miðvikudagur, 9. nóvember 2011

Verðtrygging og verkalýðsforystan

Ég er í hópi þeirra fjölmörgu íslendinga sem vilja stöðugra verðlag og lægri verðbólgu, sem mun leiða til lækkunar vaxta og útrýma okurvöxtum og verðtryggingu. Ég er undrandi á niðurstöðu nýlegrar skoðanakönnunar. Spurt var: Ert þú hlynntur eða andvígur afnámi verðtryggingar? Einungis 80,4% svarenda sögðust vilja afnema verðtryggingu, ég hefði fyrirfram haldið að 100% myndu segja já.

En þetta segir okkur reyndar ekkert. Svona vinnubrögð eru oft nefnd lýðskrum. Ef verðtrygging (greiðsludreifing á vöxtum yfir tilsettu marki) er afnuminn með einu pennastriki, taka einfaldlega breytilegir vextir við. Það fyrirkomulega getur orðið töluvert óhagkvæmari fyrir skuldara. Svona spurningu þurfa að fylgja valkostir hvað fólk vill í staðinn.

Það er þjóðarvilji fyrir því að taka á stökkbreyttum lánum. Deilan hefur snúist um hvernig að eiga gera það og hver eigi að bera þann kostnað. Á þetta hefur næstum öll verkalýðsforystan lagt áherslu, og bent á að hér verði menn að skoða allt málið til enda. Ef ekki væri rétt haldið á spilunum gæti staða skuldara versnað samfara því að útgjöld Tryggingarstofnunar snarhækkuðu og það kallaði á umtalsverða hækkun skatta.

Umræðan í samfélagi okkar líður fyrir það hversu slaka fjölmiðlamenn við eigum. Það blasti t.d. svo vel við þegar Geir þáverandi forsætisráðherra lenti í breskum spjallþætti, í þriðju spurningu var hann orðinn kjaftstopp vegna þess að spyrillinn hafði kynnt sér málið og lét Geir ekki komast upp með sömu undanskot og menn komast upp með í spjallþáttum á Íslandi.

Reglulega er hent upp reyksprengjum hér á landi til þess að afvegaleiða umræðuna og beina athygli fólks frá hinum raunverulegum hlutum. Á meðan sitja þeir sem fjölmiðlamenn ættu að vera að tala við stikkfríi brosandi í bakherberjum og hafa það notalegt.

Tökum nokkur dæmi. Ítrekað komast tilteknir fastagestir í fjölmiðlum upp með að fullyrða að það hafi verið skúrkar sem starfa hjá í lífeyriskerfinu sem skópu Hrunið og nýttu fjármuni lífeyrissjóðanna til þess að keyra hér allt í þrot. Þessu er haldið blákalt fram af þekktum fjölmiðlamönnum og spjallþáttastjórnendum, þrátt fyrir að það liggi fyrir að tapið í Hruninu varð um 15 falt hærra en samanlagðar heildareignir allra íslensku lífeyrissjóðanna og 75 falt meira en samanlagt heildartap lífeyrissjóðanna.

Öll vitum við hvaðan þetta fjármagn kom, það kom ekki ein króna af þessum peningum inn á borð starfsmanna stéttarfélaga eða lífeyrissjóða og þeir spiluðu ekki með þetta erlenda fjármagn. Hverjir voru það sem komu því undan? Allar stofnanir á fjármálamarkaði hrundu til grunna nema almennu lífeyrissjóðirnir. Hvaða hagsmuni eru þessir tilteknu fjölmiðlamenn að verja, með því að halda uppi svona afkáralegum fullyrðingum?

Af hverju er þessum fjölmiðlamönnum svo annt um að beina umræðunni inn á villigötur? Af hverju spyrja þeir ekki stjórnmálamenn og stjórnendur þeirra sjóða og banka sem hrundu til grunna og vísa kostnaði vegna þess á skattborgarana þessara spurningar : „Hvers vegna tókst starfsmönnum og stjórnum lífeyrissjóðanna að forða sjóðunum frá falli á meðan allt sem þið komuð nálægt fór til fjandans?“ Hvaða hagsmuni eru þessir fjölmiðlamenn að verja?

Tökum annað dæmi. Ýmislegt var gert til þess að taka á skuldavandanum, en margir töldu að gera mætti meira. Fram kom krafa að verðtrygging yrði strikuð út, það væri einfalt. Nokkrir stjórnmálamenn virtust trúa þessu og ráðherrar kom fram í fjölmiðlum fyrir rúmu ári og sögðust ætla að gera þetta. Það þýddi að taka átti um 235 milljarða úr lífeyrissjóðunum til þess að greiða þennan reikning.

Þá höfðu samband allmargir félagsmenn stéttarfélaganna (sjóðsfélagar í lífeyrissjóðum) og bentu á að það væru í gildi landslög og reyndar stjórnarskrá sem gerði þessa leið ófæra. Hún myndi leiða til þess að þeir örorku- og lífeyrisþegar sem væru á bótum í dag auk þeirra sem kæmust á bætur á næstu árum myndi borga allan kostnaðinn af þessu, það væri brot á eignarétti og auk þess jafnræðisreglu.

Þetta myndi einvörðungu bitna á sjóðsfélögum almennu lífeyrissjóðanna sem væru á bótum. Þeir sem væru í opinberu sjóðunum myndu ekki verða fyrir skerðingum þar sem þeirra sjóðir væru ríkistryggðir. Það yrði sótt í ríkiskassann auk þess að útgjöld Tryggingarstofnunar myndu snarhækka, það kallaði svo á aukinn niðurskurð eða verulega hækkun skatta.

Ráðherrum og embættismönnum áttuðu sig loks á að sú leið sem þeir væru að velta fyrir sér væri ófær, hún myndi einungis skapa enn meiri vanda. Það yrði að taka á skuldavanda heimilanna með öðrum hætti. Starfsmenn stéttarfélaganna höfðu árangurslaust í allangan tíma ítrekað bent ráðherrum og fjölmiðlamönnum á þetta. Nú voru ráðherrar komnir í vanda þeir voru búnir að lofa þjóðinni eitthvað sem erfitt var að standa við og elli- og örorkuþegar höfnuðu því að greiða reikninginn og sögðust myndi fara fyrir dómstóla og lögmenn sögðu að þeir væru með gjörunnið mál.

Hvað gerðu ráðherrarnir? Jú þeir fóru í fjölmiðla og sögðu að verkalýðshreyfingin stæði gegn því að tekið yrði á skuldavanda heimilanna!!?? (mikið skelfing þekkir maður þessi viðbrögð stjórnmálamanna vel) Síðan þá hefur ekki verið sendur í loftið einn fjölmiðlaþáttur um þetta efni án þess að því sé haldið fram að starfsmenn stéttarfélaganna standi gegn því að tekið sé á verðtryggingu og skuldavanda heimilanna.

Hverjir eru það sem setja lög í þessu landi? Hverjir eru það sem ákvarða hina opinberu efnahagstefnu og vaxtastigið og hvernig það kerfi er útfært? Hverjir voru það sem settu lög um verðtryggingu? Allir vita svarið og vita að það eru ekki starfsmenn stéttarfélaganna.

En hinir arfaslöku fjölmiðlamenn hafa með þessu skapað það ástand að stjórnmálamenn eru í skjóli á meðan sjónum allra er beint á ranga átt. Það leiðir til þess að þeir komast hjá því að taka á þessum vanda. Öll vitum við að lausnin er ekki fólgin í því að reyna fá starfsmenn stéttarfélaganna til þess að samþykkja að stjórnmálamenn megi brjóta landslög og stjórnarskrá.

Svona í lokin, fyrir þá sem skrifa í aths. dálkana, þá upplýsist það að ég hef verið aðalstjórnarmaður í lífeyrisjóð í 5 mán. og hafði verið varamaður í 2 ár þar á undan. Ég hef aldrei fengið boð um eina einustu ferð hvorki innanlands eða utan og sit ekki í stjórn fyrirtækis, sama á við um alla stjórnarmenn í þeim sjóð sem ég er í. Ég hef allan minn starfsaldur greitt í lífeyrissjóð og hef mikinn hag af því að allt sé í lagi á þeim bæ.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Enda nýtur þú traust þeirra, sem þekkja vel mála.
Ólafur Sveinsson

Nafnlaus sagði...

Kærar þakkir fyrir upplýsandi pistil.

Þarna kemur þú að kjarna málsins sem er hinir óhæfu stjórnmálamenn sem þjóðin kýs aftur og aftur.

Fjölmiðlarnir eru svo sérstakur kapítuli. Blöðin eru rusl og ríkismiðlanir getulausir.

Svo er það Silfur Egils.

Síðasta Silfur Egils sló öll met sem þó er erfitt.

Þetta er lélegasti þáttur í heimi.

Ég hef aldrei séð neitt líkt þessu.

Stjórnandinn hefur ekki hundsvit á nokkrum sköpuðum hlut.

Ég bara skil þetta ekki.

Hvernig er hægt að bjóða fólki upp á svona nokkuð?

Og hvers vegna lætur fólk bjóða sér þetta?

Nafnlaus sagði...

Hver er tilgangurinn að reyna að hvítþvo aðkomu sumra lífeyrissjóða í sukkstarfsemi fyrir hrun? Þar voru stjórnarmenn og starfsmenn sem þáðu "mútur" frá m.a. bönkunum í formi ferða og uppihalds um víða veröld. Sé tekið dæmi af forstjóra Lífeyrissjóðs Verslunarmanna þá átti hann eiginkonu og son sem störfuðu hjá Kaupþingi og dóttur hjá Exista. Um leið var sjóðurinn á kafi í fjárfestingum sem tengdust þessum fyrirtækjum. Tilviljun? Varla nema fyrir algjörlega auðtrúa bjána.

Þróunin á Íslandi er dapurleg og hættuleg. Hér er verið að afskrifa milljarða skuldir íslenskra glæpa- og hryðjuverkamanna sem stunduðu stórtæka glæpastarfsemi fyrir hrun á meðan ekkert er gert fyrir almenna skuldara sem tóku á sig stökkbreyttar skuldir vegna skipulagðrar glæpastarfsemi þessarra manna og fyrirtækja þeirra þ.m.t. bönkunum. Nýju bankarnir fá að komast upp með að ofsækja fólk og beita það kerfisbundnu ofbeldi. Talandi um stjórnarskrárvarin réttindi. Stjórnarskráin er ekki pappírsins virði á þessu landi.

Eins og staðan er núna þá er best að ráðleggja börnum sínum og öllum sem geta að flytja af landinu og láta kerfið hrynja innanfrá. Kannski verkalýðsforystan ætti að beita sér fyrir því?

Nafnlaus sagði...

Já 100% sammála.
Það er erfitt að vera sammála því að innistæður mínar á langtíma bók lækki eða skuldir lækki, hvora höndina á ég að bíta í...

En mér finnst ekki sanngjarnt að neysluvísitalan sé miðuð við verðlag en ekki neyslu. Öll neysla á Íslandi hefur gengið mörg ár til baka. Þá má alveg rökræða útreikningana.

mbk
BGE

Nafnlaus sagði...

Nú er bara að taka prófið hjá FME.
Hef séð það.
Ólafur Sveinsson

Nafnlaus sagði...

Algengt form á húsnæðislánum víða erlendis eru breytilegir vextir sem stýrast eftir ýmsum vísitölum (index). Svo fullyrðingin um að Ísland sé eina landið sem búi við vísitölu á húsnæðislánum er röng.
Hins vegar má deila um hvort vísitala byggð á verðlagi neysluvöru sé réttur stuðull á húsnæðislán.

Ragnar Thorisson