sunnudagur, 9. janúar 2011

Lélegur gjaldmiðill = vinnudeilur

Það eru ekki nema 2-3 áratugir síðan eigur íslenskra sparifjáreigenda brunnu upp á verðbólgubáli. Hefur þar lagst á eitt, lélegur gjaldmiðill og sveiflukennd, ómarkviss peningastjórnun, sem er ekki trúverðug, enda erlendir fjárfestar tregir til þátttöku í rekstri á íslandi. Upptaka evru eða tenging krónunnar við Evruna með vikmörkum og baktryggingu Seðlabanka ESB eins og Danir og Færeyingar hafa gert mun gera okkur kleift að ná langþráðum stöðugleika.

Vextir munu lækka verulega mikið ásamt vöruverði. Við þurfum ekki að halda uppi dýrum gjaldeyrisvarasjóði og getum varið verulega meiri fjármunum í velferðarkerfið, eða með öðrum orðum ekki að skera eins mikið niður og áætlanir eru nú um að gera.

Ef tekin er upp evra, munu þeir sem ferðast innan þess stóra svæðis eða eiga þar viðskipti ekki þurfa að bera kostnað vegna gjaldeyrisskipta. 60% erlendra viðskipta okkar fara fram í Evru. Evran mun einnig leiða til þess að erlendir fjárfestar laðast fremur til þátttöku í íslensku atvinnulífi.

Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra sagði í viðtali 2002 að upptaka evrunnar yrði, að hans mati, dauðadómur fyrir Ísland sem íslenska sjálfstæða þjóð. Davíð er enn á sömu skoðun. Í nýju viðtali við Viðskiptablaðið segir hann að það sem skiptir máli fyrir sjálfstæða þjóð sé eigin gjaldmiðill. Það skiptir Davíð greinilega engu hve illa fljótandi gjaldmiðill hefur leikið launamenn, enda hugsar hann greinilega frekar um hagsmuni vinnuveitenda sinna sem vilja greiða laun í krónum en gera upp við sjálfa sig í Evrum.

Öll þekkjum við mörg dæmi um sjálfstæðar þjóðir sem ekki telja brýna þörf að nota eigin mynt. Þar má t.d. nefna Lúxemborg með innan við hálfa milljón íbúa, eitt af stofnríkjum Evrópusambandsins og smáríkið Möltu með tæplega 400.000 íbúa. Eystrasaltslöndin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen, sem fagna frelsi eftir langa ánauð, stefna inn í Evrópusambandið og eru að taka upp Evru, trúlega ekki með nýja áþján í huga. Finnar nota Evru og Danir eru með sinn gjaldmiðil fasttengdan við Evru, þannig mætti lengi telja.

Varla er hægt að líta á leiðtoga ofangreindra þjóða sem eins konar landráðamenn er glati sjálfstæði síns eigin fólks og geri það að þrælum. Íslenskir launamenn búa í efnahagslegum þrælabúðum. Þrátt yfir að þeir hafi í raun samningsrétt um launakjör sín þá geta stjórnmálamenn og atvinnurekendur leikið kjarasamninga eins og þeim sýnist. Staðreyndin blasir við íslenskir launamenn voru búnir að ná þokkalegum kaupmætti árið 2005 í samanburði við nágrannaþjóðir, en það var þurrkað út með gengisfalli krónunnar. Þetta hefur gerst reglulega allan lýðveldistímann.

Í könnunum kemur fram að íslenskir launamenn eru harðastir allra Evrópuþjóða í verkföllum og vinnudeilum. Íslenskir launamenn eru ekkert öðruvísi fólk en gengur og gerist annars staðar á Vesturlöndum. Skýringanna er frekar að leita í umhverfinu. Aðstæðurnar eru öðruvísi. Það er nánast ómögulegt að semja um laun þar sem efnahagsumhverfi er óstöðugt og verðbólgan og gengisfall getur eyðilegt allt á svipstundu.

Sífellt þarf að huga að „rauðum strikum" og vera á varðbergi gagnvart dýrtíð og kaupmáttarrýrnun vegna hugsanlegrar gengislækkunar. Ætla má að slíkar aðstæður séu áhrifarík uppskrift að vinnudeilum. Veik króna stuðlar að verkföllum og óstöðugleika á vinnumarkaði. Það er verulegur ávinningur í því að nota mynt sem skipar traustan sess á alþjóðavettvangi, en upp á slíka stöðu býður Evran.

Ofviðrið

Ofviðrið er á fjölum Borgarleikhússins þessa daga. Hér fjallar Shakespeare um útlegð Prosperós, hertoga í Mílano á óbyggðri eyju. Því er haldið fram að hér sé á ferðinni einhvers konar uppgjör höfundar við leikhúsið.

Sýningin er glæsileg. Leikmynd, hljóðmynd, lýsing og búningar, allt þetta gælir við eyru og augu. Þarna eru á ferð fantagóðir leikarar og dansarar. En samt nær þessi sýning ekki að halda athygli manns. Hún er ruglingsleg og þýðing textans er ekki nógu góð.

Ég nýbúinn að sjá Lér í listilega góðri þýðingu Þórarins Eldjárns. Texti hans er lipur, þar fylgdust áhorfendur átakalaust með, þurftu ekki að setja sig í stellingar og venjast textanum eins og oft er þegar Shakespeare er annars vegar. Leikstjóra tekst ekki að vinna úr þessu sýningu sem skilar sér til áhorfenda.

laugardagur, 8. janúar 2011

Skyggnst bakvið verðtrygginguna

Það er skelfilegt að heyra hvernig sumir stjórnmálamenn tala um verðtrygginguna. Þeir eru þar að upplýsa okkur hversu fávísir þeir eru um fjármál og hagkerfið. Það er áhyggjuefni sakir þess að þar fara menn sem eiga að fara fyrir ákvarðanatöku um stjórn þessa lands. Sé litið til þessa málflutnings mætti ætla að fram komi tillaga á Alþingi um að lengja tommustokkinn um 20 cm og þar með hafi náðst 20% lækkun á eldsneytiskostnaði bílaflotans og uppbyggingu vegakerfsins.

Verðtrygging er óvirk ef ekki eru verðlagsbreytingar. Ef við búum við stöðugleika þá er hún meinlaus. Verðtrygging er ekki einungis til hér á landi hún er víða til, jafnvel í löndum sem búa við stöðugleika. Ef verðgildi krónunnar breytist lagar verðtrygging fjárskuldbindingar að því, hvort sem um er að ræða rýrnun hans í verðbólgu eða hinu gagnstæða í verðhjöðnun, sem er ómetanlegur eiginleiki.

Því er haldið fram að verðtrygging sé einvörðungu til vegna kröfu lífeyrissjóðanna og hún sé ein helsta orsök vandamála heimilanna. Ástæða er að taka það fram að einungis tæplega helmingur fjármuna lífeyrissjóða er á verðtyggingu. Þeir sem vilja muna nokkra áratugi aftur í tímann skilja og muna af hverju verðtryggingu var komið á. Það var í kjölfar stórkostlegustu tilfærslu fjármuna á milli kynslóða í sögu landsins.

Það voru stjórnmálamenn sem komu verðtryggingunni á, til þess að skapa vitrænan grundvöll í sparnaði og möguleika til langtímalána. Fram að þeim tíma voru það fáir útvaldir sem fengu lán og þá til skamms tíma. Samfara þessu var lífeyrissjóðum gert samkvæmt lögum að verðtryggja skuldbindingar sinna sjóðfélaga, en eiga satt að segja í vandræðum með það í núverandi efnahagsumhverfi. Það væri myndi gera rekstur lífeyrissjóðanna mun auðveldari ef verðtrygging væri afnumin.

Verðtrygging tryggir sér til þess að sömu verðmætum er skilað og fengnir eru að láni. Ef verðbólga fer upp úr öllu valdi gerir þetta kerfi það mögulegt að dreifa greiðslubyrðinni af ofurvöxtum. Verðtrygging er forsenda þess að hægt var að taka upp langtímalán hér í landi gjaldmiðils sem stjórnmálamenn hafa nýtt til þess að lagfæra slaka efnahagsstjórn. Hún ver langtímasparnað. Það er henni að þakka að tekist hefur að mynda skyldusparnað sem nú er undirstaða uppbyggingar hér á landi.

Þeir sem krefjast afnáms verðtryggingar verða að gera sér grein fyrir það að það verður ekki gert bara öðrum megin, heldur verður einnig að afnema verðtryggingu örorkubóta og lífeyris. Því fer fjarri að það sé lífeyrissjóðum í hag að verðbólga sé mikil. Skuldbindingar hækka meira en sem nemur hækkun eigna þar sem aðeins hluti eigna er bundinn í verðtryggðum eignum. Það sjá það allir sem vilja.

Það er í hæsta lagi barnalegt að leggja mál upp með þeim hætti að lífeyrissjóðurinn græði ef verðbólga er mikil og sjóðfélagi tapi. Slík framsetning er í besta falli villandi en í versta falli heimska. Ef lífeyrissjóðir yrðu leystir undan þeirri kvöð að verðtryggja skuldbindingar 100% væri viðhorfið án efa öðruvísi. Markmið lífeyrissjóða er að tryggja sjóðfélögum sínum að lífeyrisgreiðslur dugi fyrir neyslu á hverjum tíma. Það er til lítils að eiga sjóð, ef hann brennur upp í óðaverðbólgu. Vandamál íslenska lífeyrissjóðakerfisins er að of stór hluti sparnaðarins í kerfinu er fjárfestur innanlands í stað erlendis. Kerfið er einfaldlega of stórt fyrir innlendan markað. Á þessu þarf að taka og breyta þeim hlutföllum sem þingmenn hafa sett fjárfestingarstefnu sjóðanna.

Verðtryggingin afnam að miklu leyti þá eignaupptöku sem átti sér stað á sparifé almennings sem hér ríkti fram á níunda áratuginn. Án hennar hefði Þjóðarsátt aldrei orðið að veruleika. Án hennar var einfaldlega ekki neitt við neitt ráðið. Hún er trygging þess stöðugleika sem þó hefur verið.

Það er verðbólgan sem er skaðvaldur hins íslenska hagkerfis, helstu orsök hennar er að finna í örgjaldmiðlinum sem við höldum úti að kröfu valdastéttarinnar. Óhjákvæmilegar sveiflur hennar og sífelldur flótti stjórnmálamanna við að taka óvinsælar en nauðsynlegar ákvarðanir valda sveiflum, þar sem verið er að flytja vandann yfir á og skattborgarana með tilheyrandi kaupmáttarhrapi og eignatilfærslu frá hinum mörgu til fárra.

Einn meginkostur verðtrygginga er að hún krefst fjármálalæsi og refsar fyrir óstjórn og óvarkárni í fjármálum og neyða menn til að taka afleiðingunum. Þetta eiga ábyrgir menn að vita og sjá fótum sínum forráð. Það var ákvörðun stjórnmálamanna að fara út 100% lán á íbúðarmarkaði sem varð til þess að fasteignaverð flaug upp úr öllu valdi. Það var ákvörðun bankanna og vinnulag starfsmanna þeirra sem varð til þess að haldið var að fólki lánum sem fyrirfram var vitað að voru töluvert meiri en raunverð var. Þar er að finna ástæðu vandamálanna, ekki í verðtryggingu.

Það er svo í örgjaldmiðlinum krónunni að finna ástæðu þess að kaupmáttur hefur fallið hér margfalt meir en í öðrum löndum, ekki lélegum kjarasamningum. Eins og þeir sem hafa mestan hag af því að við höldum í krónuna halda ákaft að fólki. Athugaðu lesandi góður að þeir eru í útflutningi og gera sín fyrirtæki upp í evrum, borga laun í krónunni.

Það hefur komið ítrekað fram hér á þessari síðu og færð fyrir því rök að krónan er helsti óvinur íslenskra launamanna, ef gera eigi langtíma kjarasamninga þá verði að vera inn í því plani stefna um breytta peninga- og efnahagsstjórn, sama á við um ef við viljum losna við áhrif verðtryggingar, þá þarf stöðugan gjaldmiðil.

föstudagur, 7. janúar 2011

Áttaviltur velferðarráðherra

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur ásamt forsvarsmönnum sveitarfélaga og OR kynnt hverja gjaldskrábreytinguna á fætur annarri. Þessi leið hefur hlotið nafnið „OR leiðin“ meðal samningamanna. „OR leiðinni“ fylgja skýringar á borð við að búið sé að hagræða eins og hægt er, og ekki verði gengið lengra á þeirri braut nema það fara að segja upp starfsfólki. Tekjur vanti til þess að standa undir rekstri og þess vegna sé ekki önnur leið fær en að hækka iðgjöld.

Þessi lýsing á í sjálfu sér ekki síður við um stöðu heimilanna. Þau eru búinn að hagræða sem best þau mega, en samt skortir tekjur til þess að reksturinn gangi upp. Heimilin vilja fara „OR leiðina“ og fá sömu hækkun.

En síðan mætir velferðarráðherra ásamt fleirum í hvert viðtalið á fætur öðru þar sem talað er um að aðilar atvinnulífs verði að taka sig á hvað varðar tekjur heimila svo stytta megi raðir við hjálparstofnanir. Það er ekki nóg að kaupmáttur íslenskra launamanna hafi fallið mest allra í heiminum vegna hruns hinnar geðþekku Krónu, ástmögur tiltekinna ráðamanna ásamt tilteknum hóp fyrirtækja í sjávarútvegi og landbúnaði.

Þar til viðbótar hefur kaupmáttur heimilanna fallið vegna gjaldskráhækkana Velferðarráðherra og sveitarfélaganna.

Velferðarráðherra hefur ásamt öðrum ráðherrum og forsvarsmönnum sveitarfélaganna verið tíðrætt um að þeir standi vörð um að ekki verði um að ræða uppsagnir hjá opinberum stofnunum. Með þessu er ráðherra og hans menn að senda níðangurslegar kveðju sem til þess hóps sem þegar er búið að segja upp.

Uppistaða þeirra 15 þús. manna sem ganga um atvinnulausir eru innan ASÍ félaga þar á meðal eru um 2000 fyrrv. starfsmenn sveitarfélaga og hins opinbera. T.d um 700 frá Landspítalanum og Reykjavíkurborg er búinn að segja upp liðlega 100 félagsmönnum stéttarfélaga innan ASÍ. Þar til viðbótar fjöldi launamanna sem unnu hjá fyrirtækjum sem voru með verkefni hjá sveitarfélögum og hinu opinbera.

Í huga Velferðarráðherra og sveitarstjórnarmanna virðist þetta fólk ekki telja, hjá þeim gildir einungis varðstaða um fólk í öðrum stéttarfélögum. Sama viðhorf og gildir um lífeyrisréttindi. Í huga Velferðarráðherra og hans skoðanabræðra eru tvær þjóðir í þessu landi.

Það þykir sjálfgefið að tiltekinn hópur fái að njóta gengisfalls krónunnar. Fyrirtæki í sjávarútvegi og áliðnaði raka saman arði og þau velja í skjóli þessa fyrirkomulags hvernig þau verja þessum arði.

Það blasir við að lækkandi kaupmáttur, verðbólga, gengisfall krónunnar, háir vextir, hátt verðlag, hækkanir á gjaldskrám og benzíni lenda jafnt á öllum landsmönnum.

Samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja hefur batnað umfram önnur, vegna krónunnar, en það hefur einnig leitt til allt að 25% kaupmáttarhruni íslenskra heimila. Með þessu fyrirkomulagi er auðvelt að flytja vandann yfir á launamenn. En síðan situr tiltekinn hópur að kjötkötlunum.

Vitanlega verður að semja um launahækkanir og þær verða að ná til allra, ekki einhverra útvalinna með aðstoð Krónunnar. Útvegsmenn ætla í skjóli þessa ástands nýta sér stöðu sína til þess að taka gjörvallan vinnumarkaðinn í gíslingu þar til þeir ná fram kröfum um að verja sína stöðu. Geðþekk vinnubrögð eða hitt þá heldur.

fimmtudagur, 6. janúar 2011

Jónsmessuorlof



Í framhaldi af pistli mínum um staka frídaga fyrr í vikunni hefur risið upp umræða um þetta mál og þegar rauðir dagar á svörtum lenda inn á öðrum rauðum dögum. Ég hef nokkrum sinnum áður fjallað í pistlum mínum um sambærilegar tillögur eins og hér og t.d. hér

Um þetta hefur verið fjallað í kröfugerðum rafiðnaðarmanna undanfarin tvo áratugi og er þar enn. Þar er lagt til að fimmtudagsfrídagarnir á sumardaginn fyrsta og uppstigningardag verið færðir að helgi í júní sem er næst 17. júní, jafnframt að tekið verði upp frí á aðfangadagsmorgun.

Í allmörgum löndum er fyrir margt löngu búið að flytja alla staka frídaga að helgum. T.d. er fyrsti vinnudagur á nýju ári oft frídagur, vegna þess að hátíðardagar hafa lent á laugardegi eða sunnudegi. Sumir halda því fram að hér séu mun fleiri frídagar en í öðrum löndum, það er alrangt, þeir eru í mörgum tilfellum færri hér á landi.

Það er ekki síður áhugamál fyrirtækja að taka upp þetta fyrirkomulag. Í mörgum iðnfyrirtækjum þarf að taka saman að lokinni vinnuviku, þrífa vélar og keyra þær niður. Stakur vinnudagur á föstudegi er þessum fyrirtækjum ákaflega óhagstæður. Keyra vélar upp til þess að vinna stuttan tíma og byrja svo að keyra þær niður aftur um hádegi. Sama á við um fyrirtæki sem þurfa að senda starfsmenn langt út á örkina til verkefna. Stakir frídagar eru þeim ákaflega óheppilegir og dýrir.

• 1. 17. lendir á fimmtudag.
• 2. 17. lendir á föstudag, tekur bara uppstigningardag út. Starfsmaður á inni
einn dag
• 3. 17. lendir á laugardag
• 4. 17. lendir á sunnudag
• 5. 17. lendir á mánudag og tekur bara uppstigningardag út. Við inneign starfsmanna bætist annar dagur. Hann á inni 2 daga.
• 6. 17. lendir á þriðjudag.
• 7. 17. lendir á miðvikudag. Hér fer annar inneignardagur starfsmanns þar sem hann fær 3 frídaga plús 17. Hringnum er lokað og starfsmaður á inni 1 dag.

Ef tekið væri inn í dæmið frí á aðfangadögum þá dugar inneign starfsmanns upp í tvo aðfangadaga, en fyrirtækin kæmu út með 2 og hálfan dag í mínus. En á móti má benda á hagræðið, auk þess að 17. júní er 2 daga inn á helgardögum, þannig að það jafnast út. SA hefur bent á nýgerða danska kjarasamninga sem fyrirmynd, þar var samið um frí á aðfangadagsmorgun.

Ef uppstigningardagur og sumardagurinn fyrsti væru fluttir að 17. júní, væri hægt mynda góða helgi fyrir fjölskyldur í lok skólaárs. Það fyrirkomuleg gefur umtalsverðar fjárhæðir inn í hagkerfið með aukinni ferðamennsku.

Sama á við um aðfangadag og staka frídaga mörg fyrirtæki gefa frí eða starfsmenn tilkynna einhverskonar fjarveru. Þar sem þetta er ekki síður hagstætt fyrirkomulag fyrir fyrirtækin er ekki óeðlilegt að leggja til að til þess að jafna upp stöðuna að setja inn í þetta dæmi frí á aðfangadögum.

Þetta kerfi gengur upp á 7 árum og er fyrirtækjum og launamönnum til hagsbóta og samfélaginu öllu.

miðvikudagur, 5. janúar 2011

Auðlinda-karaókí Bjarkar


Tilvera íslensku þjóðarinnar byggist á nánu samneyti við náttúruna og náttúruöflin. Lífsgæði okkar byggjast að stærstum hluta á nýtingu auðlinda lands og sjávar. Umgengni Íslendinga um lífríki lands og sjávar hefur falið í sér mikinn lærdóm um sjálfbæra nýtingu auðlinda. Íbúar landsins hafa eytt skógum og með ofbeit staðið að eyðingu gróðurs og jarðvegs. Á undanförnum áratugum hefur verið lagt í mikla vinna við að skipuleggja landgræðsla og skógrækt til þess að stöðva eyðinguna og bæta fyrir það sem tapast hefur.

Stórbrotin náttúra Íslands er auðlind sem stendur undir stærstum hluta ferðaþjónustu á Íslandi, en samfélagið þarf að leggja í mikinn kostnað til þess að verja náttúruna fyrir of miklum ágangi, sem getur aftur á móti skert afrakstur af ferðaþjónustu til lengri tíma litið en á móti tryggt að hún verði eftirsóknarverð.

Einnig má vísa til fiskveiða, ofnýtingu stofna og aðferða til stjórnunar veiða, bæði til lands og sjávar. Þung sókn í nytjastofna sjávar hefur verið vandamál. Íslensk stjórnvöld hafa reynt að tryggja eftir föngum að fiskveiðar séu innan ramma sjálfbærrar nýtingar og þannig tryggt áframhald mögulegra veiða. Þetta hefur verið gert með því að setja kvóta á veiðar með tilvísun í ráðleggingar vísindamanna, sem miða að því að ná góðri nýtingu á stofnum til langs tíma litið.

Náttúruauðlindir eru þjóðareign og þær ber að nýta á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir. Fjöllin, dalirnir og hafið umhverfis landið, náttúruauðlindirnar eru í þjóðareign. Allir eiga rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði og það er skylda hverrar kynslóðar að skila því í sem bestu ástandi til næstu kynslóðar þar sem líffræðilegri fjölbreytni hefur verið viðhaldið.

En á það hefur verið bent með lögfræðilegum rökum að sameign þjóðarinnar jafngildi ekki eignarrétti í lagalegum skilningi. Fiskurinn í sjónum geti verið þjóðareign þar til hann er veiddur. Sama eigi við um vatnsföll, en þjóðin hafi ekki leitt hugann að þessu á meðan vatnsföllin voru nýtt af fyrirtækjum í þjóðareign, en vaknar við vondan draum þegar búið er að selja orkufyrirtækin til einkaaðila. Á nýtingarréttur að vera þjóðareign?

Sala á hlut í einu af stærsta orkufyrirtæki landsins til kanadíska félagsins Magma varðar almenning í landinu, hér er verið að breyta eignarhaldi á nýtingarrétti orkuauðlindar og selja hann til erlends aðila. Leiðir það til þess að það verði breyting á stefnu við ákvörðun á orkuverði til almennings og öryggi í afhendingu orku?

Hingað til hefur allt ferlið verið í höndum fyrirtækja í eigu almennings, orkuverði haldið lágu og ef orkusala hefur skilað arði rennur hann til almennings með einum eða öðrum hætti. Mun þessi ráðstöfun hafa áhrif á nýtingu náttúruauðlindanna? Það er brýnt að almenningur eigi greiðan aðgang að öllum upplýsingum málið, stjórnsýslumeðferð málsins og einstakar ákvarðanatökur þar að lútandi.

Björk býður öllum að syngja á maraþon-karaókí í Norræna húsið sem byrjar á þrettándanum klukkan 15:00 til 24:00 og stendur í þrjá daga. Þar er stefnt að því að syngja orkuauðlindirnar okkar til baka og hvetja alla til þess að taka þátt í undirskriftasöfnun um áskorun til stjórnvalda um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðareignarhald á orkuauðlindunum sem finna má á vefsíðunni orkuaudlindir.is.

Sjálfsgagnrýni

Hún var umfangsmikil umfjöllunina um viðskiptalífið á Íslandi í góðærinu. Gefin voru út viðskiptablöð og í nánast hverjum fréttatíma var sérþáttur um úrvalsvísitöluna og hvað þetta hét nú allt sem var allt í einu í öllum fréttum dagsins. Þar flugu orð sem margir höfðu aldrei heyrt áður. Viðskipti dagsins í Kauphöllinni voru rædd í fermingarveislum. Gefnar voru út „Ísland er best í heimi“ skýrslur og íslendingar fóru mikinn í verslunarhúsum stórborganna.

Hjarðhegðunin og samfélagsleg klikkun góðærisins kom í veg fyrir heilbrigða gagnrýni. Fýlupokar og neikvæðir öfundarmenn voru afgreiddir með háði og spotti. "Við erum best" yfirlýsingar voru það sem gilti, stjórnmálamenn fóru þar fremstir og mærðu það samfélag sem þeim hefði tekist að búa til með sinni stjórn og stefnu, aðrir áttu að fara í endurmentunarnámskeið og læra upp á nýtt um efnahags- og peningastjórnun. "Íslenska efnahagsundrið"/(hrunið) og aðeins ein leið til Upp." Bankarnir buðu upp á lán og yfirdrætti, ekki bara fyrir nauðsynlegu þaki yfir fjölskylduna og venjulegum bílakosti. Gert var góðlátlegt grín af þeim sem ekki keyptu sér draumahúsið og kláruðu allt strax. Pöntuðu sérhannaðar innréttingar og færustu iðnaðarmennina og endurnýjuðu bílakost heimilisins.

Seinni hluta árs 2007 var tuttugu ára gamalt og vel byggt raðhús í grennd við þar sem ég bý var selt byggingarmeistara. Hann hreinsaði allt úr því nema útveggi og setti inn allt það nýjasta og vinsælasta. Ung hjón keyptu húsið og þegar þau höfðu skoðað það vel ákváðu þau að breyta nokkrum atriðum. Fulltrúar bankans sögðu að það væri mikið betra að gera það frá grunni og hafa það þau vildu. Án þess að búið hefði verið einn dag í nýendurbyggðuhúsinu var pantaður gámur, allt hreinsað aftur út og það endurinnréttað, með nýjum gólf- og loftefnum, hreinlætistækjum, innréttingum og raftækjum.

Þau bjuggu þar í hálft ár ákváðu þá í samráði við bankann að kaupa sér einbýlishús. Húsið var selt öðru ungu pari og það var algjörlega ósátt við húsið og enn var pantaður gámur og allt hreinsað út úr húsinu og það endurinnréttað.

Sé litið til umræðunnar undanfarin 2 ár er ljóst að það hefur gengið hægt að fá þá sem fóru offari til þess að líta í eigin barm, en nú virðist vera að fólk sé farið að greina betur stöðuna. Sjá í gegnum moldryk lýðskrumaranna og stjórnmálamannanna sem fóru fyrir umræðunni í aðdraganda Hrunsins.

Í þeirri samfélagsmynd sem við þurfum að þróa þarf aga, en veita einstaklingum sem mest svigrúm til þroska og athafna á grundvelli leikreglna sem eru sanngjarnar og vel úthugsaðar. Við þurfum því yfirvegaða, fræðandi og raunhæfa umræðu. Skýrasti lærdómurinn sem draga má af Hruninu var skortur á yfirvegaðri og opinni umræðu tengdri sjálfsgagnrýni.

Heimtufrekja og þöggun óþægilegra skoðana er skaðleg, við erum of sjálfhverf og eigum erfitt með að líta í eign barm. Sú hneykslunargirni sem hefur einkennt viðbrögð okkar við ábendingum erlendra aðila í aðdraganda Hrunsins segja allt um þetta. Sama má segja um ábendingar um að of margir hafi látið óskhyggju lýðskrumsins ráða för. Þeir sem bent hafa á annað hafa mátt sitja undir heiftúðlegri gagnrýni.

Fjölbreytileiki, ólík lífssýn og gildismat skapa vissulega ólíkar skoðanir en það er einmitt það sem styrkir samfélög ef þær fá að vera hluti af umræðunni. Stærsta vandamál Íslendinga er án nokkurs vafa yfirþyrmandi skortur á aga, auðmýkt og sjálfsgagnrýni. Afsakanir skortir ekki. Betur og betur er að koma í ljós að við vorum sjálfhverfar smásálir, ófærar um að líta í eigin barm.

þriðjudagur, 4. janúar 2011

Saga húsbyggjanda II

Það er mikið rætt um það þessa dagana í pistlum og greinum að nú sé kominn tími til að íslendingar horfist í augu við sjálfa sig og stöðuna og hætti því að sakast í sífellu á við aðra. Það var ástæða pistilsins í gær, benda á göt í þeim forsendum sem sumir hafa gefið sér í umræðunni, sama á við um pistlana um krónuna. Í framhaldi af aths. og bréfum sem ég hef fengið vegna pistils gærdagsins langar mig til þess að rifja upp næsta kafla húsbyggingasögu okkar hjóna.

Nokkru eftir að ég hóf störf innan verkalýðshreyfingarinnar upp úr árinu 1985 hitti ég forsvarsmenn annarra norrænna rafiðnaðarsambanda. Þar var m.a. rætt um kjarasamninga og fram kom að þeir hefðu samið um 2 – 4% launahækkanir. Við höfðum þá nýlega lokið samningum sem innifólu tæplega 40% launahækkanir og ég greindi þeim frá þessu með miklu stolti. Viðbrögð þeirra komu mér í opna skjöldu, í stað viðurkenningar horfðu þeir sogmæddir á mig og spurðu „Hvað segirðu Guðmundur, voruð þið að semja um 40% launahækkun? Ef svo er þá hljótið þið að glíma við mjög alvarleg efnahags vandamál.“

Við íslendingar glímdum þá við nokkurra tuga prósenta verðbólgu og ég var að glíma við að koma mér upp litlu timburhúsi upp í Grafarvogi með aðstoð vina og vinnufélaga, mest í eigin vinnu eða skiptivinnu. Við hjónin höfðum þá klárað það að mestu að utan en allt ófrágengið að innan, búið að setja upp hluta af eldhúsinnréttingu og skrúfa niður klósettið. Þannig fluttum við inn, borðuðum Ora fiskibollur í öll mál, tókum engin frí, áttum tvo 10 ára bíla, sem ég hélt gangandi með viðgerðum fyrir utan húsið á kvöldin eftir langa vinnudaga. Manni tókst einhvernvegin að skrapa saman fyrir afborgunum af síhækkandi lánum og draga fram lífið með margskonar skuldbreytingum. Þar var fyrst árið 2005 að við kláruðum baðherbergið og þvottahúsið.

Frá stofnun Rafiðnaðarsambandsins höfum við samið um 3.600% launahækkanir, á sama tíma hefur danska sambandið samið um 330% launahækkanir, en þeir standa samt betur en við í kaupmætti. Í sjálfu sér segir þessi setning allt sem segja þarf um efnahagstjórnina hér á landi, en svo furðulegt sem það nú er þá voru sömu stjórnmálamenn endurkosnir til valda, og fréttamenn virðast alls ekki skilja svona augljósar og einfaldar staðreyndir.

Mér er oft hugsað til þess tíma sem ég var að koma út á vinnumarkaðinn um 1970 eftir 6 ára nám, fékk vellaunaða vinnu og var þar að auki í 2 öðrum störfum, hafði mikil laun og vann alla daga vikunnar langt fram á kvöld. Á þessum tíma voru almennu lífeyrissjóðirnir stofnaðir. Eftir að hafa greitt 10% af háum launum mínum í rúm 10 ár nam innistæða mín árið 1982 um það bil verði eins lambalæris.

Þá sögðu launamenn hingað og ekki lengra, þessa eignaupptöku valdhafanna á sparifé okkar verður að stöðva og það tókst. En núna er í raun sama staða uppi, þessi gerð stjórnmálamanna flutti margskonar tillögur um að ráðstafa þessu sparifé launamanna til þess m.a. að greiða upp skuldir annarra og ýmissa framkvæmda.

Í Birting Voltaires er kenning Altúngu um að allt sé í allrabesta lagi, vegna þess að það geti bara ekki verið öðruvísi. Þess vegna er vitanlega bjánalegt að vera að barma sér.

Rauðir dagar á svörtum

Vegna frétta í gær um frídaga launamanna sem lenda inn á löghelgum dögum, rauðir dagar sem lenda inn á svörtum dögum eins og það er kallað á kjarasamningamáli, og einkennilegra svara starfsmanns ASÍ í fréttum gærkvöldsins, langar mig til þess að minna á nokkur atriði sem komið hafa reglulega fram í kjarasamningum á undanförnum árum og eru einnig inn í kröfugerðum núna.

Það hefur lengi verið baráttumál á að hinir stöku fimmtudagsfrídagar sem eru á vorin væru fluttir að helgum eins og búið er að gera í allmörgum löndum. T.d. er fyrsti vinnudagur á nýju ári oft frídagur, vegna þess að hátíðardagar hafa lent á laugardegi eða sunnudegi. Einnig má benda á að Drottningin í Englandi á alltaf afmæli á mánudegi, en það er löghelgur frídagur í því landi. Sumir halda því fram að hér séu mun fleiri frídagar en í öðrum löndum, það er alrangt, þeir eru í mörgum tilfellum færri.

Það er ekki síður áhugamál fyrirtækja að taka upp þetta fyrirkomulag. Í mörgum iðnfyrirtækjum þarf að taka saman að lokinni vinnuviku, þrífa vélar og keyra þær niður. Stakur frídagur á föstudegi er mjög hagstæður. Það borgar sig ekki að keyra vélarnar upp til þess að vinna stuttan tíma og byrja svo að keyra. þær niður aftur um hádegi.

Sama á við um fyrirtæki sem þurfa að senda starfsmenn langt út á örkina til verkefna. Stakir frídagar eru þeim ákaflega óheppilegir og dýrir.

Rafiðnaðarmenn hafa verið með þessar kröfur í undanförnum kjarasamningum. Við höfum einnig lagt til að færa mætti þessa daga fram á sumar og taka upp samskonar fyrirkomulag og er í sumum kjarasamninga rafiðnaðarmanna á hinum norðurlandanna, að setja þessa frídaga við þjóðhátíðardag þannig að þá yrði alltaf a.m.k. þriggja daga helgi, en oft 4 daga helgi.

Ef 17. júní væri á fimmtudegi þá væri frí á föstudag líka, ef hann væri á þriðjudegi væri frí á mánudegi og ef hann lenti inn á helgi þá væri frí á mánudag. Ef hann lenti á miðvikudegi þá væri frí fimmtudag og föstudag. Þetta kerfi gengur upp á 7 árum og er bæði fyrirtækjum og launamönnum til hagsbóta.

mánudagur, 3. janúar 2011

Frekjukynslóðin - Húsbyggjandasaga I

Ljóst er að ef koma á málum hér á landi af stað verður að tryggja sparnað. Margir eru þeirrar skoðunar að 100% húnæðislán, burtséð frá því hvort verðmiði viðkomandi húsnæðis hafi verið langt yfir raunvirði, hafi verið eitt af stóru atriðum sem olli þenslunni. Kárahnjúkavirkjun og álverið fyrir austan hafi verið lítill hluti í samanburði við það.

Eins og svo oft þá bera menn í hita umræðunnar oft saman tvo ólíka þætti og reisa síðan mál út frá einhverri niðurstöðu sem í raun er ekki rétt. Oft hefur verið gripið til þess að halda því fram að svo kölluð frekjukynslóð (fólkið sem byggði á árunum 1965 - 1985) hafi nánast fengið íbúðir sínar gefins og á þeim forsendum sé réttlátt að afhenda yngri kynslóðum sínar íbúðir. Ég er líklega af þessari frekjukynslóð. Byggði mína fyrstu íbúð 1971 í blokk efst í Breiðholti, á sama hátt og allir gerðu á þessum tíma og gerðu fram undir 1995. Fengum hana afhenta tilbúna undir tréverk.

Við hjónin máluðum síðan allt og gólfin líka. Fengum gefins gamla hurð hjá einum úr fjölskyldunni sem nýtt var sem útihurð. Með nokkrum spýtum var búið til borð undir eldhúsvask. Fengum gamla eldavél á slikk, en keyptum nýtt klósett og baðkar. Settum tusku í stað baðherbergishurðar. Þannig fluttum við inn og bjuggum þarna í 7 ár. Ekkert orlof var tekið, engar utanlandsferðir, lifðum á Orafiskbollum og leyfðum okkur ekkert. Á þeim tíma keyptum við smá saman það sem upp á vantaði, smíðuðum sjálf innréttingar, eða unnum það í skiptivinnu.

Eina lánið sem við gátum fengum var húsnæðislán, sem dugaði fyrir tæplega helming íbúðarinnar eins og hún var afhent tilbúinn undir tréverk og sameign máluð, en ekki með gólfefnum. Ég vann fyrir hinum helmingnum á kvöldin og um helgar hjá byggingarmeistaranum í heilt ár, eftir að ég hafði lokið fullum vinnudegi hjá mínum aðalvinnuveitanda, auk þess að ég seldi nýlegan Fólksvagn sem ég átti. Með þessum hætti tókst okkur ungum hjónum með tvö lítil börn að fjármagna íbúðina.

Ef við berum þetta saman við það sem tíðkast hefur á undanförnum árum, þá er verð á sambærilegri íbúð í dag um það bil 25 millj. kr. En í dag er allt frágengið. Tilbúið undir tréverk væri verðið í grennd við 15 millj.kr. og þá væri það lán sem við fengum um 7 – 8 millj kr. lán til 15 ára á breytilegum vöxtum. Þetta er ekki hægt að bera saman við greiðslubyrði af 25 millj. kr. láni á 40 árum með verðtryggðu láni.

Sumir halda því beinlýnis fram að við höfum fengið lánin gefins, vitanlega greiddum við af þeim og þau hækkuðu með óðaverðbólgunni sem ríkti, en það má deila um hversu háan hlut af láninu verið endurgreitt,mér sýnist að það hafi verið líklega um 75%. Þannig að það er kannski um fjórðungur af verðmæti íbúðar tilbúinni undir tréverk. Athugið það - ekki fullbúinni.

Annað sem gleymist í þessum samanburði við okkur frekjukynslóðina. Við greiddum í lífeyrissjóði og reyndum að byggja upp annan sparnað. Efnahagsstjórn þessa tíma var svo slöpp að allt sparifé okkar ásamt lífeyrissjóðum nánast gufaði upp, þannig að það sem við hugsanlega fengum niðurfellt af lánum í verðbólgunni samsvaraði því sem við töpuðum í uppgufun eigna okkar í lífeyrissjóðum og bankabókum. Það bitnaði á frekjukynslóðinni í lakari ávinnslu og réttindum. Þannig að fullyrðingar sem fram hafa komið um að frekjukynslóðin hafi eignast sínar íbúðir fyrir ekki neitt, eru úr lausu loft gripnar. Við hjónin töpuðum þannig mun hærri upphæðum af inneignum okkar í sparimerkjum og lífeyrissjóðum en sem nam lækkun á láninu. Þannig að við komum snaröfug út úr því. Þannig við fengum ekki krónu gefna, ekki eina krónu.

Ég er ekki að rifja þetta upp til þess að gera lítið úr vandamálum þeirra sem eru að reyna að koma undir sig fótunum í dag, ég er bara að benda á hvers fjarri öllu lagi er að halda því fram að einhver kynslóð hafi fengið sínar íbúðir gefins og það réttlæti einhverjar inneignir í sparifé eldri kynslóða. Í framhaldi af þessi má svo rifja upp hvernig hlutirnir gengu upp hjá þeim sem stækkuðu við sig á árunum 1985 - 1993. Ég var nefnilega líka einn af þeim.

Alltaf kemur krónan og hvernig stjórnvöld hafa spilað með hana gegn almenning upp í hugann og menn ættu frekar að beina sjónum sínum að krónunni en að bera einhverjar tilbúnar og vafasamar ásakanir á aðrar kynslóðir.