mánudagur, 10. október 2011

Bændasamtökin og ESB

Í könnunarviðræðum þar sem draga á fram hvað Íslandi standi til boða vilji landsmenn ganga í sambandið. 2/3 landsmanna vilja ljúka þessum viðræðum og fá að taka afstöðu til niðurstöðunnar. Í vinnunefndum eru allmargir aðilar, þar á meðal nokkir frá samtökum launamanna og er undirritaður í einum þessara vinnuhópa.

Við ESB blasir sá pólitíski vandi við að Bændasamtök Íslands og ráðherra landbúnaðarmála hafa verið samtaka í því að draga varnalínur sem stöðva frekari framvindu í vinnu nefndanna, auk þess að ráðherra hefur staðið gegn því að heimila þá vinnu sem þarf til þess að viðræður geti verið með eðlilegum hætti.

Þessir aðilar hafa sett fram þær kröfur að viðhalda tollvernd á innfluttum landbúnaðarafurðum við aðild Íslands að ESB, auk þess að viðhalda öllum styrkjum sem eru í dag og fá til viðbótar þá styrki sem í boði eru frá ESB. Öllum sem þekkja til aðildarviðræðna nýrra ríkja vita að þessu krafa er óraunhæf. Fram hefur komið vilji hjá allmörgum nefndarmanna frá Íslandi að fara hina svokölluðu finnsku leið, það er að heimild verði til þess að íslenskir bændur geti haldið öllum innlendum styrkjum og ákvarðanatöku um þá.

Hún er mörgum aftur á móti umhugsunarverð afstaða Bændasamtakanna til samningaviðræðnanna. Samtökin gera kröfu um gagnsæ vinnubrögð og saka aðila um að vinna bak við tjöldin. Hvergi hefur verið staðfest að þetta eigi við rök að styðjast. Því er haldið fram af þessum aðilum að áherslumál ESB séu ekki á hreinu.

Þetta stenst engan veginn, það liggur mjög skýrt fyrir hver afstaða ESB sé og um hvað þurfi að semja. Ísland þarf að setja fram skýra áætlun um hvernig breyta eigi regluverki hér á landi um beingreiðslur og tryggja að stofnanir séu fyrir hendi til þess að sjá um stjórnsýslu og framkvæmdir. Gerðar hafa verið aths. að Bændasamtökin sjálf sjái um þá gagngrunna og eftirlitsstofnanir sem nýttir eru til þess að ákvarða styrki og fylgjast með nýtingu þeirra.

Ísland er á flestum sviðum búið fyrir löngu að uppfylla öll lágmarksskilyrði fyrir inngöngu í ESB og á sumum sviðum stöndum við framar en mörg ESB ríki. 60% allra viðskipta íslenskra fyrirtækja er við ESB svæðið og íslensk fyrirtæki hafa mörg hver komið sér upp dótturfyrirtækjum innan ESB, sum hafa flutt aðalskrifstofur sínar þangað.

ESB markaðurinn er okkar mikilvægasti viðskiptavinur, sama hvort okkur líkar það betur eða verr. Það er búið að vera frjálst flæði vinnuafls innan ESB og EES svæðisins í nokkra áratugi, sama hvort okkur líkar það betur eða verr. Mikill fjöldi íslendinga hefur nýtt sér það. Sama á við um íslensk fyrirtæki. Íslenskir námsmenn njóta margskonar aðstoðar innan ESB svæðisins. ESB styrkir íslenskt mennta- og rannsóknarkerfi um 2 milljarða á ári hverju.

Í íslenskum verksmiðjum innan ESB vinna þúsundir launamanna, líklega á annan tug þúsunda. Íslendingarnir senda síðan einungis heim þann hluta erlends gjaldeyris sem starfsemin gefur af sér, sem dugar til þess að greiða kostnað hér heima. Allt annað verður eftir úti. Þetta er afleiðing þess að við erum með krónuna sem kallar á vernd í skjóli gjaldeyrishafta. Ef við flyttum þessi störf heim myndi allur arður myndi skila sér inn í íslenskt samfélag. Hér um að ræða nokkur þúsund störf sem öll gætu verið góð undirstaða í öflugri byggðaþróun.

Við verðum að skapa 20 þús. ný störf á næstu 2 árum og auka verðmætasköpun. Byggja þarf upp öflugan vinnumarkað til þess að vel menntað fólk sækist eftir störfum á svæðinu. Ef þetta tekst ekki blasir við langvarandi kyrrstaða með slökum kaupmætti og miklu atvinnuleysi. Það er vaxandi samkeppni eftir vel menntuðu og hæfu starfsfólki. Ísland ver milljörðum í að mennta upp unga fólkið í trausti þess að það komi inn á íslenskan vinnumarkað. Ef það gerist ekki er fjárhagslegur skaði fyrir íslenskt hagkerfi umtalsverður. Sú fjárfesting sem við höfum sett í unga fólkið skilar sér ekki inn í okkar hagkerfi.

2 ummæli:

Ásta Hafberg sagði...

Könnunarviðræður? Við erum í aðildarviðræðumþ Ef þú lest ritið sem gefið var út af ESB um þessa hluti þá er ekki til neitt sem heitir könnunarviðræður.

Nafnlaus sagði...

Góð grein Guðmundur,

Stærsta hagsmunamál bænda, er að fá alvöru gjaldmiðil evru, í stað krónu með svimandi vöxtum, verðtryggingu og gengiskollsteypum.

Þetta má glögg sjá í hinu góða Bændablaði 19. nóv 2009, sem ekki fer með rangt mál - bls. 18.

http://www.bondi.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=2501

Þar kemur fram að hækkanir á lánum og fjármagnskostnður - hefur gert að engu margra ára uppbyggingu!! þar sem fjármagnsliðir hækkuðu um 30 milljónir á kúabú í gengiskollsteypunni 2008.

Þar með fauk út um glunggann 10 - 20 ára verðmætauppbygging á einu bretti - og fólk gert eignalaust.

Það hefði sennilega eitthvað heyrst í bændum - ef einhver hefði komið tekið þessi verðmæti af bændum - hvað þá er það hefðu verið aðilar frá ESB.

En af því að það var krónan sem tók þessi verðmæti af þeim - þá er ekkert sagt - eins og það sé allt í lagi að taka aleigu fólks - án bóta - og síðan bíður fólkið eftir þvi að meira sé tekið - í vísitöluhækkunum lána - þar til allt er komið í þrot.

Ætli bændur á Íslandi viti það að skuldir bænda hækkuðu ekkert á Írlandi eða Finnland eða Spáni.

Þessi skaði bænda er hróplegur - og í raun stærsta ógn bændastéttarinar.

Krónan er stærsta ógna bændastéttarinnar - ætli bændur viti af því óargardýri í túngarðinum - sem sífellt heimtar meira.

Fengju bændur alvöru gjaldmiðil - evru - væri sá ávinningur - stærsta kjarabót bænda í áraraðir.

Það eru lélegir hagsmunagæslumenn bænda - sem geta ekki haldið þessum augljósu hagsmunum á lofti.