miðvikudagur, 5. janúar 2011

Sjálfsgagnrýni

Hún var umfangsmikil umfjöllunina um viðskiptalífið á Íslandi í góðærinu. Gefin voru út viðskiptablöð og í nánast hverjum fréttatíma var sérþáttur um úrvalsvísitöluna og hvað þetta hét nú allt sem var allt í einu í öllum fréttum dagsins. Þar flugu orð sem margir höfðu aldrei heyrt áður. Viðskipti dagsins í Kauphöllinni voru rædd í fermingarveislum. Gefnar voru út „Ísland er best í heimi“ skýrslur og íslendingar fóru mikinn í verslunarhúsum stórborganna.

Hjarðhegðunin og samfélagsleg klikkun góðærisins kom í veg fyrir heilbrigða gagnrýni. Fýlupokar og neikvæðir öfundarmenn voru afgreiddir með háði og spotti. "Við erum best" yfirlýsingar voru það sem gilti, stjórnmálamenn fóru þar fremstir og mærðu það samfélag sem þeim hefði tekist að búa til með sinni stjórn og stefnu, aðrir áttu að fara í endurmentunarnámskeið og læra upp á nýtt um efnahags- og peningastjórnun. "Íslenska efnahagsundrið"/(hrunið) og aðeins ein leið til Upp." Bankarnir buðu upp á lán og yfirdrætti, ekki bara fyrir nauðsynlegu þaki yfir fjölskylduna og venjulegum bílakosti. Gert var góðlátlegt grín af þeim sem ekki keyptu sér draumahúsið og kláruðu allt strax. Pöntuðu sérhannaðar innréttingar og færustu iðnaðarmennina og endurnýjuðu bílakost heimilisins.

Seinni hluta árs 2007 var tuttugu ára gamalt og vel byggt raðhús í grennd við þar sem ég bý var selt byggingarmeistara. Hann hreinsaði allt úr því nema útveggi og setti inn allt það nýjasta og vinsælasta. Ung hjón keyptu húsið og þegar þau höfðu skoðað það vel ákváðu þau að breyta nokkrum atriðum. Fulltrúar bankans sögðu að það væri mikið betra að gera það frá grunni og hafa það þau vildu. Án þess að búið hefði verið einn dag í nýendurbyggðuhúsinu var pantaður gámur, allt hreinsað aftur út og það endurinnréttað, með nýjum gólf- og loftefnum, hreinlætistækjum, innréttingum og raftækjum.

Þau bjuggu þar í hálft ár ákváðu þá í samráði við bankann að kaupa sér einbýlishús. Húsið var selt öðru ungu pari og það var algjörlega ósátt við húsið og enn var pantaður gámur og allt hreinsað út úr húsinu og það endurinnréttað.

Sé litið til umræðunnar undanfarin 2 ár er ljóst að það hefur gengið hægt að fá þá sem fóru offari til þess að líta í eigin barm, en nú virðist vera að fólk sé farið að greina betur stöðuna. Sjá í gegnum moldryk lýðskrumaranna og stjórnmálamannanna sem fóru fyrir umræðunni í aðdraganda Hrunsins.

Í þeirri samfélagsmynd sem við þurfum að þróa þarf aga, en veita einstaklingum sem mest svigrúm til þroska og athafna á grundvelli leikreglna sem eru sanngjarnar og vel úthugsaðar. Við þurfum því yfirvegaða, fræðandi og raunhæfa umræðu. Skýrasti lærdómurinn sem draga má af Hruninu var skortur á yfirvegaðri og opinni umræðu tengdri sjálfsgagnrýni.

Heimtufrekja og þöggun óþægilegra skoðana er skaðleg, við erum of sjálfhverf og eigum erfitt með að líta í eign barm. Sú hneykslunargirni sem hefur einkennt viðbrögð okkar við ábendingum erlendra aðila í aðdraganda Hrunsins segja allt um þetta. Sama má segja um ábendingar um að of margir hafi látið óskhyggju lýðskrumsins ráða för. Þeir sem bent hafa á annað hafa mátt sitja undir heiftúðlegri gagnrýni.

Fjölbreytileiki, ólík lífssýn og gildismat skapa vissulega ólíkar skoðanir en það er einmitt það sem styrkir samfélög ef þær fá að vera hluti af umræðunni. Stærsta vandamál Íslendinga er án nokkurs vafa yfirþyrmandi skortur á aga, auðmýkt og sjálfsgagnrýni. Afsakanir skortir ekki. Betur og betur er að koma í ljós að við vorum sjálfhverfar smásálir, ófærar um að líta í eigin barm.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Einstaklega markviss og vel skrifaður pistill - eins og venjulega hjá Guðmundi Gunnarssyni.

Nafnlaus sagði...

Þessi punktur sem nefndur er ,,að hreinsa innan úr húsunum" - að þetta var alveg furðuleg tíska.

Ótrúlegasta fólk tók allt í einu uppá því ,,að hreinsa innan úr húsunum". Flestir höfðu ekki hugmynd um hvað þeir voru að fara útí. Héldu þetta væri bara smotterí eins og virtist í einhverjum amersíkum delluþáttum sem voru sýndir á þessu tímabili.

þetta var orðin algjör geggjun. Fólk sumt var farið að ráðast á eitthvað inní húsunum sjálft - jafnvel gömlum húsum - án þes að hafa hugmynd um hvað það var að gera. Með þeim afleiðingum oft að það stórskemmdi húsin.

þetta var eitthvað sálrænt sko. Fólk var ósátt hið innra með sér - og það kom út á þennan hátt. Sennilega.

Ómar Kristjánsson.

Haukur Kristinsson sagði...

Flott grein hjá þér Guðmundur.

Nafnlaus sagði...

ekki þennan barlóm, við skulum kaupa okkur frá þessum vanda, markaðinn upp!

Nafnlaus sagði...

Sammála Guðmundur. Stærsta vandamál Íslendinga er einmitt án nokkurs vafa yfirþyrmandi skortur á aga, auðmýkt og sjálfsgagnrýni. Þá er efnishyggjan einnig eitt stærsta vandamálið og peningagræðgin
Ólafur Ormsson

Nafnlaus sagði...

Mjög góður pistill
Lára

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill
Gauja

Unknown sagði...

Góð og þörf sjálfsrýni og í anda þess sem Njörður P. Njarðvík hvetur til í kveri sínu: Spegill þjóðar, sem ég hvet alla til að lesa. Skirrumst þó ekki við að hreinsa innan sumar þeirra skelja sem eftir standa. Gaman væri að endurheimta traust á Alþingi.

Nafnlaus sagði...

Þetta er eitt af vanda Íslands, öfgar í eyðslu - en sparnaðarvitund vantar.

Sparnaður einstaklinga á Íslandi er með þeim allra minnsta innan OECD, sem er eitt af stóra vanda Íslands, sem verður að laga til að endurreisnin takist vel.

Þjóðarvitund á Íslandi er eyðsla, og skuldsetning hjá of mörgum - sem hefur m.a. þróast af jó - jó - sveflum í hagstjórn og gengi, sem eru margfalt meiri hér á landi er erl.

Þannig var gjaldeyrir á útsölu 2005- 2007 - þar sem krónan var allt of hátt skráð - vegna innstreymis af jöklapeningum - vegna hárra vaxta hér. Þetta ölli því að innflutningur var allt of ódýr - og fólk gat keypt sér varning á útsölu - sem um leið skellti hagkerfinu í skuldafjötra – hvort sem það voru húsgögn, bílar, eða annað – og viðskiptahallin var gríðarlegur – sem gróf undan stoðum hagkerfis, heimila og fyrirtækja – og magnaði um leið líkur á miklu hruni síðar.

Þetta var enn ein öfgasveifla ör-krónunnar – sem sveiflast eins og korktappi – hvort sem er við vaxtabreytingar eða annað – nema hún sé kyrfilega bundin í gjaldeyrishöftum eins og núna – svipað og á Kúbu.

Verði krónan sett á flot á ný, verða sveiflurnar – aftur öfgafullar, með sömu afleiðingum og kefishrun algert.

Óstjórn og öfgasveiflur – gjaldmiðilsins – sem síðan kemur fram í öfgasveflum hagkerfisins – hefur gert Ísland að – einum stórum vogunarsjóð – sem hefur magnað upp hugarfar óstjórnar og eyðslu í einstaklinga – þar sem grafið er undan stöðugleika og sparnaði á öllum sviðum.

Sparnaður margra einstakling og eigið fé - hefur einnig verið brotinn skipulega niður og eyðilagður – þar sem hann var m.a. bundinn í húnæði – en krónusveiflur og verðbólga hafa séð fyrir því að þessi sparnaður er þurrkaðr út og meira til – þar sem lánin hækkuðu svo mikið – þar sem þjóðin bjó við ónýtan gjaldmiðil – og einstaklingar sem áttu sparnað í húsnaði sitja í ævilöngum skuldafjörtum.

Nú er svo komið að talað er um að eina leiðin sé að taka upp leiguíbúðir – eins og á gamla Sovét – eða á Kúbu. Það mun ekk leysa neinn vanda – heldur gera hann enn meiri - þar sem vandinn er krónan – með sinni verðbólgu og sveiflum – en ekki húsnæðiseign einstaklinga.

Það var því ekki bara eyðsla í vörum – 2005-7 – sem fór úrskeiðis – heldur eignin sem aðilar áttu í húsunum – með krónu-hruninu 2008 (eins og oft áður) – sem eiðilagði sparnað tuga þúsunda einstaklinga. Sparnaður og sparnaðarvitund – í þannig umhverfi er nær ómöguleg.

Stöðuglieki, með upptöku evru er forsenda – fyrir því að þroska hér á landi – miklu meiri langtímasparnað – einstaklinga í sama mæli og í öðrum löndum – á sama tíma og fjárfesting í húsnæði er sparnaður sem gufar ekki upp í verðbólgu – vegna ónýts gjaldmiðils.

Tækifæri Íslands til meiri sparnaðar og betri hagsældar og lífsgæða, krefjast stöðugleika í gjaldmiðlamálum – sem ekki er mögulegur nema með upptöku evru. Um leið vera til stórfelld tækifæri og miklar kjarabætur.

Elvar Ástráðsson sagði...

Fín greining. Guðmundur var hinsvegar ekki alltaf í jafn góðu jarðsambandi. Hann barðist tildæmis fyrir því í nokkur ár að leggja niður 1. maí göngu verkalýðsfélaganna en bjóða í staðinn uppá skemmtan í húsdýragarðinum. Ástæðan var slæm þáttaka og að fleiri en verkamenn sæust í göngunni. Þetta var að vísu á hápunkti Davíðsdruslanna og verkalýðsfélög voru verulega óhreint og gamaldags fyrirbæri.

Guðmundur sagði...

Þessi aths. Elvars er klárlega ómerkilegasta bull sem hingað hefur verið sent. Þvílík lágkúra

Ég sendi inn tillögur um að í Reykjavík yrði tekið upp samskonar fyrirkomulag og er í flestum sveitarfélögum. Það er að stéttarfélögin sameinuðust um daginn.

Í stað þess að vera með á leigu marga stóra veitingastaði um víðan bæ og bjóða þar félagsmönnum upp á kaffi og ýmislegt annað að lokinni göngu þá sameinuðust þau um að taka stærsta íþróttahúsið og vera þar með myndarlega dagskrá að lokinni göngu sem gæti allt eins endað í Laugardal eins og niður á Lækjartogi. Þar væri boðið upp á veitingar og kynningu á starfsemi stéttarfélaganna.

Ég benti jafnframt á að nemafélögin hefðu tekið Húsdýragarðinn á leigu 1. maí, það gæti vitanlega gengið áfram og væri jafnvel auðveldara að tengja saman veru fjölskyldunnar á svæðinu.

Þetta fyrirkomulag myndi leiða til þess að stéttarfélögin myndu ná til fleiri. En þeim færi því miður fækkandi sem væru að mæta í kröfugöngurnar með því formi sem þær væru núna.