Vegna frétta í gær um frídaga launamanna sem lenda inn á löghelgum dögum, rauðir dagar sem lenda inn á svörtum dögum eins og það er kallað á kjarasamningamáli, og einkennilegra svara starfsmanns ASÍ í fréttum gærkvöldsins, langar mig til þess að minna á nokkur atriði sem komið hafa reglulega fram í kjarasamningum á undanförnum árum og eru einnig inn í kröfugerðum núna.
Það hefur lengi verið baráttumál á að hinir stöku fimmtudagsfrídagar sem eru á vorin væru fluttir að helgum eins og búið er að gera í allmörgum löndum. T.d. er fyrsti vinnudagur á nýju ári oft frídagur, vegna þess að hátíðardagar hafa lent á laugardegi eða sunnudegi. Einnig má benda á að Drottningin í Englandi á alltaf afmæli á mánudegi, en það er löghelgur frídagur í því landi. Sumir halda því fram að hér séu mun fleiri frídagar en í öðrum löndum, það er alrangt, þeir eru í mörgum tilfellum færri.
Það er ekki síður áhugamál fyrirtækja að taka upp þetta fyrirkomulag. Í mörgum iðnfyrirtækjum þarf að taka saman að lokinni vinnuviku, þrífa vélar og keyra þær niður. Stakur frídagur á föstudegi er mjög hagstæður. Það borgar sig ekki að keyra vélarnar upp til þess að vinna stuttan tíma og byrja svo að keyra. þær niður aftur um hádegi.
Sama á við um fyrirtæki sem þurfa að senda starfsmenn langt út á örkina til verkefna. Stakir frídagar eru þeim ákaflega óheppilegir og dýrir.
Rafiðnaðarmenn hafa verið með þessar kröfur í undanförnum kjarasamningum. Við höfum einnig lagt til að færa mætti þessa daga fram á sumar og taka upp samskonar fyrirkomulag og er í sumum kjarasamninga rafiðnaðarmanna á hinum norðurlandanna, að setja þessa frídaga við þjóðhátíðardag þannig að þá yrði alltaf a.m.k. þriggja daga helgi, en oft 4 daga helgi.
Ef 17. júní væri á fimmtudegi þá væri frí á föstudag líka, ef hann væri á þriðjudegi væri frí á mánudegi og ef hann lenti inn á helgi þá væri frí á mánudag. Ef hann lenti á miðvikudegi þá væri frí fimmtudag og föstudag. Þetta kerfi gengur upp á 7 árum og er bæði fyrirtækjum og launamönnum til hagsbóta.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli