miðvikudagur, 19. október 2011

Tjöldin eru fallin

Öll þekkjum við vinnubrögð stjórnmálamanna í kosningabaráttu. Lofað er aukinni atvinnu og talinn upp verkefni sem viðkomandi ætli sér að hrinda í framkvæmd nái hann inn á þing. Stjórnmálamenn hafa undanfarna áratugi talað eins og það sé ótakmörkuð orka á Íslandi.

Í þessu sambandi má minna á málflutning stjórnarflokkanna eftir aldamót og þeir eru að endurtaka þessa dagana. Lofað var Kárahnjúkavirkjun og stóru álveri fyrir austan, bara sú framkvæmd velgdi hagkerfið töluvert. Þar til viðbótar var bætt í með 100% fasteignalánum og á örskömmum tíma margfaldaðist byggingariðnaðurinn og hagkerfið hrundi með skelfilegum afleiðingum fyrir næstum alla landsmenn.

Auk þess var byrjað á að reisa stóra tónleikahöll, alþjóðlega viðskiptamiðstöð og risahótel við höfnina í Reykjavík, samfara því að staðið var að margföldum bankakerfisins. Á sama tíma átti að byggja nýtt hátæknisjúkrahús. Sundabraut, Vaðlaheiðagöng og tvöfalda Hvalfjarðargöng. Þar til viðbótar var lofað tveim nýjum stórum álverum í Helguvík og Bakka. Stækka álverið í Straumsvík og fyrirheit um að skoða álver í Þorlákshöfn. Jafnvel að stækka álverið á Reyðarfirði, þar sem afgangsorka væri í Kárahnjúkum.

Á dagskránni voru einnig nokkur risavaxin gagnaver og nokkrar verksmiðjur víðsvegar um landið. Koltrefjaverksmiðja, kísilverksmiðjur og þannig mætti lengi telja. Margir bentu á að ef af þessu yrði væri búið að virkja allt sem virkjanlegt væri á Íslandi með núverandi tækni. Stjórnmálamenn fundu svar við þessu þeir lofuðu ómældri orku með djúpborunum. Tækni sem er óþekkt í dag.

Á sama tíma er rætt um að innan nokkurra ára verði búið að rafvæða drjúgan hluta bílaflotans (þarf orku sem samsvarar afli Kárahnjúkavirkjunar) og spara með því gríðarlega fjárhæðir í erlendum gjaldeyri. Á sama tíma er rætt um að leggja sæstreng til Evrópu og selja orku þangað.

Vinnubrögð af þessu tagi eru í raun skemmdarverk, því endurtekið er verið að beina athyglinni að einhverju óraunverulegu, en viðráðanleg verkefni og undirbúningur þeirra komast ekki í umræðu.

Nú standa formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í pontu Alþingis að segja "að tjöldin séu fallinn og verið sé svíkja loforð sem landsmönnum hafi verið gefinn."

Hverjir voru það sem gáfu þessi loforð? Hlustandi á þennan málflutning þá rennur upp fyrir manni hvers vegna varð kerfishrun undir stjórn þessara manna.

Ef reisa á samkeppnishæft álver þarf það um 450 – 500 MW eins og kunnugt er. Nú er búið að lofa um það bil 100 – 150 MW til nokkurra verkefna á NA-landi Lítum á hvaða möguleikar eru til framleiðslu orku á þessu svæði.

Skjálfandafljót og Arnardalur Til eru drög að virkjunum í Skjálfandafljóti. Önnur er 70 MW, hún er ofarlega í Bárðardal og kennd við Fljótshnjúk og yrði við Aldeyjarfoss.

Neðar eru Hrafnbjargavirkjanir 100 MW við samnefnda fossa.

Einnig eru til áform um risavirkjun í Jökulsá á Fjöllum með því að veita henni til Kreppu þar sem styst er á milli ánna sunnan Þorlákslindahryggjar. Þeim yrði síðan veitt austur fyrir hrygginn þar sem miðlunarlón yrði myndað með stíflu í Arnadalsá. Vatnið yrði síðan veitt um göng að stöðvarhúsi neðanjarðar og þaðan með frárennslisgöngum út í Jökulsá á Brú. Þar yrði lón og svo önnur göng undir Fljótsdalsheiði og stöðvarhús neðanjarðar með frárennsli í Lagarfljótið.

Þetta yrðu stórvirkjanir sem ekki yrðu mikið minni en Þjórsárvirkjanirnar (600MW). En það mun sjálfsagt vefjast fyrir mörgum að Dettifoss myndi minnka allverulega. Þessi virkjun hefur verið nefnd í sambandi við útflutning á orku um streng.

Gufuafl. Þessu til viðbótar eru áform um allmargar gufuaflsvirkjanir þar helst. Háganga 120 MW, Krafla 160 MW, Bjarnaflag 80 MW, Þeistareykir 120 MW, Gjástykki 40 MW. Hér er miðað við raunsæjar áætlanir og auk þess bent á að hvernig áætlanir um gufuaflsvirkjanir hafi hintað til staðist.

Sé litið til norðurlandanna þá er búið fyrir allmörgum árum að loka á frekari stórvirkjanir út frá náttúruverndarsjónarmiðum. Það sem eftir er að virkja t.d. í Noregi eru minni virkjanir þar sem bændur eru virkja árnar í löndum sínum. Hér á Íslandi nálgumst við sömu stöðu, erum þegar búinn að nýta um 1/3 af þeirri orku sem landsmenn munu samþykkja að verði virkjað.

Það eru ekki margir möguleikar á stórvirkjunum eftir, nema þá að fara á staði sem hætt er við að vekja heiftarleg viðbrögð almennings. Gullfoss er spennandi kostur og síðan mætti grafa skurð og göng undir Flúðir og veita Hvítanni í Þjórsá og stækka væntanlegar virkjanir í neðri hluta Þjórsár um helming.

Það er hægt að reisa fjölmargar smærri virkjanir víða um land, enda eru nokkrir íslenskir bændur þegar farnir að virkja heimaár sínar og margir eru komnir á undirbúningsstig.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, fyrst að allar þessar hugmyndir sem þú rifjar upp eru svona kolómögulegar, hvaða hugmyndir ert þú með um hvernig sé hægt að skapa hér störf og auka hagvöxt og velferð?

Guðmundur sagði...

Enn einu sinni bregða menn sér í útúrsnúningakeppnina, og reyna með því að sprengja alla vitræna umræðu hér landi.

Ég segi hvergi að þessar hugmyndir séu allar kolómögulegar.

Ég segi að það að láta sér detta í hug að framkvæmda þetta allt á svona skömmum tíma sé út í hött.

Ég bendi á að það blasi við öllum sem vilja sjá að þetta sé óframkvæmanlegt vegna orkuskorts.

Ég bendi á hvað það var sem leiddi Ísland fram af bjargbrúninni án þess að það sæist svo mikið sem sentimeters bremsufar og nú eru sömu tillögur komnar fram.

Í guðs bænum höldum okkur við það efni sem til umræðu er.

Nafnlaus sagði...

Ég var ekki með neinn útúrsnúning.
Ég sá ekki betur en að þú hafir verið að lýsa vandlætingu þinni á Kárahnjúkavirkjuninni.

En auðvitað sjá allir það að allar þær hugmyndir sem komið var með hér á árum áður um ativnnuuppbyggingu gætu aldrei orðið að veruleika.

Þetta vour bara hugmyndir enda vissi fólk að einunigs nokkrar af þessum hugmyndum gætu orðið að veruleika.
Að auki var verið að hugsa til langs tíma, svona 5-10 ára.

En nú hafa stjórnvöld stoppað þetta allt. Nú á að finna upp hjólið að nýju hér á landi, allir eiga að vera listamenn, hugverkasmiðir eða að taka á móti ferðamönnum. Allir.

Nú talar málsmetandi fólk og álitsgjafar um orkuskort.

En vitum við hversu mikil orka er til í landinu í raun og veru?

Það fer eftir því við hvern er talað.

Samkvæmt þeim sem vilja nýta orkuna til iðjuvera og framleiðslu, þá er næg orka til í landinu.

En samkvæmt þeim sem telja sig náttúruverndasinna, umhverfissinna, eða friðunarsinna, þá er öll virkjanleg orku upp urin á landinu.

Svo er það hinn þögli meirihluti sem er mitt á milli þessara sjónarmiða og vill fara skynsamlega í hlutina.

Kv.
Nafnlaus kl. 11.16

Nafnlaus sagði...

En Guðmundur, hvað vilt þú gera til að stórminnka hér atvinnuleysi.

Allir vita jú sjónarmið þín þess efnis að við inngöngu í ESB að þá leysast öll okkar efnahagslegu vandræði sjálfkrafa og það til frambúðar.

En hvaða aðrar hugmyndir ertu með Guðmundur?

Guðmundur sagði...

Enn eru menn í útúrsnúninga leiknum

Einkennilegt að lesa Kárahnjúkavirkjun eina sér út úr þessu. Ég segi í pistlinum að ef þáverandi stjírnmálamenn hefðu látið nægja Kárahnjúkavirkjun og láverið hefði það valdið smá hita í hagkerfinu, það var hitt sem er talið upp sem olli Hruninu, það stendur mjög skýrt í pistlinum.


Ég hef hvergi sagt að með inngöngu í ESB leysist okkar mál sjálfkrafa til frambúðar - hvergi.

Öll skrif mín um þetta efni eru hér á þessari síðu.

Ég hef aftur á móti sagt að með núverandi gjaldmiðilskerfi verði áfram kyrrstaða hér. Ný störf verða ekki til í þeim mæli sem þarf og við munum ekki ná ásættanlegum kaupmætti.

Vextir verða óþarflega háir og verðtrygging verði hér áfram.

Valið sé að herða efnahagsstjórn mikið, ef við gerum það með krónunni, sem er hægt, þá séum við að kalla yfir okkur óþarfa kostnað, sem er að mestu tilkominn sem herkostnaður af digrum gjaldeyrisvarasjóðum.

Ég hef sagt að ESB sé ekki töfralausn, en kostirnir séu fleiri en gallarnir.

Öll helstu fyrirtæki landins eru búin að flýja krónuna, eftir situr launmaðurinn og þeir sem þú ert að verja geta reglulega gert eignaupptöku hjá launamönnum og lækkað hjá sér launakostnað, þetta eru forréttindi sem þú verð með kjafti og klóm á meðan heimilin verslast upp. Þúsundir launamanna hafa flúið krónuna yfir til ESB landa og fleiri munu gera það.

Nafnlaus sagði...

Nafnlaus-19. október 2011 13:55

Er ríkisábyrgð uppá hundruði milljarða til að redda 500 manns vinnu aðgerð til að "stórminnka atvinnuleysi"???


Hvað eru það margir milljarðar þá á 10.000 manns?

Sigurbjörn Sveinsson sagði...

Sennilega er virkjun Goðafoss skynsamleg niðurstaða. Með því vinnst ýmilegt. 1. Nægjanlegt rafmagn fengist til að fullnægja eftirpsurn um mörg ókomin ár. 2. Áin er að brjóta fossinn og honum yrði hlíft nema að sumri. 3. Inntakslón fyrir virkjun myndi breyta jarðvatnsstöðu á þessum slóðum en eins og kunnugt er þá jaðrar við eyðaimörk fyrir ofan fossinn. Gróður myndi taka við sér á stórum svæðum fyrir þessi áhrif. Sennilega fylgdi þessu mikil nátúruvernd.

Guðmundur sagði...

Það er greinilegt að þessi pistill fer í ákaflega taugarnar á einhverjum, svo mikið að þeim finnst ástæða til þess að vera með að venju einhverjar dylgjur í garð starfsmanna stéttarfélaga og að venju er það ekki birt hér.

Ég ætla að túlka það sem í pistlinum stendur því sumir virðast ekki skilja það.

Stjórnarþingmenn og ráðherrar fram að Hruni og haf reyndar sumir hverjir haldið því áfram að orka sé óþrjótandi á Íslandi, jafnvel þó margir hafi bent þeim á annað.

Sömu ráðmenn létu ekki duga að stofna til fjárfestinga sem áttu að duga íslensku hagkerfi vel til þess að rífa sig, létu ekki þar við sitja og hleyptu enn meiri fjárfestingum af stað og lofuðu margföldun framkvæmda, allt sem ekki gat endað öðruvísi en með efnahagslegum hörmungum.

Talsmenn sömu sjónarmiða virðast ekki hafa lært neitt, jafnvel þó tugir þúsunda heimila liggji í valnum og brostinn sé flótti á þúsunda íslenskra launamanna.

Það liggur fyrir að það er hægt að byggja stórt álver á Húsavík, en til þess að þaðsé framkvænanlegt þarf að virkja nokkrar vatnsaflsár, eins og t.d. Skjálfandafljót og hluta Jökulsár á Fjöllum. Þetta vita allir en sumir vilja ekki horfast í augu við þessar einföldu staðreynidri og fara þá að venju talsmanna þessrar sjónarmiða í útúrsnúingakeppni, það eina sem þetta fólk kann í mannlegum samskiptum

Sigurbjörn Sveinsson sagði...

Þar sem að ofan er nefndur Goðafoss er átt við Dettifoss.

Nafnlaus sagði...

Sammála þér Guðmundur að það er rétt að fara sér hægt í svona stórar virkjanir og ekki nema að vel athuguðu máli. Bæði vegna umhverfissjónarmiða, og svo líka með það markmiði að orkan nýtist okkur Íslendingum sem best hér innanlands til enn frekari verðmætasköpunar. Þar er t.d. álver að ég tali nú ekki um sæstreng út af borði að mínu mati.

Væri áhugavert að fá að heyra þína skoðun á hvar þú sérð tækifærin til verðmætasköpunar á Íslandi í framtíðinni. Hvar verður vöxturinn? Hvar eru tækifærin?

Og það óháð því hvaða gjaldmiðill er notaður.

Guðmundur sagði...

Í dag eru um 15 þús. íslendingar atvinnulausir, auk þess að um 4 – 5.000 hafa flutt erlendis. Inn á íslenskan vinnumarkað koma að meðaltali 2.500 árlega umfram þá sem hverfa af vinnumarkaðnum. Ef við ætlum að koma atvinnuleysi niður fyrir 3% á næstu 4 árum þurfum við að skapa um 22.000 ný störf á þeim tíma. Það þýðir að við þurfum hagvöxt af stærðargráðunni 4.5 - 5% sem er gríðarlega hátt.
Það vantar ekki fólk í fiskvinnslu eða landbúnað. Þar hefur ekki orðið nein fjölgun á undanförnum árum, frekar hið gagnstæða og er ekkert útlit fyrir fjölgun í þessum starfsgeirum. Öll fjölgun hefur verið í störfum tengdum tæknistörfum og þjónustu.
Íslendingar verða að að leggja það niður fyrir sér hvernig þeir ætli að nýta þá takmörkuðu orku sem eftir er að virkja. Ef menn vilja byggja álver verða menn að horfast í augu við það að við höfum orku fyrir um 2 ný álver sé litið til þeirrar orku sem rammaálætlun gerir ráð fyrir og almennrar orkuaukningar. Við værum með því að útiloka mjög marga aðra kosti.
Að teknu tilliti til þessara þátta hljótum við að skoða hvernig getum við nýtt þá orku sem við eigum eftir til þess að skapa sem flest störf. Við getum selt alla orkuna og haft af því tekjur en þá erum við í raun að staðfesta að við reiknum með að það fjölgi ekki mikið á vinnumarkaði hér á landi, en fjölginin fari annað og leiti sér að störfum. Þar er svo sem valkostur og viðurkenn að við vitum hvert sé stefnt.

Ég er búinn skrifa mikið um þetta, enda nátengt því sem ég hef starfað við nánast allan minn starfsferil, fyrst sem starfsmaður í áratug við hátæknistörf, síðan annan áratug við kennslu í notkun og viðhald hátæknibúnaðs og svo 17 ár sem forystumaður í samtökum rafiðnaðarmanna hér á landi, auk þess að hafa verið formaður samtaka norrænna rafiðnaðarmanna í 6 ár. En þeir eru um 150. þúsund.

Hér eru nokkrar af þessum fjölmörgu greinum :

http://gudmundur.eyjan.is/2010/09/efla-hatkniina-og-rannsoknir.html
http://gudmundur.eyjan.is/2010/03/er-til-fleira-en-storija.html
http://gudmundur.eyjan.is/2009/05/fjolgun-starfa.html

kv GG