Ég var ákaflega undrandi á fréttamati RÚV í gærkvöldi þar sem fram kom að helsta atriði ráðstefnunnar í gær um stöðu efnahagsmála hefðu verið að krónan væri bjarghringur Íslands, auk þess að fyrirlesarar væru furðu lostnir yfir því að íslendingar vildu skipta henni út fyrir Evru.
Ég sat ekki þessa ráðstefnu, var fastur í vinnu, en vitandi hverjir voru á mælendaskrá var ég viss um að fyrirlesarar væru ekki allir sömu skoðunar, og var næsta viss um að önnur áhugaverð atriði hefðu komið fram. Ég veit það núna að svo var og það voru Mr. Wolf og Krugman sem dásömuðu krónuna ekki aðrir. Það er rétt krónan er fín fyrir skuldlaust efnafólk, krónan gerir það reglulega ríkara með stórkostlegum eignatilfærslum sem gerðar eru með gengisfellingum, þetta sjónarmið virðist fréttastofa RÚV styðja umfram önnur.
Eftir að hafa hlustað á viðtöl við þessa menn, finnst mér að þeir tali eins og það hafi ekki verið líf á Íslandi fyrir Hrun. Þeir koma ekki inn á um hversu stóran þátt spilið með krónuna átti í hamförum heimilanna. Þeir fjölluðu ekki um hvers vegna tugþúsunda íslendingar töpuðu öllu sem þeir átti og stóðu þar að auki frammi fyrir ókleifu skuldafjalli. Hvers vegna stendur íslenskur almenningur mun verr eftir efnahagshrunið en t.d. almenningur í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi já og jafnvel Írlandi? Þar bjó fólk við gjaldmiðil sem bauð ekki upp sömu geggjun og krónan gerir.
Þeir tala eins og líf hafi byrjað á Íslandi 1. nóv. 2008 með öll mælitæki núllstillt. Það voru margir sem tóku þessu fagnaðarerindi vel, sem RÚV hélt svo ákaft að landsmönnum. Sérstaklega þeir sem eru í þeim flokk sem berst gegn því að þeirra sérhagsmunir verði skertir, eða með öðrum orðum, aðgengi þeirra í vasa almennings, upptaka á launum og sparfé verkafólks verði takmörkuð.
Krugmann, sem hefur ítrekað fengið núlleinkunn fyrir yfirborðskennda umfjöllun sína um íslenskt efnahagslíf, var ekkert að fela það ásamt Mr. Wolf hversu hrifnir þeir voru af hinu íslenska kerfi, þar væri blóðsúthellingalaust auðvelt að gengisfella reglulega kjarabaráttu verkafólks og þeir komu ítrekað inn á þann þátt sem stóran kost. Hér fara menn sem hafa lítinn áhuga og skilning á hugtakinu jöfnuði.
Buiter var á annarri skoðun og sagði að ef hann væri í sporum íslendingar myndi hann biðja fyrir því að aðalviðskiptasvæði Íslands ESB lif'ði af ásamt evrunni. Hann hvatti m.a. til almennrar skuldaafskriftar heimilanna þar sem miðað yrði við 70% verðmæti fasteignalána. Hann varaði við yfirvofandi hruni íslenska fjármálakerfisins. Skýrslunni var þá stungið undir stól í bankanum og af stjórnvöldum. Þegar fréttir af skýrslunni bárust út sumarið 2008 sagði Þorgerður Katrín þávernadi ráðherra að niðurstöður Buiters vektu upp spurningar um hvort hann þyrfti á endurmenntun að halda. RÚV hafði ekki áhuga á því að flytja okkur fréttir af þessu erindi.
Okkur er gert að búa við gjaldmiðil sem er nýttur til þess að hafa af okkur laun og eignir. 12% af launum fara í að greiða vaxtamun milli Íslands og ESB. 30% af tekjum fara í að greiða allan kostnað heimilanna af því umhverfi sem krónan býr okkur, hluti þess rennur þráðbeint í vasa hin efnaða minnihluta, og vitanlega berst hann gegn öllum breytingum. Hann vill geta selt sína vöru í erlendum myntum, en greitt launamönnum í íslenskri krónu og geymt mismunin í erlendum bönkum.
Fjölmiðlar keyptir og reknir með milljarða tapi til þess að "útskýra!!" málið. Fluttir eru inn sérvaldir sérfræðingar og keyptir stærstu ráðstefnusalir borgarinnar til þess að boða þetta fagnaðarerindi. Hnippt er í rétta aðila á fréttastofu allra landsmanna til þess að boðskapurinn komist inn á öll heimili í landinu og svo væntanlega endurtekinn í Silfri Egils um helgina.
Það er svo annað mál að langtímahorfur íslendinga gætu verið góðar, sama á ekki við um margar aðrar þjóðir. Þær eiga við að etja skuldavanda, lífeyrisvanda og skort á auðlindum. Endurnýjanleg orka er eftirsóttasta vara sem til er. Náttúruauðlindir hafa ekki endilega verið ávísun á ríkidæmi og velgegni. Frekar hið gagnstæða. Þar má benda á Argentínu, Nígeríu og fleiri þjóðir. Hér má benda á hvernig Noregur nýtti sínar auðlindir samanborið við Bretland.
Hvað varðar atvinnulífið er versta afleiðing Hrunsins að öll stærri fyrirtæki landsins hafa, eða eru að flytja höfuðstöðvar sínar frá Íslandi með flutning þúsunda verðmætra starfa frá landinu og fyrirtækin flytja sig útúr krónusvæðinu, sífellt færri er gert að standa undir kostnaðinum af krónunni.
Við höfum nýtt alla orku okkar frá Hruni í að horfa tilbaka, á meðan sitja hundruð manna á sakabekk og bíða rannsóknar. Þetta eru oft miklir hæfileikamenn og með verðmæta þekkingu sem ekki nýtist til uppbyggingar í landinu á meðan.
Í jafnfámennu landi og Ísland er þetta dýrt því þetta veldur því að í mörgum tilfellum er ekki hæfasta fólki að störfum við hin erfiðu verkefni sem við verðum að leysa til þess að komast upp úr hjólförnum. Eftiráspekingum er hampað og spjallþáttastjórnendum hefur jafnvel tekist tekist að finna einhverja málsgrein í blaðagrein sem túlka má þannig að þeir hafi séð Hrunið fyrir.
Afleiðing þessa er kyrrstaða og það verður sífellt lengra í að okkur takist að ná stöðugleika í efnahags- og gjaldmiðilsmálum. Öll helstu fyrirtæki landsins hafa hafnað krónunni og hún er líka ástæða þess að þekkingar/hátækniiðnaðurinn er ekki með Ísland inn á blaðinu sem fjárfestingarkost. Sakir þess að eru hverfandi líkur á því að það takist að fjölga störfum á Íslandi í því magni sem þarf til þess að komast upp út úr viðjum Hrunsins.
Örgjaldmiðillin króna býður upp á að hægt er að skapa þá geggjun sem hér varð, sem varð til þess að heimilin liggja eftir í valnum og hún er einn stærsti þáttur þess að við náum okkur ekki upp úr táradalnum.
13 ummæli:
Hvernig getur þú, Guðmundur, sem ekki sast ráðstefnuna lagt á fréttamat þeirra sem sátu ráðstefnuna? Ég sat ráðstefnuna og glósaði nokkuð vel hvað menn sögðu. Þú nefnilega snýrð þessu á hvolf. Það voru tveir sem sögðu að við hefðum verið betur sett án krónunnar, en allir aðrir, já, allir aðrir sögðu að það að vera með krónuna hafi komið okkur til góða.
Rauði þráðurinn á ráðstefnunni var: afnema verðtrygginguna (meira að segja Gylfi A sagðist ekki vera sérstakur varðhundur hennar), við erum betur sett með krónuna en evru, ganga þarf hraðar og lengra fram í afskriftum og koma þarf fjárfestingum á fullt.
Margir, bæði innlendir og erlendir ræðumenn, lokuðu augunum fyrir því að endurreisnin hefur kost almenning fót og arm í lækkuðum kaupmætti, atvinnuleysi, stökkbreytingu lána, o.s.frv. Mér tókst að fá Julie Kozack til að hálf biðjast afsökunar á því að hafa skautað yfir það.
Hrunið orsakaðist ekki af því að við höfðum krónuna. Hrunið varð vegna þess að fjármálakerfið var fullt af fólki (bæði hér á landi og erlendis) sem hélt að það væri svo snjallt að það þyrfti ekki að sýna varúð og sýndi því af sér afglapahátt.
Aðlögun á hagkerfi sem hefur orðið fyrir efnahagsáfalli eins og Ísland getur farið fram með:
(a) Gengisfalli á gjaldmiðli
(b) Innri gengisfelling: lækkun launa og samdráttur í opinberum rekstri.
Ekki ómerkari maður en Paul Krugmann lét þetta fara frá sér. Hann lét einnig fylgja með að innri gengisfelling hefði hvergi gefist vel.
Meginvandi IKR er óagi í rekstri hins opinbera ásamt. Þegar við bætist ósveigjanlegt kerfi þá getur niðurstaðan varla oðin nema ein.
Á meðan ríkið er og hefur alltaf verið stærsti lántakandinn á skuldabréfamarkaði þá er ljóst að ákvöxtunarkrafan hlýtur alltaf að vera há þegar eftirspurnin er meiri en framboðið. Þegar við bætist að lífeyrissjóðirnir neita að kaupa verðtryggð bréf undir 3.5% raunávöxtun er þá ekki ljóst hvar vandinn er ?
Það er auðvelt að kenna IKR um allt, en hvernig væri að skoða árangur okkar í efnahagsstjórnun. Dæmi hver um sig.
Björn Kristinsson
ps. Ég hef ekkert á móti því að skoðað upptöku á annari mynt en það er í lagi að skoða hlutina í réttu ljósi.
Við verkafólkið vorum alltaf vön að kalla hagfræðingana "hagræðinga". Sbr. að hagræða.
Frábær pistill og kjarni málsins.
Þetta er betri greining á vandanum en allir fyrirlestrar, fræðimanna í Hörpu samanlagt.
Það er annars merkilegt að sumir af hinum svokölluðum fræðimönnum - og fjölmiðlamönnum - er í reynd - harðir stjórnmaálmenn í dulargervi - sem hlusta ekki á nein rök.
Þeir eru óhæfir í rökræður - því þeir spila alltaf sömu rispuðu pólitísku plötuna - sem þeir hafa spilar í mörg ár - og endar - yfirleitt - á dásemd krónunnar,,,,
Rök og máflutningur þeirra margra minnir á Matrein Mosdal og hans flokk - ríkisflokkinn - þar sem bara er leyfð ein skoðun - hin eina sanna skoðun - þar sem svart er gert hvítt - blátt rautt - og þar sem hægri og vinstri - sameinast í stefnumörkun - til meiri hörmunga byggða á krónu.
Í slíkri umræðu - verður moldviðrið stefnan - til að rugla sem flesta - og gera von heimila um lægri vexti og varanlegar langtímalausnir á skuldavandanum að engu.
Í slíku ástandi - gerist aðeins eitt - vandinn magnast - þar til kerfið hrynur að nýju.
Er það markmiðið með því að rugla umræðuna sem mest - þar sem rök skipta engu? Og ef svo er hver er ástæðan?
Er ekki kominn tími á að kalla til sálfræðinga - til að greina hvað liggur að baki... þar sem þjóðaröryggi í fjármálum þjóðarinnar er í húfi,,, og magnast hratt,,, tími til að stoppa stigmögnun vandans er af skornum skammti.
Sjálsafneitun krónusinna minni mig mjög á viðmælendann í þessu (grín)viðtali
http://www.youtube.com/watch?v=gwFvNYSCmhM&feature=feedrec_grec_index
Góður pistill,
Það er merkilegt við sjónvarp allra landsmanna, að í 3 daga hefur það flutt okkur fréttir af því hvað krónan er frábær gjaldmiðill. Heimilin sem eru að drukkan í skuldum hljóta að fara að trúa því.
Bæði í gær og í kvöld var helsta frétt frá ráðstefnunni í Hörpu að krónan væri gjaldmiðill framtíðarinnar!!!! engin umfjöllun var um aðrar skoðanir sem þó voru skýrar eins og frá Willem Buiter sem sagði að að mikilvægt væri fyrri Íslandi að taka upp evru.
Einnig var langt viðtal við Martin Wolf, frá FT, þar sem krónan var dásömuð. Engin viðtöl við aðra fræðimenn á öðrum skoðunum.
Er þetta línan ein skoðun, engin vönduð og málefnaleg umfjöllun er það að verða lína RUV sjónvarps og þá hvers vegna?
Helsta frétt kvöldsins var bein útsending frá VG á Akureyri krónan er framtíðin!! ekkert um vanda heimilanna.
Er fagmennskan á svona háu plani á sjónvarpi allra landsmanna?
Lék krónan aðalhlutverk í því að leggja heimilin í rúst?
Skrýtið, ég hef aldrei séð krónupening taka sjálfstæðar ákvarðanir. Og ég hef aðeins séð lifandi einstaklinga leika aðalhlutverk í einhverju, en aldrei dauða hluti.
Hvar fær maður svona flotta peninga, að þeir hafi sjálfstæða hugsun og frumkvæði til athafna?
Eru það samskonar peningar og fjármagnseigendur láta "vinna fyrir sig", jafnvel þó aldrei hafi neinn séð pappírsmiða og málskífur framkvæma ærlegt handtak?
Þú ættir að lesa pistilinn aftur Marínó og þú ættir að kynna þér betur afstöðu verkalýðshreyfingarinna til hárra vaxta.
Þú ert búinn að bera ómerkilegar sakir á saklaust fólk, verið með innistæulaust persónuníð um starfsfólk stéttarfélaganna.
Öll stéttarfélögin hafa árum saman barist við það að tekið væri á efnahagsástandinu ogþannig að það væri hægt að ná niður vöxtum og skapa stöðugleika.
Þú ættir að kynna þér hvað verðtrygging er í raun og veru, en það er ljóst af skrifum þínum að þú hefur ákaflega takmarkaða þekkingu á því sem þú skrifar um þau mál.
Já það er rétt hjá þér Guðmundur ummæli Marínós um starfsfólk launamanna eru algjörlega makalaus. Hann ætti að lesa http://gudmundur.eyjan.is/2011/10/er-vertryggingin-aalvandinn.html
svona til þess að kynna sér málin betur
Góðar kv Guðmundur Ó.
Þegar verðlag hækkar þá þarf að fjölga krónum svo lánið haldi verðgildi sínu. Verðleiðréttingin felst í að halda verðgildi lánanna óbreyttu, þau hækka ekki, þau standa í stað hvað verðgildi snertir. Því miður er þetta kallað verðtrygging, sem er auðviðtað engin trygging fyrir einu né neinu, áhættan af lánastarfseminni er eftir sem áður til staðar fyrir báða aðila.
Hagkerfi eru 10 kaffibollar - það eru verðmæti þess hagkerfis.
Ég á 5 kaffibolla - þú átt 5 kaffibolla. Þetta hagkerfi framleiðir
ekki kaffi, en einn daginn hækkar kaffið um 20%.
Verðmæti hagkerfisins lækka um 20% og verða 8 nýrra kaffibolla virði.
Þá á ég í raun aðeins andvirði 4 nýrra kaffibolla, en þar sem þú
ert með þína kaffibolla verðtryggða, vilt þú enn eiga andvirði
5 nýrra kaffibolla. Spurningin er bara hver á að borga þennan
viðbótar kaffibolla þinn? - hlýtur að vera ég, sem á þá í raun
aðeins andvirði 3 nýrra kaffibolla eftir þessa hækkun kaffis fyrir
utan þetta litla hagkerfi.
En ég, launamaður og innan örfárra ára lífeyrisþegi úr lífeyrissjóðnum mínum, hef að sjálfsögðu enga burði eða getu til að skilja hvað verðtrygging er.
Góður pistill, Guðmundur. Haltu þínu striki.
Ég sé nú ekki mikinn mun á því hvort launin mín væru lækkuð í evrum eða hvort kaupmátturinn er lækkaður með hækkunum á afborgunum lána vegna verðtryggingar og hækkunar á allri vöru og þjónustu í landinu.
Ég bjó 12 ár í Þýskalandi, þar sem svona sirkus var ekki í gangi líkt og hér á landi. Það veit enginn hvernig það er að búa í stöðugu efnahagslegu umhverfi fyrr en hann hefur reynt það sjálfur. Fyrir mig er þetta munur, sem hægt er að líkja við efnahagslegt helvíti eða himnaríki!
Kv. Guðbjörn Guðbjörnsson
Skrifa ummæli