miðvikudagur, 5. janúar 2011

Auðlinda-karaókí Bjarkar


Tilvera íslensku þjóðarinnar byggist á nánu samneyti við náttúruna og náttúruöflin. Lífsgæði okkar byggjast að stærstum hluta á nýtingu auðlinda lands og sjávar. Umgengni Íslendinga um lífríki lands og sjávar hefur falið í sér mikinn lærdóm um sjálfbæra nýtingu auðlinda. Íbúar landsins hafa eytt skógum og með ofbeit staðið að eyðingu gróðurs og jarðvegs. Á undanförnum áratugum hefur verið lagt í mikla vinna við að skipuleggja landgræðsla og skógrækt til þess að stöðva eyðinguna og bæta fyrir það sem tapast hefur.

Stórbrotin náttúra Íslands er auðlind sem stendur undir stærstum hluta ferðaþjónustu á Íslandi, en samfélagið þarf að leggja í mikinn kostnað til þess að verja náttúruna fyrir of miklum ágangi, sem getur aftur á móti skert afrakstur af ferðaþjónustu til lengri tíma litið en á móti tryggt að hún verði eftirsóknarverð.

Einnig má vísa til fiskveiða, ofnýtingu stofna og aðferða til stjórnunar veiða, bæði til lands og sjávar. Þung sókn í nytjastofna sjávar hefur verið vandamál. Íslensk stjórnvöld hafa reynt að tryggja eftir föngum að fiskveiðar séu innan ramma sjálfbærrar nýtingar og þannig tryggt áframhald mögulegra veiða. Þetta hefur verið gert með því að setja kvóta á veiðar með tilvísun í ráðleggingar vísindamanna, sem miða að því að ná góðri nýtingu á stofnum til langs tíma litið.

Náttúruauðlindir eru þjóðareign og þær ber að nýta á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir. Fjöllin, dalirnir og hafið umhverfis landið, náttúruauðlindirnar eru í þjóðareign. Allir eiga rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði og það er skylda hverrar kynslóðar að skila því í sem bestu ástandi til næstu kynslóðar þar sem líffræðilegri fjölbreytni hefur verið viðhaldið.

En á það hefur verið bent með lögfræðilegum rökum að sameign þjóðarinnar jafngildi ekki eignarrétti í lagalegum skilningi. Fiskurinn í sjónum geti verið þjóðareign þar til hann er veiddur. Sama eigi við um vatnsföll, en þjóðin hafi ekki leitt hugann að þessu á meðan vatnsföllin voru nýtt af fyrirtækjum í þjóðareign, en vaknar við vondan draum þegar búið er að selja orkufyrirtækin til einkaaðila. Á nýtingarréttur að vera þjóðareign?

Sala á hlut í einu af stærsta orkufyrirtæki landsins til kanadíska félagsins Magma varðar almenning í landinu, hér er verið að breyta eignarhaldi á nýtingarrétti orkuauðlindar og selja hann til erlends aðila. Leiðir það til þess að það verði breyting á stefnu við ákvörðun á orkuverði til almennings og öryggi í afhendingu orku?

Hingað til hefur allt ferlið verið í höndum fyrirtækja í eigu almennings, orkuverði haldið lágu og ef orkusala hefur skilað arði rennur hann til almennings með einum eða öðrum hætti. Mun þessi ráðstöfun hafa áhrif á nýtingu náttúruauðlindanna? Það er brýnt að almenningur eigi greiðan aðgang að öllum upplýsingum málið, stjórnsýslumeðferð málsins og einstakar ákvarðanatökur þar að lútandi.

Björk býður öllum að syngja á maraþon-karaókí í Norræna húsið sem byrjar á þrettándanum klukkan 15:00 til 24:00 og stendur í þrjá daga. Þar er stefnt að því að syngja orkuauðlindirnar okkar til baka og hvetja alla til þess að taka þátt í undirskriftasöfnun um áskorun til stjórnvalda um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðareignarhald á orkuauðlindunum sem finna má á vefsíðunni orkuaudlindir.is.

3 ummæli:

Jónína Óskarsdóttir sagði...

Björk berst hetjulega fyrir sjálfstæði/sjálfræði Íslands! Ég styð málstaðinn heilshugar.

Jenný Stefanía sagði...

Auk þess að vera ættarsómi, nýtir Björk sér list og hæfileika sína til góðra og gæfulegra málefna.
Frábært framtak með þakklæti.

Nafnlaus sagði...

Björk er frábær - og þar er ég vissulega ekki aðeins að hugsa um tónlistina. Og mikið er hún lík pabba sínum!