sunnudagur, 16. október 2011

Lífeyrissjóðir mikilvægur hlekkur í hagkerfinu

Lífeyrisþegum fer fjölgandi í hlutfalli við virka launamenn á vinnumarkaði og það hlutfall á eftir að vaxa hraðar á næstu 15 árum þegar stóru eftirstríðsárgangarnir ná lífeyrisaldri. En þrátt fyrir þetta hafa greiðslur Tryggingastofnunar lækkað, sé miðað við verðlag 2005 er lækkunin 12%, enn eitt dæmið um h vernig stjórnmálamenn ganga á sparifé launamanna.

Um síðustu aldamót fóru út í hagkerfið um það bil jafnháar greiðslur frá lífeyrissjóðunum og frá almenna tryggingarkerfinu. Það sem af er þessari öld hafa lífeyrissjóðirnir verið að síga fram úr í útgreiðslum.

Þegar jöfnuður næst í lífeyriskerfið, það er þegar þeir sem byrjuðu að greiða inn hafa öðlast full réttindi eftir árið 2030, mun inneign sjóðsfélaga samsvara um 1,5 landsframleiðslu. Um síðustu aldamót var inneign sjóðsfélaga um 1 landsframleiðslu.

Almenna tryggingarkerfið væri ekki svipur hjá sjón ef lífeyrisjóðanna og sjúkrasjóðanna nyti ekki við, reyndar má bæta þar við mun umfangsmeira veikindadagakerfi sem er í íslensku kjarasamningunum. Í flestum nágrannalöndum okkar er það kerfi í gegnum skattkerfið og almenna tryggingarkerfið. Allt þetta samsvarar um það bil 15% tekjuskattshækkun ef velferðarkerfið sem íslenski vinnumarkaðurinn rekur væri lagt niður og fyrirkomulag þess fært í sama horf og það er í nágrannalöndum okkar.

Stjórnmálamenn hafa undanfarin áratug aukið tekjutengingar í bótakerfinu og lækkað frítekjumörkin, sem veldur því að láglaunafólk fær ekki krónu af inneign sinni lífeyrissjóð, stjórnmálamenn hafa breytt kerfinu þannig að fyrstu 70 þús. kr. sem greiddar eru úr lífeyrisjóðum rennur krónu fyrir krónu beint í ríkissjóð. Nú stíga stjórnmálamenn enn eitt skref í þessa átt og ætla að ná til sín séreignarsparnaðinum.

Framlag launamanna í lífeyrissjóði er hluti af endurgjaldi fyrir vinnuframlag. Það virðist vera sérstök ástæða að minna á að endurgjald fyrir vinnu er stjórnarskrárvarinn eign viðkomandi launamanns, þetta ætti að vera ritað skýrum stöfum á vinnuborð stjórnmálamanna.

Sé fylgst með því sem skrifað er um lífeyriskerfið virðast margir ekki gera sér grein fyrir mismun á gegnumstreymiskerfi og uppsöfnunarkerfi, en það tíðkast hér á landi og mörg lönd eru byrjuð að byggja upp samskonar kerfi. Líkja má uppsöfnunarkerfinu við lón fyrir ofan virkjun, sem síðan nýtist til þess tryggja jafnan rekstur virkjunarinnar (samfélagsins). Gegnumstreymiskerfi er aftur á móti eins og virkjun án lóns. Ef áin er vatnsmikil og jafnstreymi í henni gengur virkjunin vel og jafnvel flýtur fram hjá henni óntt afl. En ef bresta á þurrkatímar er virkjunin gagnslaus.

Í Hruninu fóru allar fjármálastofnanir sem stjórnmálamenn og háskólamenntaðir sérfræðingar stjórnuðu lóðbeint á hausinn. Seðlabankinn, Íbúðarlánasjóður allir bankarnir, sparisjóðir, eignarstýringasjóðir bankanna, sveitarfélögin, opinberir lífeyrissjóðir og þannig má lengi telja. Einu fjármálastofnanirnar sem komu standandi út úr þessu voru almennu lífeyrissjóðirnir og þeir eru eina hreyfigetan sem er til staðar til þess að komast upp úr táradalnum.

Ef þessi sparnaður væri ekki til staðar og hann nýttur til þess að byggja upp samfélagið og halda uppi framkvæmdum, hefði samfélagið fallið. Á undaförnum árum hefði heldur ekki verið í boði langtímalán til þess að tryggja eðlilega uppbyggingu í íbúðarkerfum landsmanna og skortur á þolinmóðum og öflugum fjárfestum á hlutabréfamarkaði.

Það verða alltaf þeir sem eru á vinnumarkaði sem halda samfélaginu gangandi. Þess vegna verður að nýta inneignir lífeyrissjóðanna til þess að halda atvinnulífinu gangandi. Með því að fjárfesta erlendis er verið að dreifa áhættunni að hluta til yfir á erlent atvinnulíf, mætti orða það þannig að fá fleiri til þess að standa undir því. Sé litið til framtíðar blasir einnig við að þegar lífeyriskerfið er farið að virka að fullu munu lífeyrisþegar verða drjúgir þátttakendur rekstri samfélagsins.

Eignir lífeyrissjóðanna voru eini bjarghringurinn sem var til á Íslandi við Hrun. Þá varð skyndilega stopp á allar erlent fjárstreymi til landsins. Menn verða að líta á þá staðreynd að það sem myndaðist eftir 2005 fram að Hruni var innistæðulaus froða, sem hvarf. Sú inneign var í raun aldrei til, það er tilgangslaust að halda því fram að það sé tap, þessi inneign var ekki til staðar.

1 ummæli:

Haraldur sagði...

Góð grein, takk fyrir.
Það er mikilvægt að þeir sem eiga þessa sjóði fái sitt vinnuframlag í peningaformi til baka nokkurnvegin á verðlagi þess tíma sem það gerist.
Ekkert meira og ekkert minna, bara raunhæfa endurgreiðslu sem lífeyrir.