föstudagur, 7. október 2011

Táknmálið loks viðurkennt - frábærir tónleikar


Félag heyrnarlausra hélt í gærkvöldi glæsilega tónleika í Langholtskirkju til þess að fagna því að loks væri íslenska táknmálið orðið jafnrétthátt íslensku þjóðtungunni. Þessi barátta hófst á vegum félagsins árið 1980 og hefur staðið í 30 ár. Það eru ekki mörg ár síðan kennarar slógu á hendur heyrnarlausra og ætluðust til þess að heyrnarlausir lærðu að tala!!?? Þetta kom fram í setningu tónleikanna hjá Erni Árna, sem fór sannarlega á kostum í kynningum sínum milli laga.

Það er einhvernvegin svo ótrúlegt að þessi barátta hafi þurft að fara fram á Íslandi í dag. Þar rifjaðist upp fyrir mér örvhentum manninum þegar mamma, sem einnig var örvhent, sagði mér frá því að vinstri hendi hennar hafi verið bundin fyrir aftan bak í barnaskóla og hún knúin til þess að skrifa með hægri.

Á tónleikunum komu fram margir listamenn, þar á meðal Gunnar Þórðar, Hörður Torfa, Ellen og KK, Páll Rósinkranz, Egill Ólafss, Guðrún Gunnarsdóttir, kór Langholtskirkju og táknmálskórinn. Með öllu listafólkinu komu fram heyrnarlausir listamenn sem fluttu samstímis lagið á sínu tungumáli, táknmálinu. Þar voru í aðalhlutverkum Kolbrún Völkudóttir, Eyrún Ólafsdóttir, Hulda Halldórsdóttir, Elsa G. Björnsdóttir og Anna Jóna Lárusdóttir.

Allir fluttu söngvararnir velþekkt lög og gerðu það virkilega vel. Langholtskirkja er frábær tónleikastaður, með þeim bestu í bænum og húsið var smekkfullt. Ég verð að viðurkenna að flutningur heyrnarlausu listamannanna við hlið söngvaranna bókstaflega opnaði fyrir mér nýja hlið á lögunum og textunum, í orðsins fyllstu merkingu. Kom mér í opna skjöldu og ég var fullkomlega heillaður.

Ég skil ekkert í táknmáli, en við túlkun laga og texta sem maður þekkti svo vel, varð mér ljóst að táknmálið er a.m.k. jafnlitríkt og tungumálið, það kom svo vel fram í tjáningu og innlifum hvers hinna heyrnarlausu listamanna. Hún var tilfinningarík náði fram öllum boðskap textanna, maður lifði sig mun betur inn í texta og boðskap hvers lags.

Glæsilegir og vel heppnaðir tónleikar og sérstök ástæða til þess að óska heyrnarlausum til hamingju með sigur sinn á íhaldssömu samfélagi, ég biðst afsökunar fyrir hönd okkar hinna, innilega.

Engin ummæli: