miðvikudagur, 16. nóvember 2011

Valeyrarvalsinn eftir Guðmund Andra Thorsson

Flaug í gær til Kaupmannahafnar og tók m.a. með mér Valeyrarvals Guðmundar Andra. Það er skemmst frá því að segja að bókin var fullkomlega búinn að fanga mig áður en við tókum á loft. Allir þekkja hinn afburðastíl Guðmundar Andra m.a. í mánudagspistlum hans í Fréttablaðinu.

Bara að það væru fleiri mánudagar í Fréttablaðinu, þá gæti maður fagnað því á hverjum degi að vera laus við hinn endalausa barlóm útgerðarmanna um að verið sé að taka frá þeim alla lífsbjörgina og við fjölskyldum þeirra blasi vergangur. Eða Sigmund Davíð að kynni okkur fyrir nýja kunningja. Um daginn voru það einhverjir norðmenn sem hann hafði hitt á kráarrölti í Osló. Þeir vildu endilega hreint troða upp á hann risaláni á núll komma eitthvað vöxtum, svo hann gæti bjargað efnahag Íslands.

Nú er Sigmundur Davíð kominn með nýja vini frá Kanada. Þeir eru tilbúnir að kaupa upp af allar ónýtu krónurnar sem eru í umferð og greiða líka upp Jöklabréfin og láta okkur hafa alvöru dollara í staðinn. Þeir ætla svo að henda öllum ónýtu krónunum í Norðurhöfin strax og ísa leysir.

Þá getum við segir Sigmundur Davíð myndað ný Öxulveldi með Lapplandi (Samalandi), Grænlandi og Kanada og tekið að okkur að sjá um heimsviðskiptin með kanadískum dollurum. Lausir við vonlausar væntingar um reddingar frá Brussel, svo maður tali nú ekki um að losna við stökkbreytt lán í gjaldmiðli sem Lilju Móses tókst ekki einu sinni að skipta um nafn á. Og bændur fá þá óáreittir að halda áfram að selja okkur landbúnaðarvörur á 30% yfirverði og milliðakerfi Bændasamtakanna getur stækkað við sig og aukið útgáfu hins vandaðaða og sannleikselskandi Bændablaðs. Þar með væri atkvæðum Sigmundar Davíðs bjargað fá því að deyja úr matareitrun.

Þegar ég var að fara um borð í vélina mætti ég hóp af íslendingum sem voru að koma frá Kanarí og eftir því sem mér skyldist eftir að hafa rætt við nokkra þeirra, höfðu í þetta skipti engir íslendingar farist í Kanaríinu undanfarnar vikur, þó svo þeir hefðu farið á Klörubar félagsheimili Framsóknar og borðað ESB mat.

Við getum farið að hlakka til að verða aftur hið heimsþekkta Íslenska efnahagsundur og þá getur forseti vor með vonnabí ráðherrum farið um heimsbyggðina með nýjan gjaldmiðil. Þá erum við endanlega laus við óvinaríki okkar á hinum Norðurlöndum. Þau sem voru svo vond og siguðu á okkur AGS og kröfðust þess að við bærum ábyrgð á eigin gjörðum.

Í Valeyrarvalsinum fléttar Guðmundur saman 16 sögum á listilegan hátt. Allar gerast þær á sömu 2 mínútunum. Stíll hans hélt mér fullkomlega föstum við bókina.

"Viltu kaffi?"
"Ha?" svaraði ég. Hrökk við og leit upp og horfðist í augu við brosandi flugfreyjuna. "Nei takk."

Og ég las áfram án þess að taka eftir því sem fram fór kringum mig. Hverja söguna á fætur annarri, maðurinn við hliðina á mér steinsvaf. Honum var ekki boðið upp á kaffi.

"Má bjóða þér eitthvað úr Saga shop?" Nú leit ég ekki upp og vonaði að flugfreyjan áttaði sig á að ég væri of upptekinn til þess að segja nei takk. Maðurinn við hliðina á mér var vaknaður og var byrjaður að horfa á ameríska hasarmynd, og spurði hvort hægt væri að fá kaffi og með því núna.

Og ég las áfram. Svelgdi í mig hverja blaðsíðuna á fætur annarri. Sumar aftur, bara til þess að dást betur að stílnum. Áður en við lentum var bókin búin og ég fletti aftur á fremstu síðu og las fyrsta kaflann aftur.

Besta bókin sem ég hef lesið hingað til í haust.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur
Lestu skýrslu um stöðu íslenks landbúnaðar gagnvart ESB. Þar kemur fram stór að hluti 30% lenda hjá smásölunni.Bændur eru að berjast fyrir tilveru sinni þú verður að bera virðingu fyrir því. Við eigum meira sameiginlegt en þú heldur. Þetta mál er ekki svart/hvítt það er flóknara en svo það veist þú.

Guðmundur sagði...

Sæll
Ég hef ætíð þegar ég hef skrifað um þennan þátt ESB umræðunna bent á hversu mikil þörf sé að endurskoða allt styrkja- og milliðarkerfið á Íslandi og vísa til allmargra pistla hér á þessari síðu.

Það liggur fyrir að laun íslenskra bænda eru skammarlega lág, en óskiljanlega lág miðað við þá gríðarlegu fjármuni sem fara til þessara greinar í styrkjum og svo útsöluverðs.

Þetta þarf að skoða, en það er eftirtektarvert hvernig embættismenn samtaka Bænda berjast heiftúðlega gegn endurskoðun kerfisins og sannfærir mann um að þar liggi vandinn.

Ég skil ekki hvers vegna bændur taka ekki höndum saman með okkur neytendnum um að sjá til þess að mun stærri hluti þessarar fjármuna skili sér til bænda sjálfra og taki þátt í að skera kerfið upp.