fimmtudagur, 13. október 2011

Ríkir lífeyrissjóðir

Umræðan um lífeyrissjóðina hefur oft verið einkennileg og einkennst af þekkingarskorti og skammsýni. Því er haldið fram að sáralítið sé greitt út til lífeyrisþega af inngreiðslum til sjóðsfélaga og lífeyrissjóðir séu reknir með ofboðslegum hagnaði. Sú niðurstaða er fundin út með því að benda á hvað renni til lífeyrissjóðanna og hvað þeir greiða út í dag. Þar sé töluverður mismunur og hvort þarna sé ekki fundið fé til þess að greiða niður rekstarkostnað samfélagsins og t.d. upp skuldir fólks.

En ætíð er það svo að málflutning af þessu tagi er slegið upp með stórum fyrirsögnum af fréttamönnum, og ætíð er það svo að starfsmönnum og stjórnarmönnum er sendur tónninno jafnvel talað um einhvern ofsafenginn gróða í lífeyrissjóðunum. Þetta er svo yfirgengilega barnalegt og einkennist af svo mikilli rætni. Fréttamenn hljóta að vita betur, og maður spyr hverra hagsmuna eru þeir að gæta?

Stóru barnasprengjuárgangarnir sem komu í heiminn á árunum eftir seinna stríð fram til ársins 1960, eru í dag safna upp sínum lífeyri og munu skella á lífeyriskerfinu af mjög vaxandi þunga upp úr 2020 og fullum þunga eftir árið 2031. Fram að þeim tíma fer vitanlega fram mikil uppsöfnun í sjóðunum, en eftir þann tíma munu útgreiðslur úr sjóðunum verða meiri en innstreymi og þá byrja sjóðirnir að ganga á eignir sínar, eða með öðrum orðum eigendur sparifjárins fara að taka út lífeyrissparnað.

Ástæða er að benda á að ef þessi uppsöfnun fer ekki fram, eða menn láta undan freistingum og taka til við að nýta það sparifé sé liggur inn á reikningum lífeyrissjóðanna til annarra hluta en að greiða út lífeyri og örorkubætur, mun það einfaldlega leiða til þess að eftirlaunavandinn mun lenda á skattgreiðendum framtíðarinnar í gegnum almenna tryggingarkerfið.

Í því sambandi má t.d. benda á þann vanda sem Grikkir, Ítalir og Spánverjar eru að glíma við í dag, með því að hafa vísað lífeyrisvandanum til framtíðarinnar það er að segja til barna okkar og barnabarna. Margir spyrja erum við ekki nú þegar búinn að framvísa nægu af þeim vanda fram í tímann. Undanfarinn ár höfum við núlifandi íslendingar komið okkur fyrir í því vafasama sæti að vera mestu eyðsluklær jarðarinnar og þær frekustu til fjárins.

Reyndar getum við litið okkur nær og litið á þá stöðu sem stjórnmálamenn eru með fyrirhyggjuleysi sínu búnir að koma opinberu lífeyrissjóðunum í, þá vantar í dag um 500 milljarða til þess að eiga fyrir skuldbindingum sínum og stefnir í enn hærri fjárhæði verði ekkert að gert, eins og forsvarsmenn stéttarfélaganna á almennum markaði hafa ítrekað bent á.

Þar má t.d. benda á að það vantar í Eftirlaunasjóði sveitarfélaganna um 60 – 95% upp á innistæður svo þeir eigi fyrir skuldbindingum, þar standa verst lífeyrissjóðir Vestmannaeyjabæjar og Akraneskaupstaðar.

Þessi staða er þrátt fyrir að í dag er verið að greiða um 4% hærri iðgjöld í þessa sjóði en almennu sjóðina og Fjármálaeftirlitið krefst þess að það verði hækkað um 4% til viðbótar eða uppundir 20% iðgjald. Þeir fjármunir verða vitanlega sóttir í hærri sköttum, því stjórnmálamenn hafa sett annarskonar lög yfir þessa sjóði, þeir þurfa ekki að vera sjálfbærir eins og almennu sjóðirnir ávöxtum og rekstrarkostnaður þar skipti engu máli.

Í almennu lífeyrissjóðunum er staðan hins vegar sú að þeir sumir hverjir eiga fyrir sínum skuldbindingum, en flestir þeirra þurfa að bæta eignastöðu um 5% stöðu, en allar líkur á að það takist að ná jafnvægi innan nokkurra ára takist að koma vinnumarkaðnum í gang.

Þessir sjóðir búa ekki við sömu forréttindi og stjórnmálamenn hafa sett opinberu sjóðunum, almennu sjóðirnir verða að sækja það sem upp á vantar ekkert annað en til sinna sjóðsfélaga með því að skerða réttindi. Ef við látum undan freistingunni og gerum það sparifé sem er í almennu lífeyrissjóðum upptækt og nýtum það núna þá blasir við að það þarf að hækka tekjuskatta innan 10 ára um 10%.

Lífeyrissjóður er uppsöfnun sparifjár þeirra sjóðsfélaga sem greitt hafa í viðkomandi sjóð. Hluti inngreiðslu kemur beint frá sjóðsfélaga og hluti frá vinnuveitanda hans, en öll upphæðin er eign sjóðsfélagans. Hún er hluti lögbundinna launa hans. Lífeyrissjóður á engar eignir utan skrifstofuáhalda og þess húsnæðis sem starfsemi hans fer fram í.

Lífeyrissjóðir starfa undir mjög ströngum lögum og eftirliti opinberra stofnana. Landslög veita lífeyrissjóðum einungis heimild til þess að greiða viðkomandi sjóðsfélögum þá innistæðu sem þeir eiga inni í sínum lífeyrissjóð, þegar þeir fara á ellilífeyri eða verða fyrir því óláni að fara á örorku. Lífeyrissjóðirnir greiða einnig makalífeyri.

Í skoðanakönnunum sem hafa verið gerðar meðal sjóðsfélaga almennu sjóðanna hefur komið að tæp 90% sjóðsfélaga hafnar því að sparifé þeirra verði nýtt til þess að greiða upp skuldir annarra. Þeir hafa réttilega bent á að með því væru verið að skapa gríðarlegt ójafnræði meðal launamanna. Þeir sem vinna á almennum markaði búa við skerðingar í sínum sjóðum og verða þar til viðbótar að greiða hærri skatta til þess að greiða upp halla opinberi sjóðanna. Sjóðsfélagar þeirra sjóða eiga ekki á hættu að þeirra réttindi verið skert.

Mikill meirihluti sjóðsfélaganna vilja að tekið verði á skuldavanda heimilanna, en þann reikning á ekki einungis að senda til sjóðsfélaga almennu lífeyrissjóðanna. Einnig hefur verið bent á að þeir sem eru með háværustu kröfurnar og bera mestan ásakanir á almennu lífeyrissjóðunum eru áberandi opinberir starfsmenn og verktakar sem greiða lítið til almennu íslensku sjóðanna.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ekki gleyma að margir lífeyrissjóðir stunduðu kerfisbundna fjárhættustarfsemi fyrir hrun. Minn sjóður er t.d. samtals 3 sinnum búinn að lækka innistæðueign sjóðfélaga um alls tugi prósenta. Er það í lagi? Er ekki nauðsynlegt að gera upp vafasama sukkstarfsemi innan sjóðanna fyrir hrun?

Þú segir einnig að sjóðfélagar vilji ekki borga skuldir sem aðrir einstaklingar hafa stofnað til - og orðið fyrir stökkbreytingu á eftir hrun.

Hafa m.a. ekki lífeyrissjóðirnir verið að taka þátt í afskriftum lána upp á hundruði milljarða m.a. til siðlausra manna eins Ólafs Ólafssonar og annarra sambærilegra.

Skrítið að svona margir skuli vera á móti leiðréttingum fyrir skulduga einstaklinga - sem hafa orðið fyrir stökkbreytingu lána - en finnst í lagi að afskrifa skuldir hjá mönnum sem margir stunduðu hreina glæpastarfsemi fyrir hrun og skulda milljarða.

Við vitum að margir þeirra eru glæpamenn en munu aldrei verða dæmdir af dómstólum sem slíkir því að lagaramminn til að dæma flókna fjármálagjörninga er ekki til á þessu landi. Því miður staðreynd.

Nafnlaus sagði...

Allir verða bera á ábyrgð á hruninu.
Ekki bara þeir sem eru með verðtrygð lán,
Það hefur stundum verið illa farið með fé lífeyrisjóðana, og það verður að vera breyting á því ef kerfið á að standa undir sér. Þeir sem eru að taka sinn aukalífeyri út núna er fólkið sem er með barnasprengjurnar og hvort er skárra, aðstoða landan eða henda honum á gaddinn. Það varð hrun hér og það verður að taka á því á sanngjarnan hátt, allir bera ábyrgð á þessu. Skuldlausir einstaklingar sem eru að fara á ellilífeyrir verða líka að taka skerðingu þótt þeir hafi haft það skítt 1980.

Nafnlaus sagði...

En þessi draumur um það sé hægt að "geyma" verðmæti á milli kynslóða, er blekking. Vissulega er hægt að geyma peninga, en það breytir engu um það að þau verðmæti sem eru til staðar á hverjum tíma. Það er ekki hægt að galdra einhver verðmæti upp úr sjóðum, sem ekki eru framleitt í samfélaginu á hverjum tíma. Gegnumstreynmikerfi er mun eðlilegra, þ.e. verðmætin koma alltaf frá hinum vinnandi kynslóðum, bókhaldsbrellur breyta engu um það, eru í mesta lagi valdatæki til að sjúga verðmæti á milli hópa í samfélaginu.

Eyjólfur Kristjánsson.

Guðmundur sagði...

Á næstu 10 árum mun fólk a lífeyrisaldri tvöfaldast, í dag erum við með um 6 - 7 skattborgara per lífeyrisþega og örorkuþega úr liferyussjóðunum.

Upp úr 2030 verður það hlutfall orðið um 3- 4 á móti hverjum lífeyrisþega og örorkuþega. Með þessu fyrirkomilagi sem þú talar um Eyjólfur þá verður að hækka skatta á bornum okkur um 15% ef þau eiga að búa við samskonar samfélagsþjóunstu, það er skóla heilbrigðþjónustu og fleira sem við höfum í dag.

Með þessu fyrirkomulagi ertu að framvísa treikningnum til barna okkar og barnabarna, og þau verða að velja á milli 15% hækkun skatta eða leggja niður grunnskólann, eða heilbrigðiskerfið.

Mér er fullkomlega óskiljangt hvernig menn geta lagt svona til, þetta er svo mikil sérhyggja að manni líður hálfilla við að þurfa hlusta á þessear tillögur.

Með bestu kv. Guðmundur

Nafnlaus sagði...

Ég er ekki viss um að stjórnendur lífeyrissjóðanna geri sér grein fyrir því, að til langs tíma litið eru allir sjóðir gegnumstreymissjóðir.

Það er hægt að leggja fyrir til skamms tíma með því að leggja peninga í banka eða fjárfesta í einhverju.

En til langs tíma segjum 30 til 40 ára, verður sparnaðurinn alltaf avöxtur af vinnu fólks sem uppi verður á þeim tíma.

Ef allar þjóðir í heiminum fara að leggja fyrir hluta af launum sínum og ávaxta út um allan heim, þá verður ekki til einn stór og öflugur lífeyrissjóður.

Það verður til risa stórt spilavíti þar sem menn munu berjast um peninga og tálsýnir sem ekki eru til.

Langtíma sparnaður getur aðeins orðið til ef fáir spara og margir vinna. Og þessir fáu geta framvísað kröfu á hina mörgu sem fær þá til að vinna fyrir hina fáu.

Allt tal um langtíma sparnað er tálsýn og áróður fjármálamanna.

Sigurjón Jónsson

Nafnlaus sagði...

Já Guðmundur heimtufrekjan og fyrirhyggjuleysið er áberandi hjá mestu eyðsluklóm jarðarinnar.

Þeir krefjast þess að fá að hrifsa til sínn allt sparifé strax í dag og eyða því og senda svo reikninginn til framtíðarinnar.

Sem betur fer er þessi hópur mjög lítil.

Hinn þögli meirihluti mætir ekki með grjótkösturunum á Austurvöll.

Takk fyrir þína öflgugu og góðu baráttu í að verja lífeyrissjóðina fyrir þessum andstæðingum eðlilegs samfélags
Trausti.

Nafnlaus sagði...

Það sem ég á við Guðmundur, er að börnin okkar og barnabörnin munu alltaf þurfa að sjá um að framleiða þau verðmæti sem við neytum þegar við getum ekki búið þau til sjálf lengur. Alveg eins og við framleiðum fyrir þá sem nú eru á eftirlaunum. Einhverjar tölur á pappír, eða í tölvu breyta engu til um þá staðreynd. Engin verðmæti eru til nema þau séu stöðugt endurnýjuð og við haldið með vinnu, það á líka við um "varanlegar fjárfestingar" eins og húsnæði, verksmiðjur og þekkingu. Peningar eu ekki sama og verðmæti, og í raum ekkert samband þar á milli, annað en það sem við ímyndum okkur á hverjum tíma. Í því liggur einmitt vandi hagkerfa heimsins núna.
Að vísu væri sá möguleiki fyrir hendi að "flytja út" afkomendurna, þ.e. kaupa okkur skuldbindingar í öðrum hagkerfum, og þá eigi að dæmast á yngra fólk þar að sjá um okkur í ellini, meðan yngra fólkið hér kaupir skuldbindingar í útlöndum á meðan fyrir sína elli, o.s.frv. En það er ekki eitthvað sem t.d. mig langar að treysta á í ellin, slíkar skuldbingar er hægt að brjóta með svo margvíslegum aðferðum.
Eina hugsanlega réttlætingin fyrir sjóðskerfinu frekar en gegnumstreymis kerfinu, sem er mun eðlilegra, þ.e. það endurspeglar raumveruleikan betur, er að það stuðli að fjárfestingu í samfélaginu. En þá skiptir líka öllu máli hvernig sú fjárfesting er, ekki bara að hún sé að búa til einhvern pappírsvaxtahagnað. Þess vegna finnst mér að það þurfi að beina kastljósinu sterkt að stjórnun og fjárfestingastefnu lífeyrissjóðanna.

Eyjólfur Kristjánsson

Guðmundur sagði...

Já en það er akkúrat það sem það sparifé sem er í lífeyrissjóðunum er nýtt til. Ef það væri ekki til staðar væri ekkert lánsfé til á Íslandi til þess að fjármagna byggingariðnaðinn og uppbyggingu fyrirtækja.
Líttu á stöðuna eftir Hrun, allar fjármálastofnanir sem stjórnmálamenn og háskólamenntaður sérfræðingar stjórnuðu fóru lóðbeint á hausinn. Seðlabankinn, Íbúðarlánasjóður allir bankarnir, sparisjóðir, eignarstýringasjóðir bankanna, sveitarfélögin, opinberir lífeyrissjóðir og þannig má lengi telja. Einu fjármálastofnanirnar sem komu standandi út úr þessu voru almennu lífeyrissjóðirnir og þeir eru eina hreyfigeta sem er til staðar til þess að komast upp dalnum sem við hrundum niður í.
Ef þessi sparnaður væri ekki til staðar og hann nýttur til þess að byggja upp samfélagi og halda uppi framkvæmdum, þá myndi blasa við börnum okkar samfélag sem væri langt á eftir hvað varðar líflegt atvinnulíf, eðlilega uppbyggingu í íbúðarkerfum landsmanna og þar á ofan snarhækkandi skattbyrði. Eða með örðum orðum þeir einir sem væru að störfum í landbúnaðargreinum og sjávarútvegi væru fluttir af landi brott og fullkominn kyrrstaða ríkti á Íslandi
góðar kv. GG

Guðmundur sagði...

Bið Eyjólf afsökunar á því að hún birtist ekki aths. hans fynn nú í kvöld, er búinn að vera á vinna út á landi í allan dag og setti inn í fljótheitum í kaffihlé í morgun, stóð í þeirri trú að ég hefði sett svar hans inn og ég svaraði honum, en svar mitt fór í gegn en ekki hans án þess að ég tæki eftir því og komst ekki til þess að leiðrétta þetta fyrr en nú.
Sorry góðar kv GG

Ps er með ítarlegri pælingar í kollinum um þessi mál sem ég mun líklega setja saman á morgun og birta
g