þriðjudagur, 25. október 2011

Er verðtryggingin aðalvandinn?

Sé litið til málflutnings um verðtrygginguna má reikna með tillögu á Alþingi um að lengja tommustokkinn um 20 cm. Það valdi 20% lækkun á eldsneytiskostnaði bílaflotans og stóruppbyggingu vegakerfisins.

Það er einblínt á verðtrygginguna sem einhvern vanda og ef henni verði komið frá sé búið að leysa þann vanda sem fólk lenti í þegar það fjárfesti í íbúðarhúsnæði. Verðtryggingin er ekki vandinn, ef verðtrygging er felld niður koma einfaldlega breytilegir vextir í staðinn og fólk situr í enn verri stöðu, eða mjög háir meðalvextir.

Fólki hefur alltaf staðið til boða að velja óverðtryggð lán en hefur hafnað því og valið frekar verðtryggð. Fólk er þá að greiða umtalsvert meira en það þarf þegar verðbólgan er í eðlilegum stærðum. Það er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að bæta verðtryggingarkerfið eitthvað eða breyta útfærslum á því, en það leysir ekki þann vanda sem fólk lenti í.

Það þarf að taka á þeim vanda sem við er að etja. Vandinn er að það hafa ekki komið fram sérstakar lausnir til að aðstoða þann fjölda ungs fólks sem þurfti að taka lánsveð til að fjármagna sín fyrstu íbúðakaup. 110 prósenta leiðin svokallaða nýtist þessu fólki eftir og það hefur orðið útundan.

Algeng hefur verið að foreldrar eða ættingjar aðstoða unga fólkið til kaupa á sínum fyrstu íbúðum með því að brúa bilið að fullri fjármögnun fyrir kaupunum. Engar úrlausnir eru í kerfinu fyrir þetta fólk sem talið er að telji minnst fimmtán þúsund manns.

Þeir sem keyptu íbúðir á árunum 2004 til 2008 þurftu yfirleitt að fá lánað veð, oftast hjá foreldrum, til að brúa bilið til að ná fullri fjármögnun. Sú tegund af fjármögnunarformi er ekki reiknuð með í þessum lausnum.

Umræðan um verðtrygginguna hefur tekið á sig öll einkenni íslenskrar umræðulistar. Reyni einhver að benda á veikleika í því sem hefur verið sett fram í gagnrýni, er sá hinn sami umsvifalaust dæmdur til útlegðar og talinn tilheyra elítu sem vill launamenn feiga og ná til sín öllum eigum þeirra.

Nokkrar staðreyndir :
• Verðtrygging er óvirk ef ekki eru verðlagsbreytingar. Ef við búum við stöðugleika þá er hún meinlaus.

• Ef verðgildi krónunnar breytist lagar verðtrygging fjárskuldbindingar að því ástandi, hvort sem um er að ræða rýrnun hans í verðbólgu eða hinu gagnstæða í verðhjöðnun, góður eiginleiki.

• Verðtrygging er ekki einungis til hér á landi hún er víða til, jafnvel í löndum sem búa við stöðugleika. þjóðverjar, Bretar, Svíar og mörg önnur ríki gefa út verðtryggð skuldabréf. Hollenskir lífeyrissjóðir veita verðtryggð lán.

Í dag er rætt er um þak á hækkun verðtryggingar umfram 4%. Ef lántakandi fengi lán á 4,35% vöxtum með 4% þaki ætti hann rétt á endurgreiðslu á þeirri upphæð sem færi upp fyrir þakið.

Hér er mynd af 12 mánaða verðbólgu og svo meðaltalsverðbólgu. Byggt á upplýsingum frá Hagstofu Íslands




Það er eitt að tala um verðbólguálag en ekki er komist hjá því að bæta við verðbólguáhættu sem felst í áhættu á tímabundnum toppum eins og m.f. mynd sýnir.

Áhættulausir 20 ára verðtryggðir jafngreiðsluvextir eru í dag um 2,8%. Sjóðsfélagalán lífeyrissjóða bera í dag um 0,5 – 1,5% álag á áhættulausa vexti og boðið er upp á um 4% vexti ásamt verðtryggingu svipuð kjör og Íbúðalánasjóður býður.

Verði þakinu komið á þýðir það aukið álag á grunnvexti og húsnæðislán í dag yrðu þá um 6,4 - 7%. Líttu á myndina aftur og sjáðu lesandi góður hvernig þetta hefði verið ef meðaltalslínan lægi við 7% í töflunni hér ofar. Er það það sem verið er að biðja um, það er að segja að sætta sig við að greiða okurvexti, í stað þess að tekið verði á vandanum og komið á stöðugleika til framtíðar.

Með því kerfi sem verið hefur þá færist vaxtatalan niður þega verðbógan fer niður.

Ég ætla aðeins að koma inn á þær fullyrðingar að verkalýðsforystan standi gegn hagsmunum launamanna með því að samþykkja ekki að úr lífeyrissjóðunum verði teknir 235 milljarðar til þess að greiða niður skuldir fólks, í langfæstum tilfellum sjóðsfélaga.

Því hefur verið haldið fram að þar væru einhverjir örfáir einstaklingar farnir að taka sér völd sem þeir hafi ekki. Í fyrsta lagi hafa engir heimild til þess að taka sparifé launamanna sem er í lífeyrissjóðum til þess að nýta það í eitthvað annað en að greiða út lífeyri eða örorkubætur, jafnvel þó þeir séu breiðir verkalýðsforingjar. Það er stjórnarskrárbrot og reyndar líka lögbrot.

Á fundum í með sjóðsfélögum kom skýrt fram að þeir myndu aldrei sætta sig við þá leið. Þannig að þeir verkalýðsforingjar sem kynntu þessa afstöðu voru að fara eftir vilja félagsmanna, ekki ganga gegn þeim. Mesti hluti ávöxtunar lífeyrisjóðanna hefur komið í gegnum hagnað á hlutabréfum og skuldabréfum, enda minnihluti eigna lífeyriskerfisins bundið í verðbundnum bréfum. Á móti eru allar útgreiðslur bóta eru verðtryggðar. Rekstur lífeyrissjóðakerfisins yrði mun auðveldari ef verðtrygging yrði lögð niður.

Margoft kom fram í þessari umræðu að hópur sjóðsfélaga lýsti því yfir að þeir myndu fá sér lögmenn um leið og fjármagn væri tekið út úr sjóðunum til úthlutunar án endurgreiðslukrafna. Sjóðsfélagar ætluðu þá að stefna stjórnum viðkomandi sjóða ef þetta yrði gert, þær eru ábyrgar fyrir því að farið sé að settum lögum.

Stjórnun lífeyrisjóða er gert skylt samkvæmt lögum að ávaxta þá fjármuni sem eru í lífeyrissjóðum og það er gert m.a. með því að kaupa hlutabréf og skuldabréf af í atvinnulífinu, enda eru gerðar kröfur um að lífeyriskerfið sé á þeim markaði sem er í sjálfu sér eðlilegt. Þetta er allt annað en þær fyrirætlanir að taka úr sjóðum lífeyrisjóðanna fjármuni til úthlutunar. Hvar myndi það fordæmi enda ef stjórnmálamönnum væri hleypt inn í sjóðina með þeim hætti.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já, en nú "deyr" verðtryggingin þegar og ef Ísland gengur í ESB og tekur upp Evru, eins og þið Evru og ESB-sinnar talið alltaf um að verði svo gott fyrir alla á Íslandi.

Hvernig fer þetta saman við þennan málflutning þinn?

Guðmundur sagði...

Það er eins og sumum sé fyrirmunað að eiga vitræna orðræðu. Alltaf farið í einhverja útúrsnúninga og skautað framhjá því verið er að benda á.

Allnokkrir hafa haldið því fram, þar á meðal undirritaður að ef komast eigi hjá verðtryggingu eða einhverskonar greiðsludreifingu á ofurvöxum verði að fyrirbyggja gengissveiflur.

Á meðan okkur er gert að búa við gjaldmiðil sem býður upp á reglubundnar sveiflur eins og örgjaldmiðill gerir, sé óraunsætt að tala um að hægt sé að fá svipaða langtímavexti og tíðkast í þeim löndum sem eru með stöðugan gjaldmiðil og þá að losna við verðtryggingu.

Það stendur í þessum pistli og það stendur í fjölmörgum öðrum pistlum á þessari síðu.

Nafnlaus sagði...

Það er einmitt alveg ótrúlegt að hlusta á þingmenn þegar þeir byrja að tala um verðtryggingu sem vandamálið. Það er ekkert annað en flótti frá raunverulegum vandamálum. Of mikil verðbólga er slæm ekki verðtrygging. Að halda að lausnin liggi í að banna verðtryggingu fjárskuldbindinga er ekkert annað en ofurheimska og algjör skortur á þekkingu í sögu.

Það verður ekki komið í veg fyrir einhverskonar verðtryggingu eða hátt verðbólguálag á vexti meðan íslenska krónan er eins steikt og hún er. Það er alveg hægt að halda í krónuna og ná stöðugleika en til þess þurfum við betri og agaðri stjórnmálamenn en við höfum haft síðuastliðin 60 ár ca og viðvarandi höft á viðskipti með gjaldeyri, ekki eins mikil og eru núna en einhversskonar takmörkun á fjármagnsflutninga milli landa. Sem þýðir úrsögn úr EES og þar af leiðir töluvert verri lífsgæði en eru hér í dag.

Dude

Nafnlaus sagði...

en lífeyrissjóðir eru að fá ofgreitt útaf vísitölunni sem er bjöguð! Þeir eiga ekki svona mikið skilið og fólk sem er með verðtryggð lán á ekki skilið að það sé arðrænt svona.

kv. Staðgöngubjagi

Nafnlaus sagði...

"Á meðan okkur er gert að búa við gjaldmiðil sem býður upp á reglubundnar sveiflur eins og örgjaldmiðill gerir, sé óraunsætt að tala um að hægt sé að fá svipaða langtímavexti og tíðkast í þeim löndum sem eru með stöðugan gjaldmiðil og þá að losna við verðtryggingu." Rétt.
Höfum í huga misvitrar ríksstjórnir og sérhagsmunaaðila, með aðra höndina á bönkum og ríkssjóði.

Guðmundur sagði...

Það er fullkominn miskilningur að lífeyrissjóðirnir hafi verið að fá of mikið.
Þegar þú tekur lán áttu tvo valkosti fasta vexti og verðtryggingu, eða breytilega vexti.Með föstum vöxtum og verðtryggingu eru með greiðsludreifinu á þeim vöxtum sem koma ef verðbólga fer upp fyrir fasta vexti, Ef þú ert með breytilega vexti greiðir þú alla vextina strax.

Nafnlaus sagði...

En.
Þegar lánið er verðtryggt en launin ekki er maður í rauninni að taka lán í öðrum gjaldmiðli heldur en maður fær greitt í, þökk sé þjóðarsáttinni sem þið eruð svo stoltir af.
Líklega er evran eini möguleikinn til að leiðrétta þetta klúður aldarinnar sem þjóðarsáttin var. Svo vona ég að ég eigi aldrei, aldrei eftir að sjá þessháttar klúður aftur.

Guðmundur sagði...

Þegar Ólafur þáverandi forsætisráðherra samdi verðtryggingarlögin 1984 vildu nokkrir af þáverandi forsvarsmönnum stéttarfélaganna ekki semja um að binda laun við sömu vísitölu, það mynda verða til þess að halda aftur af launahækkunum. Þetta mat Guðmundar Jaka og fleiri reyndist rétt hjá þeim því laun hafa hækkað umtalsvert meira en þessi vísitölu.

Frá janúar 2000 til 2008 hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 169%, en verðtrygging skulda var á sama tíma aðeins 45%, aðeins fjórðungur af hækkuninni. Lágmarkslaun í Rafiðnaðarsambandinu hækkuðu á þessum tíma um tæp 80%, aðeins fjórðungur af eignahækkuninni. Frá janúar 2008 hefur dæmið snúist við, fasteignir hafa lækkað um 10% en verðbólgan hefur verið 35%. Engu að síður er hækkun eigna yfir allt tímabilið 142% og verðbólgan 96% og búið er að semja um hækkun lægstu laun um 22%.

Ef þú tekur lán þá hefur þú tvo valkostkosti, breytilega vexti sem tengjast verðbólgustigi eða fasta vexti og svo verðtryggingu sem grípur inn þegar verðbólga fer upp fyrir föstu vextina, með örðum orðum þá er verið að fresta greiðslu þeirra vaxta sem fara upp fyrir föstuvextina. Ef fólk afþakkar þetta greiðsluform (verðtrygginguna) þá er verið að biðja um að fá að greiða alla vextina strax, er það sem fólk vill, eða veit fólk hvað það er að tala um? Afborgarnir af lánum með vöxtum yfir 20% eru öllum óyfirstíganlegar. Það er lýðskrum að halda því fram að hægt sé að henda verðtryggingunni (eftir hluta vaxtanna) og málið sé úr heiminum.

Það er ástæða þess að menn sem þekkingu hafa á þessum málum vilja að tekið sé á málinu í heild og ráðist að rótum vandans, sem er verðbólgan, og sveiflukenndur gjaldmiðill. Þetta hefur nánast öll verkalýðshreyfingin krafist, örfáir hafa krafist þess að ráðast einungs á verðtrygginguna, en án þess að skilgreina hvað eigi gera. Það er innistæðulaust skrum. Ef íslendingar vilja sleppa úr þessu er einungis ein leið það er að fá stöðugri gjaldmiðil.

Nafnlaus sagði...

Okkur vantar alvöru efnahagsstjórn og hana hefur vantað lengi. Þar er bæði okkur sjálfum að kenna sem þjóð og svo hafa stjórnmálamenn spilað á okkur með flottum leiktjöldum t.d. einsog Reykjanesbær hefur gert í góðan tíma. Verðtrygging er ekki alslæm enn hún mælir framistöðu okkar í efnahagsmálum, ef hún væri ekki myndum við bara borga hærri vexti .
KV Simmi.

Nafnlaus sagði...

Sælir.
Það er alveg rétt hjá þér að verðtrygging er ekki vandamálið.

Heldur sú umgjörð sem ýtir undir verðbólgu.
Hækkun á eldsneyti hækkar neysluvísitölu þótt minna sé neytt af vörunni. Sem mér finnst ekki gefa rétt mynd af neyslunni.
Verðhjöðun myndi rétta hækkun á lánum en það gerist ekki þegar öflin sem stjórna hafa valdið til að ýta verðbólgu upp.
Svo þetta er frekar slæmt mál að verðtrygging virki bara í aðra áttina þegar hún ætti að leiðrétta hlutina.

mbk
Bge