Stjórnarskrár eru til þess að styrkja opinbera ákvarðanatöku. Í frumvarpsdörgum Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er markvisst og yfirvegað stefnt að því að yfirstíga þær mörgu hindranir sem valdahópar höfðu í skjóli flokksræðis komið sér upp í íslensku samfélagi. Markmiðið Stjórnlagaráðs var að bæta ákvarðanatökuferli með því að tryggja, og reyndar krefjast opinnar umræðu til þess að koma í veg fyrir að ákvarðanir séu teknar af fljótræði.
Íslensk stjórnmál hafa einkennst af hrifsun forréttinda til fárra, oftast hefur það verið gert undir þeim formerkjum að viðkomandi stillir sér upp sem fórnarlambi. Verið sé að beita þá ofbeldi, með þessu hefur flokksmaskínum tekist að ná ávinning til meintra fórnarlamda og tekist að afla sínum stjórnmálaflokk forréttindi og völd. Þessir hópar hafa eftir Hrunið lagt mjög hart að sér til þess að viðhalda sinni stöðu. Þetta birtist okkur daglega í greinum á netmiðlum, bókum og í spjallþáttum.
Engu virðist skipta þó stjórnmálaflokkar hafi glatað tiltrú almennings og blasi gríðarleg spilling sem þreifst í skjóli stjórnmálaflokkanna sem voru við völd. Í dag vitum við að ef þáverandi stjórnmálamenn hefðu gripið til aðgerða árið 2006 byggðri á þeirri þekkingu sem þeir höfðu, hefði verið hægt að koma í veg fyrir að Hrunið yrði íslenskum almenning margfalt dýrkeyptara en almenning í nágrannalöndum okkar. Hér er skipulega reynt að draga athyglina frá rökum og vitrænni umræðu. Hér sé verið að kenna valdhöfum um, þeir eru fórnarlömb ósanngjarna ásakanna.
Valdhafarnir vilja ekki missa spóninn úr sínum aski, þeir eru orðnir svo maður vitni til ummæla í varnarræðum þeirra, fórnarlömb sundurlausrar hjarðar frægra og þekktra einstaklinga, sem ætla að koma sjálfum sér að til þess að sinna mikilvægu löggjafarstarfi á hæstvirtu Alþingi með persónukjöri.
Til þess að gera sitt mál trúverðugara er mikið vísað til sögulegra þátt, reyndar er það oft gert með þeim hætti að snúa hlutunum á haus. Gunnar á Hlíðarenda elskaði land sitt og við eigum að fylgja í hans fótspor. Bjartur í Sumarhúsum er orðin að sjálfstæðishetju, maður sem var einþykkur hrotti og fór illa með alla sína nánustu, hugsaði aldrei um þarfir annarra en sjálfs sín.
Þessir menn hafa gleymt hvar lífsgildi þjóðarinnar liggja og hvar sjálfstæði þjóðarinnar er. Hanar galandi á tildurhaugum markaðshyggjunnar, búnir að glutra sjálfstæðinu á meðan hluti þjóðarinnar dansaði ofsafengnum dansi kringum gullkálfinn og ákallar hann sem hin sönnu lífsgildi.
Eftir Hrun kom fram skýr krafa um nýtt samfélag reist á nýrri stjórnarskrá. Skýr mörk yrðu sett milli framkvæmda og löggjafarvalds. Staða löggjafavaldsins yrði styrkt gagnvart ráðherraræðinu. Gegn þessu var unnið af stjórnmálaöflunum. Undirbúningsstarf sem unnið var í Þjóðfundi og í Stjórnlaganefnd var sá grundvöllur sem Stjórnalagaráð vann á. Það starf grundvallast á kröfunni um að hefta möguleika ríkisvaldsins til þess að hygla sérhagsmunum og ganga gegn mannréttindum.
Markmiðið var að ný Stjórnarskrá endurspegli þær reglur sem við viljum viðhafa við að leiða sameiginleg mál farsællega til lykta. Valdið sé hjá fólkinu og það geti leitt mál sín til lykta eftir reglum og leiðum sem það sjálft virðir. Fólkið geti vísað málum til þjóðaratkvæðis og sett ýtarleg ákvæði um eignarrétt þjóðarinnar yfir auðlindum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli