miðvikudagur, 16. nóvember 2011

Fyrirsjáanleg staða OR

Síðustu ár hafa málefni OR margsinnis verið ofarlega á vinnustöðum rafiðnaðarmanna. Umræðan hefur einkennst af áhyggjum hvernig stjórnmálamenn hafa nýtt sér OR sem skiptimynt í valdatafli og klækjastjórnmálum. Rekstrarlegar hagsmunum hafi verið vikið til hliðar.

Það lá þegar fyrir á árinu 2007, að taka þyrfti til í rekstri fyrirtækisins með mikilli hagræðingu og hækkun gjaldskrár. Mikilvægir hlutar fyrirtækisins voru þá þegar reknir með tapi. Síðan þá hefur endurtekið verið dregið úr nauðsynlegu viðhaldi og fyrirbyggjandi viðhaldi. Um mitt ár 2007 var það ljóst að ef ekki yrði tekið á þessum þáttum myndi það leiða til gríðarlegs og langvarandi vanda.

Þá lá fyrir ef gripið yrði til aðgerða haustið 2007 og tekið á gjaldskrám og stjórnunarkostnaði fyrirtækisins væri hægt að koma í veg fyrir mikinn skaða. En ef ekki yrði gripið þá þegar til aðgerða myndi það kosta milljarða króna að byggja upp það sem tapast hefði með því að draga úr fyrirbyggjandi viðhaldi.

Þáverandi borgarstjóri og fylgisfólk hennar höfnuðu þessu alfarið á þeim forsendum að svo stutt væri til kosninga. Samtök rafiðnaðarmanna og annarra almennra starfsmanna mótmæltu harkalega uppsögnum sem gripið var til í viðhalds- og framkvæmdadeildum auk þess að laun almennra starfsmanna væru skorin niður. Þáverandi borgarstjórn tók hins vegar ekkert á ofvöxnu stjórnkerfi fyrirtækisins. Þáverandi borgarstjóri ákvað svo ofan á allt annað að taka út úr fyrirtækinu fleiri hundruð milljóna króna í arðgreiðslum.

Þetta kom fram í úttekt lífeyrissjóðanna á fyrirtækinu fyrir 2 árum þegar leitað var eftir lánum á neikvæðum vöxtum úr lífeyrissjóðunum. Bent var á að taka yrði á rekstrarkostnaði og þáverandi borgarstjórn hefði byrjað á öfugum enda með því að fækka í viðhaldsdeildum. Það mun taka um áratug að vinna upp það sem hefur farið úrskeiðis í viðhaldi.

Fjölmiðlar sögðu lítið frá þessum þætti og völdu frekar þann kostinn að draga það upp með neikvæðum hætti að lífeyrissjóðirnir vildu ekki lána fyrirtæki í vanda mikla fjármuni á néikvæðum vöxtum. Eins og alltaf hjálpa þeir stjórnmálamönnum að beina sjónum fólks frá eigin getuleysi og vanda eitthvað annað.

Mat starfsmanna lífeyrissjóðanna var svo staðfest skömmu síðar í úttekt Norræna lánasjóðsins. Þessu var svarað með fúkyrðaflaum af Hönnu Birnu og borgarstjórnarmönnum hennar í fjölmiðlum í garð lífeyrissjóðanna og starfsmanna stéttarfélaganna. Hér hefði maðu rhaldið er væri komið ærið tilefni fyrir fjölmiðla að beina sjónum sínum af hvers vegna öflugir aðilar vildu ekki lána fyrirtækinu og hvernig þáverandi borgarstjórn ætlaði að taka á þessum vanda. Nei sjónum var beint að lánastofnunum og þær dæmdar vondar.

Nú er komið fram nýrri úttekt staðfesting á þessu öllu saman, þar að auki að að stór hluti allra fjárfestinga stjórnenda OR árin 2007 og 2008 að upphæð um 30 milljarða króna er tapað fé að því er fram kemur í kolsvartri skýrslan um stjórnendur fyrirtækisins á þessum árum. Allt þetta hefur legið fyrir um alllangt skeið, en okkur forsvarsmönnum stéttarfélaganna var þá varpað á dyr af þáverandi borgarstjóra, þegar við reyndum að ræða þessi mál við hana. Þar kom m.a. fram fullyrðingar af hálfu þáverandi borgarstjóra að stéttarfélögin væru á móti leiksskólum!!??

Gagnrýnt er í rekstrarúttekt frá miðju ári 2010, að ekki hafi verið gerð skýr grein fyrir skilmálum samninga um nýjar virkjanir né arðsemismarkmiðum. Því síður þeim áhættum sem þessum samningum fylgdu. Var til að mynda öllum fyrirvörum vegna orkusölu til 1. áfanga álvers í Helguvík aflétt í árslok 2008 eða eftir að hrunið hafði átt sér stað og fyrirsjáanlegt var orðið að umskipti hefðu orðið á arðsemisforsendum er vörðuðu fjármögnunarkjör OR.

Alvarlegar afleiðingar alls þessa komu fram í ágúst 2010 þegar lausafjárstaða OR var í uppnámi og vart náðist að greiða starfsfólki laun. Allt þetta ásamt svo mörgu öðru kennir okkur að stjórnmálamenn eiga ekki að vera inn í fyrirtækjum í eigu almennings, nánast öll fyrirtæki og sjóðir sem þeir hafa stjórnað eru rústir einar.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Af hverju er skýrslan ekki birt í heild?
ÓS