþrjótandi.
Það er ekki hægt annað en velta fyrir sér orkupælingunum á Suðurnesjum. Satt að segja virðist þar ríkja miklar efasemdir um hvernig HS ætli að skaffa alla þá orku sem þarf til Helguvíkur og í önnur verkefni, þegar jarðfræðingar benda á að allt bendi til þess að svæðið sé nú þegar ofnýtt.

Talið er að álbræðslan í Helguvík þurfi um 450 MW sem er um 150 MW minna en áður var áætlað, en í upphafi var fullyrt að nóg orka væri fyrirliggjandi til að reisa álbræðslu sem þyrfti um 600 MW. HS Orka er sögð munu útvega 250 MW, Orkuveita Reykjavíkur 120-140 MW og Landsvirkjun hefur sett fram loforð um 60-80 MW.

HS Orka ætlar að stækka Reykjanesvirkjun um 80 MW en flest bendir til að svæðið sé nú þegar ofnýtt enda hefur Orkustofnun ekki séð sér fært að veita leyfi fyrir stækkuninni. Þá hyggst HS Orka reisa 50 MW virkjun í Eldvörpum en þau eru hluti jarðhitasvæðisins í Svartsengi. Því er haldið fram að svæðið sé þegar fullnýtt. Um 130 MW eiga síðan að koma frá Krýsuvíkursvæðinu en tvær djúpar holur við Trölladyngju hafa gefið neikvæða niðurstöðu. Aðrir hlutar svæðisins virðast hafa svipaða eiginleika en þar hefur ekki verið borað sl. 40 ár.

Dr. Michael Porter lagði áherslu á það í fyrirlestri nýverið, að Íslendingar yrðu sjálfir að hafa frumkvæði að því að vinna sig upp úr vandanum, en í stað þess eyddum við öllum tíma okkar í að slá pólitískar keilur og koma höggi hver á annan. Pólitíkin væri alls ráðandi. Við hefðum mikla möguleika til þess að geta unnið okkur út úr vandanum, ættum mikla orku, mannauð og ættum að vera komnir lengra af stað í uppbyggingunni. En til þess þyrfti að taka ákvarðanir - og standa við þær.

Í þessu sambandi verða menn að velta fyrir þjóðhagslegum hagnaði, fjölda starfa, skatttekna og samfélagslega uppbyggingu. T.d. er ekki hægt að sjá að útflutningur raforku myndi skila miklu í íslenskt samfélag. Kostnaður við uppbyggingu stórra orkuvera, samtenging þeirra og eldri orkuver og lagning langs sæstrengs til markaðssvæðis kallar á orkuverð sem er hærra en fæst í sölu. Íslendingar myndu niðurgreiða orkuna, alla vega um langa næstu framtíð, þetta er t.d. það sem norskir skattgreiðendur eru að kvarta undan með miklum hávaða þessa dagana.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hef engu við að bæta. Góður punktur með Norðmenn og það er staðreynd sem er ekkert rætt um hér á landi. Tvö dæmi úr Noregi en hafa verður í huga að sæstrengur er á milli Noregs og Hollands (NorNed):

1) Þar hafa stóriðjur verið lagðar niður og eigendur þeirra hreinlega notað orkusamninginn og selt með stórhagnaði inn á netið. Dæmi um þetta er magnesíum verksmiðjan sem Elkem átti í Alvik en var flutt yfir á Grundartanga einfaldlega vegna þess hve orkan á Íslandi var ódýr en dýr í Noregi og Evrópu.

2) Orkusalan er á vegum einkaaðila í Noregi. Þeir hafa hvað eftir annað verið staðnir að því að láta Noreg mæta afgangi en selja orkuna yfir til Evrópu þar sem hærra verð fæst fyrir hana. Þetta hefur valdið orkuskorti í Noregi og sprengt upp verðið yfir háveturinn. Yfirvöld hafa jafnvel verið sökuð um að "feilreikna" vatnsstöðu í uppistöðulónum og tappa þannig of mikið af þeim í græðgi sinni.

Sala um orkustreng frá Íslandi mun því klárlega leiða til a.m.k. þessara tveggja dæma.

Kveðja,
Björn Kristinsson

ps. Svo getum við spurt hvert hagnaðurinn fer !

Nafnlaus sagði...

Hjartanlega sammála þér varðandi það að útflutningur á raforku um sæstreng er hálfvitagangur.

Það furðulegasta við þessa hugmynd er að það er allt í lagi að virkja ef selja á orkuna úr landi.

En ef það á að virkja til að nýta orkuna til atvinnuskapandi verkefna hér innanlands, t.d. álvera, þá verður allt vitlaust.


Það á að nota Íslenska orku til að skapa störf og verðmæti hér heima, og ekki veitir af.

Nafnlaus sagði...

Góður pistill en rétt þó að vara við þessu:

"Talið er að álbræðslan í Helguvík þurfi um 450 MW sem er um 150 MW minna en áður var áætlað, en í upphafi var fullyrt að nóg orka væri fyrirliggjandi til að reisa álbræðslu sem þyrfti um 600 MW."

Á endanum mun Century (Norðurál) vilja hafa verið í fulltri stærð. Það stendur til að byggja álver en ekki hálfver. Bara spurning um tíma. Flótti þeirra yfir í "lítið álver" er til fegrunar en þessi geiri kann vel að bregða upp blekkingamyndum til þess að fá samfélög til þess að kosta verkefni sín. Það hefur gerst á Íslandi, Indlandi, mið Ameríku, Afríku og víðar.

Kkv. Bergur Sigurðsson, frkvstj. þingflokks VG.