sunnudagur, 30. október 2011

Vaxtaviðmið lífeyrissjóða

Allir stjórnarmenn kosnir af launamönnum í þeim lífeyrissjóð sem ég hef greitt til allt frá því ég kom út á vinnumarkað árið 1970, hættu á ársfundi sjóðsins í vor. Það var skorað á mig að gefa kost á mér, þar sem ég væri meðal þeirra sem hefðu greitt til sjóðsins alla hans starfstíð og væri þar af leiðandi meðal þeirra sjóðsfélaga sem ættu mestu hagsmunanna að gæta, auk þess að hafa kynnt mér mjög vel starfsemi sjóðsins okkar. Ég náði kosningu á um fundi liðlega 100 sjóðsfélaga og fór svo í gegnum aðra kosnbingu á ársfundi sjóðsins. Þetta hefur reyndar, eins og ég reyndar vissi, orðið til þess að ég hef verið úthrópaður í ákveðnum spjallþáttum og víðar sem einn þeirra sem sé í hinni gjörspilltu lífeyrissjóðselítu.

Ég hef skrifað nokkra pistla um margskonar fávisku sem einkennir umræðu um lífeyrissjóði og meðhöndlun á sparifé launamanna, og mun halda því áfram, sérstaklega þar sem ég sé að það fer afskaplega í taugarnar á þeim sem vilja halda því fram, að það hafi verið starfsmenn stéttarfélaga gamblandi með fjármuni lífeyrisjóðanna sem hafi leitt til Hrunsins. En öll vitum að þeir sem þar fara fremstir í flokki, gera það til þess að beina sjónum frá því sem raunverulega gerðist.

Sumir halda því fram að 3,5% ávöxtunarkrafa sé gerð af lífeyrissjóðunum og það sé mikill bölvaldur í íslensku efnahagslífi. Þetta er rangt, þetta er vaxtaviðmið notað í tryggingarfræðilegum útreikningum um stöðu sjóðanna og notað til þess að jafna bil milli kynslóða. Ef þetta viðmið næst ekki verður að skerða útgreiðslur til þeirra sem eru fá örorku- eða lífeyrisgreiðslur í dag, annars væri verið að ganga á rétt þeirra sem eru ungir í dag. Taka fjármuni sem ungt fólk á og greiða þá út til annarra kynslóða.

Sjóðsstjórar lífeyrissjóða verða eins og aðrir fjárfestar að láta fjármagnið vinna svo það ávaxtist. Þeir fjárfesta í skulda- og hlutabréfum frá atvinnulífinu og hinu opinbera. Þeir verða vitanlega að sætta sig við þá ávöxtun sem býðst hverju sinni. Ef ávöxtunarkostir eru slakir í dag þarf að skerða réttindi.

Það er gert með árlegum tryggingafræðilegum útreikningum og innistæður og ávöxtun borin saman við skuldbindingar lífeyrisjóðanna. Ef ávöxtun hefur verið undir 3,5% þá verða ársfundir lífeyrissjóða lögum samkvæmt að velja milli þriggja hluta :
a) Breyta starfsreglum viðkomandi sjóðs og skerða réttindi sjóðsfélaga, eins og t.d. skerða makalífeyri eða réttindastuðul eða hækka lífeyrisaldur.
b) lækka lífeyri og örorkubætur
c) hækka iðgjöld, eða hækka lífeyrisaldur.

Mörg lönd hafa verið að hækka lífeyrisaldur og á það hefur verið bent að ef lífeyrisaldur í opinberu sjóðunum yrði settur við 67 ára aldur eins hann er í almennu sjóðunum myndi staða þeirra lagast umtalsvert. En það hefur ekki verið gert og fyrir liggur krafa frá FME um að hækka verði iðgjald í opinberu sjóðina upp 19%.

Í dag ávinna launamenn í almennum lífeyrissjóðum sér árlega lífeyrisrétt sem nemur frá 1.2% til 1,47%. Fyrir sama iðgjald ávinna útvaldir ríkisstarfsmenn sér lífeyrisrétt sem nemur um 1,9%, að allt að 50% hærri réttindi en sjóðsfélagar í almennu lífeyrissjóðanna hafa. Réttindastuðull þingmanna er í dag 2,4% af launum. Þingmenn eru 29 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt. Almennir launamenn eru 41 ár að ávinna sér 56%, eða 25% mismunun.

Réttindastuðull ráðherra þegar búið er að lækka ávinnslustuðul úr 6% í 4,8% af launum. Ráðherrar eru þar með 14,5 ár að ávinna sér 70% eftirlaunarétt og þurfa eftir það ekki að greiða af launum sínum í lífeyrissjóð svo fremi þeir greiði í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Til samanburðar má geta þess að þá hafa sjóðfélagar almennu sjóðanna unnið sér inn að meðaltali um 16% lífeyrisrétt eftir 14,5 ára greiðslu í sjóðinn.


Ef lífeyrisréttindi skerðast bitnar það á ríkinu (skattborgurum), útgjöld almenna tryggingarkerfisins munu aukast. Í dag greiða lífeyrissjóðir út um 70 milljarða króna í örorkubætur og lífeyri á meðan Tryggingarstofnun greiðir út 50 milljarða.

Annað veigamikið hlutverk lífeyrissjóðanna hefur verið að skapa möguleika til þess að hægt sé að veita lánum til fólks m.a. til íbúðarkaupa. Fyrstu 40 árin er innstreymi inn í lífeyrissjóðina meira en útstreymi sakir þess að þetta er uppsöfnunarkerfi. Það næst jafnvægi á kerfið upp úr 2030, þá verða útborganir úr kerfinu svipaðar og innstreymi, það er ef ávöxtun hefur náðst.

Sú staða gæti skapast ef viðmið hafa ekki nást að lífeyrissjóðirnir yrðu upp úr 2030 að snúa blaðinu við og taka út fjármagn frá atvinnulífinu. Samfara því gæti einnig orðið skortur á lánsfjármagni í landinu, það er að segja ef ekki er til nægilega mikill inneign í sparifé.

Venjulegt meðalheimili á í dag um 17 millj. kr. inneign í lífeyrissjóð. Ef ekki verða gerðar ráðstafanir til þess að ná stöðugleika hér á landi og ná vöxtum niður (sem þýðir að verðtryggingarákvæði verða gerð óvirk), er verið að snúa til fyrri tíma og gera eignarnám í sparifé heimilanna. Það var ástundað af stjórnmálamönnum í fyrstu og allt sparifé launamanna var reglulega gert upptækt í gegnum neikvæða ávöxtun sem skapaðist með reglulegum gengisfellingum.

Þessu var breytt með Ólafslögum um verðtryggingu. Þá kom fram að tengja laun einnig við verðtryggingu, en þáverandi verkalýðsforingjar höfnuðu því, þar sem það myndi koma í veg fyrir eðlilegt launaskrið. Myndin hér að neðan sýnir að það mat var rétt.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir innleggið.

Snýst ekki umræðan um að erfitt sé fyrir lífeyrissjóðina að ná 3.5% raunávöxtun hér á landi. Svo þetta sé orðað öðru vísi, ávöxtunarkröfu upp á 3.5% er aðeins unnt að ná með mun dreifðari eignasamsetningu en að hún sé að stórum hluta bundin í hagkerfi Íslands.

Ég skil umræðuna svona en get haft rangt fyrir mér. Í skjóli þessa geti íslensku lífeyrissjóðirnir ekki vænst 3.5% raunávöxtunar hér á landi og verði því að setja kröfuna lægra á íslenska eignasafnið en hærra á það erlenda. Vegið meðaltal muni síðan ná þessum 3.5%.

Björn Kristinsson

Nafnlaus sagði...

,,En öll vitum að þeir sem þar fara fremstir í flokki, gera það til þess að beina sjónum frá því sem raunverulega gerðist."

Þar sem þú ert orðin formaður stjórnar lífeyrissjóðsins Stafa, og þú segist vita hvað raunverulega gerðist, væri gott að þú skrifaðir um það ?
Ég borga inn í lifeyrissjóðin Stafi og hef gert það frá upphafi. Mig langar að fá sanna frásögn frá því sem gerðist innan Stafa !

Kveðja

Jón Ragnarsson

Guðmundur sagði...

Verð að viðurkenna að ég skil ekki hvað átt er við, fá að vita hvað gerðist innan Stafa. Gerðist eitthvað?

Stjórnarmenn og framvkæmdastjóri hafa reglulega verið fengnir til þess að mæta á félagsfundum innan RSÍ auk þess að sjóðurinn hefur verið með sjóðsfélagafundi, þar hefur verið farið yfir allan feril og ákvarðanir og öllum spurningum svarað ítarlega.

Guðmundur sagði...

Það er rétt Björn á meðan hér verða gjaldeyrishöft eru fjárfestingarmöguleikar lífeyrissjóðanna verulega skertir og bundnir við fjárfestingar hér á landi og á meðan ekki eru fleiri fyrirtæki skráð á mpörkuðum og atvinnulífið í þessari kyrrstöðu væri ákflega gott, reyndar nauðsynlegt að geta dreift áhættuni og fjárfest erlendis. Þetta getur leitt til þess að við næstu uppgjör verði að skerða lífeyrisréttindi enn frekar.

Þetta mun svo leiða til þess að munurinn milli almennu sjóðanna og svo hinna ríkisstryggðu vex ennfrekar, þar sem þeir geta áhyggjulaust sótt það sem upp á vanta í ríkissjóð og byrðar allra skattborgara vegna opinberu sjóðanna vaxa. Á þetta hef ég bent í allmörgum pistlum hér og verið mikil æta vegna þessa í Karphúsinu eins var oft í fréttum síðastliðinn vetur.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur,

Vona að þú fyrirgefir mér að ég sendi inn nokkrar athugasemdir.

1. Rétt, 3,5% krafan er ekki beinlínis gerð af sjóðunum sjálfum heldur er hún vegna laga 129/1997 um ávinnslu lífeyrisréttinda og reglugerðar 391/1998 þar sem kveðið er á um að lífeyrisréttindi skuli afvaxta með 3,5% raunvöxtum. Hins vegar fylgja sjóðirnir 3,5% lágmarki, einfaldlega vegna þess að sjóðirnir verða að ná 3-4% raunávöxtun til að uppfylla 4. grein laga nr. 129/1997 um ávinnslu lífeyrisréttinda.

2. Það væri gott og blessað ef sjóðirnir væru ekki eins stórir á íslenska fjármagnsmarkaðinum og raun ber vitni. Um og yfir 60% af skráðum verðbréfum í Kauphöllinni er í eigu lífeyrissjóðanna. Þeir eru með markaðsráðandi stöðu og þar með hafa lög og reglugerðir sem sjóðirnir verða að fylgja yfirgnæfandi áhrif á fjármagnsmarkað og þar með íslenska hagkerfið.

3. Skýrasta birtingarmynd þessara áhrifa er í gegnum húsnæðislánamarkaðinn. Stór hluti húsnæðislána er í eigu sjóðanna, annaðhvort beint frá sjóðunum eða í gegnum Íbúðalánasjóð. Vegna kröfunnar um 3,5% raunvexti verða húsnæðislán frá sjóðunum, eða í gegnum Íbúðalánasjóð, aldrei með lægri vexti en sem því nemur að viðbættu álagi.

4. Þar með eru háir (langtíma) vextir ekki gjaldmiðlinum að kenna heldur að stórum hluta vegna regluverks á fjármagnsmarkaði. Hins vegar lokar það ekki á spurninguna hvort taka eigi upp evru eða ekki. Það er margt til í því að evruupptaka eða upptaka annars gjaldmiðils myndi vera til góða fyrir hagkerfið. En gjaldmiðlaspurningin er ekki rótin að vaxtavandamálinu sem íslenska hagkerfið glímir við.

5. 3,5% krafan væri ekkert vandamál ef hægt væri að ná henni. En 3,5% reglan er beinlínis krafa um að hægt sé að finna fjárfestingartækifæri sem skila 3,5% raunávöxtun eigi að nota lánsfé frá lífeyrissjóðum til fjárfestinga. Í hagkerfi sem ekki vex um 3,5% á ári (hagvöxtur) að jafnaði yfir langan tíma er slíkt vonlaust. Þess vegna kallaði ég kerfið Ponzi pýramída: kerfið byggist á loforði um ávöxtun sem ekki er hægt að standa við sé ætlunin að fjárfesta innan íslenska hagkerfisins.

6. Það er hárrétt hjá þér að við þessu þarf að bregðast og því fyrr því betra. Og það er hárrétt hjá þér að lausnirnar eru aðeins þrjár: skerða réttindi, hækka iðgjöld og/eða hækka lífeyrisaldur. En allt er þetta bundið í lög 129/1997. Vandamálið er einkum og sér í lagi lagalegs eðlis.

Vona innilega að þú birtir þessar athugasemdir. Ég er líkt og þú mikill áhugamaður um lífeyriskerfið og vil því engu nema vel. En til þess þarf að fara fram upplýst umræða þar sem öll rökstudd sjónarmið, hvort sem við erum sammála þeim eða ekki, birtast.

Bestu kveðjur heim til Íslands,

Ólafur Margeirsson

Guðmundur sagði...

Ætla bara að ítreka það
Það er ekki ávöxtunarkrafa upp á 3,5%, þetta er reiknitala sem er nýtt við árlegt uppgjör á réttindastöðu aldurshópa innan lífeyriskerfsins. Ég veit að það eru margir búnir að velta sér upp úr þessu og gleymt sér í öllu skítkastinu í garð lífeyrissjóðanna og stjórnarmanna þeirra, þegar maður leiðréttir þessar fullyrðingar m.a. um verðtrygginguna og þessa reiknitölu og reyndar fleiri atriði eins og að stjórnarmenn lífeyrissjóðanna hafi staðið fyrir efnahagshrinunu á Ísland, þá er það eins verið sé að taka leikföng af óþekkum krökkum.

T.d. tapaðist um það bil 15 fallt meir en heildareignir lífeyrissjóðanna við Hrunið.
Tap lífeyrissjóðanna var um 15% af eignum, þrátt fyriri þessar staðreyndir er í hverju einasta Silfri Egils hinu gagnstæða haldið fram þá einna helst af stjórnanda þáttarins og eins kemur það fram í spurningum hans.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, takk fyrir málefnalegan pistil um lífeyrissjóðsmál.

Þessi 3,5% ávöxtunarkrafa hefur meiri áhrif en þú vilt vera láta.

Of há krafa heldur upp of miklum réttindum. Sem leiðir til þess að þeir sem eru að fá greitt úr sjóðnum eru að fá of mikið. Ef síðan eftir 20 ár þá sæu menn að sér og lækkuðu kröfuna með tilheyrandi lækkun réttinda, þá væri það mikið kjaftshögg fyrir þáverandi lífeyrissjóðsfélaga.

Þetta er því hápólitískt mál. Þar sem þeir sem fá greidd úr sjóðunum á hverjum tíma munu berjast gegn því að lækka kröfuna, á meðan yngstu sjóðsfélagarnir ættu að vilja fá kröfuna í eitthvað nær væntum hagvexti.

Meðal hagvöxtur alla síðustu öld per einstakling var 2,7%. Á síðustu öld tókum við í raun þriggja alda tækniframþróun út á einni öld, þannig að það er ljóst að hagvöxtur verður miklu minni á þessari öld. Eðlilegri ávöxtunarkrafa væri líklega á bilinu 1-1,5%

Ein leiðin væri að trappa áv.kröfuna niður í skrefum til þess að koma ekki of illa niður á þeim sjóðsfélögum sem nú eru að fá greitt úr sjóðunum.

Það er líka alveg ljóst að það þarf að borga hærra hlutfall launa í lífeyrisjóðina til að uppfylla lög 129/1997 um 56% útgreiðslu í 20 ár eftir 40 ára innborgun.

Aukin innborgun er aftur hápólitísk því hún myndi þýða minni skatttekjur í ríkissjóð að öllu óbreyttu.

Tek síðan undir með Ólafi að þessi krafa heldur uppi of háu vaxtastigi í landinu, má einnig bæta við að hún ýtir undir áhættusamar fjárfestingar og býr til óraunhæfar væntingar um útborgaðan lífeyri.

Kveðja
Hjalti Atlason