laugardagur, 22. október 2011

Vaxandi tungl



Lýður Árnason læknir, lífskúnstner og kollegi minn úr Stjórnlagaráði bauð í gærkvöldi á frumsýningu á nýrri mynd sinni Vaxandi tungl í Bæjarbíói.

Lýður sagði í innsetningu sinni að hér væri á ferð rammvestfirsk mynd, vestfirskur harðfiskur. Hún var tekin upp á Suðureyri á síðasta ári. Ég þekki ekki alla leikarana, en mér skilst að þetta sé allt saman fólk af Vestfjörðum. Í aðalhlutverkum eru Pálmi Gestsson og Elva Ósk Ólafsdóttir. Auk þess Elfar Logi Hannesson, Ársæll Níelsson og hin fransk-danska-súgfirska Rakel Valdimarsdóttir. Einnig er ungt fólk í stórum hlutverkum.

Myndin hefst á útför móðir tveggja bræðra og síðan tekur við deila þeirra um móðurarf og móðirin fylgir okkur alla myndina í bakgrunninum. Annar bróðurinn er rammvestfirskur karakter í fiskvinnslu og vill vera þar áfram, á meðan eiginkona og elstu börnin vilja suður. Hinn bróðurinn er fluttur suður og er í braski og í að manni finnst frekar ólánlegu sambandi og parið vill eignast barn en hefur ekki tekist.

Þráður myndarinnar er mjög góður og úrvinnsla fín, en ferlið stundum dáldið hægt. Stundum erfitt að greina hvað sumir ungu leikarana voru að segja, og í nokkrum senum hefði mátt leggja aðeins meiri vinnu í æfingu leikarana. Geysilega fallegar náttúrusenur og gott yfirlit um lífið í vestfirskum þorpum, reyndar frekar íslenskum þorpum.

Myndin er af framleidd af kvikmyndafélaginu Í einni sæng, Íslandssögu á Suðureyri og Klofnings. Helsti styrktaraðili myndarinnar er Menningarráð Vestfjarða. Leikstjóri er Lýður Árnason.

Lýður sagði okkur að kvikmyndahúsin hefðu ekki haft áhuga á myndinni, vegna þess að enginn var drepinn og ekkert ógeð í myndinni. Það er rétt hún lýsir mannlegum samskiptum og vanda sem við þekkjum úr lífinu.

Sjónvarpinu leist aftur á móti vel á myndina og hún verður jólamynd þess í ár. Á það sannarlega skilið að mínu mati.

1 ummæli:

Dagný sagði...

Góð mynd og skemmtileg.