Umræða um launamun kynjanna er ofarlega á baugi og eins og svo oft hér er hún komin ofan í hjólför og einkennis af endurtekningu reistri á lítt könnuðum rökum, eins og Guðmundur Andri fór svo vel yfir í Fréttablaðinu í gær, sjá hér
Ég ætla hér á eftir að kafa aðeins í þetta umræðuefni. Svona að fenginni reynslu úr aths. dálkunum ætla ég að byrja á því að taka það fram að ég er ekki á móti jöfnun launa kynjanna.
Launamunur rafkvenna og rafkarla
Í árlegum launakönnunum sem framkvæmdar eru á vinnumarkaði rafiðnaðarmanna eru rafkonur með um 11% hærri regluleg laun en rafkarlar, sé litið til sama vinnutíma. Sjá hér .
Helsta ástæða þessa er að rafkonur eru hlutfallslega fleiri á svokölluðum pakkalaunum en rafkarlar. (Pakkalaun er launafyrirkomulag sem mikið er notað innan rafiðnaðargeirans, það er samið um föst laun fyrir ákveðin verkefni og inn pakka en allt sett inn, truflunarálag, ferðatíma og ferðapeningar og föst yfirvinna).
Rafkonur sækjast frekar eftir þessu launafyrirkomulega en karlar, sakir þess að þær vilja síður vinna óreglulega yfirvinnu. Það gera fleiri karlar aftur á móti vegna meiri tekjumöguleika. Pakkalaun standa reyndar mörgum körlum ekki til boða vegna þess að fyrirtækið gerir kröfur um að þeir vinni fyrirvaralaust lengri vinnutíma, vegna aðstæðna sem skyndilega koma upp.
Nokkur séríslensk einkenni.
Mun stærra hlutfall launamanna á íslenskum vinnumarkaði en þekkist í nágrannalöndum, eru á launum sem liggja töluvert fyrir ofan umsaminn lágmarkslaun. Fyrir því er ein meginástæða verðbólga og gengisfall krónunnar. Í áratugi hefur íslenskum launamönnum verið gert að búa við það ástand að kjarasamningar haldi ekki út samningstímann, sökum þess að stjórnmálamenn hafa reglulega fellt krónuna til þess að leiðrétta efnahagsleg mistök og hafa framkvæmt reglulega gríðarlega eignarupptöku hjá launamönnum og fært hana til útflutningsfyrirtækjanna og þeirra sem voru skuldlausir.
Þetta hefur síðan valdið því að reglulega fóru fram launaleiðréttingar á vinnustöðunum á miðju samningstímabili. Það ásamt góðu atvinnuástandi leiddi til þess að árum saman lögðu samningamenn áherslu á að launahækkanir skiluðu sér inn í öll laun. Afleiðing þessa varð vitanlega að lágmarkslaun drógust sífellt meir aftur úr meðalraunlaunum. Samningamenn fyrirtækjanna gerðu lítið með kröfur stéttarfélaganna um að taxtar væri færðir að raunlaunum og bentu réttilega á að fáir voru á lágmarkstöxtum.
Íslenskir fulltrúar þáverandi ríkisstjórna kröfðust þess á fundum innan EES að kjarasamninga heimalands giltu, en því var svarað af hálfu leiðtoga landa sem ekki voru um of þjökuð af nýfrjálshyggju, að það gæti ekki leitt til annars en að laun inna EES tækju hraðlest til lægstu kjara. Nálgun íslenskra stjórnmálamanna að vinnumarkaði og þeim kjörum sem þar gilda hefur alltaf verið til mikillar bölvunar fyrir launamenn.
Upp úr síðustu aldamótum skapast skyndilega nýtt ástand á íslenskum vinnumarkaði. 15 þús. erlendir launamenn voru fluttir til landsins á skömmum tíma, og voru á tímabili um 10% af starfandi launamönnum á Íslandi. Þeir voru annað hvort á launum sem viðgengust í heimalandi eða lægstu töxtum sem þekktust í gildandi kjarasamningum.
Atvinnurekendur sem voru með íslendinga í vinnu á venjulegum launum voru skyndilega í vonlausri samkeppnisstöðu. Þeir stormuðu upp á skrifstofur stéttarfélaganna og kröfðust þess að þau sæju til þess að þetta væri leiðrétt og stéttarfélögin gengju í skrokk á þeim fyrirtækjum sem nýttu sér láglaunafólk til þess að niðurbjóða verkin.
Í þessu sambandi er ástæða að benda á nýlega umfjöllun um íslensk fyrirtæki á norskum vinnumarkaði í dag, sem vilja greiða íslensk laun í norsku launaumhverfi!!
Samningamenn stéttarfélaganna héldu nú á nýju og beittu vopni í Karphúsinu og atvinnurekendur fóru að hlusta á kröfur stéttarfélaganna um að færa taxta að raunlaunum. Afleiðing þessa birtist t.d. í því að lægstu taxtar Rafiðnaðarsambandsins hafa hækkað frá aldamótum til dagsins í dag um 50% umfram umsamdar lágmarkslaunahækkanir. Þessar sérstöku hækkanir ullu sáralitlum launakostnaðarauka, vegna þess að það voru sárafáir einstaklingar á lægstu töxtunum.
Launajöfnun kynjanna
Nú er gerð krafa um sérstakt átak í jöfnun launa kynjanna. Þessi krafa getur leitt til þess að fyrirtækin telji sig ekki geta leyst þessar deilur öðruvísi en að allir fari á umsamda taxta, eins og reyndar tíðkast víða erlendis. Núverandi fyrirkomulag hefur reyndar verið lýst þannig í flestum ef ekki öllum skýrslum um íslenskan vinnumarkað að þetta geri hann mun sveigjanlegri en aðra vinnumarkaði.
Um síðustu aldamót var um 60% munur á umsömdum lágmarkstöxtum rafiðnaðarmanna og meðalraunlaunum. Um síðustu áramót hafði þessi munur lækkað umtalsvert eða um helming og var kominn í um 35%. Þar endurspeglast þessi 50% umsamda sérhækkun lágmarkstaxta frá aldamótum, sem getið er um hér ofar.
Þetta segir okkur að ef laun rafiðnaðarmanna verða í auknum mæli færð yfir á umsaminn lágmarkslaun þá blasi við rafiðnaðarmönnum allt að 30% launalækkun. Það gerist ekki bara hjá körlum heldur einnig konum, en mesta launafallið verður vitanlega í heildarheimilistekjum.
Niðurstaða
Ef vinnumarkaðurinn á að ná fram jöfnun launa kynjanna, þarf að byrja á því að færa umsaminn lágmarkslaun að raunlaunum, þá fyrst verður hægt að taka á þessum vanda. Og að lokum ef það á síðan að tryggja kaupmátt þeirra samninga er það ekki gert nema með því að taka upp gjaldmiðil, sem heldur þokkalega sínu raungildi út samningstímann hverju sinni.
Einnig er ástæða til þess að benda á sé litið til þeirra gagna sem við höfum unnið með í Karphúsinu að allt sem gerðist í launaskriði árin 2005 til október 2008 var byggt á froðu sem varð til við takmarkalausan innflutning á erlendu lánsfjármagni. Við gerð síðustu kjarasamninga var talið raunsætt að ná þeim kaupmætti sem var 2005 árið 2012- 13. Í dag má frekar reikna með að það gæti orðið 2013 – 14.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli